Dagbókin okkar

Á þessum síðum skrifum við jafnóðum söguna okkar því hvernig við gerum markvissa tilraun á heilsu okkar samkvæmt leiðbeiningum Dr Campbell McBride - skref fyrir skref...

Tuesday, June 29, 2010

Dagur 22

Jæja. Ég er farin að verða dálítið stressuð vegna fyrirhugaðrar ferðar til útlanda. Við förum á föstudaginn. Ég verð basically ,,on the road" með börnin í 2 daga. Það getur orðið svolítið strembið, miðað við reynsluna frá því í ferðalaginu fyrir norðan. Dálítið mikið mál að vera sífellt að elda og elda og elda og elda og pakka í nestisbox og svo framvegis. Sérstaklega þar sem börnin mín borða mikið þessa dagana (ég líka). Ég hugsa að ég reyni að hafa meira af fljótlegu meðferðis fyrir þá minni, hún getur borðað banana og kex og alls konar þannig. Svo er bara að herða upp hugann og taka einn dag í einu.

Í gær pantaði ég eitt og annað GAPS-tengt af netinu:
  • Biokult - læknirinn mælir með því
  • Þorskalifrarolía - ég myndi segja lýsi, nema lýsi ku hafa verið hitað í framleiðsluferlinu sem dregur víst verulega úr gæðum þess (endilega leiðréttið mig ef þið vitið betur)
  • Charlies soap - lífrænt þvottaefni sem vonandi ertir enga húð (að því gefnu að þvottaefni hafi hugsanlega eitthvað með húðvandamál dóttur minnar að gera
Í dag reyndi ég heiðarlega að panta fyrir sjálfa mig snyrtivörur. Já, hljómar hégómlega og allt það og er það vel hugsanlega. En ég vil gjarnan geta verið fín án þess að vera að kafna og drepast úr mígreni og alls konar í leiðinni. Hins vegar tókst mér ekki að panta neitt af því sem ég var að reyna að panta. Bad karma?

Á laugardag, held ég, fór ég að finna fyrir sviða í vörunum. Fann hann fyrst þegar ég fékk mér lárperuna þarna í síðustu viku. Var að nota varasalva á bágtið. Þessi varasalvi er ein af fáum tilbúnum snyrtivörum sem ég hef verið að nota og þó hann eigi að heita ,,náttúrulegur" þá er hann bara einfaldlega ekki lífrænn. Um helgina fór mér að finnast hann eitthvað spúkí, hann gerir varirnar svo óeðlilega feitar svo lengi. Þannig að ég ákvað að hætta að nota hann. Það hefur verið bara talsvert flókið. Ég hef notað kókosolíu sem gerir ástandið síst betra og svo núna exem kremið frá Margréti Sigurðardóttur grasalækni (þetta sem við fengum í gær) sem slær smá á. Svona sviði er mjög týpísk ofnæmisviðbrögð fyrir mig. Mig svíður í varirnar, klæjar, stundum bólgna ég upp og stundum fæ ég útbrot yfir allt andlitið, niður á háls og út um allt bara. Návígi við myglusveppi hefur stundum komið þessu af stað, en ég held að þetta séu bara almenn ofnæmisviðbrögð líkamans míns. Ég finn talsvert fyrir þessu í dag, finn að ég er tæp. Fyndið, því ég hef ekki fengið þetta frá því að ég byrjaði á GAPS. Það er eitthvað í gangi - allt að gerast...

Mér var verulega illt í maganum í morgun. Tengi það við möndlusmjörið, sem þarf þó ekki að vera rétt. Stuttlan virtist ekki kenna sér meins. Og þó... hún fór í Bláa lónið í dag og klæjaði samt eftir á. Ekki neitt rosalega, en þó þannig að hún bað um burstann (sem hún klórar sér með, til að klóra ekki til blóðs). Kannski er það merki um að möndlusmjörið þolist ekki vel? Prófum aftur á morgun.

Ég prófaði líka ghee einu sinni enn í morgun og varð svo til strax illt. Það getur verið að maginn hafi bara verið almennt illa stemmdur. Þarf ekki að vera neitt alvarlegt.

Jæja. Það er heilmargt sem þarf að gera þessa dagana, ég ætti ekki að hanga og blogga eins og ég hafi ekkert betra að gera. Tíminn líður svo hratt, bara 2 og hálfur dagur eftir í brottför. Mamma mia.

Eitt enn; hitti konu í kvöld sem er að byrja á GAPS, með son sinn. Sonur hennar er búinn að vera á glúten- og kaseinlausu fæði í hálft ár eða svo og er nýbyrjaður á GAPS. Fyndið hvernig fólk hefur samband við mig núna. Ég hefði gefið handlegg fyrir að geta sett mig í samband við einhvern með reynslu þegar ég var að byrja. Gallinn er bara að mér finnst ég enn ekki vita nóg til að geta beint leiðbeint neinum. Ég get bara talað um mína eigin reynslu. Jú og bloggað eins og enginn sé morgundagurinn.

Matseðillinn

Morgunmatur barnsins: Kaldir kjúklingaleggir frá því í gær
Morgunmatur minn: Laxa- og grænmetisrest.

Hádegismatur: Ofnsoðið hrossakjöt með soðnu grænmeti

Síðdegishressing (barnsins): Restin af ofnsoðna hrossakjötinu og soðin paprika

Kvöldmatur: Ofnsoðin svínalund og ofnsoðið grænmeti (gulrætur, gul paprika, brokkólí, blómkál)

Hún fékk svo kókosolíuteskeið í dag.

Öfugt við það sem gerðist í fyrsta sinn sem ég fór á Innganginn finnst mér ég stöðugt vera svöng núna. Í fyrra hafði ég enga lyst, núna bara borða ég og borða og borða. Held að hvor okkar um sig fari hátt í kíló af kjöti hvern dag. Það er náttúrlega doldið mikið... og doldið dýrt...

Kjötsoð dagsins: Kindabeinasoð (ég var úti á þekju um daginn þegar ég sagðist ekki viss hvort soðið væri nauta- eða kindabeina, fnykurinn af kindabeinasoðinu þekkist mílur vegar og það voru sko pottþétt ekki kindabein um daginn, í hvorugt skiptið sem ég var ekki viss).

Bað dagsins: Bláa lónið og Epsomsaltsbað fyrir barnið

VIÐBÓT:
Þegar ég var búin að skrifa færsluna hér að ofan var klukkan að verða hálftólf og ég þurfti að ganga frá örfáum hlutum og ætlaði svo að renna mér ofan í ylvolgt Epsomsaltsbaðið - hið fyrsta fyrir mig í 3 daga. Var búin að hlakka til þess daglangt. En þá bærði eldri dóttir mín á sér, kveinaði að sér væri svo illt í maganum og í stuttu máli er hún búin að kveina í alla nótt. Ég setti hana á endanum í baðið í gær, hún sagði það slá á magaverkinn í smástund, en svo hætti það að virka og hún gubbaði. Vildi þá koma upp úr, kom inn til mín, ,,svaf" í mínu rúmi og gubbaði aftur um klukkustund síðar. Er svo bara búin að kveina og dotta inn á milli - ég hef ekkert getað gert nema bara strjúka magann eða nudda, halda utan um hana og vona hið besta. Gaf henni smá eplaedik út í vatn í gærkvöldi, svo smá engiferseyði eftir gubb nr. 2. Klukkan er orðin hálfsjö, ég setti hana fram á klósett en það kom ekkert. Gaf henni einn skammt af kjötsoði núna rétt í þessu. Hún gubbaði af fyrsta sopanum (gubb nr. 3) en kláraði svo. Núna er hún sofnuð, í smástund allavega, inni í rúmi. Vaknar eflaust eftir nokkrar mínútur til að kveina. Hún virkaði pínu heit áðan, en hún er ekki með neinn hita.

Maginn á mér er líka verulega órólegur, en ég er ekki með svona vítisverki eins og hún. Velti því fyrir mér hvað getur valdið. Velti því einnig fyrir mér hvað í ósköpunum ég á að gera varðandi barnið.

Monday, June 28, 2010

Dagur 21

3 vikur???
Eruði ekki að grínast???
Vá... magnað...
Tíðindi dagsins eru helst þau að Bláa lónið virðist vera að sanna lækningamátt sinn. Skinnið litla fór í lónið í morgun og talar uppveðruð um þann mikla mun sem hún finnur. Ég sé mun, húðin er ljósari, jafnari og minna upphleypt. Hún klóraði sér ekkert fyrr en hún tók af sér úlnliðshlífarnar sem hún notar (ásamt með alls kyns öðrum hlífðarbúnaði) þegar hún spreytir sig á nýju hjólaskónum sínum. Þá klæjaði hana þar. Ég gaf henni nýtt krem á það frá grasalækni sem við höfum ekki prófað áður. Þess má geta að það var frænka hennar sem gaukaði að okkur kreminu, en sú frænka er á SCD sem segja má að segja fyrirrennari GAPS (sumir taka það fram yfir). Kremið virtist slá á kláðann.
Planið er að fara með hana daglega í lónið í nokkra daga. SCD-frænkan og önnur góð sem gift er inn í föðurfjölskylduna gáfu okkur frímiðana sína í lónið. Í vikulokin förum við út og þá verður náttúrlega ekki um það nein blá lón að ræða, mikilvægt að fá sem mest út úr því á meðan við getum.
Ég gaf henni teskeið af kókosolíu í dag, aftur. Það virtist ekki gera neitt slæmt síðast. Leyfi mér þá að reikna með að það eigi að vera í lagi. Í kvöld gaf ég henni líka teskeið af heitu möndlusmjöri. Það er e.k. test svo við getum byrjað að fikra okkur nær möndlusmjörs-lummunum sem eru sennilega það mest spennandi við stig 3, allavega fyrir krakkakríli. Já og mig... ég viðurkenni fúslega að ég er farin að þrá smá uppbrot. Það verður ekki leiðinlegt að geta bætt þessu við ef vel gengur. Ég hef reyndar ekki verið að þola neins konar bökunarvörur eða brauðmeti vel undanfarið. En það lagast kannski... ég prófaði allavega líka með henni, 1 litla teskeið. Himneskt. Þannig að þá erum við eiginlega hér með formlega byrjaðar á stigi 3. Sjáum svo til hvernig æxlast.
Magnað hvað maður lærir að meta mat á allt annan hátt...
Svo er það annað sem mér finnst mjög merkilegt og vil endilega tjá mig um.
Í síðustu viku kláraðist heimagerði og GAPS-væni armkrika ilmbætirinn minn. Ég datt niður á uppskriftina í haust skömmu eftir að ég byrjaði á GAPS og hef ekki notað annan síðan. Árin þar á undan var ég búin að vera með mjög stæka og þráláta svitalykt, svitna frekar mikið og semsagt mjög lyktsterkt. Svitalyktareyðar virkuðu sumir ágætlega í svona 2 - 4 vikur, en svo hættu þeir bara að virka. Undir það síðasta var ég að nota lífrænan frá Aubrey Organics. Það var semsagt hann sem ég fann þarna í síðustu viku þegar minn var búinn og ég þurfti nauðsynlega að fara út á meðal fólks. Þannig að ég smellti honum á mig og hélt að það myndi líða yfir mig vegna efnalyktarinnar. En ég komst af og... hef ekki þurft svitalyktareyði nema einu sinni síðan.
Athugið - þetta er mjög merkilegt. Kona sem þurfti áður oft að skipta um bol um miðjan dag vegna stækrar líkamslyktar getur nú verið dag eftir dag í sömu fötum (að því gefnu að þau óhreinkist ekki á annan hátt). Það gerðist einn daginn í ferðalaginu þegar ég sat lengi í hita í bílnum í kjól úr gerfiefni að það myndaðist svitalykt. Þess utan... alveg frí við allan þef. Ég lét meira að segja vesalings systur mína hnusa af mér og fötunum mínum þar sem ég átti bágt með að trúa eigin nefi...
Ég var ekki búin að átta mig á því hvílíkir fjötrar fylgdu svitavandamálinu, eða að það væri í raun vandamál yfir höfuð, en vá, hvað ég er að uppgötva nýjan heim núna. Hvað getur kona sagt?
Ég hef lesið fjölmargar reynslusögur fólks á GAPS-spjallinu sem hefur einn daginn vaknað upp við það sama - ilmuðu bara eins og blóm, án nokkurs eyðis. Þessar sögur snertu mig ekkert sérstaklega og ég get ekki sagt að þetta atriði hafi verið efst á óskalistanum mínum. En svo, þegar það gerist, þá er ég samt alveg orðlaus. Þetta er svo mikil sönnun á því að það sem er að gerast í kroppnum mínum er rétt. Alveg eins og góða andlega jafnvægið hjá dóttur minni, lauflétta öndunin og fullkomnu hægðirnar (okkar beggja). Þetta er ótrúlega kærkomin hvatning - við erum svo á réttri leið!
Matseðillinn
Morgunmatur: Ofnsoðnar svínalundir og pottsoðið grænmeti
Hádegismatur barnsins: Svínalundarest
Hádegismatur minn: 3 egg og rest af soðnu grænmeti (fór ekki mjög vel í maga)
Síðdegishressing barnsins: Kjúklingaleggir
Kvöldmatur: Ofnsoðinn lax og ofnsoðið grænmeti
Bað dagsins: Bláa Lónið (fyrir hana - ekkert fyrir mig)
Kjötsoð dagsins: Kjúklingabeinasoð

