Dagbókin okkar

Á þessum síðum skrifum við jafnóðum söguna okkar því hvernig við gerum markvissa tilraun á heilsu okkar samkvæmt leiðbeiningum Dr Campbell McBride - skref fyrir skref...

Thursday, July 29, 2010

Pælingadagur (51...)

Sko, það eru miklar pælingar í gangi varðandi næstu skref í mataræðinu. Ég mun breyta, á allra næstu dögum. Ég bara er ekki alveg tilbúin að leggja niður fyrir ykkur hvernig.

Það er líka ljóst að ég er ekki að taka rétt skref varðandi sjálfa mig. Ég er of slöpp, sljó, þokukennd, verkjuð og þreytt til að þetta geti gengið svona, núna. Það er eitthvað að... ég hef nokkrar pælingar, en get ekki alveg sagt til um næstu skref að svo stöddu.

Eitt get ég þó upplýst um; fyrstu hægðir dóttur minnar eftir ghee-teskeiðina voru síðdegis í dag. Þær voru blandaðar, lausar (niðurgangur) og fastar (eins og á að vera) og í kjölfar þeirra komu talsverðir magaverkir hjá henni, sem gengu þó fljótt yfir. Hún er annars búin að vera magaverkjalaus.

Nú, auðvitað kann eitthvað annað og / eða fleira að spila inn í. Á morgun eða hinn verður að prófa ghee á ný og sjá hvort aftur koma viðbrögð og hvort þau verða svipuð eða sambærileg. Um leið velti ég því fyrir mér hvort heil teskeið hafi e.t.v. verið of mikið til að byrja með?

Matseðillinn

Morgunmatur: Ofnsoðin kjúklingalæri og soðnar paprikur

Hádegis- og síðdegismatur: Lambahakkskássa með lauk, papriku, blómkáli og ferskum kóríander

Kvöldmatur: Kjúklingalæri (fyrir hana)... ég var pakksödd enn og uppþembd af kássunni. Hún borðaði ekki mikið í kvöld.

Soð dagsins: Blandað; kjúklingabein og nautabein.

Bað dagsins: Epsom (fyrir mig) og Epsom + matarsódi fyrir börnin

Wednesday, July 28, 2010

Er þetta þá dagur 50... svona eiginlega?

50 dagar á mjög svo ströngu og afmörkuðu fæði, svo ekki sé meira sagt, þó að ekki sé beint hægt að segja að við fylgjum inngangsfæðinu alveg núna.

En jæja, eitt og annað er nú að gerast.

Dóttir mín:

Var í útilegu með föðurfjölskyldunni í fyrrinótt. Nærðist á kjúklingaleggjum einum saman... já og smá soðnu grænmeti. Litla hetjan mín. Hún er búin að standa sig rosalega vel og sætta sig alveg ótrúlega við sitt fábreytilega hlutskipti.

Hún fékk smá ,,verðlaun" í dag þegar ég gaf henni teskeið af gheei. Ég hef ekki gefið þessu barni mjólkurvörur í tilraunaskyni í háa herrans tíð, enda hafa viðbrögðin aldrei látið á sér standa. En það er mælt með að byrja á gheei og ég bjó til einn skammt úr lífrænu smjöri frá Biobúum í dag.

Þorði ekki að smakka sjálf, enda hefur maginn minn verið fjarri því að vera í lagi undanfarna daga og gheeið hefur ekki verið að reynast alveg hlutlaust í síðustu skipti sem ég hef prófað það.

Allavega, ég fylgdist grannt með þróun mála hjá barninu í dag. Hún sýndi engin merki um óróleika í maga eftir að hafa smakkað umrædda mjólkurvöru, né heldur snefil af hor, öndunarerfiðleika, kæfisvefn nú þegar hún er sofnuð, eða annað. Það eina sem ekki er í lagi eru útbrotin, en þau hafa smám saman verið að ágerast undanfarna daga og halda því áfram. Svo bíð ég spennt eftir næstu hægðum og krossa putta þvers og kruss í von um að þær verði fagurlagaðar 3 - 4 á Bristol chartinu...

Ég er ferlega syfjuð, en hér er grófur matseðill:

Morgunmatur minn: Ofnsoðin kjúklingalæri með soðnu blómkáli og soðinni papriku
Morgunmatur barnsins: Ofnsoðnir kjúklingaleggir

Hádegismatur: Lamba- og svínahakkskássa með lauk, papriku og hvítlauk

Kvöldmatur: Lamba- og svínahakkskássa með lauk, papriku og hvítlauk

Kjötsoð dagsins: Kjúllabeinasoð

Bað dagsins (bara fyrir hana): Epsomsalt + matarsóti

Tuesday, July 27, 2010

Komnar heim

Held að í dag sé dagur 49. Er ekki alveg viss.

Get því miður ekki skrifað nákvæmlega hvað við höfum snætt frá því á laugardaginn, en ég get sagt aðeins frá stöðunni og svona því sem verið hefur að gerast.

Sunnudagurinn var erfiður. Það er ekkert grín að gera af vanefnum nesti fyrir 3 manneskjur sem eru að fara að ferðast þúsundir kílómetra og þrífa í leiðinni 3ja hæða hús ein með tvö börn á rigningardegi. Þetta hefði satt að segja verið auðveldara ef veðrið hefði verið betra... en það var öskrandi hellidemba frá hádegi og ekki hundi út sigandi. Ergó; mikið vídeógláp, en meira að segja börn verða þreytt á vídeóglápi á meðan mamman æðir út um allt og reynir að gera allt í einu.

Svo er það maginn á mér, hann var ekki par hress á laugardaginn, fór versnandi á sunnudaginn og var satt að segja ómögulegur í gær. Virkilega slæmur, ég átti eiginlega bara svolítinn veikindadag hér, nýkomin heim og svona. Ekki mjög gaman.

Maginn var umtalsvert skárri í dag, hægðir komnar í lag, en dálítil ólga enn. Ég hef ekki glóru um hvað veldur. Það er svo margt sem kemur til greina. Dodgy kjúklingaleggir frá því á föstudaginn? Eða lummurnar frá því á föstudaginn? Nautakjötið á laugardaginn? Stressið á sunnudaginn? Álagið bara? Eða voru myglusveppirnir í húsinu sem við gistum í farnir að ná til mín (það væri ekki í fyrsta sinn sem ég verð veik af tiltekt og þrifum - ætli það sé hægt að fá vottorð...? ;-)).

Annars gæti líka verið um að ræða lauflétta umgangspest. Hver veit.

En ég var allavega með beinverki og alls konar í gær. Og þá var nú ljúft að hafa Epsom-salt og stórt og gott baðkar við höndina. Mmmmh...

Dætur mínar hafa verið mikið hjá föður sínum. Eru núna í útilegu.

Í gær og í dag erum við eldri dóttir mín aftur á Stigi 1. Það er hugsað sem eins konar endurstilling, ekki að við séum að byrja upp á nýtt, heldur meira bara eins konar núllpunktur. Mig langar nefnilega að prófa að gefa henni ghee og þá vil ég ekki að það séu neinir aðrir faktorar í mataræðinu sem geta haft áhrif.

Planið sem ég styðst við núna er að færa okkur yfir í sætuefnalausa útgáfu af GAPS... sem mér finnst samt hundleiðinlegt. Ég ELSKA kökur, sérstaklega hrákökugotteríið sem ég hef verið að gera undanfarna mánuði (þar til við byrjuðum á innganginum)... en ég veit að þetta er afstætt. Í fyrsta lagi þolum við þetta ekki mjög vel (við fáum iðulega sveppasýkingar) og í öðru lagi þá er þessi nautn / craving eflaust að einhverju leyti tilkomin vegna ójafnvægisins sem þessu bindindi er ætlað að laga. Það er sagt að þetta sé þess virði... en ég á eftir að kynna mér þetta nánar. Á von á sætuefni sem ég pantaði að utan (Steviu) sem ekki mun almennt espa candida, en sem ekki er almennt talið leyfilegt á GAPS. Skoða það mál.

En semsagt... kjötbollur (fyrir mig og dóttur mína) og lummur (bara fyrir hana) á heimleiðinni á sunnudaginn og svo bara mest kjúklingaleggir (íslenskir, aukaefnalausir, ferskir og fínir...) og grænmeti. Líka silungur. Og kálfafillé. Og nautafillé. Yndislegt.

Ekki snefill af nautahakki... ég sver ;-)

Og svo kemur í ljós að kjötsoð af ferskum kjúklingaleggjum er bara ljómandi bragðgott. Aldrei átti ég von á að ég myndi lýsa þeirri skoðun... en svo er nú samt.

Saturday, July 24, 2010

Tveir hressir dagar

Hef lítinn tíma til að skrifa núna, fer heim á morgun. Þetta hafa verið ágætir dagar.

Matseðill

  • Mikil kássa, allan daginn
  • Líka steikt nautahakk og soðið grænmeti
  • Lummur fyrir börnin (t.d. í nesti í gær þegar við fórum í heimsókn)
  • Fékk fullt af heimaræktuðum ferskum kúrbít af öllum stærðum og gerðum í gær þegar ég fór í heimsókn... alger unaður... Mmmmmh... borðaði þannig steiktan upp úr andafeiti í morgun, en dætur mínar deila ekki þessari ástríðu með mér.
  • Linsoðin egg í morgunmat í dag (keyptum í gær, voru ekki til).
Heilsan

Maginn á mér er eitthvað úr skorðum. Skelli skuldinni á lummuát. Samt ómögulegt að vita. Eggin eru heldur ekki að fara vel í mig (borðaði bara eitt í dag, en það eru líka egg í lummunum). Engin krísa í maganum, bara frekar mikið ,,rumbling"

Húð dóttur minnar er með sóma. Engir sterar í 2 daga. Í gærmorgun fórum við báðar í sturtu. Þar sem mikið var eftir af Bláa Lóns leirnum að norðan þá tók ég hann bara allan og makaði á okkur. Voilá, húðin bara fín alveg síðan.

Auðvitað voru sterarnir eitthvað búnir að undirbúa jarðveginn, en þessi steraumferð er allt öðru vísi en sú síðasta. Síðast bar ég 14 sinnum á hana sterakrem um allan kroppinn. Núna... tjah... svona 5 sinnum kannski... leirinn var virkilega að gera eitthvað.

Skap dóttur minnar hefur verið upp og ofan. Stutt í tár, sem er ótýpískt fyrir hana.

Jæja, erfiður dagur fyrir höndum á morgun. Hústiltekt (3 hæðir) og hreingerning með tvo gemlinga á útopnu og nestun fyrir langa ferð heim. Fjúh...

Thursday, July 22, 2010

Fagur dagur

Það er nú meira hvað ég er komin með einbeittan brotavilja...

