Dagbókin okkar

Á þessum síðum skrifum við jafnóðum söguna okkar því hvernig við gerum markvissa tilraun á heilsu okkar samkvæmt leiðbeiningum Dr Campbell McBride - skref fyrir skref...

Tuesday, August 10, 2010

Lífsmark

Ég er ekki hætt!

Bara rosalega upptekin - barnaafmæli nýafstaðið, miklir flutningar yfirstandandi... mataræðið allt í rugli en ég er nú samt alveg innan GAPS-rammans... bara ekki alveg fókuseruð á uppbyggilega meðferð og það allt...

... tók myndir af barnaafmæliskrásum. Pósta á morgun... eða mjög fljótlega. Takk fyrir að nenna enn að kíkja inn á þessa síðu!


Thursday, August 5, 2010

Bloggið gírað niður

Vitiði... eins og ég legg mig fram við þetta blogg og reyni að vera skýr, nákvæm, upplýsandi og svo framvegis, þá held ég að ég verði bara að gera smá pass núna.

Ég hef innan við 4 vikur þar til ég þarf að vera flutt út úr núverandi íbúð og inn í aðra sem ég er ekki búin að finna og meiningin er að hún verði í Noregi, þar á ofan. Ég þarf að pakka, skipta búslóð, ganga frá skilnaði að borði og sæng, flytja, redda plöggum og pappírum, elda eins og vindurinn, ganga frá ótal lausum endum og svo framvegis og svo framvegis. Þess má líka geta að ég er að undirbúa GAPS-barnaafmæli um helgina, með öllu sem því tilheyrir (t.d. endalausar hnetur, möndlur og fræ á ýmsum stigum bleytis og þurrkunar...)

Ég er enn frekar slöpp og sólarhringurinn er einfaldlega of stuttur fyrir þetta allt - held þess vegna að ég verði einfaldlega að leyfa mér að raða þessu bloggi aðeins aftar í forgangsröðina en það hefur verið.

Það gæti þýtt að færslur verða strjálari og bloggreynsla mín segir mér líka að heimsóknum fækkar í samræmi við þannig... sem er alltaf dálítið sorglegt, en þannig er víst lífið stundum ;-)

Í mjög stuttu máli halda tilraunir með nýjungar áfram.

Í ljós hefur komið að hvorki ég né eldri stelpan þolum graflaxinn mjög vel, né heldur safann úr fáeinum nýtíndum kræki- og bláberjum.

Hins vegar kom gulrótarsafinn vel út, sem og bætiefnin öll sömul.

Nýjasta nýtt er... haldið ykkur fast... hrá lifur. Já, ég er ekkert að djóka, sko, ég og Hannibal Lecter erum komin á sama plan. Læt ykkur vita þegar ég get eitthvað sagt til um árangurinn af einhverri vissu.

Bað dagsins er óðum að fyllast, ætla að smella mér í það og svo að SOFA.

Tuesday, August 3, 2010

Nýjungar í hrönnum...

Jæja, nú fer þetta að verða flókið. Þar sem við erum allar að renna inn í sams konar fæðisáherslu (sem til upprifjunar er fjölbreytt fæði en lítið um sætindi og hnetur) finnst mér að ég verði nú að innlima skrif um þá yngstu okkar inn í þessa skráningu alla. Að auki eru nýjungar að bætast við í hrönnum og allt utanumhald semsagt að verða flóknara á sama tíma og ég hef minni og minni tíma, enda að fara að flytja úr landi eftir aðeins 4 vikur.

Sem dæmi má nefna að þetta eru bætiefni sem ég hef verið að byrja á en skortir skipulag til að nota reglubundið og fyrir okkur allar:
  • BioKult (próbíótísk bætiefni)
  • Betaine HCl (meltingarensím)
  • Hampolía (Ómega fitusýrur)
  • Udo's 3-6-9 (Ómega fitusýrur)
  • Blue Ice gerjað lýsi (Ómega fitusýrur, D-vítamín og svo margt fleira!)
  • Súrkálssafi (próbíótísk virkni)
  • Kókosolía (fitusýrur og hreinsandi virkni)
... ég kemst bara hreinlega ekki yfir þetta allt. Byrjaði í dag að krota á blað hvað hver okkar fékk... en komst svo sem ekki yfir margt.

Við fengum allar smá Betaine og BioKult. Þær fúlsa við hylkjum en elska báðar BioKult á tunguna en finnst meltingarensímin hins vegar mesta óæti. Sú eldri svælir þeim þó í sig ef þeim er hellt út í vatn.

