Dagbókin okkar

Á þessum síðum skrifum við jafnóðum söguna okkar því hvernig við gerum markvissa tilraun á heilsu okkar samkvæmt leiðbeiningum Dr Campbell McBride - skref fyrir skref...

Tuesday, August 3, 2010

Dásemdardagur

Ókey, það er komið fram yfir miðnætti á þessum góða degi - þeim fyrsta í langan tíma þar sem ég hef fundið áþreifanlega fyrir aukinni orku. Tek fram að ég var enginn spútnik, var ekkert á útopnu að springa úr orku og svo framvegis... en fann klárlega minna til svimandi þreytu og slappleika og átti auðveldara með að halda mér að verki.

Get náttúrlega ekki bent á neitt eitt sem orsök, allt helst þetta jú í hendur. Mun samt fylgjast með bæði steinbítnum og Omega olíunni... fannst eins og hvoru tveggja hjálpaði alveg sérstaklega.

Svo er ég svo glöð eftir að hafa í kvöld talað við konu sem er í meistaranámi í náttúruheilsufræðum í Sviss og hún studdi einhvern veginn bara allt sem ég er að gera og bakkaði upp með enn frekari fræðaþekkingu. Svo ljómó... þegar konu finnst hún stundum vera alein í þessum forfallna lækna- og lyfjadýrkunarheimi.

Nýjungar dagsins:
  • Óreyktar, aukaefnalausar pylsur (flysjaði ,,skinnið" af, til öryggis)
  • Fersk gúrka, afhýdd og með smá eplaediki
  • Omega olía (fyrir mig)
  • Súrkálssafi - kannski ekki alveg nýjung... en tel hann samt upp hér með öðru
Gleymdi líka að segja frá því í gær að ég er að taka Betaine HCl með máltíðum. Það hjálpar pottþétt. Dætur mínar fengu líka smá þannig fyrir morgunmatinn í morgun.

Matseðillinn

Morgunmatur: Linsoðin egg, smjörsvissaður laukur og pylsur (ég fékk mér líka smá soðið grænmeti frá því í gær)

Hádegismatur eldra barnsins: Kássa
Hádegismatur minn: Hjallaþurrkaður steinbítur
Hádegismatur yngra barnsins: Banani, hnetubrauð með venjulegu, lífrænu smjöri, smá steinbítur

Kvöldmatur: Pönnusoðið /-steikt hrossakjöt með lárperumauki, ferskri gúrku og soðinni papriku + gulrótum.

Að auki fengu börnin að smakka smá grasker í kvöld (ég var að gera brauð) og sú styttri borðaði smá blæjuber á milli mála og báðar vildu ólmar frá BioKult beint í munninn og fannst það rosa gott. Gaf þeim þó bara hálft hylki hvorri.

Svo brá ég mér frá í kvöld en pabbi og mamma voru að passa og þau sögðu mér að sú eldri hefði kvartað undan magaverkjum þegar hún var komin upp í. Veit ekki meira um það, en staldra að sjálfsögðu aðeins við það, í ljósi nýjunganna. E.t.v. er ég að fara of hratt með hana...? Ansans, mig sem langaði svo í blautan berjamó á morgun... ;-)

Steingleymdi böðum í dag / kvöld. Veit ekkert hvað kom yfir mig. En pottþétt böð á morgun.

Soð dagsins: Lambakjötssoð.

No comments:

Post a Comment