... alltaf eitthvað að stelast.

Í dag stalst ég í gulrótarsneið, ss. var að saxa niður gulrót og stakk upp í mig sneið. En sú firra...

Og svo stalst ég í möndlusmjör og gaf dóttur minni líka (synd að henda því sem eftir er þegar krukkan er ,,tóm" af þessari rándýru matvöru). Bæði smá dökkt, lífrænt hunang og líka smá draslhunang (sem var í lummum sem bakaðar voru fyrir gestina). Og já, brauðbita af brauði yngri dóttur minnar sem ég bakaði í kvöld. Það innihélt m.a. banana.

Lítið smakk af hverju... en samt. Ég er öll í smökkunum þessa dagana. Finn hvað ég þrái tilbreytingu. Og hunang og banani eru alls ekki góðar hugmyndir, vegna sætunnar.

Það komu semsagt gestir í dag. Ég gaf þeim lummur. Gerði möndlusmjörslummur fyrir stóra ljósið mitt (möndlusmjör + egg + lambafita) og hnetusmjörs- fyrir hina, með smá hunangi af því að inngangs-bragðið er einfaldlega ekki allra. Steingleymdi kúrbítnum. Endurtók samt leikinn í kvöld og sleppti þá hunanginu en mundi eftir kúrbítnum í báða lummuskammtana og setti líka banana í hnetusmjörslummurnar (fyrir þá yngri).

Alls held ég að ég hafi eytt 4 eða 5 klst. í eldhúsinu í dag, sem er svona í hærri kantinum, en ekkert einsdæmi þessa dagana.

Mér leiðist rosalega, þegar aðstæður eru svona, hvernig eldhúsið hérna er. Það er sér vistarvera, aflokuð frá rest af íbúð fyrir utan borðstofu (dyr fram í borðstofuna). Þegar maður eldar snýr maður baki í allt og alla og ómögulegt að eiga samskipti við börnin til dæmis.

Heima hjá mér er eldhúsið algerlega hjarta heimilisins og maður getur eldað eins og vindurinn en samt hjálpað við heimanám, spjallað, gefið góð ráð, stuðning, grínast, jafnvel horft á sjónvarpið og svo framvegis, allt á meðan maður eldar. Ég á eftir að sakna þessarar aðstöðu ef ég flyt í aðra verri.

Heilsan okkar var annars sæmó í dag. Ég var með dálítið mikil die off einkenni og sakna Epsom-baðs heil ósköp. Ætli það fáist í kílóavís hér á góðum prís eins og heima? Og ætli ég geti leigt íbúð með baðkari...? Hægðir með ágætum.

Tók 3 tsk af súrkálssafa í dag, sem er persónulegt met í þessari umferð og kann að eiga þátt í þessum miklu die off einkennum.

Dóttir mín virðist ágæt, hægðir með sóma og útbrot í rénum fyrir tilstilli sterakremsins. En það skortir dálítið upp á andlegt jafnvægi, sem er alvarlegt mál en ég veit ekki alveg hvað veldur. Sterar, nýjungar, aðstæður... hvað veit maður?

Matseðill

Morgunmatur: Köld kássa fyrir barnið, kalt nautaket og kúrbítsgrænmetisblanda fyrir mig

Hádegismatur: Lummur (möndlusmjörs- fyrir hana, hnetusmjörs- fyrir aðra (ég fékk mér bara eina))

Síðdegishressing: Kássa

Milli mála: Sítrónuklakar

Kvöldmatur: Nautakjöt... aftur. Aftur kúrbítsgrænmetisblanda og lárperumauk með. Kjötið er dálítið seigt...

Engin böð.

Soð: Kjúklingabeinasoð

Wednesday, July 21, 2010

Dagur 43

Það er í svo mörg horn að líta, svo margt að gera og ég svo þreytt og skýjuð í kollinum að það er virkilega erfitt að henda reiður á öllu sem ég tel ástæðu til að fjalla um hér.

Látum okkur sjá.

Við héldum áfram með nýjungar í dag, sem ég ítreka og undirstrika að er ekki alveg í samræmi við Inngangsferlið enda lít ég svo á sem við séum hættar því og farnar að impróvisera svolítið. Samt erum við í höfuðdráttum enn á inngangsfæði. Ég er mjög hugsi yfir því hvort ég á að halda áfram að númera dagana.

Nýjungar dagsins:
  • Sítrónuklakar (sítrónusafi + vatn, fryst)
  • Smá möndlumjólk (ristaðar möndlur + kókosmjöl)
Ég fékk mér líka pínu ferska steinselju af því að ég var að fara í atvinnuviðtal og nautahakkskássur með hvítlauk kvölds, morgna og miðjan dag gera konu andfúla í meira lagi.

Og svo fengum við okkur aftur gulrótarsafa í morgunsárið, jafn lítinn og síðast og aftur útþynntan í vatni. Mjög gott, samt.

Ég bar sterakrem á úlnliði barnsins í nótt og einu sinni á alla helstu útbrotablettina nú í kvöld. Ekki í morgun. Hún er ekki orðin alveg eins slæm og hún var, það eru aðallega hendur og úlnliðir sem eru slæm svæði.

Hvað varðar nýjungar og viðbrögð við þeim lít ég aðallega til
  • hægða
  • öndunar
  • hegðunar
hjá dóttur minni og

  • hægða
  • vöðva- og liðverkja
hjá sjálfri mér.

Hegðun barnsins var ekki nógu góð undir kvöldið. Það kom dálítið langur tími þar sem hún var óróleg, hagaði sér frekar illa og tók engum sönsum. Vil líka geta þess að ég fyrrakvöld var hún með fótleggjaverki sem eru alltaf eins, alltaf í sköflungnum vinstra megin og koma oftast á kvöldin. Setti á hana vöðvakrem þá og svo aftur um nóttina þegar hún kvartaði. Ólíkt exemkreminu þá svínvirkar heimatilbúna vöðvakremið mitt (kókosolía + kamfórudropar + eucalyptuskristallar).

Hægðir í góðu lagi, hins vegar.

Sjálf fann ég mikil ,,die off" einkenni í dag, sem e.t.v. má rekja til gulrótarsafans eða steinseljunnar. Hver veit. Litlu liðirnir eru heldur enn ekki orðnir góðir.

Matseðillinn

Morgunmatur: Nýpressaður og síaður, vatnsþynntur gulrótarsafi í forrétt og kássa í aðalrétt.

Hádegismatur: Linsoðin egg

Kvöldmatur: Ofnsoðið nautakjöt (ath. ekki hakk!!!) með rifnum kúrbít, lauk, brokkólí og eplaediki og lárperumauk með.

Engin böð sem skipta máli

Soð: Kjúklingabeinasoð

Tuesday, July 20, 2010

Dagur 42

Hydrocortisone aftur í dag.

Sítrónuvatn nýtt fyrir mig og þá eldri í dag.

Linsoðið egg aftur fyrir þá eldri í dag.

Linsoðið egg aftur (eftir nokkurra daga hlé) fyrir mig í dag.

Allt virðist þetta fara ágætlega í okkur.

Litlu liðirnir mínir voru enn harla stirðir í morgun. Ekki alveg jafn slæmir og í gærmorgun, en alls ekki í góðu standi.

Matseðillinn

Morgunmatur: Nautahakkskássa og kjúklingaleggir (rest frá því í gær)

Hádegismatur: Nautahakkskássa

Kvöldmatur: Pönnusteikt nautahakk, soðin paprika + gulrætur og lárperumauk. Sítrónuvatnsglas í ,,eftirrétt".

Soð: Kjúklingabeinasoð

Engin böð.

Fáránlegt hvað steikt nautahakk er mikill munaður eftir nokkrar vikur af soðnu...

Monday, July 19, 2010

Löööööng færsla og dagur 41

Vaknaði í morgun með vítisverki í litlu liðunum. Hendurnar verða alltaf sérstaklega slæmar. Í svefnrofunum reyndi ég að útiloka tilfinningu frá úlnliðum og fram úr, um leið og ég taldi í mig kjark til að láta undan þessum bröltandi börnum og staulast fram. Um leið fór hugurinn á fullt að leita að ástæðu. Af hverju svona slæmt núna? Hvað hefur breyst?

Svona var þetta nefnilega alltaf. Hvern morgun staulaðist ég fram á baðherbergi með hendurnar krepptar og lét renna í vaskinn jafn heitt vatn og ég gat þolað. Eftir nokkrar mínútur ofan í fóru hendurnar að linast og þá gat ég farið að nota þær, t.d. til að staulast í sturtu og lina restina af kroppnum. Svona var gaman að vera á þrítugsaldri.

Eins og endranær var hefðbundna heilbrigðiskerfið ekki að gera sérstaklega góða hluti fyrir mig. En á endanum rataði ég til yndislegs hómópata sem upplýsti mig um gagnsemi Omega olía. Smátt og smátt lærðist mér að með frekar heilnæmu fæði, mikið til lífrænu, litlum sykri / hveiti og miklum Omega olíum má halda verkjunum að nokkru leyti í skefjum. Olíurnar hafa alltaf verið crucial.

Eftir að ég byrjaði á GAPS hefur ástandið almennt verið skárra. Svolítið skrítið samt. Fyrstu mánuðina var ég oft með undarlegan seiðing í litlu liðunum og fram í fingurgóma, svona smá-hlýju, samt ekki... frekar skrítið. Ég hef áfram stólað mjög mikið á góðar Omega-olíur.

Þess vegna kveið ég svolítið fyrir innganginum. Ég hugsaði; hvað verður um mig án hækjanna minna (Omega 3-6-9)? Sá fyrir mér vítiskvalir hvern morgun. Eftir nokkra daga, svona þegar versta die offið var afstaðið man ég samt til að hafa sérstaklega beint sjónum að höndunum á mér á morgnanna þegar ég vaknaði og það kom mér skemmtilega á óvart að þær voru vel nothæfar. Pældi svo ekki meira í því og hef ekki pælt í því síðan. Það er auðvelt að hugsa ekki um það sem ekki er til staðar.

Nema hvað... þar til í morgun. Vá, hvað þetta er fáránlega vont. Þetta kom alveg af fullu blasti, engin linkind. Fór beint undir heita bunu með hendurnar og svo í langa og heita sturtu. Varð starfhæf á ný, en samt illt.