Sunday, June 27, 2010

Dagur 20

Við erum komnar heim en tölvan mín sem var í straujun nær ekki að tengjast netinu. Þannig að nú er ég í lánstölvu, bara til að geta bloggað smá um ferlið allt saman...

Stelpan var ívið skárri í húðinni í dag. Ljómandi góð líðan, öndun og hægðir. Engin kókosolía í dag.

Ég setti smá bláa lóns-leir á hana í kvöld, það virtist hjálpa smá... erfitt að segja samt.

Matseðillinn

Kássurest í morgun, kjúklingaleggir og soðið grænmeti á ferðinni og kjúklingalæri í kvöldmat heima.

Soð dagsins: Kjúllabein

Bað dagsins: Nada... ekkert bað í dag...

Saturday, June 26, 2010

Dagur 19

Það gleður mig að greina frá því að við borðuðum hvorki nautahakkskássu né kjúklingalæri í dag. Ónei, við borðuðum svínahakkskássu og kjúklingafillé... sem gerir sko gæfumuninn.
Fórum aftur í jarðböðin í dag. Aðalmálið með því að vera að þvælast þessa leið á ný var samt að ná í leir í ,,gamla" bláa lóninu þarna við Mývatn. Ég tiplaði út í með gallabuxurnar uppbrettar og skóf og skóf af botninum í 3 dalla. Planið er að prófa að smyrja þessu á barnið og sjá hvort einhver munur verður á.
En semsagt ágætur dagur. Framan af vorum við á Akureyri og ég eyddi ómældum tíma í að elda við þessar leiðinlega frumstæðu aðstæður. Að því sögðu vil ég taka fram að þessi íbúð er mjög kósí og aðstaðan að flestu leyti alveg rosalega góð, eiginlega bara mesti lúxus. Myglusveppirnir setja strik í reikninginn og svo er ég ekki með fjölbreytt tól til eldunar. Annars alveg frábært.
Stelpan hefur það svipað og í gær. Tók heiftugt kláðakast í nótt. Klæjar í dag. Flagnar smá en er samt bólgin. Ég gaf henni eina teskeið af kókosolíu í dag.
Tek það fram að maginn hennar virðist mjög góður, hægðir eru fínar, andleg líðan stöðug, öndun góð... allt í blóma nema húðin.
Matseðillinn
Morgunmatur: Ofnsoðin kjúklingafillé og soðnar paprikur (og 3 egg fyrir mig).
Hádegismatur: Svínahakkskássa
Kvöldmatur: Svínahakkskássa / kjúlli
Tek fram að litla barnið er að borða ýmislegt fleira.
Kjötsoðið gekk ekki vel í dag. Það var mjög misheppnað. Á endanum fengum við okkur bara lítið og ég ætla að henda rest...
Soð dagsins: Misheppnað nautabeinasoð
Bað dagsins: Jarðböðin við Mývatn
Ég sef allt of lítið. Þetta frí er sko langt frá því að vera hvíld.

Friday, June 25, 2010

Dagur 18

Ég ætlaði að fara að lúra þarna í gær, eftir færsluna. Fór inn í svefnherbergi og dáðist að því hvað dætur mínar sváfu vært og voru undurblíðar og sætar svona hlið við hlið í hjónarúminu sem við deilum í ferðalaginu. Ákvað að smella af þeim mynd. Þegar ég var í þann mund að verða búin að stilla upp frá góðu sjónarhorni og ætlaði að fara að smella af bærði sú eldri á sér. Ég sá að hún var með eymdarsvip sem hefði alveg eyðilegt myndina, sem er náttúrlega svekkelsi út af fyrir sig, en áður en ég var búin að átta mig á því stundi hún orðin sem mæður vonast allajafna til að þurfa ekki að heyra: ,,Ég þarf að æla".
Ég fleygði frá mér myndavélinni (fann hana ekki aftur fyrr en í morgun, hún velktist undir okkur um rúmið í nótt), þreif barnið, kippti henni upp úr svefnpokanum og rauk með hana fram á baðherbergi. Náði ekki að klósettinu áður en fyrsta gusan kom og til að gera langt mál stutt þá hef ég aldrei - fyrr eða síðar, lent í meira sprengi-gubbi. Það var úti um allt - veggir, gólf, lausamunir, fötin okkar - allt útatað. Klukkan var orðin eitt þegar ég var búin að þrífa. Fórnaði baðhandklæðinu mínu. Barnið fór svo bara að sofa strax að gubbi loknu og hefur ekki kennt sér frekara meins síðan.
Skelli skuldinni á Inngangsferlið.
Vaknaði kl. 7.30 - litla stýrið vaknaði fyrst.
Í stuttu máli var þessi dagur góður og vondur.
Gott: Veðrið var glimrandi - allt gekk sæmilega eftir áætlun - átti góðar stundir með dætrum, systur og systurdóttur og einnig með 6 frænkum sem hér búa (við erum alls 4 systradætur með 2 dætur hver...)
Vont: Ég var svo þreytt og þokuð og gat með engu móti hugsað skýrt. Gekk illa að matbúa fyrir daginn, klikkaði aðeins á sjálfri mér og endaði því söng og pínu svekkt. Svimaði talsvert.
Matseðillinn
Bara kássa og kjúklingalæri til skiptis - sama og í gær. Nema í kvöld, þá fengum við okkur Ofnsoðið Ungnautainnanlæri með soðnu blómkáli (bara ég) og gulum paprikum (við báðar). Kærkomin tilbreyting.
Ég fékk mér líka 3 egg í morgunmat.
Melting okkar beggja er til sóma.
Kjötsoð dagsins: Nautabeina
Bað dagsins: Jarðböðin við Mývatn
Vil bæta því við að jarðböðin virtust ekki skila neinum árangri fyrir húð dóttur minnar. Ansi dýr að auki (það er Bláa Lónið líka, en við fengum ,,2 fyrir 1").
Ég vil líka bæta því við að þessi íbúð er frekar sveppuð - aðallega baðherbergið. Ég fann áhrifin mjög glögglega þegar ég vaknaði í morgun. Hef verið sem mest utandyra í dag. Sit t.d. úti núna. Vona að þetta sleppi til.

Thursday, June 24, 2010

Dagur 17

BRJÁLÆÐISLEGA SYFJUÐ...

Þetta hlýtur að verða stutt færsla, ef ég á annað borð er fær um að gera stuttar færslur.

Fyrri hluti dagsins fór í undirbúning af miklum móði. Það vildi mér til happs að afa barnanna hugkvæmdist að líta við og hefja skemmtidagskrá sem náði víst hámarki í Toys R Us. Báðar dætur mínar komu heim með ný sumarleikföng.

Við lögðum í hann um tvöleytið. Auk okkar þriggja eru í ferðinni systir mín og tæplega 10 ára dóttir hennar. Þær eiga jeppa.

Fyrra langa stoppið okkar var við Hreðavatn, hvar við áttum ljúfa stund í um einn og hálfan tíma. Nesti og ærsl.

Síðara langa stoppið var undir kvöld í sundlaug sem ég uppgötvaði af tilviljun í fyrrasumar. Í henni er semsagt sjaldan klór. Í dag var okkur sagt að síðast hefði farið í hana klór fyrir 4 dögum. Við létum því vaða og fórum í sund. Fann engin merki um klór á neinn hátt, en var samt á nálum. Hvað ef einhverjar leyfar eru samt eftir og nóg til að hafa slæm áhrif...

Stóra stýrið mitt flagnaði og flagnaði eftir sundið. Hún var farin að klóra sér á ný áður en við fórum í laugina, þannig að sundferðinni er ekki um að kenna þó að áhrif Bláa Lónsins séu farin að dvína. Sem aftur minnir mig á; ég sá greinilegan mun á húðinni hennar í morgun. Hún var betri. Jarðböð við Mývatn á morgun.

Ég gaf henni ekkert nýtt að snæða í dag.

Sjálf fékk ég mér 1 tsk af sauerkrauti.

Matseðill dagsins

Morgunmatur: Ofnsoðin kjúklingalæri og soðið grænmeti

Hádegismatur: Nautahakkskássa (engar kryddjurtir að þessu sinni) - maukuð fyrir börnin og ómaukuð fyrir mig

Síðdegishressing (við Hreðavatn): Köld kjúklingalæri

Kvöldverður (við þjóðveginn): Kássa

Kvöldhressing (á Akureyri): Kjúklingalæri

Svona er þetta semsagt.