Sú yngri elskar kókosolíuna en sú eldri kúgast af henni - dæmið snýst svo við þegar súrkálssafi er annars vegar... og svona er þetta upp og ofan, nenni ekki að fara í allt.

Mér finnst olíurnar ógeð en það kemur mér á óvart hvað fyrirbærið með ólystuga heitinu gerjað lýsi er lítið vont... ekki beint gott, en mun betra þó en t.d. jurtaolíurnar (nema kókosolían, hún er góð en rotar mig).

Ég var minna hress í dag en í gær, en meira hress en suma daga þar á undan.

Hægðir fjölskyldunnar eftir atvikum, fínar hjá litlu, sæmilegar (dálítið blandaðar) hjá þeirri eldri og eh... fjarverandi hjá mér (pent orðað?).

En já, nú er baðið mitt farið að bíða og best að hespa einhverri matarskráningu af.

Matseðillinn

Morgunmatur minn: Rest af foldaldafillé gærkvöldsins, með tilheyrandi grænmeti og graskeri
Morgunmatur barnanna: Graskersbrauð (bakað seint í gærkvöldi) og sú yngri fékk venjulegt lífrænt smjör á brauðið

Hádegismatur minn og þeirrar yngri: Hjallaþurrkaður steinbítur
Hádegismatur eldri dóttur minnar: Lambahakkskássa (frá því fyrir útlandaferð, var í frysti)

Síðdegisverður minn og eldri dóttur minnar: Óreyktar, aukaefnalausar Kjötpólspylsur án skinns (eftir því sem við gátum náð því af, gekk ekki alveg jafn vel og í gær). Meðlæti: linsoðið egg og smá graskersmauk
Síðdegisverður yngri: Linsoðið egg, banani, graskersbrauð með lífrænu smjöri

Kvöldmatur: Ofnbakaður (já, -bakaður, ekki -soðinn!) lax með fersku dilli, soðnar gulrætur, graskersmauk (fyrir mig) og lárperumauk (fyrir þær).

Eftirréttur: Graflax

Kjötsoð: Lambakjötssoð

Böð: Eldri dóttir mín fór í Epsombað í morgun og var eftir það fín í húðinni, en fór svo að klæja þegar á leið og fékk matarsótabað undir kvöldið. Ég er að fara í bað núna og held að ég fái mér sóta... þó að mér líði alltaf best eftir Epsombaðið. En það er víst mikilvægt að skipta og breyta til, rótera dálítið.

Dásemdardagur

Ókey, það er komið fram yfir miðnætti á þessum góða degi - þeim fyrsta í langan tíma þar sem ég hef fundið áþreifanlega fyrir aukinni orku. Tek fram að ég var enginn spútnik, var ekkert á útopnu að springa úr orku og svo framvegis... en fann klárlega minna til svimandi þreytu og slappleika og átti auðveldara með að halda mér að verki.

Get náttúrlega ekki bent á neitt eitt sem orsök, allt helst þetta jú í hendur. Mun samt fylgjast með bæði steinbítnum og Omega olíunni... fannst eins og hvoru tveggja hjálpaði alveg sérstaklega.

Svo er ég svo glöð eftir að hafa í kvöld talað við konu sem er í meistaranámi í náttúruheilsufræðum í Sviss og hún studdi einhvern veginn bara allt sem ég er að gera og bakkaði upp með enn frekari fræðaþekkingu. Svo ljómó... þegar konu finnst hún stundum vera alein í þessum forfallna lækna- og lyfjadýrkunarheimi.

Nýjungar dagsins:
  • Óreyktar, aukaefnalausar pylsur (flysjaði ,,skinnið" af, til öryggis)
  • Fersk gúrka, afhýdd og með smá eplaediki
  • Omega olía (fyrir mig)
  • Súrkálssafi - kannski ekki alveg nýjung... en tel hann samt upp hér með öðru
Gleymdi líka að segja frá því í gær að ég er að taka Betaine HCl með máltíðum. Það hjálpar pottþétt. Dætur mínar fengu líka smá þannig fyrir morgunmatinn í morgun.