Það sem helst liggur undir grun sem orsök nú eru lummurnar. Ég veit ekki nóg til að geta dregið vísindalega ályktun hér, en ég skal deila því sem ég er að hugsa. Ég hef lesið um það, á GAPS, að sumir, sem eru „langt leiddir“ geti aldrei borðað „bakaðar vörur“, svo lengi sem þeir lifa. Ég man hve mér rann kalt vatn á milli skinns og hörunds þegar ég las þetta fyrst. Þetta fór beint í afneitunarhólfið í heilanum. En svo er ég búin að lesa þetta of oft síðan til að geta látið sem ég hafi aldrei heyrt af þessum möguleika. Sumir hafa þó skrifað að þetta ástand vari bara lengi, en ekki endilega ævilangt. Þau segja að maður / kona eigi að halda sig frá bökuðum vörum í bataferlinu ef maður / kona verður var / vör við einkenni. Í vetur, þegar við vorum á fullu GAPS-fæði, var ég alveg búin að ná því að bakaðar vörur, brauðið og kökurnar, voru ekki að gera góða hluti fyrir mig. Það var því almennt ekki hluti af minni daglegu fæðu og ég saknaði þess ekkert óbærilega. Nú er ég búin að prófa lummur þrisvar, á þessu inngangsfæði. Í öll skiptin hef ég, eftir u.þ.b. 30 mínútur frá neyslu, fengið óbærilega sára magakrampa. Frekar óæskilegt form á hægðum í kjölfarið. Í gær borðaði ég heilar 3, sem er ekki alveg samkvæmt bókinni (það á að byrja hægt) og því er kannski ekki svo skrítið að álykta að lummurnar beri ábyrgð á liðverkjunum í morgun. Punkta þetta allavega hjá mér, held mig frá bökunarvörum á næstunni, skvetti í mig hörfræolíu og sé hvernig fram horfir.

Get heldur ekki litið fram hjá gulrótarsafanum sem einnig kom nýr inn í fæðið í gær. Hann hefur jú þá þekktu virkni að vera afeitrandi. Þetta gætu verið die off verkir í liðunum. Hver veit.

Og þá að pælingum um dóttur mína. Ég er að velta fyrir mér skapinu. Í gær var í henni þessi leiðinlegi óróleiki sem slær mann alltaf út af laginu. Líka mikil neikvæðni og hreinlega bara fýla. Samt segist hún fíla Noreg og vill ólm flytja hingað. Þolir ekki systur sína og er með hundshaus yfir öllu. Mjög þreytandi og reynir á mitt skap líka.

Óróleikinn var sem betur fer ekki til staðar í dag, en fýlan var viðvarandi framan af degi. Sem betur fer náði hún að hrista hana af sér um það leyti sem við fórum á útstáelsi. Nema hvað; ég vildi bara segja að ég velti því fyrir mér hvort egg, gulrótarsafi, Omega-olían eða annað nýlegt í fæðunni geti valdið þessu.

Ég þarf að fara að drífa mig í annað, þannig að ég fer að reyna að ljúka þessari löngu færslu. Nýjung dagsins í dag fyrir dóttur mína var linsoðið egg. Hún er búin að fá eggjarauðu út í kjötsoð og egg í lummu, en nú linsoðið. Bara eitt samt.

Engar hægðir í dag, en vonandi koma þær sjálfkrafa á morgun. Exemið er orðið mjög slæmt, svona nokkurn veginn að ná því sem það var verst þarna um daginn. Hún fúlsar við venjulegu kremi, finnst það bara gagnslaust - plat. Held að við prófum stera aftur á morgun, þar til við komumst heim.

Matseðillinn

Morgunmatur: Nautahakkskássurest + linsoðið egg fyrir barnið

Hádegismatur: Kjúklingaleggir og soðið grænmeti

Síðdegisnesti: Kjötbollur (frá því í fyrradag) og lummur (frá því í gær)

Kvöldmatur: „Steikt“ kjöthakk (á pönnu) með soðnum gulrótum, papriku og kúrbít. Lárperumauk með.

Kjötsoð: Kjúklingabeinasoð

Ekkert bað, bara sturta í morgun.

Sunday, July 18, 2010

Enn einn dagur...

Vá, ég ætlaði sko að blogga svo mikið í kvöld.

Fullt af hlutum sem ég ætlaði að fara í sem ég hef ekki gefið nógan gaum undanfarið, eða fjallað um á óskýran hátt. En svo er klukkan bara orðin svo MARGT. Og ég svo þreytt.

VERÐ að fara að lúra.

Mjög stutt: Hægðir fremur góðar, skap dóttur minnar með verra móti, útbrotin sækja þétt á.

Matseðill

Morgunhressing: Um 1/3 glas af nýpressuðum og vel síuðum gulrótarsafa, þynnt með smá vatni

Morgunverður: Nautahakkskássa

Hádegisverður: Nautahakkskássa og möndlusmjörslummur (= möndlusmjör, egg, kúrbítur, dýrafita)

Kvöldverður: Nautahakkskássa

Soð: Kjúllabeinasoð

Engin böð

Og lummur eru ekki góðar fréttir fyrir mig... held mig frá slíku á næstunni.

Saturday, July 17, 2010

Dagur 39 + 1 árs afmæli + einbeittur brotavilji...

Jæja, loksins eitthvað að gerast.

Sko.

Í dag er ár síðan við byrjuðum á GAPS. Mikið hefur gerst á þessu ári.

Í dag ákvað ég jafnframt að segja formlegum inngangi lokið, allavega að sinni. Ekkert að detta í pizzu og kók, sko, ef það er það sem einhverjum dettur í hug. Bara að víkja aðeins frá hinu stífa plani.

Í stuttu máli erum við ca á stigi 3 eða 4, en vegna aðstæðna eru frávikin og undantekningarnar svo mörg / margar að það er varla hægt að tala um stig.

Hafandi rætt við mér reyndara fólk og kynnt mér málin er stefnan í grófum dráttum að aðlaga mataræðið að þörfum okkar hér og nú, upp að skynsamlegu marki, það er að segja. Ekkert sjokk-treatment neitt. Sé svo til þegar ég kem aftur heim að hve miklu leyti ég endurmet stöðuna á nýjan leik þá.

Matseðillinn

Morgunmatur: Kjúklingahakkskássa

Hádegismatur: Kjúklingaleggir

Síðdegisverður: Lax og kúrbítsgrænmetisblanda frá því í gær

Kvöldverður: Kjúklinga- og nautahakksbollur með brokkólí, basilíku, lauk og hvítlauk. Soðnar gulrætur og paprikur með. Einnig gulur kúrbítur, hægsteiktur upp úr andafeiti með sjávarsalti (spari!).

Annað: Fengum báðar hörfræolíu og súrkálssafa

Ég smakkaði líka dropa af möndlumjólk yngra barnsins og nokkrar litlar flísar af möndlubrauðinu.

Kjötsoð dagsins: Kjúklingabeinasoð

Friday, July 16, 2010

Dagur 38

Barnapían farin. Dóttir mín dálítið stúrin í dag, e.t.v. vegna skilnaðarins við barnfóstruna heitt elskuðu. Annars áttum við ágætan dag, lungann úr deginum skein sólin glatt og við létum fara vel um okkur á svölunum. Hömstruðum D-vítamín - þær stuttu tættu sig úr hverri spjör. Eldri dóttir mín prófaði, af eigin frumkvæði, að liggja í sólstól eins og ég. Eftir nokkrar mínútur fór henni að þykja það óbærilega leiðinlegt og spurði hvort það væri skilyrði að liggja kyrr. Ég sagði svo ekki vera. Þá ákvað hún að dansa í sínu sólbaði... sem hún og gerði, listilega eins og henni einni er lagið.

Ég fann 10 l fötu í kjallaranum, fyllti hana af volgu vatni og hellti matarsóta út í. Matarsóta fann ég loks í stóru búðinni sem ég fór í á miðvikudagskvöldið - eftir að hafa leitað að matarsóta út um allt síðan ég kom. Þessi matarsóti var samt bara eitt lítið bréf, frá Santa María. En allavega, dætur mínar fengu matarsótafótabað og höfðu gaman af (ég stakk líka 1 1/2 fæti ofan í).

Annars fór bara dagurinn í trampólínhopp og eitt og annað skemmtilegt, m.a. smá sjónvarpsgláp inni við þegar sólin var ekki sjáanleg og jóga og fleira. Nú er ég opinberlega komin í sumarfrí og atvinnuleitin verður í 2. sæti.

Leiðinlegu fréttirnar eru að hægðir dóttur minnar fóru versnandi er leið á daginn, sem kann að stafa af egginu. Kann líka að stafa af svíninu sem við fengum í hádeginu. Það fór ekki vel í mig. Ég fann ekkert sykurbragð, en geitungarnir voru óðir í það. Þeir hunsuðu allt annað, þar með talið hunangið sem ég fór með út í skál, gagngert til að laða þá að (svo að ég gæti svo lymskulega fært skálina fjær og þá þar með...). Þannig að ég veit ekki hvað skal halda. Er lenska hér að sprauta svínaket með sykri?

Matseðillinn

Morgunmatur: Kássa (hakk + grunsamlega grænmetið frá því í gær = mjög gott saman!)

Miðdegisverður: Ofnsoðnar, úrbeinaðar svínakótilettur með rifnum kúrbít, gulrót, lauk, hvítlauk, blómkáli og eplaediki + lárperumauk.

Kvöldverður: Nautahakkskássa með ferskri salvíu (mjög gott!) - maukuð fyrir barnið en ómaukuð fyrir mig.

Kjötsoð: Kjúklingasoð

Bað dagsins: Matarsótafótabað

Thursday, July 15, 2010

Dagur 37

Byrjum á kjúklingnum. Þegar ég keypti leggina í massavís í gær, þá keypti ég líka eitthvað sem ekki voru leggir, ég held að það hafi verið kjöt af leggjum sem búið var að flá af... eða eitthvað þannig. Er samt ekki alveg viss. Það var í svipuðum pakkningum, ívið dýrara en líka á tilboði enda á síðasta neysludegi. Þannig að ég keypti það og byrjaði að elda það í hádegismat. Þ.e.a.s. ég tók það úr kæli og byrjaði að skera grænmeti en barnapían tók svo við að elda. Hún er með kvef og alveg stíflað nef (ég held að það sé af því að hún sefur í myglaða kjallaranum, en það er önnur saga). Allavega. Þegar ég settist við matarborðið sló fyrir vit mér fiskilykt. Ekkert eitthvað hræðilegri og úldinni, bara fiskilykt. Svona eins og ýsan frá því í gær eða eitthvað. Ég hafði orð á því og hnusaði í kringum mig, en enginn annar sagði neitt. Barnfóstran var langt komin með sinn mat, eldri dóttir mín einnig og sú minnsta er hvort eð er mesti matvendnisgikkur þessa dagana og vildi ekki kjötið. Þannig að ég fékk mér skammt og fannst hann strax eitthvað óvenjulegur á bragðið. Ekkert svona sláandi stækur... bara ekki góður. Tók nokkra bita úr eldfasta mótinu og þefaði... sumir virtust alveg eðlilegir... aðrir svolítið eins og fiskur. Barnapían finnur ekkert bragð vegna kvefsins og var ekki alveg í rónni þegar ég fór að grufla í matnum. En það endaði með því að ég tók kjúllann úr umferð. Þetta var eitthvað ekki í lagi.