Kjötsoð dagsins: Nautabeinasoð

Bað dagsins: Eiginlega ekkert... nema bara þarna sundið náttúrlega... nokkuð laust við allt, held ég (nema íslenskt hveravatn og tilheyrandi steinefni)

Wednesday, June 23, 2010

Dagur 16

Það var svolítið þungt í mér hljóðið í gær. Það var það eiginlega að miklu leyti í dag líka. En ég ætla að byrja á smá extra jákvæðum punkti sem mér finnst mikilvægt að komi fram:
Dóttir mín er orðin alger hetja þegar kemur að innbyrðingu kjötsoðs. Í fyrra þegar við byrjuðum á þessu stússi bauð henni svo við því eftir nokkra daga að það lenti fljótlega mjög aftarlega í forgangsröðinni. Svo um áramótin var ég búin að lesa svo mikið um það hve mikið grundvallaratriði kjöt- eða beinasoð væri fyrir bata að ég ákvað að hún fengi bara agnarpínupons daglega. Innblásin af ströngum mæðrum á spjallinu hellti ég 6 matskeiðum af soðinu ægilega í bolla og píndi barnið til að drekka - á hverjum morgni. Ég tók líka strax þá ákvörðun að hjálpa henni ekki, eins og hún bað þó stíft um. Þetta eru 6 matskeiðar og hún á að geta innbyrt þær hjálparlaust. Þetta hefur kostað grát, einvistir, gnístran tanna, væl, nöldur, suð, kvart, kvein, endalausan eftirrekstur af minni hálfu og eeeeendalausar tafir á þessum dýrmæta morguntíma. Í stuttu máli: Barnið vill ekki soð. Ég hef ekki orðið vör við aukinn vilja eftir því sem tíminn hefur liðið (og hún ætti að vera farin að venjast).
En nú, á 16. degi inngangsins er hún farin að skvetta bolla eftir bolla í sig, án þess að ég þurfi svo mikið sem að segja eitt múkk. Ég rétti henni bara bollann og hún klárar í nokkrum teygum. Eins og draumur! Ég er alveg orðlaus. Það er rétt að taka fram að bollinn sem um ræðir rúmar ekki nema á að giska 10 matskeiðar. Hann var tekinn í notkun sérstaklega fyrir þetta inngangsferli. Við fórum í Keramik fyrir alla og máluðum hvor sinn kjötsoðsbollan sérstaklega til að byggja upp jákvætt andrúmsloft fyrir þetta inngangsferli. Það stoðaði þó lítið fyrstu 10 dagana eða svo, þar sem ég þurfti að rexa og pexa og ýta á eftir alveg jafn mikið og venjulega - og jafnvel brjóta odd af oflæti mínu og hjálpa smá.
En semsagt, litla hetjan bítur á jaxlinn, ég sé hana kúgast smá af og til... en hún lætur sig hafa þetta, ekkert nema harkan 6.
Og að mér: Vinkonur mínar komu í gærkvöldi og við tættum í okkur fataskápinn minn. Ansi margt á leið í endurvinnslu, sumt komið í endurvinnslu, auk þess sem ég hef af höfðingskap mínum tekið að mér að endurvinna nokkrar vel valdar flíkur úr þeirra fataskápum (takk, stelpur ;-) ).
Allavega, þetta var rosa kósí, þar sem ég stríði við helti á sviði smekkleika (allavega þegar kemur að sjálfri mér) finnst mér rosa gaman að fá svona pallborðsumræður um fatasamsetningar. Og ég byrjaði daginn í dag með bros á vör og valdi mér nýjan (fyrir mér), dömulegan kjól til að vera fín í í dag.
En svo var sljóleiki minn bara í sögulegu hámarki og ég gat ekkert gert og gerði vitlaust það litla sem ég reyndi að gera og svo framvegis og svo framvegis. Ekkert gekk einhvern veginn og tíminn bara leið frá mér. Undir hádegið var ég gersamlega niðurbrotin og fannst allt svart.
En jæja, ég tók mig á, hringdi í góða vinkonu, náði mér í smá æðruleysi og kjark og skellti mér með dætur mínar á Brúðubílinn í Breiðholti. Þær eru mjög hrifnar af umræddu farartæki og skemmtu sér hið besta.
Seinni partinn fór ég svo með þá eldri og keypti á hana langþráða hjólaskó. Fannst hetjan alveg eiga skilin verðlaun. Þess má geta að afinn borgaði brúsann. Barnið ljómar af hamingju, þrátt fyrir ströng fyrirmæli móður og verslunarstarfsfólks um notkun hjálms og annars öryggisbúnaðar, allavega framan af.
Svo fór ég með hana í Bláa Lónið. Það fannst henni enn meira æði. Hún er í skýjunum. Hún vildi ekki maka á sig leðju, bar við ótta við sviða. Talar hins vegar af miklum sannfæringarkrafti um hve mikinn mun hún finni á húðinni. Eini munurinn sem ég sé er að hún klórar sér ekki - og það er reyndar allnokkur árangur. Þorði ekki að setja hana í sturtu eftir lónið, vildi ekki skola burt snefil af kísil. Hárið á henni er eins og heysáta...
Fann enga klórlykt en gleymdi að spyrja: Er klór í lóninu???
Matseðillinn
Morgunmatur: Kjúklingalæri og grænmeti (allt ofnsoðið)
Miðdegismatur: Nautahakkskássa
Kvöldmatur: Kjúklingalæri og grænmeti (ofn- og pottsoðið).
Einhæfni...? Ha? Hvað meiniði?
Ég gaf barninu enga olíu í dag. Gaf sjálfri mér líka frí frá gheei, sauerkrautsafa og eggjum. Prófa að hafa einn þannig dag. Engin almennileg rök svosem, nenni allavega ekki að fara út í þau. Geri þetta svona núna. Sé til á morgun, reikna eiginlega með að taka þetta allt inn aftur þá.
Kjötsoð dagsins: Held lambabein...
Bað dagsins: Bláa Lónið (barnið fór líka í Epsombað í morgun)
Á morgun förum við í ferðalag. Þvílík áskorun!!!

Tuesday, June 22, 2010

Dagur 15

Ókey... þetta á að vera heiðarlegt blogg. Ekkert yfirdrifið hetjukjaftæði. Ég ákvað strax í upphafi að vera alveg hreinskilin. Af þeim sökum neyðist ég til að segja: Mig langar bara til að grenja núna.

Ég sit í yfirgefnu tölvuveri opinberrar byggingar og er búin að eyða um einni og hálfri klukkustund í stífa rannsóknarvinnu vegna útbrota dóttur minnar. Hef þegið ráð frá 5 GAPS-reynsluboltum og bíð svars frá hómópata í ofanálag. Ég hef svo sem eitt og annað í höndunum... en tilfinningin er samt svimandi og yfirþyrmandi - ég er svo ógeðslega ein, einangruð og á móti straumnum.

Þetta eru þær pælingar og ráðleggingar sem ég er að gefa hvað mestan gaum:
  • Getur þvottaduftið verið að hafa áhrif? Þvottahnetur fást ekki á landinu núna, en ég panta ef ég næ því áður en tölvutíminn minn rennur út. Fæ þær samt ekki fyrr en ég kem til baka frá Noregi, eftir rúman mánuð. Upp úr hverju eigum við að þvo fötin okkar þangað til?
  • Getur þvottaefnið í uppþvottavélinni verið að hafa áhrif? Það er ekki svo langt síðan ég skipti um - kannski er það of sterkt fyrir hana, þó það sé voða umhverfisvænt og fínt (Ecover).
  • Omega-olíur. Ég gaf henni 2 msk af 3-6-9 (Udo's) í dag. Kannski er ég að auka skammtinn of hratt?
  • Bentonite-leir... veit ekki alveg hvað ég á að halda. Hann fæst ekki hér... veit ekki hvort hann virkar á akkúrat þetta þó að á það hafi verið bent. Hér er hlekkur.
  • Askan úr Eyjafjallajökli. Gróflega passar tímasetning versnunar útbrotanna við aukið öskufok inn á höfuðborgarsvæðið... getur það haft eitthvað að segja???
  • Hvítlaukur / hvítlauksolía. Ku vera gott á útbrot... virkar samt svo brútal eitthvað, mig svíður við tilhugsunina. Prófa það samt, helst eigi síðar en í kvöld. Hvað sem kann að virka.
  • Bláa lónið. Er að spá í að skella mér með hana á morgun. Varla versnar það? Veit einhver hvort það er klór eða einhver viðlíka óþverri í lóninu???

Annars var þetta svona bara frekar litlaus dagur. Ég er tölvulaus. Það er svosem í lagi, en ég er frekar slöpp og verður lítið úr verki, þrátt fyrir að vera sífellt að.

Það var samt ekkert myndefnisgláp í dag og við mæðgur áttum nokkrar ljúfar stundir saman, þrátt fyrir að stuttur væri í mér þráðurinn.

Ég var svo klikkuð að fá mér avocado síðdegis. Fannst ég bara verða að fara yfir á stig 3. En nú logsvíður mig í varirnar, sem er bara svona týpískt viðbragð fyrir mig. Semsagt ekki fleiri lárperur strax.

Matseðill dagsins

Morgunmatur minn: 1 egg

Morgunmatur hennar: 2 kjúklingalæri

Hádegismatur okkar beggja: Ofnsoðin kjúklingalæri og ofnsoðið grænmeti (paprika, kínakál, kúrbítur). Ég fékk mér líka annað egg með.

Síðdegisverður: Nautahakkskássa (nautahakk, blómkál, engifer, hvítlaukur, rauð paprika og basilíka).

Fengum okkur líka engiferte.

Kjötsoð dagsins: Nautabeinasoð

Bað dagsins: Epsomsaltsbað

Í kvöld koma vinkonur mínar í heimsókn. Við ætlum eitthvað að skvísast og hafa gaman. Ég læt mig hlakka til og stefni að því að hætta að hugsa um útbrot rétt á meðan.

Monday, June 21, 2010

Dagur 14

Ég er tölvulaus!

Ég sem ætlaði að hafa þetta daglegt blogg.

Ég er semsagt í lánstölvu núna. Veit ekki hvernig ég leysi þetta á morgun... og hinn... eða svo lengi sem þetta ástand kann að vara. En allavega; ég skaust yfir til foreldra minna og fæ að komast í tölvu hér svo ekki falli dagur úr vefdagbókinni.

Í morgun var ég búin að fá 5 svör við fyrirspurn minni um útbrot dóttur minnar. Þar sem ég hef ekki getað legið yfir tölvunni (sem er í viðgerð), þá hef ég ekki náð að stúdera þessi svör nóg, en þau voru samt ágæt. Tvennt sem stendur upp úr, svona við fyrstu umhugsun:
a) Athuga með þvottaefnið (þvottahneturnar mínar kláruðust nýlega og hafa ekki fengist á landinu undanfarið og því hef ég notað „venjulegt“ - lífrænt).
b) Gefa henni eins mikið af olíum og í hana verður látið.

Þannig að ég þvoði þvott í dag með síðustu löngu uppþornuðu og skrælnuðu þvottahnetunum - og smá tea tree olíu.

Barnið fékk skeið af Omega 3-6-9 og sér henni enginn bregða.

Aðeins um mig: Ég er með smá flensueinkenni. Ég er ekki frá því að þau orsakist bara af flensu, þar eð ýmsir hafa verið að leggjast í flensu í kringum mig. Það væri samt fúlt. Nóg er nú samt.

Og þar sem ég er svona sljó og slöpp og virkilega þokuð í kollinum hef ég líka verið dálítið skapstygg, sérstaklega í samskiptum við dóttur mína. Hún á það alls ekkert skilið. Ég reyni að stilla mig - og biðja hana afsökunar jafnóðum þegar mér verður á.

Svo hef ég fengið smá bólur. Ekki nein útbrot, en kannski svona 4 eða 5, venjulegar bólur bara. En þaðer mikið fyrir mig, ég fæ yfirleitt ekki bólur. Þannig að kannski er einhver úthreinsun í gangi, eða eitthvað.

