Dagbókin okkar

Á þessum síðum skrifum við jafnóðum söguna okkar því hvernig við gerum markvissa tilraun á heilsu okkar samkvæmt leiðbeiningum Dr Campbell McBride - skref fyrir skref...

Sunday, June 13, 2010

Dagur 6

Jei, ég er komið með fyrsta kommentið á þetta blogg (sjá síðustu færslu)! Takk, Hildur ;-)

Þessi dagur var fremur frábrugðinn hinum. Ekki bara af því að það er helgi.

Fyrir það fyrsta var dóttir mín merkjanlega hressari í dag. Engar hægðir samt. En aukinn hressleiki á víst að duga, skv. The GAPS Guide. Ef fram fer sem horfir er hún klár í 2. stig á morgun.

Í öðru lagi þá var þetta myndefnislaus dagur, fyrir utan Stundina okkar, sem er heilög fyrir eldra afkvæmi mínu.

Af þessu leiddi að ég var tilbúin með afþreyingarprógramm í morgun. Við föndruðum pennastatíf og svo vatnslituðum við allar þrjár í sameiningu e.k. gardínu í annan stóra stofugluggann (sem aldrei hefur verið keypt gardína í).

Svo sáðum við papriku- og kóríanderfræjum í potta. Foreldrar mínir komu líka í heimsókn. Nóg við að vera, semsagt.

Frá því um þrjú til sirka sex hafði faðir barnanna ofan af fyrir þeim á meðan ég lokaði mig af í þeim tilgangi að reyna að vinna og hvíla mig. Hefði getað gengið betur, en látum það vera.

Eldri dóttir mín var ögn líkari sjálfri sér í dag en dagana á undan, fór t.d. og náði í gítarinn sinn og glamraði nokkur lög og leitaði út um allt að tiltekinni bók sem hún hafði hugsað sér að lesa. Hún var samt fremur illa stemmd andlega og lynti til að mynda mjög illa við systur sína allt frá því að hún opnaði augun í morgun og þar til litla stýrið var lagt út af í kvöld. Hún tuðaði líka óspart yfir ýmsu sem fór í taugarnar á henni, mikil neikvæðni í gangi. En hún sofnaði ekkert í dag – rotaðist bara um leið og höfuðið snerti koddann í kvöld. Sefur vært og andar létt.

Sjálf er ég ekki mjög hraust í dag. Verulega mikið sljó, þokuð og slöpp, sérstaklega seinnipartinn. Tók baðið snemma í kvöld í von um að hressa mig við og geta unnið. Það virkaði aðeins – er samt mjög skýjuð í heilabúinu. DAAAAAUÐSYFJUÐ.

Matseðill dagsins

Morgunmatur: Kjúklingalæri (bara skinnið fyrir dóttur mína), soðin paprika og blómkál (hún fúlsar við blómkáli)

Hádegismatur: Kúrbítssúpa

Síðdegisbiti: Kjúklingaleggir (+ skinn) fyrir gikkinn (oftast er hún reyndar alls ekki gikkur...) og soðin, skræld, rauð paprika. Rest af blómkáli og engiferte fyrir mig.

Kvöldmatur: Kjúklingaleggir (að sjálfsögðu með skinni) og soðin gul og græn (!) paprika, ásamt með soðnum kúrbít (sem barnið fúlsar einnig við). Einnig kálfafillé.

Kjötsoð dagsins: ... er ekki alveg viss. Byrjaði að láta það malla í gærkvöldi og hélt þá að það væri nautabeinasoð. En það var frekar bragðlaust og var einhvern veginn frekar með keim af lambi. Er hreinlega ekki viss því ég er jú svo ringluð eitthvað, veit ekki úr hvaða poka í frystinum ég tók það. Þar að auki eru alls ekkert allir pokarnir frá kjötheildsölunni merktir, þannig að það er oft erfitt fyrir leikmann (-/konu!?!!) að átta sig.

Bað dagsins: Epsom

Saturday, June 12, 2010

Dagur 5

Ég var ekki nógu skipulögð í dag. Þreytu og slappleika að mestu um að kenna, held ég. Eftir Epsom-baðið á kvöldin hef ég verið svo spræk eitthvað og í stað þess að sofa fer ég að ganga í milljón hluti sem mér finnst áríðandi... enda svo á að fara seint að sofa. Hmmm...