Engum varð þó meint af, allavega ekki merkjanlega. Allar borðuðum við eitthvað smá og engin okkar hefur fengið í magann.

Ég var og er í smá vafa um grænmetið sem var með kjúllanum. Það var í sama eldfasta móti og allt löðrandi í hlaupinu úr kjúklingnum. Tímdi varla að henda því, í ljósi þess hvað matur kostar hér. Geymdi það fram á kvöld, hef grandskoðað það, þefað, hnusað og rótað... ákvað að geyma það til morguns. Það er engin fiskilykt af því. Nota það kannski í kássu? Ábendingar / viðvaranir samt vel þegnar.

Annars sló maturinn í dag í gegn. Kjúklingaleggirnir í morgun voru algert hit. Og grænmetið með kvöldmatnum var svo gott að báðar dætur mínar, sem alla jafna setja upp skeifur og hundshausa og vælutón og leiðindi þegar kemur að soðna grænmetinu (barátta hvern dag) báðu báðar um meira auk þess sem hún eldri átti vart orð til að lýsa því hvað þetta var ljúffengt.

Svona var grænmetið:

  • 1 skrældur rifinn kúrbítur
  • 1 fínt skorinn laukur
  • 2 smátt rifin hvítlauksrif
  • (ofangreindu blandað saman)
  • 1 blómkálshaus, hnausarnir brotnir af og raðað ofan á blönduna
  • Smá skvetta af eplaediki yfir allt saman
  • Álpappír ofan á og inn í ofn við 200°c í um klst.

Þar sem þær hata eldað blómkál en það lá bara ofan á leyfði ég þeim að tína hnausana frá og þá vakti þetta semsagt þvílíka lukku.

Ég er annars sísvöng og alltaf með craving. Held að þetta sé ekki í lagi núorðið. Sumar upplýsingar benda reyndar til þess að það sé það, að meinvirku örverurnar séu í dauðateygjunum að sleppa endalausum eiturefnum út í kerfið mitt sem gera mig svona slappa, sljóa og svaaaaanga... En ég er hvorki viss um að þetta sé í lagi, né um að ég vilji hafa þetta svona. Ég meina, það er dagur 37 og 2 dagar í ársafmæli á GAPS. Ég á ekki við að þetta sé óeðlilegt, bara ekki ásættanlegt. Þarf að skoða þetta betur og finna út hvað ég ætla að gera í þessu.

Hægðir dóttur minnar voru frekar linar í morgun, en samt myndi ég segja eðlilegar. Útbrotin eru hins vegar óðum að ná sér á strik eftir sterabælinguna. Hún er farin að klóra sér talsvert, en þó ekkert enn á við það sem var.

Nýjungar dagsins:

Ég fékk mér eina teskeið af hörfræolíu.

Dóttir mín fékk eina hráa eggjarauðu út í kjötsoðið í morgun.

Matseðillinn góði

Morgunmatur: Ofnsoðnir kjúllaleggir (og soðið grænmeti fyrir mig, nennti ekki að pína það í börnin að þessu sinni)

Hádegismatur: Ofnsoðinn fiskikjúlli með grænmeti

Kvöldmatur: Ofnsoðinn lax með rifnum kúrbít, lauk, hvítlauk og blómkáli

Kjötsoð dagsins: Síðustu dropar sauðasoðs framan af og kjúllasoð seinnipartinn

Hef verið dálítið of lin við að koma soðinu í dóttur mína. Verð að taka mig á.

Barnapían fer í fyrramálið. I'll be on my own... :-o

Wednesday, July 14, 2010

Dagur 37

Í kvöld gerði ég loksins nokkuð skynsamlegt.

Hingað til hef ég svo til hvern dag rogast heim með mat. Húsið sem við dveljum í er uppi í hæðunum, efst í Osló. Frá jarðlestarstöðinni og hingað upp er, skv. netinu (og hver vill rengja það) 12 mínútna gangur - allt upp í móti (smá jafnslétta um miðbik leiðarinnar reyndar). Það er ekkert annað en hundleiðinlegt að rogast þessa leið með poka dag hvern. Búðir hverfisins eru viðlíka langt í burtu og jarðlestarstöðin og þær leiðir jafn brattar.

Annar galli við þetta rogast-með-mat-daglega fyrirkomulag er að það er dýrt. Ódýrustu búðirnar eru ekki alltaf í leiðinni, það borgar sig ekki alltaf (tíma-, orku-, fyrirhafnar- og jafnvel fjárhagslega séð) að taka krókinn í næstu ,,ódýru" búð. Til dæmis eru búðirnar í hverfinu báðar mjög dýrar og ekki alltaf sem ég hef haft ráðrúm til að taka jarðlestina í næstu skaplegs-verðs-búð. Matarkostnaður hefur því verið ansi hár á hverjum degi eins og ég var að tala um um daginn.

Þannig að, eins og ég segi, ég gerði nokkuð skynsamlegt í kvöld. Ég fór í ódýran stórmarkað. Til þess að svo mætti vera þurfti ég að fá lánaðan bíl sem tilheyrir vinnu mannsins sem leigir íbúðina sem ég dvel í núna. Ég verslaði fyrir... (haldið ykkur fast):

44.815.- ISK

Deilt niður á þá 11 daga sem við eigum eftir að vera hér gerir það ríflega 4.000.- kall á dag. En það er ekki dýrara - og jafnvel heldur ódýrara, en ef ég hefði haldið áfram að fylla bakpokann minn og rogast með níðþunga poka dag hvern.

Allt sem tengist matarkostnaði hér eru svo háar tölur. Mig svimar og sundlar og ég fæ í magann... en ég kann engin ráð sem stendur. Önnur en að spýta í lófana og herða enn á atvinnuleitinni.

Og fyrst ég er að kvabba um þetta þá vil ég láta þess getið að við fengum rausnarlegan fjárstyrk frá velviljuðum aðila í fjölskyldunni í síðustu viku. Hann er uppurinn nú, en að sjálfsögðu munaði verulega um hann.

Svo vona ég bara að VISA-kortið mitt fái núna að hvíla sig, allavega fram á næsta tímabil (5 dagar). Það er víst engin leið að flytja ókeypis á milli landa, sérstaklega ekki þegar í brottfararlandinu ríkir kreppa.

Eitt enn um matarinnkaup / búðarferðina: Ég fann loks langþráða kjúklingaleggi. Langþráða því a) þeir eru svo einfaldir í framreiðslu, bara henda í form, álpappír yfir og inn í ofn
b) beinin úr þeim eru frábær uppistaða í kjötsoð
c) börnin elska þá
d) það er ekki bara mögulegt heldur hreint og beint tilvalið að pakka þeim sem nesti og fara hvert sem er...

Þeir voru á tilboði og kostuðu þannig svipað og þeir gera í Bónus, sem er virkilega í frásögur færandi því annað er flest miklu dýrara hér en heima. En sá galli var á gjöf Njarðar að síðasti neysludagur var Í DAG... þannig að megnið af þeim fór beint í frysti en lítill skammtur bíður þess að verða hitaður í fyrramálið.

Annar galli var að ég er ekki viss um að þeir séu lausir við sykursprautun eða eitthvað álíka. Það stóð ekkert þannig á pakkningunum og fólk sem ég hef rætt við virðist standa í þeirri trú að það tíðkist ekki í Noregi, en ég get náttúrlega trauðla vitað það fyrir víst...

Hvað um það, ég reyni bara að einblína á björtu hliðarnar og hlakka virkilega til að segja dætrum mínum frá þessum happafundi, þær hafa suðað svo um blessaða leggina ;-)

Yfir í annað:

Ég borðaði enga lárperu í dag en fékk mér hins vegar kjötsoð. Maginn er skárri (ekki = góður enn). Andinn þjakaðari en nokkru sinni fyrr.

Í gær var fyrsti sterakremslausi dagurinn í viku fyrir dóttur mína og í dag var exemið farið að vera svolítið áberandi á ný - húðin á handleggjunum var byrjuð að bólgna upp og litlar bólur farnar að skjóta upp kollinum mjög þétt. Þá er bara að sjá hvort við getum haldið þessu í einhverjum skefjum þar til hún kemst heim.

Matseðillinn

Morgunmatur: Kássa

Hádegismatur: Kjötbollur (svipaðar og síðast)

Kvöldmatur: Kjötbollur og ég svældi líka í mig smá af ýsurest (fæ alltaf heifarlegan sviða í varirnar af ýsu, gafst á endanum upp, áður en ég var búin með allt).

Soð dagsins: Nýtt nýsjálenskt sauðasoð (fann beinin 3 sem ég setti í frysti af síðasta skammti)

Engin böð önnur en sturta

Tuesday, July 13, 2010

Dagur 36

Ókey, er ekki kominn tími til að vera svolítið skipuleg, líta um öxl, draga saman og svona? Ég er reyndar hrikalega syfjuð núna, þannig að e.t.v. verður einhver express bragur á þessu.

Allt var í svipuðu horfi í dag og í gær. Gráa hakkið bragðaðist sæmilega, hvorki undurvel né -illa. Keypti annað kíló af því í dag, munar um minna.

Nú langar mig að taka aðeins saman. Þetta er það sem er í boði fyrir mig að borða / drekka:
  • Kjötsoð (stig 1)
  • Kjöt-, fisk- eða grænmetissúpur (okkur leiðast súpur, þess vegna eru þær aldrei á matseðlinum...) (stig 1)
  • Soðið kjöt / fiskur (stig 1)
  • Soðið grænmeti (stig 1)
  • Engiferte (stig 1)
  • Kjöt- og grænmetiskássa (með smá ferskum kryddjurtum) (stig 2)
  • Lárpera (stig 3)
  • Súrkálssafi (stig 3)
  • Eldaður laukur (stig 3)
Eftir sykurssvínsóhappið er ég orðin nokkuð klár á því að bæði egg og ghee fara illa í órólega magann minn. Gruna lárperur líka... sleppi þeim á morgun.

Var ég líka búin að nefna hvað ég koksa alltaf eftir máltíðar þessa dagana? Betaine HCl myndi hjálpa hvað þetta varðar, en ég skildi það eftir heima og þori ekki einu sinni að gá hvað það kostar hér...