Velti því einnig fyrir mér hvað sé í gangi með neglurnar á mér. Ég naga yfirleitt ekki, en þó alltaf þegar ég geng í gegnum stresstímabil. En núna er ekkert mikið stress í gangi beint og ég er með 9 neglur upp í kviku. Skrítið. Kannski hefur líkaminn einhverja bilaða þörf fyrir naglakalk... eða eitthvað.

Eitt enn um ástandið á mér: Ég var með mjög illt í maganum framan af degi og svo eftir kássuna í kvöld fékk ég aftur hressilega í magann. Framan af deginum lá ghee-ið undir grun, en nú er ég farin að hallast að því að ég þoli ekki þessar kássur nógu vel. Tók líka eftir þessu í gær, hélt að það væri bara eitthvað tilfallandi. En kannski ef ég mauka þær ekki...?

Matseðill dagsins

Morgunmatur heimasætunnar: 2 kjúklingalæri
Morgunmatur minn: Skál af kássu gærdagsins

Miðdegisverður okkar beggja: Ljómandi ofnsoðnar kálfainnanlærissneiðar (eða eitthvað beljukyns allavega) og hressileg ofnsoðin grænmetisblanda með.

Kvöldmatur: Maukuð nautahakkskássa með brokkóli, papriku, hvítlauk og basilíku.

Kjötsoð dagsins: Nautabeinasoð

Bað dagsins: Epsomsaltssbað

Og ég segi með stolti frá því að þar sem dóttir mín er sprellhress þá var sko ekkert dvd-gláp á mínu heimili í dag - ekki ein mínúta. Bara eldhresst prógramm, daginn langt. Hún teiknaði og litaði fallega mynd og hún fór út að leika sér og svo kom vinkona í heimsókn og þær léku sér af krafti og svo fórum við í smá bíltúr + stúss og svo þegar heim var komið fór hún aftur út að leika, þar til ég kallaði á hana inn í kvöldmat. Hún minntist ekki einu orði á myndefnisáhorf af neinu tagi og ekki datt mér í hug að nefna það. Svona á þetta náttúrlega að vera.

Sunday, June 20, 2010

Dagur 13

Ég vaknaði í morgun að drepast úr „sveppaveiki“. Fyrir ykkur sem ekki vitið það, þá gera myglusveppir í húsnæði fólk veikt. Þegar maður hefur einu sinni orðið alvarlega veik/-ur út af slíku er maður viðkvæmur fyrir. Þetta er eitthvað misjafnt eftir fólki náttúrlega, en í stuttu máli mynda myglusveppir gró og í gróunum eru eiturefni (míkótoxín) sem brjóta niður ónæmiskerfið. Meira um það allt hér.

Eftir að ég byrjaði á GAPS er ég miklu sterkari fyrir en áður og hef þolað návígi við myglusvepp í húsnæði miklu betur. Ég hef gist þar sem ég gisti í nótt nærri aðra hverja helgi frá því í janúar og ekki orðið alvarlega meint af. Ég hef reyndar fundið það á degi 2 að ég hef ekki mjög gott af mjög miklu svona, en einkennin hafa ekki verið alvarleg. Ég veit ekki hvað veldur núna. Ég var meira að segja líka með kattaofnæmiseinkenni (það eru yndislegar kisur þarna), sem ég fæ sama og aldrei... mörg ár síðan síðast. Kannski var þetta af því að ég var þarna í fyrsta sinn í 2 nætur í röð, eða kannski er ég viðkvæmari af því að ég er í þessu blessaða inngangsferli. Allavega, ég sá þann kost vænstan að koma mér út. Hitaði kjötsoð, fór út í göngutúr, fór svo inn og pakkaði öllu og rölti til systur minnar sem á heima rétt hjá.

Ég var eins og slytti þegar ég kom til hennar. Og þess má geta að það eru líka myglusveppir heima hjá henni. En við fórum saman í góðan göngutúr (vörðumst árásum kría með regnhlíf) og fátt bætir sveppaveiki jafn mikið og hressilegur göngutúr í fersku lofti. Þannig að mér leið til muna betur.

Svo fór ég aðeins að stússast - sem er ekki góð hugmynd á sunnudegi því allt er víst lokað. Ég verð alltaf jafn hissa... ;-)

En ég var hjá systur minni þar til nokkuð var liðið á seinni partinn og var svona semi-hress, miðað við allt og allt. Sofnaði aðeins á sófanum hennar, en samt... sveppaeinkennin í mikilli rénun.

Þannig að ég fór ekkert að daðra við stig 3 í dag. Það hefði verið út í hött. Kannski á morgun, þar sem ég er komin heim í mitt eigið tiltölulega myglufría umhverfi (slatti af ryki samt).

Eitt enn samt; ég gerði netta eiturefnaárás á sjálfa mig í nafni hégómans í kvöld. Ég litaði augnahár og -brúnir með svona „do it yourself“-lit. Heppnaðist ekkert stórkostlega, en dugar þar til ég splæsi í alvöru lit. Allavega, þessi augnaháralitunarefni eru brjálað eitur. Mig svíður alltaf í augun allan daginn ef ég geri þetta fyrri part dags. Vona að þetta setji ekki allt úr skorðum eins og myglan.

Um barnið: Hún hafði hægðir á ný í dag. Ég var ekki viðstödd, en mér er sagt að þær hafi ekki verið fagurlega formaðar, meira í ætt við niðurgang. Sem er mjög dæmigert fyrir hana, en hún er þó allavega með einhverja virkni. Hún krafðist þess að faðir hennar tæki myndir - til að sýna mér... en hann var semsagt ekki til í það...

Útbrotin hennar eru frekar slæm, finnst mér, miðað við allt og allt. Ég er að „prufa“ á henni nýtt krem, þ.e.a.s. krem sem ég hef ekki áður borið á hana. Sé engan mun enn, en bíð spennt. Nú hefur hún fengið kássu yfir helgina (= stig 2), en mér finnst hún ekki nógu góð í húðinni. Skil varla að þessi kássa sé það krassandi að hún sé eitthvað að hafa áhrif. Og ekki getur barnið lifað á kjúklingaleggjum í allt sumar. Setti inn mjög örvæntingarfullt neyðarkall á spjallið - einhver hjálpi mér með þetta útbrotamál!!!

Matseðill dagsins fyrir mig:

3 linsoðin egg í morgunmat
2 tsk sauerkrautsafi
1 tsk ghee
Kássa (lambahakk, paprika, hvítlaukur, blómkál, gulrætur, kóríander, pipar, Himalaya salt)
Kjúklingalæri í kvöldmat með soðnu grænmeti

Kjötsoð dagsins: Ómerktur beinapoki, held að það hafi verið lambabein

Bað dagsins: Matarsótabað

Lexía dagsins: Það má ekki hita steinselju (t.d. nota í kássu)! Hún mun við það leysa frá sér eiturefni. Eða þetta sagði systir mín mér, ég á eftir að gúggla þessa visku, bara ekki núna, verð að fara í heita matarsótabaðið mitt og svo að lúra. Góða nótt.

Dagur 12

Við mæðgur vorum ekki saman í dag, þó að ég hafi reyndar aðeins hitt hana. 2 stigs matseld fyrir hana var því í höndum föður hennar (ég gerði reyndar kássuna í gær).

Maturinn minn í dag

2 teskeiðar af súrkálssafa (= helmingsaukning)
3 linsoðin egg (= aukning um eitt)
Kássa (svínakjöt, blómkál, brokkkál)

Kjötsoð dagsins: Kjúklingabeinasoð

Bað dagsins: Ekkert fyrir mig... en uppáskrifað Epsom fyrir barnið

Fátt um þennan dag að segja. Nema jú, GAPS-bloggari í USA linkaði á bloggið mitt á sínu. Jei! Hennar blogg er linkað hér til hægri (Food experiment).

Ég er að díla við smá myglusveppaviðkvæmni, í húsnæðinu sem ég er í yfir helgina. Finn að ég er viðkvæmari fyrir því áreiti núna en ég hef verið undanfarið. Verð að fara varlega.

Ákvað að reyna við stig 3 á morgun, þ.e.a.s. ef allt gengur að óskum ætla ég að prófa eitthvað af því sem í boði er á því stigi áður en morgundagurinn er allur. Samt smá spurning með það út af myglusveppaástandinu. Sé til, met stöðuna á morgun. Ég þrái eitthvað ferskt... það er í boði avókadó á stigi 3.

Get ekki beðið eftir stigi 4, þá kemur gulrótarsafinn inn... Mmhh... bara verst að það er erfitt að fá almennilegar lífrænar og óklórþvegnar gulrætur núna :-(

Friday, June 18, 2010

Dagur 11

Um þrjúleytið í dag barst mér langþráð heróp innan af baðherbergi: ,,MAMMA, ÉG KÚKAÐI!!!"

11 dagar, 4 stólpípur og svo loksins... tókst henni þetta sjálfri ;-)

Ljómandi hægðir meira að segja. Algerlega klippt og skorið nr. 4 samkvæmt Bristol stool chart.

Vel hugsanlegt að aðrar mæður séu að spá í einhverju öðru... en þetta er mjög, mjög mikilvægt fyrir okkur.

Annars hefur barnið verið svolítið upp og niður á stigi 1 og 2. Var eiginlega á stigi 2 í gær, en hafði svo sjálf áhyggjur af því að sig klæjaði og kenndi kássunni um. Ég var svosem efins, en leyfði henni að ráða, enda ekki svo nöjið. Hún var því á stigi 1 í dag en það glaðnaði heldur yfir henni við hægðirnar og hún fór að tala um stig 2 með mun meiri bjartsýni. Hún fær að fikra sig þangað á morgun, en það er reyndar ekkert nema kássur af því stigi sem er aktúelt að reyna.

Ástandið á henni er annars skrítið. Hún var ekki sofnuð þegar ég skrifaði í gær. Þá hafði ég ekki heyrt múkk frá því um 11 en hún lá bara kyrr og beið þess sem verða vildi (sem var semsagt ekki svefn). Þannig að þegar ég uppgötvaði þetta, upp úr miðnætti, dreif ég hana fram, lét hana pissa, drekka smá vatn og horfa á vídeó á meðan ég fór í bað. Aðeins að brjóta upp bylturnar í rúminu. Svo fór hún aftur inn í rúm um kortér í eitt. Ég fór sjálf að sofa, en hún segist hafa sofnað fljótt eftir þetta.

Nú er ég ekki heima, en síðast þegar ég vissi, um kl. 11, var hún enn vakandi. Samt svaf hún bara til rúmlega 9.00 í morgun og sagðist ekkert svo þreytt í dag. En svo var ég að fatta að hún hefur lítið leikið sér úti við undanfarið, þó að orkan sé að mestu komin til baka. Þannig að það gæti spilað inn í.

Loks eru útbrotin aðeins á bataleið, allavega frekar en hitt. Þau eru enn rauð og hana klæjar, en þetta flagnar mikið núna, sem er góðs viti og hefur hingað til þýtt að það sé að jafna sig. Ég verð samt að viðurkenna að mér stendur ekki á sama varðandi þessi útbrot. Þau eru eiginlega svona snúnasti aðkallandi heilsuvandinn núna, því þau valda henni miklum, óvéfengjanlegum óþægindum og það er ekki til nein GAPS-væn skyndilausn.