Í gær fékk ég mér reyndar fyrstu súrkálssafateskeiðina fyrir háttinn. Veit ekki hvort það átti þátt í löngum og djúpum nætursvefninum, eða ekki.

Í morgun fékk ég mér teskeið af nýja súrkálinu mínu og ályktaði að það þyrfti kannski að fá að súrna í einn dag enn. Stelpan fékk teskeið af hinu, súrkáli sem ég gerði um daginn. Henni finnst safinn góður. Það er mikill léttir, það er þó eitthvað sem henni finnst gott. Gaf henni heila matskeið síðdegis. Sé ekki að það hafi nein sérstök áhrif til eða frá, enda er svosem erfitt að greina það. Það gæti aukið kláðann. Það gæti ýtt undir lystarleysið, gæti ýtt undir slappleikann, þungu lundina... eða eitthvað. Hver veit. Ætla allavega ekki að auka skammtinn hennar meira fyrst um sinn.

Ég fór í „bröns“ með vinkonum mínum. Þegar ein þeirra afboðaði sig undir þeim formerkjum að hún væri að fara í útskriftarveislu rifjaðist upp fyrir mér að ég væri sjálf að brautskrást úr mínu háskólanámi í dag. Þriðja gráðan í höfn og ég hafði engan hug á að mæta á þessa löngu og leiðinlegu útskrift, enda búin að mæta á nógu margar í gegnum tíðina (mínar eigin sem og annarra). Þannig að ég fór glöð í bröns. Barnapían var á djamminu í alla nótt og ég viðurkenni að ég hafði smá efasemdir þegar ég skildi börnin eftir hjá henni... en jæja, þetta var ekki langur tími.

Brönsinn var á Gló og þó að ég hafi ekki getað borðað neitt þar, þá hnusaði ég og nasaði og horfði og skoðaði, spurði, spáði og spekúleraði í það sem á boðstólum var. Það er frábært úrval af hráfæði þarna og megnið af því sem á annað borð heitir hráfæði er 100% „GAPS-löglegt“. Æðislegt! Ekki oft sem maður getur farið út að borða. Fékk mér reyndar humarsalat á kaffihúsi um daginn – það er það eina sem ég hef vogað mér síðan ég byrjaði á GAPS. Skeggræddi við kokkinn áður og fékk að vita öll smáatriði og hafa áhrif á nokkur vafaatriði. Það var allt í lagi með allt í salatinu, nema ólífuolían var hituð. Leyfði mér að taka sénsinn af því að ég vissi að hinn ægilegi Inngangur væri á næsta leyti... og að öll hugsanleg skaðleg áhrif myndu þar með skolast burt ;-)

Börnin sluppu í gegnum þynnkupössunina án sjáanlegs skaða og ég fór út með þá styttri í rúma klukkustund síðdegis. Sú lengri fékk að horfa á Latabæ því að hún hafði enga orku í rigninguna. Við höfðum bara opið út úr stofunni og ég fylgdist með þeim báðum.

Við komum inn um það leyti sem Latibær var búinn og sofnuðum allar í sófunum, alveg óvart. Mjög fyndið í raun, því undir venjulegum kringumstæðum sofnum við ekki bara si svona um miðjan dag (ja, eða síðdegis), allavega ekki allar í einu.

Þegar ég fann að litla krílið var sofnað í fanginu á mér og sá að sú eldri var að speisa út í næsta sófa fann ég hvað ég var gífurlega yfirkomin af þreytu og hugsaði með mér að það væri nú allt í lagi að dorma smá í 10 mínútur... vaknaði nærri klukkutíma síðar með dofinn og frosinn handlegg (enn opið út) en börnin sváfu sem steinar.

Það var eiginlega þetta sem setti dagskipulagið úr skorðum. Þegar við vöknuðum var eiginlega kominn kvöldverðartími og ég ekki búin að elda neitt – fór að reyna að gera allt í einu...