Þetta er það sem er í boði fyrir barnið:

  • Kjötsoð (stig 1)
  • Kjöt-, fisk- eða grænmetissúpur (okkur leiðast súpur, þess vegna eru þær aldrei á matseðlinum...) (stig 1)
  • Soðið kjöt / fiskur (stig 1)
  • Soðið grænmeti (stig 1)
  • Engiferte (stig 1)
  • Kjöt- og grænmetiskássa (með smá ferskum kryddjurtum) (stig 2)
  • Eldaður laukur (stig 3)
Hún fékk að prófa lárperu aftur í dag, nú bíð ég spennt eftir niðurstöðunum.

Ég verð að viðurkenna að ég er svolítið strand. Framfarir hafa ekki verið sem skildi og ég held að þetta flandur á okkur hafi sett aðeins of mikið strik í reikninginn. Viðkvæmu litlu kerfin okkar eru að kljást við alls kyns andlegt og líkamlegt áreiti sem er þeim framandi, þannig að það er ekki nema eðlilegt að það setji strik í inngangsreikninginn og geri af verkum að það hægi á árangrinum.

Ég er aðeins að velta því fyrir mér hvaða afstöðu ég á að taka hér og nú. Halda áfram á inngangi eins og ekkert hafi í skorist? Best væri að bakka alveg á stig 1 en ég treysti mér ekki til þess í þessu nautahakksríki. Flýta stigum, ss. bæta fleiru inn (fyrr) og bakka svo e.t.v. þegar heim er komið? Eða svissa strax út af inngangi og inn í sætuefna- og hnetulaust GAPS? Með sætuefnum er m.a. átt við hungang og fleira. Ég á erfitt með að átta mig.

Ég er virkilega þjökuð af sætindaþörf - var það aldrei heima. Ég veit að þetta er ,,die off"- ég veit bara ekki af hverju það er svona svæsið núna. Veit ekki hvort ég nenni að díla við það, ofan á allt annað.

Eiginlega hef ég ekki nógan tíma heldur til að lesa mér til um þetta. Litlu krílin mín þurfa - og eiga að fá - mikla athygli. Þetta er jú fríið þeirra líka. Ég hef ekki verið nógu dugleg að gefa þeim af tíma mínum, enda atvinnuleit efst á forgangslistanum núna. En barnapían fer í lok vikunnar og þá reikna ég með að helga þeim megnið af mínum tíma (það er að segja, þeim og eldamennskunni endalausu).

Matseðillinn

Morgunmatur: Kássa (maukuð fyrir hana, ómaukuð fyrir mig)

Hádegismatur: Kássa (maukuð fyrir hana, ómaukuð fyrir mig - ég snæddi mína með puttunum (!) á jarðlestarstöðinni við Þjóðleikhúsið af því að ég hafði gleymt að taka með gaffal og ég var mjög svöng!)

Síðdegisverður (bara hún): Maukuð kássa

Kvöldmatur: Ofnsoðin íslensk ýsa (sem við fengum gefins) með sjávarsalti, pipar og ferskri basiliku. Meðlæti: Soðin gul paprika, laukur og kúrbítur ásamt með lárperumauki.

Ekkert soð í dag. Fyrsti dagurinn á inngangi án soðs - þetta á ekki að gerast!

Ekkert bað heldur.




Monday, July 12, 2010

Dagur 35

5 vikur. Þar af hefur sú síðasta verið sú langsamlega erfiðasta, stormasamasta og ómarkvissasta af öllu þessu brasi.

En í dag horfði allt til betri vegar.

Númer eitt, tvö og þrjú: Heilsan var betri. Bæði barnsins og mín, andleg og líkamleg.

Fjöllum aðeins um barnið fyrst:

Hún var sæmilega stemmd í allan dag. Reyndar var ég bara með henni til kl. 14.00 og svo í örstutt augnablik síðdegis. Á þessum tíma myndi ég segja að hún hafi verið nokkuð róleg og jöfn, kannski ívið viðkvæmari en hún er vön, stutt í tárin. Samt allt önnur en í gær. Ég reyndi að pumpa barnapíuna um ástandið á henni þegar ég var ekki til staðar og hún sagði bara að hún hefði verið ágætlega stemmd. Hún hefur alveg séð hana í vondum ham, þannig að hún ætti að vera dómbær.

Dóttir mín kúkaði ekki fyrr en eftir að ég var farin og samkvæmt barnapíunni voru hægðirnar með betra móti, mér gekk reyndar ekki alveg nógu vel að fá hjá henni smáatriðin... fólk á víst misauðvelt með að lýsa hægðum...

Hvað mig varðar þá var maginn á mér líka til mikilla muna betri í dag. Þó er nokkur fyrirferð í honum núna, eftir að ég fékk mér síðbúin kvöldverð. Ekkert á við í gær, samt.

Það skal tekið fram að ég fór mjög varlega og var ekki með neitt sérstaklega krassandi á matseðlinum. Þó játa ég á mig þá fáheyrðu nýungagirni að hafa látið undan einhverri fjölbreytnifíkn í mér og búið til kjötbollur sem ég hef ekki gert áður á innganginum. Gætti þess þó að hafa þær mjög inngangsvænar. Myndi segja svona stig 3... Allavega; hér er uppskriftin (ef ég skrifa ekki uppskriftir niður strax þá gleymi ég þeim, þessi er eftir besta minni frá því í dag...) :

800 grömm nautahakk
1 meðalpenn brokkólíhaus
1 venjulegur laukur
2 hvítlauksrif
1 lítill viskur af graslauk
Sjávarsalt
Svartur pipar

Aðferð
  1. Sauð spergilkálið og laukinn í potti í smástund.
  2. Sturtaði öllu saman í skál, soðna grænmetinu, hvítlauknum, graslauknum, saltinu og piparnum.
  3. Maukaði allt með töfrasprotanum mínum. Mæli ekki með því, hefði notað matvinnsluvél ef ég hefði haft eina slíka við hendina. Töfrasprotinn bræddi nærri því úr sér...
  4. Mótaði litlar bollur með höndunum.
  5. Eldaði á tvo vegu:
a) setti fyrstu bollurnar í eldfast form, álpappír yfir og bakaði / sauð í eigin vökva við 200°c (ath. ekkert sem soðið er á þennan hátt á inngangi má vera of lengi í ofninum, þá fer það að brúnast, þrátt fyrir álpappírinn)
b) setti restina ofan í sjóðandi vatn og sauð ekkert svo lengi, kannski 10 mín. eða kortér.

Þetta varð bara ljómandi. Inngangshetjan mín spændi þetta í sig.

Númer 4: Fjárhagurinn.

Matarkostnaður var áfram hár í dag. Verslaði í morgun í verslun sem heitir Kiwi og á að heita ódýr. Alls um 8.000 kr. ísl. fyrir hakk, lax, grænmeti og vatn - og múslí og haframjöl fyrir barnapíuna.

Fann svo síðdegis loks Rema 1000 búð - en það er keðja sem ég verslaði grimmt í þegar ég bjó hér í gamla daga, enda voru þetta ódýrustu búðirnar þá. Í Rema reyndist hakkið til mikilla muna ódýrara... en reyndar líka ólystugara. Það var grátt á litinn. Ég hugsaði samt með mér að það væri vel hugsanlega náttúrulegri litur sem jafnframt benti til minni aukaefna en þessi fagurrauði og keypti það því ótrauð. Kílóverðið á því sem ég kaupi venjulega er svona 1.700.- til 2.000.- ISK, en gráa hakkið kostaði 1.200.- Það kemur í ljós á morgun hvort það er yfir höfuð ætt, þó að ég muni náttúrlega aldrei fá að vita hvað raunverulega er eða er ekki í því...

Matseðillinn

Morgunmatur minn: Fáeinar skeiðar af kássu og 2 egg
Morgunmatur barnsins: Öll kássan sem eftir var

Hádegismatur okkar beggja: Kjötbollur og soðin paprika og gulrætur (og lárperur fyrir mig)

Síðdegisverður okkar beggja: Restin af kjötbollunum og fjölbreyttari blanda af soðnu grænmeti (þ.m.t. laukur)

Aukasíðdegisverður barnsins: Kássa

Kvöldmatur: Ofnsoðinn lax með soðnum gulrótum og rauðum paprikum

Engin böð

Kjötsoð: Restin af nýsjálenska sauðasoðinu

Sunday, July 11, 2010

Dagur 34

Vá, maginn á mér er í henglum. Veit ekkert hvað ég á að gera. Ef ég væri heima myndi ég

a) fá mér meira kjötsoð, alveg upp í 6 - 10 bolla á dag
b) trappa niður á stig 1, bara ofnsoðinn kjúlla (eða annað kjöt / fisk) og grænmeti fyrir mig takk...

Ef ekki myndi skána fljótt myndi ég e.t.v. bæta við stólpípu.

... en ég er hér. Í rándýra útlandinu. Fjarri aukaefnalausum Ali-kjúklingi, heildsölukjötinu og grænmeti á viðráðanlegu verði. Ég hélt ALDREI að þetta yrði svona erfitt!!!

Maginn minn er svo gersamlega á hvolfi. Í morgun sveið mig í magann - áður en ég fékk mér morgunmat. Afsakið upplýsingarnar en ég hef líka verið með ærlegan niðurgang. Endalaust RUMBLING. Og allhressan vindgang. Það er ekki eins og ég geti leitt þetta hjá mér neitt...

Dóttir mín átti einnig afar slæman dag í dag. Hún var strax með linar og losaralegar hægðir í gærkvöldi. Þær héldu áfram í dag. Framan af degi var hún sæmilega stemmd. Veðrið var þokkalegt í morgun og þær léku sér úti. Svo fór hún að verða sífellt argari við litlu systur sína uns hún var seinni partinn farin að öskra á hana af minnsta tilefni. Hún var eirðarlaus, með kjánastæla og kjánahláturinn skemmtilega, gat ekki setið kyrr, kom með dónaleg og fjandsamleg komment upp úr þurru og svo mætti lengi telja. Í raun bara stór afturför. Óþægilega svipuð hegðun og fyrir GAPS.

Svona hegðun hefur af og til skotið upp kollinum eftir að við byrjuðum á GAPS. En þó ekki neitt í líkingu við það sem áður var, þegar oft var hreinlega ekki hægt að ná sambandi við hana og hún var gersamlega snælduóð.

Þannig að ég bauð henni í prívatgöngutúr með mér, bara ég og hún, núna síðdegis. Fórum út í búð, sem auðvitað var lokuð því allt er lokað í Norge á heilögum hvíldardegi ;-)

Fórum í gegnum skóginn. Skoðuðum snigla og töluðum saman. Sáum meira að segja íkorna með ungann sinn í fanginu. Algert krútt.