Þannig að... hægðir komnar í gang, svefnvenjur úr skorðum en útbrot horfa sennilega til betri vegar. Það er status barnsins.

Hvað mig varðar... æji, svaf ekki nóg og var á fullu í allan dag. Allt gekk vel, en ég var svolítið stressuð og gleymdi að borða stóran hluta dagsins, sem er alls ekki gott. Ég passaði ekki nógu vel upp á mig í dag, fylgdist ekki með eigin líðan. Og nú er ég aftur svöng en nenni ekki að malla neitt. Klukkan er orðin margt.

Ég fékk mér samt 1 tsk af gheei og er nokkuð viss um að engin einkenni hafa komið fram í tengslum við það.

Pínulitla stýrið fékk ekki ghee í gær, en hins vegar í dag, í 3ja sinn. Henni virðist (7, 9, 13) heldur ekki verða meint af.

Matseðill dagsins...

Morgunmatur minn: 2 egg
Morgunmatur barnsins: Kjúklingalæri + 3 kjúklingaleggir

Matur, nasl og snarl yfir daginn: Kjúlli, soðið grænmeti, lambahakkskássa (bara fyrir mig reyndar)

Kvöldverður: Ofnsoðnir blálönguhnakkar með sjávarsalti, nýmöluðum pipar og fersku dilli, bornir fram með soðnu brokkólí og soðinni gulri papriku.

Kjötsoð dagsins: Kjúklingabeinasoð

Bað dagsins: Epsom

Thursday, June 17, 2010

Dagur 10

Matseðill dagsins

Morgunmatur minn: 2 linsoðin egg og smá soðin paprika frá því í gær
Morgunmatur eldri dóttur minnar: 1 kjúklingaleggur

Hádegismatur: Lambahakkskássa með blómkáli, papriku, brúsk af steinselju, brúsk af kóríander og basilíkubrúsk + 2 hvítlauksrifjum (fyrir hádegismatinn borðaði stelpan reyndar 5 kjúllaleggi).

Síðdegisbiti barnsins: 2 kaldir kjúklingaleggir
Síðdegisbiti og kvöldmatur minn: Lambahakkskássan
Kvöldmatur barnsins: 4 volgir kjúklingaleggir

Kjötsoð dagsins: Nautabeinasoð + kjúklingasoð

Bað dagsins: Epsomsaltsbað

Klukkan er orðin allt of margt. Hef þetta bara mjög stutt núna. Helstu pælingar dagsins snerust um hugsanlega mengun eða eituráhrif í gegnum húð. Þetta kann að hljóma eins og argasta djók fyrir þá sem ekki eru svona viðkvæmir eins og við en tvennt fengum við á húðina í dag sem við erum ekki vanar og tvenns konar viðbrögð komu fram sem ég velti fyrir mér hvort tengist því sem á okkur var borið.

Barnið: Fékk andlitsmálun á þjóðhátíðarhöldunum. Ég ræddi við hana áður og bað stelpuna sem málaði að gera bara lítið, til öryggis, þar sem húðin er enn ekki orðin góð. Hún fékk því 2 lítil hjörtu á ennið og 2 litla, bláa tígla á kinnar (einn á hvora). Það var allt og sumt og hún var alveg sátt. Fljótlega fór hana hins vegar að klæja í það sem hafði verið málað. Ég hélt kannski að hún væri bara að ímynda sér, vegna þess hve mikil athygli beinist að húðinni og öðru sem tengist heilsunni þessa dagana. Hún hélt samt áfram og á endanum þreif faðir hennar hana með ólífuolíu (ég var ekki hjá henni þá).

Ég: Nota ekki mikinn farða eða snyrtivörur yfir höfuð. Leit þó í spegil áður en ég fór út í dag og sá ekki fagra sjón. Mjög föl og slappleg kona með dökka bauga. Greip í flýti þau fegrunarmeðöl sem hendi voru næst. Í stuttu máli var svokallað steinefnapúður í aðalhlutverki. Forsaga þess er að ég prófaði í vetur þannig hjá vinkonu og var mjög impóneruð. Leið mun betur í húðinni undan því en venjan er. Hins vegar er sú tiltekna tegund sem hún var með ekki til hér á landi og mér var bent á að sambærilegt púður fengist hér, í öðru merki. Keypti það. Það er hins vegar engan veginn eins. Ég skráði niður efnisinnihaldið en hef aldrei komist í að kanna það, enda þarf þess svosem ekki endilega. Nóg að vita að mikið er af ónáttúrulegum og algerlega ólífrænum efnum. Nema hvað, þetta notaði ég fjálglega þarna í dag, enda á ég ekki margt annað af þessum toga. Einnig smá augnblýant og lífrænan maskara (sem er reyndar drasl). Þegar líða tók á daginn fékk ég magaverki og varð óþægilega óglatt. Frekar ólíkt líðan undanfarinna daga og ekkert nýtt í mataræðinu, nema kannski kóríanderinn...?!

Allavega, ég velti því fyrir mér hvort þetta tengdist púðrinu. Kæmi mér ekki á óvart. Tilfinningin í húðinni er líka mjög óþægileg og þó er ég búin að þrífa eftir getu.

Vegna þessa sleppti ég gheeinu í dag. Það hefði verið erfitt að meta hvort það hefði áhrif.

Lagði hins vegar möndlur í bleyti, í þeirri von að geta gert möndlusmjör (prepp fyrir stig 3).

Já og skottið mitt hefur sofnað mjög seint í dag og í gær, eða um ellefuleytið. Samt vaknar hún eins og klukka á morgnanna og er orðin sæmilega orkumikil að deginum. Hana klæjaði mikið í kvöld, ekki bara í andlitsmálingarsvæðin.

Wednesday, June 16, 2010

Dagur 9

Matseðill dagsins

Morgunverður minn: Kjötsoð með hrárri eggjarauðu og restin af nautahakkskássu gærdagsins
Morgunverður eldra barns: Köld kjúklingalæri og soðin rauð paprika
Morgunverður yngra barns: Nýbakað hnetubrauð með hunangi og banana

Hádegisverður móður og eldra barns: Heit kjúklingalæri og grænmeti (mamman fékk líka linsoðið egg)

Síðdegishressing: Kjúklingalæri við stofuhita...

Kvölmatur: Ofnsoðin rauðspretta með sjávarsalti, nýmöluðum svörtum pipar og ferskri basilíku (þ.e.a.s. hún var fersk áður en hún fór í ofninn...) fyrir alla nema eldri dótturina - hún fékk ekki basilíkuna. Soðnar paprikur og kúrbítur með.

Kjötsoð dagsins: Nautabeinasoð með slatta af kjúklingalærahlaupi

Bað dagsins: Hið sívinsæla Epsomsaltbað

Dóttir mín er óðum að braggast og mér virðist sem útbrotin séu líka aðeins að skána á ný. Ég hef haft svolitlar áhyggjur af einhæfninni - kjúklingalæri og kjúklingaleggir til skiptis... sem er þó skref fram á við frá því að það var bara skinn...

En ég er fegin að ég kom í hana fiski í kvöld. Rauðspretta er hennar uppáhald og ég bara skil ekki af hverju. Mér finnst hún með minna spennandi fiskmeti sem hægt er að hugsa sér. Þó er hægt að poppa hana upp, t.d. með hneturaspi og Neptúnusarkryddi - hvorugt er leyfilegt á stigi 1 / 2.

Og varðandi það: Sú stutta var alfarið á stigi 1 í dag og ég sleppti líka alveg sauerkrautsafanum. Ætla að reyna að sjá hvort útbrotin skána ekki á næstu dögum. Prófa svo safann og ef ekkert versnar þá reikna ég með að eggin séu sökudólgurinn. Það má þá prófa þau aftur eftir 2 - 3 vikur. Ferlegt vesen - en vona samt innilega að það séu eggin, þá vitum við hvað það er!

En ég reikna með að formlega verði hún á stigi 2 á morgun, þó að breytingarnar verði sennilega ekki aðrar en kássa.

Minnsta konan á heimilinu fékk aftur ghee í dag og er alsæl. Veit varla meira sport. Verð ekki vör við einkenni hjá henni enn. Sjálf prófa ég líka aftur á morgun - það liggur við að ég sé jafn spennt og barnið.

Tuesday, June 15, 2010

Dagur 8

Á ég að trúa þessu? Dagur 8! Magnað hvað við erum duglegar!

Og á meðan ég man - takk fyrir athugasemdirnar. Upphaflega hugsaði ég með mér að alveg eins og ég skráði allt sem fram fór þegar við reyndum Innganginn í fyrrasumar í stílabók gæti ég skráð allt á netið og e.t.v. gætu aðrir GAPSarar haft gagn af því. En svo sé ég að allavega þeir sem voga sér að skrifa athugasemdir eru ekki endilega GAPSarar... sem er vissulega allt í góðu lagi. Þetta hlýtur samt að virka rosa klikkað í augum þeirra sem ekki þekkja hugmyndafræðina. Mæli með því að þið kíkið á tenglana sem ég setti inn hér til hægri og reynið að finna smá grundvallarupplýsingar til að varpa ljósi á allt þetta tilstand okkar.

Annars má vera að ég muni minnast þessa dags sem dagsins þegar mjólkurvara fór inn fyrir mínar varir án þess að valda neins konar ofnæmiseinkennum. Að því sögðu er talað um 4 daga... þannig að ég gæti fengið ný og hress ofnæmiseinkenni næstu 3 daga. Ég veit náttúrlega ekkert hvert ferlið er venjulega, en ég er vön að fá einkennin bara strax, þannig að hver veit...

Umrædd mjólkurvara er ghee - skírt smjör eða hrein mjólkurfita einfaldlega. Ef allt fer vel mun ég geta notað ghee í eitt og annað sem ég elda. Þó mun verða nokkur bið eða u.þ.b. hálft ár í að ég geti bætt við fleiri mjólkurvörum.

Ég tók bara eina teskeið af ghee-inu í dag (eins og ráðlagt er) og sé svo til ekki á morgun heldur hinn hvort ég treysti mér í aðra.

Yngri dóttir mín, sem ekki er á inngangsfæðinu (fullu GAPS-fæði), fékk líka að smakka ghee í dag og hefur enn ekki sýnt nein einkenni. Það eru bara nokkrir mánuðir síðan hún fékk síðast að prófa og fékk samstundis allsvaðalegt nefrennsli. Hennar helstu einkenni eru þau sömu og mín, mikið nefrennsli og magakveisa. Stóra systir bætir um betur með hressilegum útbrotum í ofanálag. En sú stóra fékk ekki neitt svona í dag, var í raun bara aftur á stigi 1, án eggja og kássu (saknaði ekki kássunnar...) og með lágmarksskammt af súrkálssafa.

Hún var sæmilega hress en frekar ergileg. Eyddi miklum hluta dagsins með nefið á kafi í bókinni sem hún var að leita að í gær (hún fannst í morgun). Mér skilst að börn á þessum aldri hafi almennt mest gaman af sögubókum. Dóttir mín er hins vegar ekki síður áhugasöm um hand- og fræðibækur ýmiss konar. Bókin sem hún gleypti í sig í dag er ,,handbók unga hundaeigandans“ (við eigum ekki hund) - skrifuð af hundasálfræðingi.