Matseðillinn

Morgunmatur: Linsoðin egg, smjörsvissaður laukur og pylsur (ég fékk mér líka smá soðið grænmeti frá því í gær)

Hádegismatur eldra barnsins: Kássa
Hádegismatur minn: Hjallaþurrkaður steinbítur
Hádegismatur yngra barnsins: Banani, hnetubrauð með venjulegu, lífrænu smjöri, smá steinbítur

Kvöldmatur: Pönnusoðið /-steikt hrossakjöt með lárperumauki, ferskri gúrku og soðinni papriku + gulrótum.

Að auki fengu börnin að smakka smá grasker í kvöld (ég var að gera brauð) og sú styttri borðaði smá blæjuber á milli mála og báðar vildu ólmar frá BioKult beint í munninn og fannst það rosa gott. Gaf þeim þó bara hálft hylki hvorri.

Svo brá ég mér frá í kvöld en pabbi og mamma voru að passa og þau sögðu mér að sú eldri hefði kvartað undan magaverkjum þegar hún var komin upp í. Veit ekki meira um það, en staldra að sjálfsögðu aðeins við það, í ljósi nýjunganna. E.t.v. er ég að fara of hratt með hana...? Ansans, mig sem langaði svo í blautan berjamó á morgun... ;-)

Steingleymdi böðum í dag / kvöld. Veit ekkert hvað kom yfir mig. En pottþétt böð á morgun.

Soð dagsins: Lambakjötssoð.

Sunday, August 1, 2010

Breytingar (54 dagar frá upphafi inngangs... sem eiginlega er búinn núna...)

Ég á eitthvað erfitt með að hætta að telja dagana. Það er eitthvað svo kósí við svona dagatalningu.

En allavega, nú eru breytingar hafnar. Næstu skref mataræðisins eru þessi (kæra fjölskylda, vinsamlegast kynna sér vel):

GAPS-fæði með sætuefnum (hunangi, ávöxtum, berjum, gulrótum og öðru sætu), sem og hnetum og e.t.v. fræjum í lágmarki. Þetta mun eiga við okkur allar þrjár.

Markmið: Að halda heilun meltingarvegarins áfram og samtímis sporna kröftuglega gegn candida og félögum hans.

Framkvæmd: Förum frekar rólega af stað, þó að ég hafi reyndar skellt mér all hressilega út í þetta nú um helgina. Mikilvægt að geta fylgst vel með. Bætum fæðutegundum hægt við og fylgjumst vel með einkennum. Einhver stökk verða svo eflaust tekin í tengslum við afmælisveislu næstu helgi, en svo tjúnað aftur niður í rólegheit.

Er einnig að spá í undantekningu varðandi ber, tel vel hugsanlegt að kostir öflugra andoxunarefna geti vegið upp á móti hugsanlegum skaða af því að fóðra meinvirkar örverur.

En fyrir fjölskyldu og aðra þá sem þekkja okkur og eru eitthvað að díla við dætur mínar - ekki innleiða neitt nýtt nema í samráði við mig, takk.

Dætur mínar voru hjá föður sínum um helgina (þ.e.a.s. lau. og sun.) og ég get því ekki talið upp hvern matarbita sem upp í þá eldri hefur farið, en hún prófaði eftirfarandi nýjungar:
  • Smá meira ghee, 1 teskeið enn (í gærkvöldi). Hún elskar það.
  • Linsoðin egg í morgun (eða kannski bara 1? Veit ekki, var ekki hér). Hún hefur semsagt ekki fengið egg frá því a við komum heim. Höfum fókuserað á ghee-ið.
  • Harðfiskbita (hjallaþurrkaðan steinbít
  • BioKult próbíótískt bætiefni, ca 1/4 úr hylki út í vatn með matnum.
Hún var í gær búin að vera með hægðatregðu í yfir 48 klukkustundir og ég kom heim sérstaklega til að gefa henni stólpípu. Það gekk mjög illa, aldrei þessu vant. Hún var stíf, stressuð, hvumpin, ósamvinnuþýð og ergileg. Ég varð ergileg líka. Alger martraðarstólpípa, en hafðist á endanum. Stólpípa má einmitt, eðlis síns vegna, alls ekki verða að vondri upplifun. Vona að þetta sé ekki það sem koma skal!

Barnið fór svo á salernið í kvöld og tókst með smá herkjum að hafa hægðir, sem voru vissulega í mjög föstu formi. Á samt ekki að vera erfitt. Höldum áfram að fylgjast með!