En stýrið mitt var áfram stúrið. Hafði allt á hornum sér. Hafði óbærilegan hlaupasting. Var heitt, var kalt, var blaut á tánum... (24 gráðu hiti og mikill raki - rigning yfir miðjan daginn), var þreytt, nennti ekki að labba, fannst langt í búðina...

Svo þegar heim var komið var henni boðið að eiga myndsamtal við föður sinn á Skype. Það fór ekki vel, hún var á iði, fiktandi í tölvunni, blokkandi myndavélina, truflandi systur sína og þegar ég kallaði hana til mín til að ræða við hana snappaði hún. Ég fór með hana í ,,einvist" sem er refsing sem fátítt er að þurfi að grípa til núorðið. Allavega sú fyrsta í þessari ferð og eflaust sú fyrsta á Inngangsferlinu og þótt lengra aftur í tímann væri litið.

Það tók hana drjúga stund að róa sig í einvistinni. Hún öskraði úr sér lungun.

Hún var lystarlaus í kvöldmatnum en fékk svo ákafan magaverk, kveinaði og stundi og kvaðst þurfa að gubba. Hékk um stund á vaskbrúninni með eymdarsvip (systir hennar var að nota klósettið).

Þannig að:

a) Ofnbakaðar andabringur
b) Lárperumauk og
c) Hydrocortisone

liggja undir grun.

Í ofanálag erum við aftur orðin matarlaus. Það sem eftir er af 22.000 króna kaupunum eru fáein epli og appelsínur og bananar (fyrir yngra barnið og barnapíuna), 5 lárperur, ca 3 lítrar af vatni (við keyptum 8) og 12 egg. Smá kássa - ætti að duga í morgunmat. Jú svo keypti ég líka baneitraðar þvottavélartöflur í búðinni (ekkert annað í boði).

Matseðill dagsins

Morgunmatur minn: 2 linsoðin egg og grænmeti
Morgunmatur barnsins: Maukuð kássa

Síðbúinn morgunmatur barnsins (við vöknuðum svo snemma): Maukuð kássa
Síðbúinn morgunmatur minn: 1 linsoðið egg og grænmeti

Hádegismatur: Ofnsoðið lífrænt nautakjöt með gulrótum og papriku fyrir alla, blómkáli með gheei og lárperumauki fyrir mig og litlu systur

Síðdegisverður: Kássa (maukuð fyrir hana, ómaukuð fyrir mig)

Kvöldmatur minn: 2 linsoðin egg, smá kássa og smá eggjahræra með kássublandi og andafeiti
Kvöldmatur barnsins: Maukuð kássa (borðaði lítið)

Engin böð.

Soð: Sauðasoðið áfram.

Svona eftir þennan dag er ég ekki mjög upplitsdjörf. Heilsan mín... heilsan hennar... fjárhagurinn... það er eins og þetta sé allt að fara úr böndunum...

Saturday, July 10, 2010

Dagur 33

Vitið þið hvað?

Ég er alvarlega að íhuga að taka U-beygju út af innganginum. Ja hérna hér. Á dauða mínum átti ég von... en varla að ég myndi játa mig sigraða svo snarlega...

... en þó ekki endilega snarlega.

Fyrirhöfnin er brjálæðisleg og vegna aðstæðna og þess hráefnis sem ég er að finna hér er hún enn meiri en heima. Var ég ekki örugglega líka búin að nefna það hvað ég er enn, á köflum, orkulaus, dofin í hausnum, úthaldslaus og slöpp? Að ekki sé minnst á kostnaðinn sem er alveg að sliga mig. Að þurfa að kaupa ferskt og aukaefnalaust kjöt og grænmeti í stórum stíl (við erum alltaf svangar) er alveg að fara með fjárhaginn, sem ekki var nú svosem neitt góðæris- fyrir. Að meðaltali hefur maturinn okkar hér úti, undanfarna viku, kostað á milli 6000 og 7000 ISK á dag. Á DAG!!!

Það gerir um 210.000.- á mánuði. Glætan að ég hafi efni á þessu rugli! Það er ekki eins og ég sé að kaupa neina handplokkaða franska snigla eða sérveiddar mörgæsir frá suðurskautslandinu - aðallega bara hakkið sem virðist hvað hreinast hverju sinni og smá kjúlla. Brokkólí, papriku, kúrbít, blómkál og gulrætur. Jú og svo smá lauk. Egg og avókadó. Og drykkjarvatn, þar sem hreint vatn er mikilvægt á GAPS. Ég kemst bara ekki hjá því að hugsa með mér að það væri e.t.v. ódýrara ef ég gæti bætt fleiru við, t.d. möndlum, fræjum og slíkum afurðum, e.t.v. ávöxtum og svona. Allt er þetta reyndar fáránlega dýrt hérna en fyrirhöfnin væri kannski minni. Ég er enn að nota hnetur og möndlur sem ég kom með að heiman til að gera möndlumjólk og brauð fyrir yngra barnið mitt. En kannski er ég bara að gefast upp og leita að átyllum.

Ég viðurkenni að í þetta ár (bráðum) sem ég hef undirgengist GAPS-meðferð hef ég bara alls ekki verið ósátt við það. Man varla eftir skiptum þar sem ég hef horft öfundaraugum á fólk borða eitt eða annað sem ekki er leyfilegt fyrir mig, andað að mér angan að einhverju fersku eða nýbökuðu sem ég má ekki fá og látið mig dreyma, kvalist af löngun í eitthvað sem ég bara má ekki snerta...

... ég hef bara hreint út sagt verið öfgasátt á GAPS. Alltaf að borða einhverjar krásir og kræsingar, fullt af mat sem okkur finnst góður. Vinnan er reyndar ansi mikil, en vel þess virði. Dóttir mín hefur líka verið hæstánægð á GAPS enda finnur hún á sér mikinn mun og elskar þær kræsingar sem við höfum verið að reiða fram. Ég hef stundum sagt að hún sé heimsins besti kynningarfulltrúi fyrir þetta mataræði.

En núna er þetta einhvern veginn öðruvísi. Kannski af því að ég er aldrei almennilega södd. Fæðan sem snædd er á inngangi er svo auðmeltanleg að fólk borðar oft margfalt meira en það er vant þessar fyrstu vikur. Við mæðgur höfum þannig léttilega hesthúsað um 2 kg af kjöti (saman), til viðbótar við grænmeti og kjötsoð, hvern dag áður en við lögðum af stað í ferðalagið. Jafnvel meira. Merkilegt alveg. Núna er ég hins vegar alltaf að spara, ekki bara pening, heldur líka fyrirhöfn og einhvern veginn verð ég sjálf útundan og er aldrei alveg södd. Það tekur líka svo mikinn tíma að borða og ég er alltaf með stelpurnar (báðar), mikið ein og reyni að nota sem mest af tíma mínum í virka atvinnuleit af öllu mögulegu tagi. Þó að ég fylli stórt nestisbox fyrir sjálfa mig þegar ég fer að heiman, þá verð ég aldrei södd af innihaldi þess.

Þannig að kannski er það út af þessu sem ég er brjálæðislega óhamingjusöm þessa dagana þegar ég labba fram hjá kaffihúsum og veitingastöðum og finn lokkandi matarilm... ef ég hefði verið svona í heilt ár væri ég löngu orðin geðveik og/eða dottin oní pizzu, rjómatertu og lakkrís (tja, bara svona til að taka dæmi...).

Ég er svolítið að spá í BED nálgun á GAPSið... sem er kannski bara rugl. Þess má geta að ég er svöng núna, en ég ef læt það eftir mér að borða þá klára ég nestið sem ég ætlaði mér fyrir morgundaginn og ef ég geri það þá þarf ég að spandera hakki morgundagsins strax og þá þarf ég að kaupa enn meira hakk fyrir mánudaginn... þvílíkt endemis vesen (en dæmigert fyrir þetta daglega ástand).

Þannig að ég gerði það eina skynsamlega í stöðunni í dag. Ég gaf skít í háskólagráðurnar mínar þrjár og sótti um starf í heilsubúð. Ég meina, ef ég vinn í heilsubúð, þá fæ ég allavega afslátt af einhverju af þessu góssi... ekki satt?

Fékk mér sauerkrautsafa og agnarögn af kókosolíu með morgunmatnum. Mjög huguð, semsagt.

Maginn minn er enn mjög furðulegur frá því í fyrradag þegar ég borðaði lummuna og sykursvínið. Hann er bara einhvernveginn endalaust ,,rumbling" - ég finn ekkert viðeigandi íslenskt orð fyrir það. Fyrst var mér líka smá illt, en síðan bara þessi hryllilega fyrirferð sem ég veit ekki hvað skal kalla.

En já, ég gerði fleira skrítið í dag. Fór í búð með dætur mínar í morgun. Valdi sérstaklega dýra búð af því að skv. upplýsingum á heimasíðu fyrirtækisins sem framleiðir lífræna smjörið (það eina sem ég hef fundið hér) átti það (smjörið) að fást þar. En svo reyndist ekki vera. Snuð.

En ég fann samt lífrænt kjöt. Og svo fann ég nokkuð sem ekki var lífrænt en virtist frekar hreint. Hvað veit maður samt (sbr. sykursvínið)...

... í augnabliksveikleika henti ég þessari kjötvöru í kerruna ásamt fleiru. Var samt meðvituð um verðið, ekki nema um 8.000.- (ISK) kílóið, eða um fjórfalt verðið á nautahakkinu góða. Veit ekki hvað kom yfir mig og get ekki skýrt það með öðru en stundarbrjálæði, e.t.v. undir áhrifum frá öllu fjárhags-, heilsu- og tímaálaginu...

Og svo fór ég heim. Síðdegis byrjaði ég að elda. Þegar ég var búin að pakka utan af viðkomandi vöru fattaði ég að til þess að hún fái virkilega að njóta sín er alveg útilokað að ,,ofnsjóða" hana. Eins gæti ég bara keyrt yfir hana. Þannig að nú voru góð ráð dýr... átti ég að skemma rándýru vöruna (með illri eldunarmeðferð) eða stökkva upp um stig á innganginum (upp á stig 4)???

Ég var, nota bene, búin að opna umbúðirnar. Og ég vil meina að við mæðgur höfum bara einfaldlega átt skilið smá dekur. Þannig að við blönduðum stigum dálítið í dag. Sennilega ekki gott fyrir okkur. Mjög linar hægðir hjá dóttur minni í kvöld. En samt... mmmmh....