Ég var agnarpínulítið hressari en í gær (held ég). Samt enn frekar grunnt á pirringnum. Sem er slæmt því verkefni dagsins voru mjög pirringsvaldandi. Ég þurfti að þeytast á milli stofnanna og ná í pappíra. Sem er alltaf jafn svakalega gefandi og skemmtilegt. Dóttir mín var með mér í bílnum svo til daglangt, með bókina góðu. Af og til deildi hún með mér staðreyndum um sálarlíf hunda sem henni fannst forvitnilegar.

Síðdegis var pabbi barnanna við stjórnvölinn á meðan ég vann í verkefninu laaanga.

Matseðill dagsins var ruglingslegur og samanstóð aðallega af afgöngum frá því í gær, svínalundum, kjúklingaleggjum og grænmeti og svo keyptum við og hituðum ný kjúllalæri og þegar ég var ein seinni partinn gerði ég fyrir mig nautahakkskássu - í grófum dráttum svipaða og í gær (stelpan át kjúklingalæri á meðan).

Kjötsoð dagsins: Nautabeinasoð

Bað dagsins: Epsomsaltbað

Monday, June 14, 2010

Dagur 7

Ég myndi þurfa að gera margar færslur á dag ef ég ætti að muna bara það helsta sem flýgur í gegnum hausinn á svona degi.

Litla skottið mitt (það yngra) smellti kossi á kinn mér og hljóp af stað að leika sér svo til um leið og ég kom með hana á leikskólann. Það er ekki dæmigerð morgunhegðun. Ég dró þá ályktun að helgin hefði ekki verið sérstaklega skemmtileg hjá henni...

En í dag var merkisdagur hjá okkur Inngangsmæðgum. Í dag fórum við yfir á stig 2. Fyrir þá sem ekki eiga biblíuna The GAPS Guide þá er þetta það sem má láta ofan í sig á stigi 1:
  • Soðið kjöt
  • Soðinn fiskur
  • Soðið grænmeti
  • Engiferte
  • Kjötsoð
  • Súpur (úr einhverju af ofantöldu)
  • Já og svo smá probiotics (t.d. súrkál eða duft)
Hafandi lifað á þessu í 6 daga kættumst við að vonum við að mega bæta við:
  • Hráum eggjarauðum
  • Linsoðnum eggjum
  • Kássum
  • Gerjaðri síld, sardínum eða öðrum fiski
  • Meira súrkáli (ss. stærri skammtur en á stigi 1)
  • Ghee-i (fallbeygist það, annars?)
En ekki er allt sem sýnist, það má ekki bæta þessu öllu við í einu. Ef við gerum það og fáum einkenni vitum við ekki hvað af því það er sem veldur einkennunum. Þannig að við völdum tvennt til að byrja með: Hráar eggjarauður og kássu auk þess sem ég gaf stelpunni aðeins meira súrkál líka, af því að hún elskar það.

Við vöknuðum frekar seint og eftir leikskólaskutl og morgunmat settist ég við vinnu. Dagskrá barnsins var (í þessari röð):

  • Leiðin til Gayu (vídeó)
  • 1 og ½ Latabæjarþáttur (DVD)
  • Kjúklingaleggjamáltíð
  • Út að leika
  • Svínalundamáltíð
  • Bíltúr með mér að ná í litlu systur og útrétta hist og her
  • Heim að upplifa vonbrigði yfir að HM hefði étið barnatímann
  • Kássumáltíð
  • Stólpípa
  • Bað
  • Beint upp í rúm
Hún var í rjómaskapi í allan dag, alveg þar til litla systir var komin í bílinn. Litla barninu til varnar skal tekið fram að það hegðaði sér einkar vel í alla staði, en um leið og sú stóra leit það augum var góða skapið fokið út í veður og vind.

Sjálf hef ég verið með allstuttan þráð í dag og í gær. Ég þoli líka hljóðáreiti illa. Þokan í heilabúinu, liðverkir, orkuleysi og syfja eiga eflaust sinn þátt í því. Plús það að þetta síðasta verkefni sem ég er að ljúka í vinnunni minni ætlar ALDREI að verða búið. Alltaf þegar ég held að ég sjái fyrir endann... þá bætast við flækjur. Ég er komin tveimur vikum á eftir áætlun og þar með tveimur vikum á eftir með ansi margt í mínu lífi!!!

Svo fékk ég einhverjar hjartsláttartruflanir í kvöld. Það hljómar rosa dramatískt, veit svo sem ekki hvaða nafni ég á að kalla það. Líður líka eins og ég sé sólbrunnin í framan, sem er frekar spes því ég hef ekki séð sól í marga daga.

Mér fannst kvöldverðarkássan fáránlega góð. Það sýnir e.t.v. hve lítið þarf til að gleðja þegar einhæfnin er farin að verða þrúgandi...

Eitt enn: Kláði og útbrot virtust aukast hjá stelpunni eftir því sem leið á daginn. Í lokin, þegar hún var að fara upp í rúm, var hún farin að klóra sér allt að því jafn mikið og fyrir viku. Veit ekki hvað veldur en eggjarauðan frá því í morgun liggur helst undir grun og ég set því egg í straff í bili.

Matseðill dagsins

Morgunmatur: Rest af kálfafillé + kjúklingaleggir og grænmeti frá því í gær
Hádegismatur: Ofnsoðnir kjúklingaleggir + ofnsoðið grænmeti
Síðdegisverður: Ofnsoðið svínafillé + ofnsoðinn kúrbítur
Kvöldmatur: Kássa! Innihald: Svínahakk, brokkólí, gul paprika, steinselja, hvítlaukur, salt + pipar – allt maukað og soðið í potti

Kjötsoð dagsins: Nautabeinasoð
Bað dagsins: Matarsótabað

Sunday, June 13, 2010

Dagur 6

Jei, ég er komið með fyrsta kommentið á þetta blogg (sjá síðustu færslu)! Takk, Hildur ;-)

Þessi dagur var fremur frábrugðinn hinum. Ekki bara af því að það er helgi.

Fyrir það fyrsta var dóttir mín merkjanlega hressari í dag. Engar hægðir samt. En aukinn hressleiki á víst að duga, skv. The GAPS Guide. Ef fram fer sem horfir er hún klár í 2. stig á morgun.

Í öðru lagi þá var þetta myndefnislaus dagur, fyrir utan Stundina okkar, sem er heilög fyrir eldra afkvæmi mínu.

Af þessu leiddi að ég var tilbúin með afþreyingarprógramm í morgun. Við föndruðum pennastatíf og svo vatnslituðum við allar þrjár í sameiningu e.k. gardínu í annan stóra stofugluggann (sem aldrei hefur verið keypt gardína í).

Svo sáðum við papriku- og kóríanderfræjum í potta. Foreldrar mínir komu líka í heimsókn. Nóg við að vera, semsagt.

Frá því um þrjú til sirka sex hafði faðir barnanna ofan af fyrir þeim á meðan ég lokaði mig af í þeim tilgangi að reyna að vinna og hvíla mig. Hefði getað gengið betur, en látum það vera.

Eldri dóttir mín var ögn líkari sjálfri sér í dag en dagana á undan, fór t.d. og náði í gítarinn sinn og glamraði nokkur lög og leitaði út um allt að tiltekinni bók sem hún hafði hugsað sér að lesa. Hún var samt fremur illa stemmd andlega og lynti til að mynda mjög illa við systur sína allt frá því að hún opnaði augun í morgun og þar til litla stýrið var lagt út af í kvöld. Hún tuðaði líka óspart yfir ýmsu sem fór í taugarnar á henni, mikil neikvæðni í gangi. En hún sofnaði ekkert í dag – rotaðist bara um leið og höfuðið snerti koddann í kvöld. Sefur vært og andar létt.

Sjálf er ég ekki mjög hraust í dag. Verulega mikið sljó, þokuð og slöpp, sérstaklega seinnipartinn. Tók baðið snemma í kvöld í von um að hressa mig við og geta unnið. Það virkaði aðeins – er samt mjög skýjuð í heilabúinu. DAAAAAUÐSYFJUÐ.

Matseðill dagsins

Morgunmatur: Kjúklingalæri (bara skinnið fyrir dóttur mína), soðin paprika og blómkál (hún fúlsar við blómkáli)

Hádegismatur: Kúrbítssúpa

Síðdegisbiti: Kjúklingaleggir (+ skinn) fyrir gikkinn (oftast er hún reyndar alls ekki gikkur...) og soðin, skræld, rauð paprika. Rest af blómkáli og engiferte fyrir mig.

Kvöldmatur: Kjúklingaleggir (að sjálfsögðu með skinni) og soðin gul og græn (!) paprika, ásamt með soðnum kúrbít (sem barnið fúlsar einnig við). Einnig kálfafillé.

Kjötsoð dagsins: ... er ekki alveg viss. Byrjaði að láta það malla í gærkvöldi og hélt þá að það væri nautabeinasoð. En það var frekar bragðlaust og var einhvern veginn frekar með keim af lambi. Er hreinlega ekki viss því ég er jú svo ringluð eitthvað, veit ekki úr hvaða poka í frystinum ég tók það. Þar að auki eru alls ekkert allir pokarnir frá kjötheildsölunni merktir, þannig að það er oft erfitt fyrir leikmann (-/konu!?!!) að átta sig.

Bað dagsins: Epsom

Saturday, June 12, 2010

Dagur 5

Ég var ekki nógu skipulögð í dag. Þreytu og slappleika að mestu um að kenna, held ég. Eftir Epsom-baðið á kvöldin hef ég verið svo spræk eitthvað og í stað þess að sofa fer ég að ganga í milljón hluti sem mér finnst áríðandi... enda svo á að fara seint að sofa. Hmmm...

Í gær fékk ég mér reyndar fyrstu súrkálssafateskeiðina fyrir háttinn. Veit ekki hvort það átti þátt í löngum og djúpum nætursvefninum, eða ekki.

Í morgun fékk ég mér teskeið af nýja súrkálinu mínu og ályktaði að það þyrfti kannski að fá að súrna í einn dag enn. Stelpan fékk teskeið af hinu, súrkáli sem ég gerði um daginn. Henni finnst safinn góður. Það er mikill léttir, það er þó eitthvað sem henni finnst gott. Gaf henni heila matskeið síðdegis. Sé ekki að það hafi nein sérstök áhrif til eða frá, enda er svosem erfitt að greina það. Það gæti aukið kláðann. Það gæti ýtt undir lystarleysið, gæti ýtt undir slappleikann, þungu lundina... eða eitthvað. Hver veit. Ætla allavega ekki að auka skammtinn hennar meira fyrst um sinn.

Ég fór í „bröns“ með vinkonum mínum. Þegar ein þeirra afboðaði sig undir þeim formerkjum að hún væri að fara í útskriftarveislu rifjaðist upp fyrir mér að ég væri sjálf að brautskrást úr mínu háskólanámi í dag. Þriðja gráðan í höfn og ég hafði engan hug á að mæta á þessa löngu og leiðinlegu útskrift, enda búin að mæta á nógu margar í gegnum tíðina (mínar eigin sem og annarra). Þannig að ég fór glöð í bröns. Barnapían var á djamminu í alla nótt og ég viðurkenni að ég hafði smá efasemdir þegar ég skildi börnin eftir hjá henni... en jæja, þetta var ekki langur tími.