Ég hef hins vegar verið mun róttækari í nýjungunum fyrir sjálfa mig. Ég var búin að vera að leita lausna og ráða, enda orðin bara einfaldlega drullulasin - og skinhoruð. Sennilega hef ég ekki verið að fá nóg af fitu og enn má betur ef duga skal. En hér á eftir veit ég smá innsýn yfir það sem ég hef verið að gera.

Fimmtudagur:
Fyrsta skrefið var tekið á fimmtudagskvöldið. Þá var ég nefnilega með eyrnasýkingu eða -bólgu sem var búin að vera að ágerast. Setti smá BioKult (próbíótísk bætiefni) aftast á tunguna á mér fyrir svefninn, með það að markmiði að láta það vinna í munnkokinu (sem tengist eyrnagöngunum) yfir nóttina.

Bjó líka til hvítlauks-olífuolíu og lét drjúpa með sprautu inn í eyrun.

Föstudagur:
Mér var bent á lifur. Fékk mér því lifur í tvenns konar formi - og gaf dætrum mínum líka.

a) Maríneraði lambalifur í sítrónusafa í smástund og ,,steikti" síðan í smá vatni í sósupotti.
b) Hakkaði lambalifur saman við lamba- og nautahakk og smá grænmeti og hvítlauk + egg
og sauð litlar bollur.

Svo fékk ég mér lárperumauk sem ég hafði ekki verið að fá mér síðan við vorum úti (í 5 daga) og setti út í það nokkra dropa af kaldpressaðri, lífrænni ólífuolíu. Það var ljómandi gott.

Um kvöldið var mér boðið í afmælisveislu. Var svo slöpp að ég þurfti nálastungu til að koma smá orkuflæði í líkamann áður en ég gat lufsast út á meðal fólks.

Í veislunni voru ljómandi girnilegir Mojito-drykkir hafðir um hönd. Ég er alveg sannfærð um að það er hægt að búa til einhvers konar GAPS útgáfu af Mohito... en það er ekki á dagskrá alveg núna. Ég var með sítrónu með mér, en notaði svo bara lime sem þarna var á boðstólum, kreisti safann út í vatn og bætti við klaka. Afmælisbarnið droppaði svo 2 jarðaberjum ofan í glasið mitt og ég var sullandi í þessu allt kvöldið - bætti af og til við vatni, límónum og klaka.

Þetta var... tjah, ágæt tilbreyting (drykkurinn, sko).

Á endanum var ég að mestu búin að borða þessi tvö jarðaber. Þeir litlu bitar og flyksur sem smygluðust upp í mig í einu voru algerlega himnesk á bragðið.

Gisti hjá systur minni, var ekki með BioKult meðferðis, en bjó til nýja ólífu-hvítlauksolíu og dreypti í eyrun.

Laugardagur:
Vaknaði við heiftarlegar meltingartruflanir. Hugsaði strax um jarðaberin, en auðvitað má vera að hinum nýjungunum hafi verið um að kenna.

Hélt þó nýjungagirninni ótrauð áfram. Fékk mér 1 linsoðið egg með lárperumauki um morguninn. Í síðustu skipti sem ég hef fengið mér egg hefur komið ólga í magann mjög skömmu síðar, en það gerðist ekki núna.

Um hádegið rölti ég inn í bæ, fór í Kolaportið og fjárfesti í feitasta hjallaþurrkaða steinbítnum sem ég fann.

Settist svo á bekk á Ingólfstorgi og hóf að gnaska í mig dökkgulan, olíulöðrandi steinbít. Veðrið var gott, ég var léttklædd, bara í kjól - engin peysa eða neitt. Fullt af túristum í bænum. Steinbíturinn syndsamlega góður. Þegar ég var búin að sitja um stund kom miðaldra dönsk kona, túristi, og settist á bekkinn hjá mér. Hún fékk sér jógúrt, kláraði úr dósinni og sneri sér svo að brauði og osti. Fór að máltíð lokinni að merkja eitthvað inn á túristakortin sín og blaða í bæklingum. Þegar ég að endingu stóð upp, dustaði harðfiskmylsnuna af mér og pakkaði fisknum spurði hún:

Ertu íslensk?
Ég:
Hún: Það hlaut að vera. Enginn annar en íslendingur gæti setið þarna svona lengi og hámað í sig ,,þetta þarna" (nikkaði á harðfiskinn).

I rest my case. Viðurkenni samt að ég varð þreytt í kjálkunum af viðureigninni við harðfiskinn.