Matseðillinn

Morgumatur minn: 2 linsoðin egg og soðið grænmeti (1 tsk sauerkrautsafi, 1/2 tsk kókosolía)
Morgunmatur barnsins: Rest af kjúklingi og grænmeti frá því í gær

Hádegismatur minn: 1 linsoðið egg og grænmeti
Hádegismatur barnsins: Nautahakkskássa með lauk

Síðdegisverður: Ofnbakaðar andabringur með lárperumauki og soðnum gulrótum og paprikum

Kvöldmatur: Nautahakkskássa (maukuð fyrir börnin, ómaukuð fyrir mig).

Engin böð (nema sturta)

Kjötsoð: Nýsjálenskt sauðasoð (framhald frá því í gær)

Þess má svo að lokum geta að andabringurnar voru bara tvær, við hefðum farið létt með þrjár eða fjórar. En við vorum allar vel undirbúnar fyrir þessa stund, hlökkuðum mikið til, vorum alveg í rétta hátíðargírnum, komum okkur vel fyrir í sólinni út á verönd og nutum hvers einasta bita...

Friday, July 9, 2010

Dagur 32

Það var sól í Osló í dag. Brakandi blíða. Nóg af D-vítamíni. Nema ég hafði stelpuna í langerma, veit ekki hvernig sól í gegnum hydrocortisonfilmu virkar á kerfið...

Ég er með smá í maganum vegna matar. Er jafnvel að spá í að svissa af inngangi yfir í sætuefnalaust GAPS, sem sumir hafa víst notað í meðferðarskyni með góðum árangri. Veit samt ekki nóg til að geta skipt bara si svona, þannig að við höldum áfram enn um sinn.

Hydrocortison túpan er búin og ég keypti nýja í dag. Stórir hlutar húðarinnar á ljósinu mínu frábæra eru orðnir alveg heilir. Til dæmis er hægri olnbogabótin alveg stráheil. Furðulegt. Úlnliðir og fótleggir gróa hægar og andlitið er svolítið flagnað.

Ég er líka hugsi vegna hússins sem við dveljum í núna. Ekki svo að skilja að ég sé ekki í raun sallafegin að hafa yfir höfuð húsnæði hér á meðan á atvinnuleit stendur. Það er í raun lúxus. En það er ekki í lagi að vera alveg að kafna á hverjum morgni. Ég lofta út allan liðlangan daginn - það hjálpar. Efri hæðin er líka merkjanlega skárri. Svo eru hér fínar svalir sem sólin skín á frá morgni til kvölds, gott að nota þær. Fyrir þá sem ekki vita er útiloft besta ,,lækningin" við einkennum af völdum myglusveppa eða hvers konar húsasóttar.

Morgunmatur minn: Egg og soðið grænmeti
Morgunmatur barnsins: Svínakjötskássa gærdagsins

Hádegismatur barnsins: Nautakjötskássa

Síðdegismatur allra: Ofnsoðnar, ógeðslegar, ólseigar og ólystugar lambakótilettur frá Nýja-Sjálandi (já, það er erfitt að finna út hvað er hægt að kaupa hér og hvar!!!). Meðlæti: Brokkólí, blómkál og nýjung (stig 3): Laukur svissaður í dýrafitu.

Kvöldmatur: Ofnsoðnar kjúklingabringur, brokkólí, blómkál og kúrbítur (ég fékk mér líka lárperu / avókadó).

Engin böð sem heitið geta (á ég virkilega að telja sturtu með...?!)

Kjötsoð: Lambakótilettusoð - pjæ

Thursday, July 8, 2010

Dagur 31

Barnið hagaði sér eins og engill í dag, enda til mikils að vinna - lumma í boði að launum.

Matseðillinn

Morgunmatur minn: Linsoðin egg, soðið grænmeti og ofnsoðinn kjúklingur með grænmeti
Morgunmatur barnsins: Ofnsoðinn kjúklingur með grænmeti

Hádegisverður minn: Ofnsoðinn kjúklingur með grænmeti
Hádegis- og síðdegisverður barnsins: Svínahakkskássa

Kvöldverður: Ofnsoðinn lax með fersku dilli, soðnar gulrætur og blómkál með (ég fékk mér líka lárperu).

Kvöldverðurinn var mjög, mjög góður. Ég hef samt enga tryggingu fyrir því að laxinn hafi verið alveg hreinn.

Eftirréttur: 2 langþráðar möndlusmjörslummur fyrir barnið. Ein fyrir mig. Hún var ekki góð. Henti restinni af henni. Held að ferðalagið hafi ekki farið vel með þetta deig. Geri nýtt við tækifæri.

Kjötsoð dagsins: Mjög frumstætt kjúklingasoð... lítið krassandi.

Engin böð.

Maginn á mér er búinn að vera með uppsteit í allt kvöld, það byrjaði út af lummunni.

Svo var ég að fara að gera nesti fyrir morgundaginn og það er eiginlega klúður dagsins. Sko, ég er að reyna að kaupa ferska matvöru, gjarnan ódýra. Líka að bjóða upp á smá fjölbreytni. Þetta er ekkert grín, sko. Þannig að ég álpaðist til að kaupa svínakótilettur, hafandi velt þeim á alla kanta og innihaldslýsingin nefndi ekkert nema svínakjöt.

Auðvitað veit ég betur - ég veit að það er oft eitt og annað í kjöti sem ekki er um getið. Sykursprautun er t.d. mjög vinsæl. En á hinn bóginn; hvað get ég gert?

Ansans... allavega, ég hefði ekki átt að kaupa þetta kjöt. Ég bara ákvað að vera æðrulaus. Smellti því í ofninn í kvöld, fór svo að gera annað. Tók það út og ætlaði að brytja niður fyrir mig í nesti og fyrir barnið í máltíðir morgundagsins. Byrjaði að brytja, smakkaði smá og þá rann á mig æði. Áður en ég vissi af var ég búin að tæta í mig megnið af heilli kótilettu. Tek fram að ég var / er orðin þreytt og var annars hugar. Fattaði svo allt í einu hvað ég var að gera. Það var lokkandi dísætt bragð af kjötinu, alls ekki það sem ég er vön sl. 11 mánuði. Úff. Vökvinn í eldfasta mótinu eins og síróp.

Ansans.

Þannig að... ég sópaði öllu í dall fyrir barnapíuna. Hún verður jafnframt að útbúa mat fyrir barnið á morgun. Ég fiskaði mauksoðna kjúklingabita upp í dall fyrir sjálfa mig - mun gæða mér á þeim í nesti á morgun, ásamt með ofnbökuðu grænmeti. Ógeðslega ógirnilegt... en hey. Betra en sykur.

Og útbrotin hörfa enn. Samt ekki enn alveg farin og túpan að verða búin. Ætli þau fari ekki alveg?

Wednesday, July 7, 2010

Dagur 30

Goddag, goddag.

Nú hefur sterakrem verið borið þrisvar á húð barnsins. Húðin er öll önnur. Strax í morgun (eftir eina áburðarumferð) var glögglega greinanlegur munur. Mér var mjög létt.

Sjálf segist hún ekki viss. Klæjar enn svolítið og kroppar mikið í flagnandi skinn.

En bíðum nú við. Ég var svosem ekki með hana mikið í dag, þar sem lunginn úr deginum fór í atvinnuleit. En barnapían tilkynnti nýjar hæðir í óþekkt og ,,ofvirkni" eins og hún orðaði það. Sjálf varð ég undir kvöldið vör við smá skapgerðarbresti sem ekki hefur mikið bólað á upp á síðkastið, til dæmis geðveikislegan kjánahlátur og fleira gamalkunnugt. Ég tek það fram að ég átti ekki von á neinu svona, allrasíst strax og það var ekki fyrr en ég ræddi við barnapíuna að á mig fóru að renna tvær grímur. Samt... það er of snemmt að álykta neitt. Við sjáum hvað setur. Hún hafði hægðir í morgun, þær voru ekki fullkomnar eins og í undanfarin skipti, en það þarf ekki að þýða neitt sérstakt heldur. Látum ganga fyrir núna að ná húðinni í samt lag.

Matseðillinn

Morgunmatur barnsins: Ofnsoðnar kjúklingabringur í grænmeti
Morgunmatur minn: Ofnsoðnar kjúklingabringur í grænmeti, nokkrir bitar af lífrænni lárperu og 2 linsoðin egg.

Hádegismatur minn (snæddur á sporvagnsstoppistöð við Trondheimsveien): Ofnsoðnar kjúllabringur í grænmeti
Hádegis- og síðdegisverður barnsins: Maukuð nautahakkskássa

Kvöldverður minn: Ný nautahakkskássa
Kvöldverður barnsins: Nýja nautahakkskássan maukuð

Soð dagsins: Síðustu droparnir af kjúklingabeinasoðinu - og nú erum við uppiskroppa

Ekkert bað en ég setti egg í hárið á henni í kvöld (þvoði semsagt hárið)

Tuesday, July 6, 2010

Dagar 27 - 29

Fyrst vil ég biðjast velvirðingar á þessu hléi sem varð vegna ferðalaga, álags og annarra illviðráðanlegra orsaka. Sérstaklega vil ég biðja Hildi forláts, enda veit ég ekki dyggari áskrifanda að öllu sem ég læt frá mér - og sem þar að auki á það til að taka því illa þegar ég tek mér hlé ;-)

En hvar skal byrja nú?

4ra vikna markinu var náð í gær. Engin hátíðahöld.

Á bátnum á sunnudaginn var voða gaman hjá krílunum, fullt af leiktækjum og dóti, alger paradís fyrir unga. Sú minni missti út úr sér nokkur gersamlega óborganleg gullkorn sem ég mun fúslega deila með þeim sem áhuga hafa - en á öðrum vettvangi.

En gamanið kárnaði þegar farið var að sofa. Eldri dóttir mín var viðþolslaus af kláða. Hún var á iði alla nóttina og gekk illa að festa blund. Um fjögurleytið lét ég hana fá koddann sinn (hún hafði krafist þess að fá að sofa með bátskodda), lét hana pissa, drekka, smurði hana eina ferðina enn með einu af þessum gagnslausu kremum sem við höfum verið að burðast við að nota og las fyrir hana um stund. Þá loks sofnaði hún.

Til þess að rekja þróun þessara útbrota þá hélt hún bara áfram að vera slæm, slæmari og slæmust í gær þar til ég var komin á barm taugaáfalls hér í gær af áhyggjum, kvíða og vanmætti vegna útbrotanna. Makaði á hana leir úr lóninu fyrir norðan sem ég hef burðast með mér alla leið hingað til Oslóborgar. Ekki mikil áhrif að sjá.

Leitaði í öngum mínum til þeirra sem mesta reynsluna hafa í útlöndum. Fékk heilan hafsjó af ráðleggingum. Í stuttu máli varð það ofan á að kaupa handa henni hydrocortisone - sem, já - eru sterar - milt sterakrem reyndar, en sterar engu að síður.

