Dagbókin okkar

Á þessum síðum skrifum við jafnóðum söguna okkar því hvernig við gerum markvissa tilraun á heilsu okkar samkvæmt leiðbeiningum Dr Campbell McBride - skref fyrir skref...

Friday, June 11, 2010

Dagur 4

Hvar á ég að byrja? Laaangur dagur.

Framan af var ég hressari og mér virtist stelpan mín líka vera að hjarna við. Þetta byrjaði semsagt vel.

Og þetta var svo sem ágætur dagur. Látum okkur sjá... fyrst horfði hún á DVD og ég vann, svo setti ég hana á dýnu út á stétt og leyfði henni að hlusta á sögu á geisladiski... svo aftur DVD seinni partinn og svo fórum við í bíltúr. Náðum í kjöt sem ég kaupi í heildsölu (aukaefnalaust) og svo í afa barnsins sem fór með henni heim á meðan ég náði í litlusystur í leikskólann og fór í búð. Svo var afinn hér fram yfir háttatíma, með stanslausa skemmtidagskrá fyrir börnin.

Þannig að þetta var ekkert svo slæmur dagur.

Góðu fréttirnar eru að ég er búin með stig 1 og gæti ótrauð fært mig yfir á stig 2 að öllu óbreyttu. Ég hélt aldrei að ég ætti eftir að blogga um eigin hægðir... en, hey... lít bara á þetta sem þroskamerki... Hægðir eru semsagt lykilatriði varðandi færslu á milli stiga. Og mínar voru semsagt með miklum ágætum í dag :-)

En dóttlan var lystarlaus og varð einhvern veginn máttlausari þegar leið á daginn. Útbrotin voru á rosalega góðri leið þegar hún vaknaði í morgun, en svo var hana eitthvað farið að klæja á ný undir kvöldið. Þannig að hér er nóg til að rugla rými.

Ég lofaði henni að færa mig ekki á stig 2 á undan henni. En ég veit samt ekki hvort ráðlegt er að bíða lengi - eða hversu lengi.

Annað sem hófst í dag: Sauerkrautsafi. Stelpan fékk teskeið en ég er ekki enn búin að taka minn af því að ég veit einfaldlega að hann slær mig út. Og ég þurfti að vinna í dag, mátti ekki við því að vera í kóma. En er að fara að taka teskeið núna og fer svo beint í Epsom-salt bað.

Það er eflaust góður leikur þegar ég er á annað borð tilbúin í stig 2.

Ég er annars búin að vera sljó og með mikinn einbeitingarskort seinni partinn. Ferlega ergilegt. Ég þarf að ljúka af verkefninu sem ég er að vinna við og það teygist bara og teygist og teygist, einhvern veginn.

Ég steinsofnaði á meðan kvöldmaturinn var að malla. Afinn var með uppeldið í sínum höndum og ég bara koxaði í sófanum. Vaknaði þegar ofninn tísti á mig til að láta vita að tíminn væri kominn (ég stillti kjötið á tíma).

Matseðill dagsins:

Morgunmatur: Maukuð gulrótar-, kúrbíts- og paprikusúpa
Hádegismatur: Kjúklingabringurest og soðin paprika og gulrót
Síðdegissnarl: Sama súpan og um morguninn
Kvöldmatur: Ofnsoðnar (í eigin vökva) svínalundir fyrir mig, litla barnið og afann og kjúllabringur fyrir GAPS-barnið þar sem hún vill þær frekar og mér er mjög í mun að koma einhverju ofan í hana!

Kjötsoð dagsins: Nautabeinasoð

Bað dagsins: Epsom

No comments:

Post a Comment