Til að gera langt mál stutt þá fékk sú styttri kvöldmat á undan hinni og var svo sett fyrir framan Brúðubílinn. Ég vil taka það fram að almennt horfa þessi börn mjög lítið á sjónvarp eða myndefni!!! Kannski stöku sinnum um helgar eða á veikindadögum, auk barnatímans á RÚV þegar þau muna eftir honum. Allajafna er reglan á þessu heimili að klukkustund sé hámarksskjátími dagsins. En... þegar slappleikinn er mikill og ég að reyna að gera milljón hluti... þá er myndefni life saver. Plús að það er, vegna lítillar notkunar almennt, smá sport fyrir þær, sem kemur sér mjög vel núna!

Og til að halda áfram með söguna þá fékk sú eldri stólpípu því aftur voru liðnar 48 stundir án hægða, sem er kannski ekki skrítið þegar hún borðar eins og mús. Svo fékk hún skinn af kjúklingabringum, sem er eiginlega það eina sem hún vill þessa dagana, ásamt með skrældri, soðinni, rauðri papriku. Og svo fékk hún engiferbað.

Þegar allt var búið var klukkan orðin tíu.

Ég sem ætlaði að vinna í kvöld.

Gengur bara betur næst...

Matseðill dagsins

Allt í belg og biðu og engar skipulagðar máltíðir... rest af kvöldmat gærdagsins (svínalundir og grænmeti) og svo meira grænmeti og slatti af kjúllalærum (aðallega skinnið fyrir barnið)...

Kjötsoð dagsins: Nautabeina

Bað dagsins: Engiferbað

Friday, June 11, 2010

Dagur 4

Hvar á ég að byrja? Laaangur dagur.

Framan af var ég hressari og mér virtist stelpan mín líka vera að hjarna við. Þetta byrjaði semsagt vel.

Og þetta var svo sem ágætur dagur. Látum okkur sjá... fyrst horfði hún á DVD og ég vann, svo setti ég hana á dýnu út á stétt og leyfði henni að hlusta á sögu á geisladiski... svo aftur DVD seinni partinn og svo fórum við í bíltúr. Náðum í kjöt sem ég kaupi í heildsölu (aukaefnalaust) og svo í afa barnsins sem fór með henni heim á meðan ég náði í litlusystur í leikskólann og fór í búð. Svo var afinn hér fram yfir háttatíma, með stanslausa skemmtidagskrá fyrir börnin.

Þannig að þetta var ekkert svo slæmur dagur.

Góðu fréttirnar eru að ég er búin með stig 1 og gæti ótrauð fært mig yfir á stig 2 að öllu óbreyttu. Ég hélt aldrei að ég ætti eftir að blogga um eigin hægðir... en, hey... lít bara á þetta sem þroskamerki... Hægðir eru semsagt lykilatriði varðandi færslu á milli stiga. Og mínar voru semsagt með miklum ágætum í dag :-)

En dóttlan var lystarlaus og varð einhvern veginn máttlausari þegar leið á daginn. Útbrotin voru á rosalega góðri leið þegar hún vaknaði í morgun, en svo var hana eitthvað farið að klæja á ný undir kvöldið. Þannig að hér er nóg til að rugla rými.

Ég lofaði henni að færa mig ekki á stig 2 á undan henni. En ég veit samt ekki hvort ráðlegt er að bíða lengi - eða hversu lengi.

Annað sem hófst í dag: Sauerkrautsafi. Stelpan fékk teskeið en ég er ekki enn búin að taka minn af því að ég veit einfaldlega að hann slær mig út. Og ég þurfti að vinna í dag, mátti ekki við því að vera í kóma. En er að fara að taka teskeið núna og fer svo beint í Epsom-salt bað.

Það er eflaust góður leikur þegar ég er á annað borð tilbúin í stig 2.

Ég er annars búin að vera sljó og með mikinn einbeitingarskort seinni partinn. Ferlega ergilegt. Ég þarf að ljúka af verkefninu sem ég er að vinna við og það teygist bara og teygist og teygist, einhvern veginn.

Ég steinsofnaði á meðan kvöldmaturinn var að malla. Afinn var með uppeldið í sínum höndum og ég bara koxaði í sófanum. Vaknaði þegar ofninn tísti á mig til að láta vita að tíminn væri kominn (ég stillti kjötið á tíma).