Brönsinn var á Gló og þó að ég hafi ekki getað borðað neitt þar, þá hnusaði ég og nasaði og horfði og skoðaði, spurði, spáði og spekúleraði í það sem á boðstólum var. Það er frábært úrval af hráfæði þarna og megnið af því sem á annað borð heitir hráfæði er 100% „GAPS-löglegt“. Æðislegt! Ekki oft sem maður getur farið út að borða. Fékk mér reyndar humarsalat á kaffihúsi um daginn – það er það eina sem ég hef vogað mér síðan ég byrjaði á GAPS. Skeggræddi við kokkinn áður og fékk að vita öll smáatriði og hafa áhrif á nokkur vafaatriði. Það var allt í lagi með allt í salatinu, nema ólífuolían var hituð. Leyfði mér að taka sénsinn af því að ég vissi að hinn ægilegi Inngangur væri á næsta leyti... og að öll hugsanleg skaðleg áhrif myndu þar með skolast burt ;-)

Börnin sluppu í gegnum þynnkupössunina án sjáanlegs skaða og ég fór út með þá styttri í rúma klukkustund síðdegis. Sú lengri fékk að horfa á Latabæ því að hún hafði enga orku í rigninguna. Við höfðum bara opið út úr stofunni og ég fylgdist með þeim báðum.

Við komum inn um það leyti sem Latibær var búinn og sofnuðum allar í sófunum, alveg óvart. Mjög fyndið í raun, því undir venjulegum kringumstæðum sofnum við ekki bara si svona um miðjan dag (ja, eða síðdegis), allavega ekki allar í einu.

Þegar ég fann að litla krílið var sofnað í fanginu á mér og sá að sú eldri var að speisa út í næsta sófa fann ég hvað ég var gífurlega yfirkomin af þreytu og hugsaði með mér að það væri nú allt í lagi að dorma smá í 10 mínútur... vaknaði nærri klukkutíma síðar með dofinn og frosinn handlegg (enn opið út) en börnin sváfu sem steinar.

Það var eiginlega þetta sem setti dagskipulagið úr skorðum. Þegar við vöknuðum var eiginlega kominn kvöldverðartími og ég ekki búin að elda neitt – fór að reyna að gera allt í einu...

Til að gera langt mál stutt þá fékk sú styttri kvöldmat á undan hinni og var svo sett fyrir framan Brúðubílinn. Ég vil taka það fram að almennt horfa þessi börn mjög lítið á sjónvarp eða myndefni!!! Kannski stöku sinnum um helgar eða á veikindadögum, auk barnatímans á RÚV þegar þau muna eftir honum. Allajafna er reglan á þessu heimili að klukkustund sé hámarksskjátími dagsins. En... þegar slappleikinn er mikill og ég að reyna að gera milljón hluti... þá er myndefni life saver. Plús að það er, vegna lítillar notkunar almennt, smá sport fyrir þær, sem kemur sér mjög vel núna!

Og til að halda áfram með söguna þá fékk sú eldri stólpípu því aftur voru liðnar 48 stundir án hægða, sem er kannski ekki skrítið þegar hún borðar eins og mús. Svo fékk hún skinn af kjúklingabringum, sem er eiginlega það eina sem hún vill þessa dagana, ásamt með skrældri, soðinni, rauðri papriku. Og svo fékk hún engiferbað.

Þegar allt var búið var klukkan orðin tíu.

Ég sem ætlaði að vinna í kvöld.

Gengur bara betur næst...

Matseðill dagsins

Allt í belg og biðu og engar skipulagðar máltíðir... rest af kvöldmat gærdagsins (svínalundir og grænmeti) og svo meira grænmeti og slatti af kjúllalærum (aðallega skinnið fyrir barnið)...

Kjötsoð dagsins: Nautabeina

Bað dagsins: Engiferbað

Friday, June 11, 2010

Dagur 4

Hvar á ég að byrja? Laaangur dagur.

Framan af var ég hressari og mér virtist stelpan mín líka vera að hjarna við. Þetta byrjaði semsagt vel.

Og þetta var svo sem ágætur dagur. Látum okkur sjá... fyrst horfði hún á DVD og ég vann, svo setti ég hana á dýnu út á stétt og leyfði henni að hlusta á sögu á geisladiski... svo aftur DVD seinni partinn og svo fórum við í bíltúr. Náðum í kjöt sem ég kaupi í heildsölu (aukaefnalaust) og svo í afa barnsins sem fór með henni heim á meðan ég náði í litlusystur í leikskólann og fór í búð. Svo var afinn hér fram yfir háttatíma, með stanslausa skemmtidagskrá fyrir börnin.

Þannig að þetta var ekkert svo slæmur dagur.

Góðu fréttirnar eru að ég er búin með stig 1 og gæti ótrauð fært mig yfir á stig 2 að öllu óbreyttu. Ég hélt aldrei að ég ætti eftir að blogga um eigin hægðir... en, hey... lít bara á þetta sem þroskamerki... Hægðir eru semsagt lykilatriði varðandi færslu á milli stiga. Og mínar voru semsagt með miklum ágætum í dag :-)

En dóttlan var lystarlaus og varð einhvern veginn máttlausari þegar leið á daginn. Útbrotin voru á rosalega góðri leið þegar hún vaknaði í morgun, en svo var hana eitthvað farið að klæja á ný undir kvöldið. Þannig að hér er nóg til að rugla rými.

Ég lofaði henni að færa mig ekki á stig 2 á undan henni. En ég veit samt ekki hvort ráðlegt er að bíða lengi - eða hversu lengi.

Annað sem hófst í dag: Sauerkrautsafi. Stelpan fékk teskeið en ég er ekki enn búin að taka minn af því að ég veit einfaldlega að hann slær mig út. Og ég þurfti að vinna í dag, mátti ekki við því að vera í kóma. En er að fara að taka teskeið núna og fer svo beint í Epsom-salt bað.

Það er eflaust góður leikur þegar ég er á annað borð tilbúin í stig 2.

Ég er annars búin að vera sljó og með mikinn einbeitingarskort seinni partinn. Ferlega ergilegt. Ég þarf að ljúka af verkefninu sem ég er að vinna við og það teygist bara og teygist og teygist, einhvern veginn.

Ég steinsofnaði á meðan kvöldmaturinn var að malla. Afinn var með uppeldið í sínum höndum og ég bara koxaði í sófanum. Vaknaði þegar ofninn tísti á mig til að láta vita að tíminn væri kominn (ég stillti kjötið á tíma).

Matseðill dagsins:

Morgunmatur: Maukuð gulrótar-, kúrbíts- og paprikusúpa
Hádegismatur: Kjúklingabringurest og soðin paprika og gulrót
Síðdegissnarl: Sama súpan og um morguninn
Kvöldmatur: Ofnsoðnar (í eigin vökva) svínalundir fyrir mig, litla barnið og afann og kjúllabringur fyrir GAPS-barnið þar sem hún vill þær frekar og mér er mjög í mun að koma einhverju ofan í hana!

Kjötsoð dagsins: Nautabeinasoð

Bað dagsins: Epsom

Thursday, June 10, 2010

Dagur 3

Váááááá hvað ég var slöpp í morgun. Skjálfhent, riðandi, andstutt, sortnaði fyrir augum þegar ég stóð upp... illt alls staðar... gersamlega að drepast í maganum...

En já. Dagurinn byrjaði víst kl. 5.00 en þá var kominn fótaferðatími fyrir þá eldri. Eftir að hafa fylgt henni á klósettið og gefið henni vatn og vöðvaverkjakrem (heimatilbúið, GAPS-löglegt) og hlustað á hana dæsa og bylta sér í klukkustund fór ég með henni inn í hennar herbergi og lét hana hlusta á leikrit (Vökuland). Fór sjálf aftur að sofa og svaf til 8.00 sem er afar, afar óvenjulegt á þessu heimili. En þá var það styttra stýrið sem vakti mig - hitt var þá sofnað aftur.

Nú... ég var eins og fyrr segir FÁRÁNLEGA slöpp. Lystarlaus en samt sísvöng, þjökuð og ergileg. Makaði mig alla út í vöðvaverkjakreminu sem til allrar hamingju virkar ljómandi. Dóttir mín (eldri) var líka hundslöpp.

Ég var að reyna að vinna, en gat engan veginn einbeitt mér. 5 mínútna verk tók mig svona klukkustund. Handónýt.

Mundi að á innganginum í fyrra fékk ég á spjallinu það góða ráð að borða helling af grænmeti til að fá orku. Þannig að ég borðaði og borðaði - hundvont og bragðlaust soðið grænmeti - og svei mér ef það hjálpaði ekki. Held líka að silungsafgangurinn sem ég borðaði síðdegis hafi hjálpað til.

Síðdegis þurfti ég að stússast, þurfti að fara á 5 mismunandi staði að erindast og það gekk bara slysalaust. Enn ansi slöpp... en hélt samt haus og svona.

Dóttir mín var ekki búin að hafa hægðir í a.m.k. 2 daga. Þannig að hún fékk stólpípu í dag. Eitt af inngangsráðunum er víst að vera ekki með innibyrgðar hægðir lengur en 36 klst. Þannig að þetta hefði alveg mátt gerast fyrr. Hún hefur tvisvar áður fengið stólpípu, í bæði skiptin eftir að við byrjuðum á GAPS. Í fyrri skiptin hefur hún staðið sig eins og hetja - í fyrsta skiptið var hún hreint út sagt í skýjunum og fannst þetta frábært...! En í dag var hún samt eitthvað lítil í sér, vatt sér undan og ég þurfti að beita mikilli lagni til að virkja hana til samvinnu. En svo gekk þetta vel. Nú vona ég bara að hún fari að fá matarlyst, svo að þetta fari að koma af sjálfu sér...

Morgunmatur dagsins: Smá soðið grænmeti frá því með kvöldmatnum í gær (paprikur auðvitað í aðalhlutverki)

Hádegisverður dagsins: Gulrótar- og paprikumauk

Síðdegisverður dagsins: Silungsrest og soðið brokkólí

Kvöldverður dagsins: Ofnsoðnar kjúklingabringur og grænmeti. Þar sem faðir barnanna eldaði kvöldmatinn og ég var ekki viðstödd fór óvart svo að laukur slæddist með grænmetinu. Það má víst ekki á stigi 1. Smá var komið ofan í mig áður en ég fattaði það - held að lítið hafi farið ofan í dóttur mína, en vona að ekki sé mikill skaði skeður.

Kjötsoð dagsins: Kjúklingaleggjasoð

Ég vil líka segja frá því að þetta tekur á andlega. Það er ömurlegt að vera svona slöpp eins og ég var í morgun og bæði fer það eitt og sér í skapið á manni og svo má reikna með því að þetta die off hafi líka áhrif á geðið. Stelpan mín er til dæmis búin að vera dálítið neikvæð á köflum í dag og í gær (og skyldi svosem engan undra). Í gær var ég rosa lipur og ljúf og hvetjandi og góð mamma og alveg á hjólum við að snúa nöldri yfir í bjartsýni og sjálfsvorkun í ánægju og snúast í kringum hana á alla kanta - en framan af deginum í dag varð ég vör við áþreifanlega afturför í umönnunar- og uppeldisfærni minni...