Fór og keypti mér sódavatn. Það er munaður sem ég held að ég hafi ekkert skrifað um. Ég hef aðeins leyft mér smá sódavatn núna á inngangnum, en ekki mikið. Kannski svona 2 - 3 glös á viku, þessar 7, nærri 8 vikur... svona að meðaltali. Er ekki viss. Held að það sé ekkert það hollasta, en fannst ég mega veita mér smá gleði... ;-)

Upp úr þrjú fór ég á smá hitting á Hressó og fékk mér þá myntute. Myntuteið á Hressó er alveg GAPS, nema eflaust er myntan hvorki lífræn né vel hreinsuð áður en henni er potað í fínt teglas og borin fram með heitu vatni í katli. En samt... mjög gott framtak hjá Hressó. Sá líka á matseðlinum þeirra að þar er boðið upp á ávaxtadrykk, ,,smoothie" sem skv. lýsingu virðist vera 100% GAPS (með fyrirvara um lífræna ræktun, aukaefni, meðhöndlun hráefnis, ónákvæmni á matseðlinum o.s.frv.).

Mataðist með dætrum mínum og föður þeirra og með matnum (sem var kjúklingaleggir) var lárperumauk með hampolíu.

Hafði vit á að taka með mér BioKult og stráði úr hylkinu aftur í munnkok fyrir svefninn. Setti olíu í vinstra eyrað, það hægra alveg orðið gott.

Sunnudagur:

Helsta nýjung dagsins var ,,Butternut" grasker. Keypti það eftir bíó í gær, í Nóatúni í Nóatúni, sem ég held að sé opið allan sólarhringinn. Það tók tímann sinn fyrir öryggisverðina sem voru að afgreiða að finna út hvernig þeir ættu að verðmerkja það. Spurðu mig nokkrum sinnum hvað það héti. Lá við að ég þyrfti að stafa það. Þeir voru tveir í þessu erfiða verki og blöðuðu hvor í sínum verðlistanum dágóða stund, með miklu fjasi og vandræðagangi. En það fannst að lokum, undir merkingunni ,,Butternut grasker"... sem hljómar nú bara frekar skýrt, ekki satt?

Nema hvað, þetta gerði ég við graskerið mitt í morgun:

1. Skar í tvennt, eftir endilöngu
2. Fjarlægði steina
3. Setti inn í ofn, sárið eða skorna hliðin upp
4. Hitaði við 200°c í 1 klst.
5. Tók annan helminginn út og skóf kjötið úr hýðinu ofan í skál.
6. Setti svona 2 tsk af ghee-i út í og maukaði allt saman með gaffli
7. Bar fram með kjúklingalæri og smá ofnsoðnu grænmeti.

Svona leit það út:

Mér fannst þetta girnó þegar smellt var af, en nú verð ég að segja að þessi graskersmauksletta sem er ofan á kjúklingalærinu er ekki alveg nógu pen... gerir þetta pínu svona sjoppulegt.

En jæja, svona var þetta semsagt og bragðaðist undursamlega, með smá Maldon salti.

Síðasta nýjung dagsins var svo gerjað lýsi eða ,,fermented cod liver oil", nánar tiltekið þetta hér (smella á hlekkinn). Fékk mér þetta bara áðan og get því ekkert sagt um árangurinn.

Hvað mína líðan varðar, þá er ég e.t.v. agnarögn hressari og eyrnabólgan á undanhaldi. Hins vegar er meltingin í molum og almennt séð ekki beint hægt að tala um stórstíga framför strax.

Þar sem ég var barnlaus í dag ákvað ég að njóta þess að leggja mig aðeins um miðjan daginn. Ég svaf sko ágætlega í nótt, frá ca 12.00 til rúmlega 8.00 í morgun, ss. rúmlega 8 klukkustundir. Fleygði mér svo kl. 12.00 og ætlaði aðeins að blunda... vaknaði kl. 15.00.

Ég veit ekki með ykkur, en mér finnst ekki eðlilegt að detta út í 3 klukkutíma samfleytt um miðjan dag, eftir fullan nætursvefn. Hefði svo vel getað lagt mig aftur kl. 16.00 - eða bara núna þess vegna.

Soð: Barnið fékk nautabeinasoð (held ég) en ég ekki soðdropa alla helgina. Ekki nógu gott mál. Bæti úr á morgun - þá skánar kannski meltingin líka eitthvað.

Bað: Barnið fór í Bláa Lónið í dag og í Epsomsalt bað í gær. Ég hef engin böð farið í en ætla í eitt gott Epsom fyrir svefninn.