Matseðill dagsins:

Morgunmatur: Maukuð gulrótar-, kúrbíts- og paprikusúpa
Hádegismatur: Kjúklingabringurest og soðin paprika og gulrót
Síðdegissnarl: Sama súpan og um morguninn
Kvöldmatur: Ofnsoðnar (í eigin vökva) svínalundir fyrir mig, litla barnið og afann og kjúllabringur fyrir GAPS-barnið þar sem hún vill þær frekar og mér er mjög í mun að koma einhverju ofan í hana!

Kjötsoð dagsins: Nautabeinasoð

Bað dagsins: Epsom

Thursday, June 10, 2010

Dagur 3

Váááááá hvað ég var slöpp í morgun. Skjálfhent, riðandi, andstutt, sortnaði fyrir augum þegar ég stóð upp... illt alls staðar... gersamlega að drepast í maganum...

En já. Dagurinn byrjaði víst kl. 5.00 en þá var kominn fótaferðatími fyrir þá eldri. Eftir að hafa fylgt henni á klósettið og gefið henni vatn og vöðvaverkjakrem (heimatilbúið, GAPS-löglegt) og hlustað á hana dæsa og bylta sér í klukkustund fór ég með henni inn í hennar herbergi og lét hana hlusta á leikrit (Vökuland). Fór sjálf aftur að sofa og svaf til 8.00 sem er afar, afar óvenjulegt á þessu heimili. En þá var það styttra stýrið sem vakti mig - hitt var þá sofnað aftur.

Nú... ég var eins og fyrr segir FÁRÁNLEGA slöpp. Lystarlaus en samt sísvöng, þjökuð og ergileg. Makaði mig alla út í vöðvaverkjakreminu sem til allrar hamingju virkar ljómandi. Dóttir mín (eldri) var líka hundslöpp.

Ég var að reyna að vinna, en gat engan veginn einbeitt mér. 5 mínútna verk tók mig svona klukkustund. Handónýt.

Mundi að á innganginum í fyrra fékk ég á spjallinu það góða ráð að borða helling af grænmeti til að fá orku. Þannig að ég borðaði og borðaði - hundvont og bragðlaust soðið grænmeti - og svei mér ef það hjálpaði ekki. Held líka að silungsafgangurinn sem ég borðaði síðdegis hafi hjálpað til.

Síðdegis þurfti ég að stússast, þurfti að fara á 5 mismunandi staði að erindast og það gekk bara slysalaust. Enn ansi slöpp... en hélt samt haus og svona.

Dóttir mín var ekki búin að hafa hægðir í a.m.k. 2 daga. Þannig að hún fékk stólpípu í dag. Eitt af inngangsráðunum er víst að vera ekki með innibyrgðar hægðir lengur en 36 klst. Þannig að þetta hefði alveg mátt gerast fyrr. Hún hefur tvisvar áður fengið stólpípu, í bæði skiptin eftir að við byrjuðum á GAPS. Í fyrri skiptin hefur hún staðið sig eins og hetja - í fyrsta skiptið var hún hreint út sagt í skýjunum og fannst þetta frábært...! En í dag var hún samt eitthvað lítil í sér, vatt sér undan og ég þurfti að beita mikilli lagni til að virkja hana til samvinnu. En svo gekk þetta vel. Nú vona ég bara að hún fari að fá matarlyst, svo að þetta fari að koma af sjálfu sér...

Morgunmatur dagsins: Smá soðið grænmeti frá því með kvöldmatnum í gær (paprikur auðvitað í aðalhlutverki)

Hádegisverður dagsins: Gulrótar- og paprikumauk

Síðdegisverður dagsins: Silungsrest og soðið brokkólí

Kvöldverður dagsins: Ofnsoðnar kjúklingabringur og grænmeti. Þar sem faðir barnanna eldaði kvöldmatinn og ég var ekki viðstödd fór óvart svo að laukur slæddist með grænmetinu. Það má víst ekki á stigi 1. Smá var komið ofan í mig áður en ég fattaði það - held að lítið hafi farið ofan í dóttur mína, en vona að ekki sé mikill skaði skeður.

