Dagbókin okkar

Á þessum síðum skrifum við jafnóðum söguna okkar því hvernig við gerum markvissa tilraun á heilsu okkar samkvæmt leiðbeiningum Dr Campbell McBride - skref fyrir skref...

Thursday, June 10, 2010

Dagur 3

Váááááá hvað ég var slöpp í morgun. Skjálfhent, riðandi, andstutt, sortnaði fyrir augum þegar ég stóð upp... illt alls staðar... gersamlega að drepast í maganum...

En já. Dagurinn byrjaði víst kl. 5.00 en þá var kominn fótaferðatími fyrir þá eldri. Eftir að hafa fylgt henni á klósettið og gefið henni vatn og vöðvaverkjakrem (heimatilbúið, GAPS-löglegt) og hlustað á hana dæsa og bylta sér í klukkustund fór ég með henni inn í hennar herbergi og lét hana hlusta á leikrit (Vökuland). Fór sjálf aftur að sofa og svaf til 8.00 sem er afar, afar óvenjulegt á þessu heimili. En þá var það styttra stýrið sem vakti mig - hitt var þá sofnað aftur.

Nú... ég var eins og fyrr segir FÁRÁNLEGA slöpp. Lystarlaus en samt sísvöng, þjökuð og ergileg. Makaði mig alla út í vöðvaverkjakreminu sem til allrar hamingju virkar ljómandi. Dóttir mín (eldri) var líka hundslöpp.

Ég var að reyna að vinna, en gat engan veginn einbeitt mér. 5 mínútna verk tók mig svona klukkustund. Handónýt.

Mundi að á innganginum í fyrra fékk ég á spjallinu það góða ráð að borða helling af grænmeti til að fá orku. Þannig að ég borðaði og borðaði - hundvont og bragðlaust soðið grænmeti - og svei mér ef það hjálpaði ekki. Held líka að silungsafgangurinn sem ég borðaði síðdegis hafi hjálpað til.

Síðdegis þurfti ég að stússast, þurfti að fara á 5 mismunandi staði að erindast og það gekk bara slysalaust. Enn ansi slöpp... en hélt samt haus og svona.

Dóttir mín var ekki búin að hafa hægðir í a.m.k. 2 daga. Þannig að hún fékk stólpípu í dag. Eitt af inngangsráðunum er víst að vera ekki með innibyrgðar hægðir lengur en 36 klst. Þannig að þetta hefði alveg mátt gerast fyrr. Hún hefur tvisvar áður fengið stólpípu, í bæði skiptin eftir að við byrjuðum á GAPS. Í fyrri skiptin hefur hún staðið sig eins og hetja - í fyrsta skiptið var hún hreint út sagt í skýjunum og fannst þetta frábært...! En í dag var hún samt eitthvað lítil í sér, vatt sér undan og ég þurfti að beita mikilli lagni til að virkja hana til samvinnu. En svo gekk þetta vel. Nú vona ég bara að hún fari að fá matarlyst, svo að þetta fari að koma af sjálfu sér...

Morgunmatur dagsins: Smá soðið grænmeti frá því með kvöldmatnum í gær (paprikur auðvitað í aðalhlutverki)

Hádegisverður dagsins: Gulrótar- og paprikumauk

Síðdegisverður dagsins: Silungsrest og soðið brokkólí

Kvöldverður dagsins: Ofnsoðnar kjúklingabringur og grænmeti. Þar sem faðir barnanna eldaði kvöldmatinn og ég var ekki viðstödd fór óvart svo að laukur slæddist með grænmetinu. Það má víst ekki á stigi 1. Smá var komið ofan í mig áður en ég fattaði það - held að lítið hafi farið ofan í dóttur mína, en vona að ekki sé mikill skaði skeður.

Kjötsoð dagsins: Kjúklingaleggjasoð

Ég vil líka segja frá því að þetta tekur á andlega. Það er ömurlegt að vera svona slöpp eins og ég var í morgun og bæði fer það eitt og sér í skapið á manni og svo má reikna með því að þetta die off hafi líka áhrif á geðið. Stelpan mín er til dæmis búin að vera dálítið neikvæð á köflum í dag og í gær (og skyldi svosem engan undra). Í gær var ég rosa lipur og ljúf og hvetjandi og góð mamma og alveg á hjólum við að snúa nöldri yfir í bjartsýni og sjálfsvorkun í ánægju og snúast í kringum hana á alla kanta - en framan af deginum í dag varð ég vör við áþreifanlega afturför í umönnunar- og uppeldisfærni minni...

En það eru líka góðar fréttir í pakkanum. Öndunin hjá þeirri stuttu er allt önnur nú þegar. Og bólgna, skorpna, sprungna og blóðrisa exemhreistrið er óðum að hrynja af og undan er farið að glitta í heila, slétta og mjúka húð. En dálítið rauð og svolítið hreistruð víða, en samt, það er ómetanlegt að fá svona hvatningu þegar hlutirnir eru erfiðir.

Og svo að ég klári frásögn mína af deginum, um sjöleytið hitti ég 2 konur sem hafa áhuga á að byrja á GAPS og vildu fá ráð hjá mér. Ég spjallaði við þær í klukkustund og sagði þeim allt sem ég veit... sem er því miður ekki alveg allt... Eins og mín er von og vísa hamraði ég á INNGANGSFÆÐINU - það þýðir ekkert að taka nokkrar vikur eða mánuði á fullu GAPS-fæði, finna litlar eða engar breytingar og dæma það þá bara úr leik...!!! Hef nú þegar hitt fólk sem hefur sagt mér þannig sögur og mér finnst það geeeeðveikt ergilegt. Fólk sem er með krabba fer ekkert bara stundum í kímó og segir svo bara ,,ah, þetta virkaði ekkert..." - annað hvort gerir maður hlutina alveg eins og fyrir er lagt þegar heilsan er annars vegar, eða maður getur bara sleppt þeim.

En þetta var víst komið fram áður. Og ég vona svo sannarlega að þessum tveimur frábæru konum sem ég hitti í kvöld gangi þetta rosalega vel. Ég hlakka til að fá að fylgjast með.

Svo var brennókvöld í kvöld. Ég er ekki frá því að ástæðan fyrir því að mér sortnaði fyrir augum í morgun, í allavega einhver skiptin, hafi verið tilhugsunin um að skjögra í brennó í kvöld. En þegar loks kom að því var ég orðin talsvert miklu hressari. Smellti mér því galvösk í leikinn og neita því svosem ekki að ég var merkjanlega andstyttri og úthaldsminni en venjulega, en vá hvað þetta var samt gott. Algerlega frábært að hreyfa sig svona í frábæru veðri í frábæru íslensku súrefni... Mmmmmh....

2 comments:

  1. Gott að lesa 1) hvað og hvernig þið borðið, og 2) að þið sjáið merkjanlegan árangur alveg strax. Ég hef lítið sem ekkert hugmyndaflug í eldamennsku dagsdaglega og minna en ekkert þegar kemur að GAPS introi, og því gott að sjá þetta hér. Ég hef td hent 4 eða jafnvel 5 tegundum af grænmeti í pott og soðið, úr þessu hefur orðið eitthvað hræðilegt sull, og í raun finnst mér ég hafa flækt málin þannig. Líst vel á silung og brokkolí, einfalt og jafnvel gott:)

    ReplyDelete
  2. Frábært, gott að þú hefur eitthvað gagn af þessu og gaman að geta gefið innblástur. Takk fyrir að kvitta ;-)

    ReplyDelete