Thursday, July 29, 2010

Pælingadagur (51...)

Sko, það eru miklar pælingar í gangi varðandi næstu skref í mataræðinu. Ég mun breyta, á allra næstu dögum. Ég bara er ekki alveg tilbúin að leggja niður fyrir ykkur hvernig.

Það er líka ljóst að ég er ekki að taka rétt skref varðandi sjálfa mig. Ég er of slöpp, sljó, þokukennd, verkjuð og þreytt til að þetta geti gengið svona, núna. Það er eitthvað að... ég hef nokkrar pælingar, en get ekki alveg sagt til um næstu skref að svo stöddu.

Eitt get ég þó upplýst um; fyrstu hægðir dóttur minnar eftir ghee-teskeiðina voru síðdegis í dag. Þær voru blandaðar, lausar (niðurgangur) og fastar (eins og á að vera) og í kjölfar þeirra komu talsverðir magaverkir hjá henni, sem gengu þó fljótt yfir. Hún er annars búin að vera magaverkjalaus.

Nú, auðvitað kann eitthvað annað og / eða fleira að spila inn í. Á morgun eða hinn verður að prófa ghee á ný og sjá hvort aftur koma viðbrögð og hvort þau verða svipuð eða sambærileg. Um leið velti ég því fyrir mér hvort heil teskeið hafi e.t.v. verið of mikið til að byrja með?

Matseðillinn

Morgunmatur: Ofnsoðin kjúklingalæri og soðnar paprikur

Hádegis- og síðdegismatur: Lambahakkskássa með lauk, papriku, blómkáli og ferskum kóríander

Kvöldmatur: Kjúklingalæri (fyrir hana)... ég var pakksödd enn og uppþembd af kássunni. Hún borðaði ekki mikið í kvöld.

Soð dagsins: Blandað; kjúklingabein og nautabein.

Bað dagsins: Epsom (fyrir mig) og Epsom + matarsódi fyrir börnin

Wednesday, July 28, 2010

Er þetta þá dagur 50... svona eiginlega?

50 dagar á mjög svo ströngu og afmörkuðu fæði, svo ekki sé meira sagt, þó að ekki sé beint hægt að segja að við fylgjum inngangsfæðinu alveg núna.

En jæja, eitt og annað er nú að gerast.

Dóttir mín:

Var í útilegu með föðurfjölskyldunni í fyrrinótt. Nærðist á kjúklingaleggjum einum saman... já og smá soðnu grænmeti. Litla hetjan mín. Hún er búin að standa sig rosalega vel og sætta sig alveg ótrúlega við sitt fábreytilega hlutskipti.

Hún fékk smá ,,verðlaun" í dag þegar ég gaf henni teskeið af gheei. Ég hef ekki gefið þessu barni mjólkurvörur í tilraunaskyni í háa herrans tíð, enda hafa viðbrögðin aldrei látið á sér standa. En það er mælt með að byrja á gheei og ég bjó til einn skammt úr lífrænu smjöri frá Biobúum í dag.

Þorði ekki að smakka sjálf, enda hefur maginn minn verið fjarri því að vera í lagi undanfarna daga og gheeið hefur ekki verið að reynast alveg hlutlaust í síðustu skipti sem ég hef prófað það.

Allavega, ég fylgdist grannt með þróun mála hjá barninu í dag. Hún sýndi engin merki um óróleika í maga eftir að hafa smakkað umrædda mjólkurvöru, né heldur snefil af hor, öndunarerfiðleika, kæfisvefn nú þegar hún er sofnuð, eða annað. Það eina sem ekki er í lagi eru útbrotin, en þau hafa smám saman verið að ágerast undanfarna daga og halda því áfram. Svo bíð ég spennt eftir næstu hægðum og krossa putta þvers og kruss í von um að þær verði fagurlagaðar 3 - 4 á Bristol chartinu...

Ég er ferlega syfjuð, en hér er grófur matseðill:

Morgunmatur minn: Ofnsoðin kjúklingalæri með soðnu blómkáli og soðinni papriku
Morgunmatur barnsins: Ofnsoðnir kjúklingaleggir

Hádegismatur: Lamba- og svínahakkskássa með lauk, papriku og hvítlauk

Kvöldmatur: Lamba- og svínahakkskássa með lauk, papriku og hvítlauk

Kjötsoð dagsins: Kjúllabeinasoð

Bað dagsins (bara fyrir hana): Epsomsalt + matarsóti