Kjötsoð dagsins: Kjúklingaleggjasoð

Ég vil líka segja frá því að þetta tekur á andlega. Það er ömurlegt að vera svona slöpp eins og ég var í morgun og bæði fer það eitt og sér í skapið á manni og svo má reikna með því að þetta die off hafi líka áhrif á geðið. Stelpan mín er til dæmis búin að vera dálítið neikvæð á köflum í dag og í gær (og skyldi svosem engan undra). Í gær var ég rosa lipur og ljúf og hvetjandi og góð mamma og alveg á hjólum við að snúa nöldri yfir í bjartsýni og sjálfsvorkun í ánægju og snúast í kringum hana á alla kanta - en framan af deginum í dag varð ég vör við áþreifanlega afturför í umönnunar- og uppeldisfærni minni...

En það eru líka góðar fréttir í pakkanum. Öndunin hjá þeirri stuttu er allt önnur nú þegar. Og bólgna, skorpna, sprungna og blóðrisa exemhreistrið er óðum að hrynja af og undan er farið að glitta í heila, slétta og mjúka húð. En dálítið rauð og svolítið hreistruð víða, en samt, það er ómetanlegt að fá svona hvatningu þegar hlutirnir eru erfiðir.

Og svo að ég klári frásögn mína af deginum, um sjöleytið hitti ég 2 konur sem hafa áhuga á að byrja á GAPS og vildu fá ráð hjá mér. Ég spjallaði við þær í klukkustund og sagði þeim allt sem ég veit... sem er því miður ekki alveg allt... Eins og mín er von og vísa hamraði ég á INNGANGSFÆÐINU - það þýðir ekkert að taka nokkrar vikur eða mánuði á fullu GAPS-fæði, finna litlar eða engar breytingar og dæma það þá bara úr leik...!!! Hef nú þegar hitt fólk sem hefur sagt mér þannig sögur og mér finnst það geeeeðveikt ergilegt. Fólk sem er með krabba fer ekkert bara stundum í kímó og segir svo bara ,,ah, þetta virkaði ekkert..." - annað hvort gerir maður hlutina alveg eins og fyrir er lagt þegar heilsan er annars vegar, eða maður getur bara sleppt þeim.

En þetta var víst komið fram áður. Og ég vona svo sannarlega að þessum tveimur frábæru konum sem ég hitti í kvöld gangi þetta rosalega vel. Ég hlakka til að fá að fylgjast með.

Svo var brennókvöld í kvöld. Ég er ekki frá því að ástæðan fyrir því að mér sortnaði fyrir augum í morgun, í allavega einhver skiptin, hafi verið tilhugsunin um að skjögra í brennó í kvöld. En þegar loks kom að því var ég orðin talsvert miklu hressari. Smellti mér því galvösk í leikinn og neita því svosem ekki að ég var merkjanlega andstyttri og úthaldsminni en venjulega, en vá hvað þetta var samt gott. Algerlega frábært að hreyfa sig svona í frábæru veðri í frábæru íslensku súrefni... Mmmmmh....

Wednesday, June 9, 2010

Dagur 2

Dagur 2 svo til liðinn.

Morgunmatur: Köld soðin paprika + gulrætur (rest frá því með kvöldmatnum í gærkvöldi)
Hádegismatur: Kúrbíts-, papriku- og kjötsoðssúpa
Kvöldmatur: Ofnsoðinn silungur með soðnu grænmeti (papriku og gulrótum)

Kjötsoð dagsins: Restin af nautabeinasoðinu frá því í gær framan af og kjúklingabeinasoð seinni partinn.

Baðsalt dagsins: Epsom

Líðan mín: Sæmileg eftir atvikum. Talsvert máttleysi, utanviðmigheit og svimi. Magaverkir.

Líðan dóttur minnar: Öllu verri. Yfirgengilegt máttleysi og lystarleysi. Svaf frameftir í morgun (sem er mjög ólíkt henni) og í nærri 4 klst samfleytt í dag. Gubbaði kvöldmatnum. Sefur uppi í hjá mér í nótt.

Dóttir mín hefur þar að auki verið frekar þyrst. Ég er að reyna að finna út hvað er óhætt að gefa henni á þessum tímapunkti (samkvæmt fæðuútlínunum) til að fyrirbyggja ofþornun. Veit ekki hvort saltlausn með sítrónusafa er í lagi, fólk talar um það á vefnum, en skv. inngangsferlinu er ferskur ávaxtasafi ekki í boði strax... spurning hvort sérstaða sítróna (basísk náttúra og allt það) gerir þær nógu spes til að vera undanþága...?

