Dagbókin okkar

Á þessum síðum skrifum við jafnóðum söguna okkar því hvernig við gerum markvissa tilraun á heilsu okkar samkvæmt leiðbeiningum Dr Campbell McBride - skref fyrir skref...

Um okkur - íslenska


Ég: Tveggja barna móðir. Hef megnið af ævinni glímt við alls konar heilsufarsvandamál og fengið ófáar misgáfulegar „greiningar“ í gegnum tíðina. Meðal greininga má nefna vöðvabólgu, vefjagigt, síþreytu, Angioedemu, Ehlers Danlos, þunglyndi, Endometriosis, myglusveppaofnæmi og Raynaud's syndrome. Fékk líka á tímabili auðveldlega nýrnasýkingar. Árið 2002 átti að úrskurða mig öryrkja. Ég samþykkti það ekki. Athugið að þetta er ekki tæmandi listi, bara eitthvað sem ég man núna... og minnið er satt að segja ekki upp á marga fiska. Loks má bæta því við að ég var sl. vor komin með óþol fyrir þónokkrum fæðutegundum.

Dóttir mín: Er á yngsta stigi grunnskóla. Var með verulega svæsið tilfelli ungbarnakveisu, grét út í eitt fyrstu mánuðina - allan og ég meina allan sólarhringinn, ekki bara í kortér á kvöldin eins og sum þessara barna sem nefnd eru „kveisubörn“. 8 mánaða greindist hún með eggjaofnæmi sem af og til hefur átt að vera farið, skv. rannsóknum lækna, en samt fékk hún alltaf útbrot um leið og egg fór inn fyrir hennar varir. Fljótlega kom heiftarlegt óþol fyrir mjólkurvörum einnig í ljós og svo bættust fæðutegundirnar við ein og ein í einu... þar til sl. vor að þær voru orðnar 11 talsins og flestar frekar algengar. Helstu einkenni hjá henni voru þá sífelldir magaverkir, vatnskenndar hægðir, astmaöndun, kæfisvefn á lífshættulegu stigi, illviðráðanleg húðútbrot og verulega mikil vanlíðan og skapbrigðaköst. Síðastliðið vor fékk hún svo greininguna „á einhverfurófinu.“

Við höfðum reynt ansi margt. Móðir mín var dugleg að fara með mig til hefðbundinna lækna þegar ég var barn og til að gera langt mál stutt og ýfa sem fæstar fjaðrir er óhætt að segja að árangur hafi verið með minna móti. Á fullorðinsárum hef ég reynt ólíkustu aðferðir til að bæta heilsu mína. Alls kyns kúrar og mataræðistilbrigði, meðferðir, meðhöndlanir, kraftaverkalyf og -tæki og svo mætti lengi telja - bæði innan sem utan hefðbundinna lækninga. Sumt hjálpaði eitthvað, annað ekki. Eftir að dóttir mín fæddist má segja að ég hafi verið stöðugt á höttunum eftir einhverju sem gæti hjálpað henni. Ég bjó að því að hafa sjálf reynt ýmislegt og gat því strikað eitt og annað út af listanum. Síðustu ár höfum við sett heilnæma fæðu í algeran forgang, mikið til lífræna - og vitanlega lausa við allar þær fjölmörgu fæðutegundir sem við þoldum ekki.

Hvað gerðist: 
17. júlí í fyrra byrjuðum við á GAPS fæði. Það var reyndar ekki nein skyndiákvörðun. Ég hafði vitað af bókinni í hálft ár og vildi alls ekki lesa hana - gat ekki hugsað mér að flækja líf okkar enn frekar. En á endanum gaf ég eftir... og sé ekki eftir því. 

Eitt hafði ég lært af öllum tilraunum mínum til að ná betri heilsu: Hálfkák dugar ekki. Annað hvort verður maður að fylgja leiðbeiningum til hins ýtrasta - og vita þá þegar upp er staðið að viðkomandi aðferð annað hvort virki eða ekki - eða maður getur bara sleppt þessu.

Þannig að ég lét dætur mínar báðar, sem og sjálfa mig, samviskusamlega á inngangsfæðið, sem greint er frá á vefnum og enn betur í bókinni The GAPS guide. Áhrifin létu ekki á sér standa, máttleysi, svimi, uppköst og þar fram eftir götunum. Ég var ekki búin að kaupa mér bókina (The GAPS guide) og vissi því ekkert hverju ég átti von á. Hringdi í mína helstu ráðgjafa (sem ekki hafa persónulega reynslu af GAPS) og þeir voru sammála um að við hefðum ábyggilega bara nælt okkur í flensu. Eftir tvo gubbudaga var inngangsferlið blásið af og skipt yfir í fullt GAPS fæði. Hið undarlega var þó að eftir aðeins þessa tvo daga andaði eldri dóttir mín létt sem vorgolan jafnt að nóttu sem degi, útbrotin voru horfin, skapið var jafnt og andleg líðan með sóma.

Nokkrum dögum og heilmikilli rannsóknarvinnu síðar gerðum við því aðra atrennu. Eftirgrennslanir mínar bentu til þess að um hefði verið að ræða „die off“ (ferlið þegar óæskilegar örverur / sníkjudýr deyja og sleppa frá sér eiturefnum út í líkamann). Þannig að við lögðum upp á ný og í þetta sinn náðum við þónokkrum árangri. Eftir rúma viku var ferlið þó blásið af á ný, í þetta sinn vegna aðkallandi afmælisveislu. Þess ber þó að geta að áður en það var gert smakkaði eldri dóttir mín linsoðið egg og varð í fyrsta sinn á ævinni ekki meint af. Hún hefur eins og nærri má geta hámað þau í sig æ síðan.

Til að gera langt mál stutt gerðum við eina enn atrennu í inngangsferlið áður en skólinn skall á. Skömmu síðar áttum við foreldrarnir fund með skólasálfræðingnum sem taldi sennilegt að einhverfurófsgreiningin ætti ekki lengur við, slík var breytingin á barninu.

Í vetur höfum við verið á fullu GAPS fæði og líðan okkar hefur hreinskilnislega sagt verið upp og ofan. Einkum hafa útbrot eldri dóttur minnar ágerst eftir því sem liðið hefur á vorið. Andleg líðan og sálarró er þó enn til muna betri en fyrr. Ég hef verið í sambandi við annað fólk sem einnig er á GAPS sem hefur upplýst mig um að allt sem við höfum gengið í gegnum sé eðlilegt. Ég er enn fremur sannfærðari en nokkru sinni fyrr um að ekki dugi neitt hálfkák, nú tökum við inngangsferlið með trompi með það að markmiði að ná fullum bata á öllum sviðum.

Læt þess þó getið að hin stelpan mín er stikkfrí í bili. Hún hefur átt við heilsufarsvandamál að etja sem ég hef enga skýringu fundið á enn og því er hún bara á fullu GAPS-fæði.