Og nú, lesendur góðir, skal ég útskýra smá fyrir ykkur:

Ástæða þess að dóttir mín er með útbrot er að líkaminn losar eiturefni í gegnum húðina. Holl og heilandi fæða, svo sem bara kjötsoð - og enn frekar kókosolía, gerjuð matvæli (súrkálssafi og þannig), grænmeti, ávextir og fleira ýta undir slíka hreinsun. Þegar hún borðar ekki (t.d. í upphafi inngangsins, eða á meðan á gubbupestinni stóð) er lítil úthreinsunarvirkni og því skána útbrotin rétt á meðan. Harðkjarna hómópatar gefa engar remedíur við útbrotum þar sem litið er á útbrot sem nauðsynlega úthreinsun.

Það er mjög algengt að útbrot versni fyrstu mánuðina / árin á GAPS, í hvert sinn sem líkaminn er að takast á við nýjar hreinsanir.

Með því að meðhöndla húðina með sterum er ég að loka þessri útgönguleið eiturefna út úr líkamanum og reka þau lengra inn. Það hægir á og jafnvel spillir fyrir bata. Langbesta leiðin til að meðhöndla svona ástand væru mörg og tíð böð í náttúrulegum vötnum og sjó, eplaediki, Epsom salti og svo framvegis. Ég á hins vegar ekki kost á slíku þar sem ég er nú. Og ég er í öngum mínum vegna ástandsins á barninu, sem nota bene spillir líka talsvert ferðinni fyrir okkur öllum.

Þannig að... stórhættulegir sterar eru málið í dag. Ég vonast til að ná útbrotunum niður. Hætti að gefa henni kókosolíu rétt á meðan. Gaf henni 1 tsk af sauerkrautsafa í dag, eftir langt hlé, en svo verður ekki meira þannig fyrr en við komum heim.

Ég er búin að panta rándýrt þangduft til að setja í bað fyrir hana þegar ég kem heim, að undirlagi minna sérlegu ráðgjafa. Bæti því við Epsomið og allt hitt. Verst að hún hatar böð... en jæja, ég reyni að gera henni þau bærileg með lestri og fleiru.

Ég nenni ekki að fara í mörg smáatriði hér í þessari færslu. Ég er mun upplitsdjarfari í dag en í gær, eftir að hafa tekið - og sæst við - þessa ákvörðun. En ég er samt úrvinda og örþreytt eftir endalaust eldhússtúss sem tekur brjálæðislega mikið af mínum dýrmæta tíma.

Ég bætti avókadói inn í fæðuna mína í dag. Held að það gangi betur nú en síðast, en það er nota bene lífrænt núna.

Ég leitaði til konunnar sem þýddi gulu GAPS-bókina eftir uppl. um hvar ég get keypt GAPS-ket og fisk hér í Noregi, en hún hefur ekki svarað. Á meðan hef ég fundið lífrænt nautahakk og ,,100% hreinar" kjúklingabringur sem kosta svívirðilega mikið (eins og allt hér) og notast við þetta í bili.

Húsið sem við erum í er dálítið gamalt, kjallarinn er ekki mjög heilsusamlegur, mikil myglustækja á baðherberginu þar, en rest virðist ásættanleg (gæti þó alveg lifað án silfurskottnanna á hinu baðherberginu). Hverfið er barnvænt og í útjaðri borgarinnar = gott loft.

Ég var samt með bólgnar varir þegar ég vaknaði í morgun.

Er aaaaalveg að verða uppiskroppa með soð. Veit ekki hvernig ég leysi það.

Er undir miklu áreiti frá moskítóflugum akkúrat núna, þannig að yfir og út í bili!

Saturday, July 3, 2010

Dagur 26

Jæja...

... engin lumma i dag.

Utbrotin eru ekki i godu asigkomulagi.

Thessi dagur var i senn hrædilegur og dasamlegur.

Thad hrædilega var ad eg er alveg ad gefast upp gagnvart utbrotunum. Allt annad er fullkomlega i bloma hja barninu. Hvernig i oskøpunum geta thessi utbrot verid svona illvidradanleg???

Thad dasamlega var ad vid stelpurnar svafum agætlega i nott, hitinn var kominn upp i 27 stig skømmu eftir fotaferd og vid attum fullkomlega yndislegan dag med systurdottur minni i Tivoli.

Thad voru kjuklingar og kassa i Tivolinestinu fyrir tha eldri, svinalundir og grænmeti fyrir mig. Appelsina og banani fyrir krilid... sem hefur reyndar ekkert med innganginn ad gera - og er ekki einu sinni gott sem middegismaltid a fullu GAPS-fædi... en hallo, thetta var Tivoli.

Fult ad geta ekki gert betur matarlega sed vid eldri dotturina. En hun fekk virkilega ad vera prinsessa i dag og rada ferdinni. For i svo til øll tæki sem voru i lagi fyrir hennar hæd og oft i mørg theirra. Afinn hafdi gefid fe til ferdarinnar og eg held ad thad hafi bara ad mestu notast upp... a eftir ad reikna thad betur ut vid tækifæri.

En thetta var semsagt eiginlega matsedillinn i dag, i morgun fekk hun svinalundir lika og filadi thær ekki vel og svo fekk eg tvø linsodin egg.

Sod dagsins: Kjuklingabeinasod.

Bad dagsins: Ekkert bad... (nema eg for i stutta sturtu i morgun)

Friday, July 2, 2010

Dagar 24 og 25

Ubbs, eg skrifadi ekki i gær. Fyrsta skiptid sem eg klikka.

En eg hef alveg afsøkun. Brjalad ad gera.

Stutt upprifjun:

Klukkan fjøgur i fyrrinott vaknadi dottir min og lysti thvi yfir ad hun væri svøng. Hundrad villtir hestar hefdu ekki getad dregid mig fram ur a theim timapunkti, en eg var samt oheyrilega glod ad heyra ad hun væri komin med lyst. Hun sagdi lika ad ser lidi ,,venjulega". Thvilikur lettir.

Svo svafum vid til sex eda sjø.

Eg var a fullu allan daginn i gær i alls kyns tiltekt og skipulagningu. Malid er nefnilega ad eg skipti a ibudinni minni og ibud i Noregi. Thvi var eg ad vanda mig ad gera allt i stand fyrir folkid sem kemur og gistir i minni. Svo er lika heilmikid mal ad pakka og undirbua fyrir tvær manneskjur a inngangsfædi, i kreppu thar ad auki.

Thad var lika brjalædi i dag. Munadi mjou ad eg yrdi of sein bara. Fulast er ad siminn minn hvarf. Litid vid thvi ad gera, eg er bara simalaus i utlandinu.

En allavega... vid erum i Køben nuna og høfum thad agætt. Eg er gersamlega urvinda og børnin sofnud.

Dottir min vard fin af utbrotunum thegar a) hun var lystarlaus og gubbandi og b) hun for oft og titt i Blaa lonid (for m.a. i gær). Er hins vegar strax verri i dag. Kannski var rangt af mer ad gefa henni prufulummu i gær (= stig 3). Lumman for illa i mig. Markmidid var hins vegar ad undirbua eitthvad uppabrot fyrir tivoliid sem ætlunin er ad fara i her uti. Hun var mjøg anægd, en eg veit ekki nema lumman hafi eitthvad spilad inn i. Utbrotin eru allavega verri nuna en i gær. Eiginlega finnst mer bara ad thau seu slæm ef hun a annad bord neytir fædu...

Jæja, stutt um matsedilinn...

Fyrir utan bara thetta venjulega, svinalundir og kjulla og grænmeti tha fengum vid lummu i gær, eina hvor, an eggs (innihald: bara sodinn kurbitur og møndlusmjør). Svo var lax og raudspretta i kvøldmat, en su stutta fekk ser af hvorugu. Var ad borda annad og eg nennti ekki veseni.

Bad gærdagsins: Hun for i lonid og eg bara i sturtu...

Sod gærdagsins: Kindabeinasod med grænmetissodi

I dag: Sodin kjuklingalæri og grænmeti i morgun, svo kassa i hadeginu og kjuklingaleggir i fluginu og nuna i kvøld.

Barnid fekk lika 1 tsk af kokosoliu.

Bad dagsins: Ekki neitt

Sod dagsins: Rest fra thvi i gær.

Thursday, July 1, 2010

Dagur 23

Ókey... ég svaf afar lítið, illa og slitrótt þarna í nótt. Hef ekkert getað lagt mig í dag. Brjálað að gera við að undirbúa brottför af landinu (því miður ekki varanlega í þetta skiptið). Nú er klukkan að verða eitt og ég enn ekki farin að sofa og fer að jaðra við óráð... þannig að nú skal gera stutta færslu.

Yngri inngangshetjan á heimilinu var ansi lasin í dag. Svaf að megninu til til kl. 13.00 eða svo. Horfði svo á myndefni í miklum mæli. Fékk kvöldmat kl. 18.00. Langaði meira að sofa. Sagðist þurfa að kúka en gat það svo ekki, sagðist ekki megna að ,,rembast". Fékk stólpípu. Hresstist allnokkuð við. Reyndi að leggja sig, en gat ekki hvílst. Gubbaði um áttaleytið. Fékk smá kjötsoð í viðbót og gubbaði aftur (fékk alls 3 x kjötsoð í dag, smá kássu í kvöldmat og svo vatn. Ekkert annað).

Hún var með 37,9°c sem telst nú ekki mikill hiti. Ég hef samt af henni miklar áhyggjur, alltaf slæmt að vita ekki hvað veldur og hryllilegt að horfa upp á barninu sínu líða illa, sérstaklega þegar maður getur ekkert gert.

Veðja á flensu eða umgangsmagapest frekar en inngangslasleika af því að við systurnar erum líka frekar slappar í maganum síðan við komum að norðan. Þó ekkert eins og þetta. Tek fram að systir mín er ekki einu sinni á GAPS, hvað þá á inngangi.

Ég verð að viðurkenna að svona sárlasið barn er extra óheppilegt þegar innan við tveir dagar eru í áætlaða brottför í sumarfrí sem mikið hefur verið lagt í að undirbúa. Mikið í húfi.

Matseðill minn (því hún borðaði ekkert nema smá kássu)

Svínalundar- og grænmetisrestar (í morgun) og kássa það sem eftir lifði dags. Í kássunni var svínahakk, engifer, hvítlaukur, paprika, gulrætur, brokkólí, blómkál. Smá sjávarsalt og nýmalaður pipar. Ég fékk mér 1 tsk af ghee út á kássu kvöldsins. En þetta er nú allt og sumt.

Bað dagsins: Epsomsaltsbað (bara fyrir mig)

Soð dagsins: Kindabeinasoð með smá grænmetissoði út í