Tuesday, June 8, 2010

Inngangsferli, dagur 1

Jæja, þá er ég mætt til leiks af fullum krafti. Í dag er dagurinn sem við höfum beðið eftir í rúma 9 mánuði, eða frá því að skólinn hófst hjá eldri dóttur minni í haust. Í dag byrjuðum við á Inngangsferli GAPS.

Aðeins um söguna okkar áður en ég held lengra.

Ég: Tveggja barna móðir. Hef megnið af ævinni glímt við alls konar heilsufarsvandamál og fengið ófáar misgáfulegar „greiningar“ í gegnum tíðina. Meðal greininga má nefna vöðvabólgu, vefjagigt, síþreytu, Angioedemu, Ehlers Danlos, þunglyndi, Endometriosis, myglusveppaofnæmi og Raynaud's syndrome. Fékk líka á tímabili auðveldlega nýrnasýkingar. Athugið að þetta er ekki tæmandi listi, bara eitthvað sem ég man núna... og minnið er satt að segja ekki upp á marga fiska. Svo má bæta því við að ég var sl. vor komin með óþol fyrir þónokkrum fæðutegundum.

Dóttir mín: Er á yngsta stigi grunnskóla. Var með verulega svæsið tilfelli ungbarnakveisu, grét út í eitt fyrstu mánuðina - allan og ég meina allan sólarhringinn, ekki bara í kortér á kvöldin eins og sum þessara barna sem nefnd eru „kveisubörn“. 8 mánaða greindist hún með eggjaofnæmi sem af og til hefur átt að vera farið, skv. rannsóknum lækna, en samt fékk hún alltaf útbrot um leið og egg fór inn fyrir hennar varir. Fljótlega kom heiftarlegt óþol fyrir mjólkurvörum einnig í ljós og svo bættust fæðutegundirnar við ein og ein í einu... þar til sl. vor að þær voru orðnar 11 talsins og flestar frekar algengar. Helstu einkenni hjá henni voru þá sífelldir magaverkir, vatnskenndar hægðir, astmaöndun, kæfisvefn á lífshættulegu stigi, illviðráðanleg húðútbrot og verulega mikil vanlíðan og skapbrigðaköst. Síðastliðið vor fékk hún svo greininguna „á einhverfurófinu.“

Við höfðum reynt ansi margt. Móðir mín var dugleg að fara með mig til lækna þegar ég var barn og til að gera langt mál stutt og ýfa sem fæstar fjaðrir er óhætt að segja að árangur hafi verið með minna móti. Á fullorðinsárum hef ég reynt ólíkustu aðferðir til að bæta heilsu mína. Alls kyns kúrar og mataræðistilbrigði, meðferðir, meðhöndlanir, kraftaverkalyf og -tæki og svo mætti lengi telja - bæði innan sem utan hefðbundinna lækninga. Sumt hjálpaði eitthvað, annað ekki. Eftir að dóttir mín fæddist má segja að ég hafi verið stöðugt á höttunum eftir einhverju sem gæti hjálpað henni. Ég bjó að því að hafa sjálf reynt ýmislegt og gat því strikað eitt og annað út af listanum. Síðustu ár höfum við sett heilnæma fæðu í algeran forgang, mikið til lífræna - og vitanlega lausa við allar þær fjölmörgu fæðutegundir sem við þoldum ekki.

Hvað gerðist:

17. júlí í fyrra byrjuðum við á GAPS fæði. Eitt hef ég lært af öllum tilraunum mínum til að ná betri heilsu: Hálfkák dugar ekki. Annað hvort verður maður að fylgja leiðbeiningum til hins ýtrasta - og vita þá þegar upp er staðið að viðkomandi aðferð annað hvort virki eða ekki - eða maður getur bara sleppt þessu.