En það eru líka góðar fréttir í pakkanum. Öndunin hjá þeirri stuttu er allt önnur nú þegar. Og bólgna, skorpna, sprungna og blóðrisa exemhreistrið er óðum að hrynja af og undan er farið að glitta í heila, slétta og mjúka húð. En dálítið rauð og svolítið hreistruð víða, en samt, það er ómetanlegt að fá svona hvatningu þegar hlutirnir eru erfiðir.

Og svo að ég klári frásögn mína af deginum, um sjöleytið hitti ég 2 konur sem hafa áhuga á að byrja á GAPS og vildu fá ráð hjá mér. Ég spjallaði við þær í klukkustund og sagði þeim allt sem ég veit... sem er því miður ekki alveg allt... Eins og mín er von og vísa hamraði ég á INNGANGSFÆÐINU - það þýðir ekkert að taka nokkrar vikur eða mánuði á fullu GAPS-fæði, finna litlar eða engar breytingar og dæma það þá bara úr leik...!!! Hef nú þegar hitt fólk sem hefur sagt mér þannig sögur og mér finnst það geeeeðveikt ergilegt. Fólk sem er með krabba fer ekkert bara stundum í kímó og segir svo bara ,,ah, þetta virkaði ekkert..." - annað hvort gerir maður hlutina alveg eins og fyrir er lagt þegar heilsan er annars vegar, eða maður getur bara sleppt þeim.

En þetta var víst komið fram áður. Og ég vona svo sannarlega að þessum tveimur frábæru konum sem ég hitti í kvöld gangi þetta rosalega vel. Ég hlakka til að fá að fylgjast með.

Svo var brennókvöld í kvöld. Ég er ekki frá því að ástæðan fyrir því að mér sortnaði fyrir augum í morgun, í allavega einhver skiptin, hafi verið tilhugsunin um að skjögra í brennó í kvöld. En þegar loks kom að því var ég orðin talsvert miklu hressari. Smellti mér því galvösk í leikinn og neita því svosem ekki að ég var merkjanlega andstyttri og úthaldsminni en venjulega, en vá hvað þetta var samt gott. Algerlega frábært að hreyfa sig svona í frábæru veðri í frábæru íslensku súrefni... Mmmmmh....

Wednesday, June 9, 2010

Dagur 2

Dagur 2 svo til liðinn.

Morgunmatur: Köld soðin paprika + gulrætur (rest frá því með kvöldmatnum í gærkvöldi)
Hádegismatur: Kúrbíts-, papriku- og kjötsoðssúpa
Kvöldmatur: Ofnsoðinn silungur með soðnu grænmeti (papriku og gulrótum)

Kjötsoð dagsins: Restin af nautabeinasoðinu frá því í gær framan af og kjúklingabeinasoð seinni partinn.

Baðsalt dagsins: Epsom

Líðan mín: Sæmileg eftir atvikum. Talsvert máttleysi, utanviðmigheit og svimi. Magaverkir.

Líðan dóttur minnar: Öllu verri. Yfirgengilegt máttleysi og lystarleysi. Svaf frameftir í morgun (sem er mjög ólíkt henni) og í nærri 4 klst samfleytt í dag. Gubbaði kvöldmatnum. Sefur uppi í hjá mér í nótt.

Dóttir mín hefur þar að auki verið frekar þyrst. Ég er að reyna að finna út hvað er óhætt að gefa henni á þessum tímapunkti (samkvæmt fæðuútlínunum) til að fyrirbyggja ofþornun. Veit ekki hvort saltlausn með sítrónusafa er í lagi, fólk talar um það á vefnum, en skv. inngangsferlinu er ferskur ávaxtasafi ekki í boði strax... spurning hvort sérstaða sítróna (basísk náttúra og allt það) gerir þær nógu spes til að vera undanþága...?

Tuesday, June 8, 2010

Inngangsferli, dagur 1

Jæja, þá er ég mætt til leiks af fullum krafti. Í dag er dagurinn sem við höfum beðið eftir í rúma 9 mánuði, eða frá því að skólinn hófst hjá eldri dóttur minni í haust. Í dag byrjuðum við á Inngangsferli GAPS.

Aðeins um söguna okkar áður en ég held lengra.

Ég: Tveggja barna móðir. Hef megnið af ævinni glímt við alls konar heilsufarsvandamál og fengið ófáar misgáfulegar „greiningar“ í gegnum tíðina. Meðal greininga má nefna vöðvabólgu, vefjagigt, síþreytu, Angioedemu, Ehlers Danlos, þunglyndi, Endometriosis, myglusveppaofnæmi og Raynaud's syndrome. Fékk líka á tímabili auðveldlega nýrnasýkingar. Athugið að þetta er ekki tæmandi listi, bara eitthvað sem ég man núna... og minnið er satt að segja ekki upp á marga fiska. Svo má bæta því við að ég var sl. vor komin með óþol fyrir þónokkrum fæðutegundum.

Dóttir mín: Er á yngsta stigi grunnskóla. Var með verulega svæsið tilfelli ungbarnakveisu, grét út í eitt fyrstu mánuðina - allan og ég meina allan sólarhringinn, ekki bara í kortér á kvöldin eins og sum þessara barna sem nefnd eru „kveisubörn“. 8 mánaða greindist hún með eggjaofnæmi sem af og til hefur átt að vera farið, skv. rannsóknum lækna, en samt fékk hún alltaf útbrot um leið og egg fór inn fyrir hennar varir. Fljótlega kom heiftarlegt óþol fyrir mjólkurvörum einnig í ljós og svo bættust fæðutegundirnar við ein og ein í einu... þar til sl. vor að þær voru orðnar 11 talsins og flestar frekar algengar. Helstu einkenni hjá henni voru þá sífelldir magaverkir, vatnskenndar hægðir, astmaöndun, kæfisvefn á lífshættulegu stigi, illviðráðanleg húðútbrot og verulega mikil vanlíðan og skapbrigðaköst. Síðastliðið vor fékk hún svo greininguna „á einhverfurófinu.“

Við höfðum reynt ansi margt. Móðir mín var dugleg að fara með mig til lækna þegar ég var barn og til að gera langt mál stutt og ýfa sem fæstar fjaðrir er óhætt að segja að árangur hafi verið með minna móti. Á fullorðinsárum hef ég reynt ólíkustu aðferðir til að bæta heilsu mína. Alls kyns kúrar og mataræðistilbrigði, meðferðir, meðhöndlanir, kraftaverkalyf og -tæki og svo mætti lengi telja - bæði innan sem utan hefðbundinna lækninga. Sumt hjálpaði eitthvað, annað ekki. Eftir að dóttir mín fæddist má segja að ég hafi verið stöðugt á höttunum eftir einhverju sem gæti hjálpað henni. Ég bjó að því að hafa sjálf reynt ýmislegt og gat því strikað eitt og annað út af listanum. Síðustu ár höfum við sett heilnæma fæðu í algeran forgang, mikið til lífræna - og vitanlega lausa við allar þær fjölmörgu fæðutegundir sem við þoldum ekki.

Hvað gerðist:

17. júlí í fyrra byrjuðum við á GAPS fæði. Eitt hef ég lært af öllum tilraunum mínum til að ná betri heilsu: Hálfkák dugar ekki. Annað hvort verður maður að fylgja leiðbeiningum til hins ýtrasta - og vita þá þegar upp er staðið að viðkomandi aðferð annað hvort virki eða ekki - eða maður getur bara sleppt þessu.

Þannig að ég lét dætur mínar báðar, sem og sjálfa mig, samviskusamlega á inngangsfæðið, sem greint er frá á vefnum og enn betur í bókinni The GAPS guide. Áhrifin létu ekki á sér standa, máttleysi, svimi, uppköst og þar fram eftir götunum. Ég var ekki búin að kaupa mér bókina (The GAPS guide) og vissi því ekkert hverju ég átti von á. Hringdi í mína helstu ráðgjafa (sem ekki hafa persónulega reynslu af GAPS) og þeir voru sammála um að við hefðum ábyggilega bara nælt okkur í flensu. Eftir tvo gubbudaga var inngangsferlið blásið af og skipt yfir í fullt GAPS fæði. Hið undarlega var þó að eftir aðeins þessa tvo daga andaði eldri dóttir mín létt sem vorgolan jafnt að nóttu sem degi, útbrotin voru horfin, skapið var jafnt og andleg líðan með sóma.

Nokkrum dögum og heilmikilli rannsóknarvinnu síðar gerðum við því aðra atrennu. Eftirgrennslanir mínar bentu til þess að um hefði verið að ræða „die off“ (ferlið þegar óæskilegar örverur / sníkjudýr deyja og sleppa frá sér eiturefnum út í líkamann). Þannig að við lögðum upp á ný og í þetta sinn náðum við þónokkrum árangri. Eftir rúma viku var ferlið þó blásið af á ný, í þetta sinn vegna aðkallandi afmælisveislu. Þess ber þó að geta að áður en það var gert smakkaði eldri dóttir mín linsoðið egg og varð í fyrsta sinn á ævinni ekki meint af. Hún hefur eins og nærri má geta hámað þau í sig æ síðan.

Til að gera langt mál stutt gerðum við eina enn atrennu í inngangsferlið áður en skólinn skall á. Skömmu síðar áttum við foreldrarnir fund með skólasálfræðingnum sem taldi sennilegt að einhverfurófsgreiningin ætti ekki lengur við, slík var breytingin á barninu.

Í vetur höfum við verið á fullu GAPS fæði og líðan okkar hefur hreinskilnislega sagt verið upp og ofan. Einkum hafa útbrot eldri dóttur minnar ágerst eftir því sem liðið hefur á vorið. Ég hef verið í sambandi við annað fólk sem einnig er á GAPS sem hefur upplýst mig um að allt sem við höfum gengið í gegnum sé eðlilegt. Ég er enn fremur sannfærðari en nokkru sinni fyrr um að ekki dugi neitt hálfkák, nú tökum við inngangsferlið með trompi og bregðum ekki tommu frá bókinni.

Læt þess þó getið að hin stelpan mín er stikkfrí í bili. Hún hefur átt við heilsufarsvandamál að etja sem ég hef enga skýringu fundið á enn og því er hún bara á fullu GAPS-fæði.

Maturinn í dag samanstóð af nautabeinasoði (með öllum máltíðum), soðinni papriku (morgunmatur), blómkáls- og paprikusúpu (hádegismatur), gulrótar- og paprikumauki (síðdegis) og ofnsoðnum kjúklingaleggjum með blönduðu soðnu grænmeti (þ.m.t. papriku!) í kvöldmat. Já, dóttur minni finnst paprika semsagt skásta soðna grænmetið. Og trikkið til að fá hana til að drekka kjötsoðið (sem hún hatar meira en pestina) er loforð um Tívolí í Køben síðar í sumar. Það virkaði allavega mjög hvetjandi í dag.

Annars var ég mikið til að vinna og hún ýmist að skottast úti við, lesa bók eða glápa á DVD (samt ekki of mikið, bara 1 mynd og 1 þátt).

Undanfarið hef ég verið talsvert slöpp og með einum of þráláta heilaþoku og hvoru tveggja margfaldaðist í dag. Sú stutta var líka orðin ansi framlág undir kvöldið og það vessaði úr útbrotunum hennar.

Við sjáum hvað setur. Ég vona að ég verði nógu hress á morgun til að halda áfram að skrásetja ferlið.