Dagbókin okkar

Á þessum síðum skrifum við jafnóðum söguna okkar því hvernig við gerum markvissa tilraun á heilsu okkar samkvæmt leiðbeiningum Dr Campbell McBride - skref fyrir skref...

Saturday, June 12, 2010

Dagur 5

Ég var ekki nógu skipulögð í dag. Þreytu og slappleika að mestu um að kenna, held ég. Eftir Epsom-baðið á kvöldin hef ég verið svo spræk eitthvað og í stað þess að sofa fer ég að ganga í milljón hluti sem mér finnst áríðandi... enda svo á að fara seint að sofa. Hmmm...

Í gær fékk ég mér reyndar fyrstu súrkálssafateskeiðina fyrir háttinn. Veit ekki hvort það átti þátt í löngum og djúpum nætursvefninum, eða ekki.

Í morgun fékk ég mér teskeið af nýja súrkálinu mínu og ályktaði að það þyrfti kannski að fá að súrna í einn dag enn. Stelpan fékk teskeið af hinu, súrkáli sem ég gerði um daginn. Henni finnst safinn góður. Það er mikill léttir, það er þó eitthvað sem henni finnst gott. Gaf henni heila matskeið síðdegis. Sé ekki að það hafi nein sérstök áhrif til eða frá, enda er svosem erfitt að greina það. Það gæti aukið kláðann. Það gæti ýtt undir lystarleysið, gæti ýtt undir slappleikann, þungu lundina... eða eitthvað. Hver veit. Ætla allavega ekki að auka skammtinn hennar meira fyrst um sinn.

Ég fór í „bröns“ með vinkonum mínum. Þegar ein þeirra afboðaði sig undir þeim formerkjum að hún væri að fara í útskriftarveislu rifjaðist upp fyrir mér að ég væri sjálf að brautskrást úr mínu háskólanámi í dag. Þriðja gráðan í höfn og ég hafði engan hug á að mæta á þessa löngu og leiðinlegu útskrift, enda búin að mæta á nógu margar í gegnum tíðina (mínar eigin sem og annarra). Þannig að ég fór glöð í bröns. Barnapían var á djamminu í alla nótt og ég viðurkenni að ég hafði smá efasemdir þegar ég skildi börnin eftir hjá henni... en jæja, þetta var ekki langur tími.

Brönsinn var á Gló og þó að ég hafi ekki getað borðað neitt þar, þá hnusaði ég og nasaði og horfði og skoðaði, spurði, spáði og spekúleraði í það sem á boðstólum var. Það er frábært úrval af hráfæði þarna og megnið af því sem á annað borð heitir hráfæði er 100% „GAPS-löglegt“. Æðislegt! Ekki oft sem maður getur farið út að borða. Fékk mér reyndar humarsalat á kaffihúsi um daginn – það er það eina sem ég hef vogað mér síðan ég byrjaði á GAPS. Skeggræddi við kokkinn áður og fékk að vita öll smáatriði og hafa áhrif á nokkur vafaatriði. Það var allt í lagi með allt í salatinu, nema ólífuolían var hituð. Leyfði mér að taka sénsinn af því að ég vissi að hinn ægilegi Inngangur væri á næsta leyti... og að öll hugsanleg skaðleg áhrif myndu þar með skolast burt ;-)

Börnin sluppu í gegnum þynnkupössunina án sjáanlegs skaða og ég fór út með þá styttri í rúma klukkustund síðdegis. Sú lengri fékk að horfa á Latabæ því að hún hafði enga orku í rigninguna. Við höfðum bara opið út úr stofunni og ég fylgdist með þeim báðum.

Við komum inn um það leyti sem Latibær var búinn og sofnuðum allar í sófunum, alveg óvart. Mjög fyndið í raun, því undir venjulegum kringumstæðum sofnum við ekki bara si svona um miðjan dag (ja, eða síðdegis), allavega ekki allar í einu.

Þegar ég fann að litla krílið var sofnað í fanginu á mér og sá að sú eldri var að speisa út í næsta sófa fann ég hvað ég var gífurlega yfirkomin af þreytu og hugsaði með mér að það væri nú allt í lagi að dorma smá í 10 mínútur... vaknaði nærri klukkutíma síðar með dofinn og frosinn handlegg (enn opið út) en börnin sváfu sem steinar.

Það var eiginlega þetta sem setti dagskipulagið úr skorðum. Þegar við vöknuðum var eiginlega kominn kvöldverðartími og ég ekki búin að elda neitt – fór að reyna að gera allt í einu...

Til að gera langt mál stutt þá fékk sú styttri kvöldmat á undan hinni og var svo sett fyrir framan Brúðubílinn. Ég vil taka það fram að almennt horfa þessi börn mjög lítið á sjónvarp eða myndefni!!! Kannski stöku sinnum um helgar eða á veikindadögum, auk barnatímans á RÚV þegar þau muna eftir honum. Allajafna er reglan á þessu heimili að klukkustund sé hámarksskjátími dagsins. En... þegar slappleikinn er mikill og ég að reyna að gera milljón hluti... þá er myndefni life saver. Plús að það er, vegna lítillar notkunar almennt, smá sport fyrir þær, sem kemur sér mjög vel núna!

Og til að halda áfram með söguna þá fékk sú eldri stólpípu því aftur voru liðnar 48 stundir án hægða, sem er kannski ekki skrítið þegar hún borðar eins og mús. Svo fékk hún skinn af kjúklingabringum, sem er eiginlega það eina sem hún vill þessa dagana, ásamt með skrældri, soðinni, rauðri papriku. Og svo fékk hún engiferbað.

Þegar allt var búið var klukkan orðin tíu.

Ég sem ætlaði að vinna í kvöld.

Gengur bara betur næst...

Matseðill dagsins

Allt í belg og biðu og engar skipulagðar máltíðir... rest af kvöldmat gærdagsins (svínalundir og grænmeti) og svo meira grænmeti og slatti af kjúllalærum (aðallega skinnið fyrir barnið)...

Kjötsoð dagsins: Nautabeina

Bað dagsins: Engiferbað

1 comment:

  1. Gangi ykkur vel, hetjurnar mínar!
    Hildur

    ReplyDelete