Þannig að ég lét dætur mínar báðar, sem og sjálfa mig, samviskusamlega á inngangsfæðið, sem greint er frá á vefnum og enn betur í bókinni The GAPS guide. Áhrifin létu ekki á sér standa, máttleysi, svimi, uppköst og þar fram eftir götunum. Ég var ekki búin að kaupa mér bókina (The GAPS guide) og vissi því ekkert hverju ég átti von á. Hringdi í mína helstu ráðgjafa (sem ekki hafa persónulega reynslu af GAPS) og þeir voru sammála um að við hefðum ábyggilega bara nælt okkur í flensu. Eftir tvo gubbudaga var inngangsferlið blásið af og skipt yfir í fullt GAPS fæði. Hið undarlega var þó að eftir aðeins þessa tvo daga andaði eldri dóttir mín létt sem vorgolan jafnt að nóttu sem degi, útbrotin voru horfin, skapið var jafnt og andleg líðan með sóma.

Nokkrum dögum og heilmikilli rannsóknarvinnu síðar gerðum við því aðra atrennu. Eftirgrennslanir mínar bentu til þess að um hefði verið að ræða „die off“ (ferlið þegar óæskilegar örverur / sníkjudýr deyja og sleppa frá sér eiturefnum út í líkamann). Þannig að við lögðum upp á ný og í þetta sinn náðum við þónokkrum árangri. Eftir rúma viku var ferlið þó blásið af á ný, í þetta sinn vegna aðkallandi afmælisveislu. Þess ber þó að geta að áður en það var gert smakkaði eldri dóttir mín linsoðið egg og varð í fyrsta sinn á ævinni ekki meint af. Hún hefur eins og nærri má geta hámað þau í sig æ síðan.

Til að gera langt mál stutt gerðum við eina enn atrennu í inngangsferlið áður en skólinn skall á. Skömmu síðar áttum við foreldrarnir fund með skólasálfræðingnum sem taldi sennilegt að einhverfurófsgreiningin ætti ekki lengur við, slík var breytingin á barninu.

Í vetur höfum við verið á fullu GAPS fæði og líðan okkar hefur hreinskilnislega sagt verið upp og ofan. Einkum hafa útbrot eldri dóttur minnar ágerst eftir því sem liðið hefur á vorið. Ég hef verið í sambandi við annað fólk sem einnig er á GAPS sem hefur upplýst mig um að allt sem við höfum gengið í gegnum sé eðlilegt. Ég er enn fremur sannfærðari en nokkru sinni fyrr um að ekki dugi neitt hálfkák, nú tökum við inngangsferlið með trompi og bregðum ekki tommu frá bókinni.

Læt þess þó getið að hin stelpan mín er stikkfrí í bili. Hún hefur átt við heilsufarsvandamál að etja sem ég hef enga skýringu fundið á enn og því er hún bara á fullu GAPS-fæði.

Maturinn í dag samanstóð af nautabeinasoði (með öllum máltíðum), soðinni papriku (morgunmatur), blómkáls- og paprikusúpu (hádegismatur), gulrótar- og paprikumauki (síðdegis) og ofnsoðnum kjúklingaleggjum með blönduðu soðnu grænmeti (þ.m.t. papriku!) í kvöldmat. Já, dóttur minni finnst paprika semsagt skásta soðna grænmetið. Og trikkið til að fá hana til að drekka kjötsoðið (sem hún hatar meira en pestina) er loforð um Tívolí í Køben síðar í sumar. Það virkaði allavega mjög hvetjandi í dag.

Annars var ég mikið til að vinna og hún ýmist að skottast úti við, lesa bók eða glápa á DVD (samt ekki of mikið, bara 1 mynd og 1 þátt).

Undanfarið hef ég verið talsvert slöpp og með einum of þráláta heilaþoku og hvoru tveggja margfaldaðist í dag. Sú stutta var líka orðin ansi framlág undir kvöldið og það vessaði úr útbrotunum hennar.

Við sjáum hvað setur. Ég vona að ég verði nógu hress á morgun til að halda áfram að skrásetja ferlið.

Tuesday, April 20, 2010

Róleg byrjun

Það verður ekki sagt að ég byrji þetta blogg með offorsi.

Ef einhver dettur hér inn af forvitni um GAPS mataræði og lífsstíl vil ég benda á að það er ansi virkur hópur á Facebook sem heitir GAPS á Íslandi - A GAPS diet support group in Iceland.

Annars vonast ég til að geta sett hér síðar meir inn upplýsingar sem geta átt erindi við alla sem vilja forðast aukaefni í matvælum og hafa umhverfi sitt eiturefnalaust.