Dagbókin okkar

Á þessum síðum skrifum við jafnóðum söguna okkar því hvernig við gerum markvissa tilraun á heilsu okkar samkvæmt leiðbeiningum Dr Campbell McBride - skref fyrir skref...
Showing posts with label GAPS. Show all posts
Showing posts with label GAPS. Show all posts

Saturday, July 10, 2010

Dagur 33

Vitið þið hvað?

Ég er alvarlega að íhuga að taka U-beygju út af innganginum. Ja hérna hér. Á dauða mínum átti ég von... en varla að ég myndi játa mig sigraða svo snarlega...

... en þó ekki endilega snarlega.

Fyrirhöfnin er brjálæðisleg og vegna aðstæðna og þess hráefnis sem ég er að finna hér er hún enn meiri en heima. Var ég ekki örugglega líka búin að nefna það hvað ég er enn, á köflum, orkulaus, dofin í hausnum, úthaldslaus og slöpp? Að ekki sé minnst á kostnaðinn sem er alveg að sliga mig. Að þurfa að kaupa ferskt og aukaefnalaust kjöt og grænmeti í stórum stíl (við erum alltaf svangar) er alveg að fara með fjárhaginn, sem ekki var nú svosem neitt góðæris- fyrir. Að meðaltali hefur maturinn okkar hér úti, undanfarna viku, kostað á milli 6000 og 7000 ISK á dag. Á DAG!!!

Það gerir um 210.000.- á mánuði. Glætan að ég hafi efni á þessu rugli! Það er ekki eins og ég sé að kaupa neina handplokkaða franska snigla eða sérveiddar mörgæsir frá suðurskautslandinu - aðallega bara hakkið sem virðist hvað hreinast hverju sinni og smá kjúlla. Brokkólí, papriku, kúrbít, blómkál og gulrætur. Jú og svo smá lauk. Egg og avókadó. Og drykkjarvatn, þar sem hreint vatn er mikilvægt á GAPS. Ég kemst bara ekki hjá því að hugsa með mér að það væri e.t.v. ódýrara ef ég gæti bætt fleiru við, t.d. möndlum, fræjum og slíkum afurðum, e.t.v. ávöxtum og svona. Allt er þetta reyndar fáránlega dýrt hérna en fyrirhöfnin væri kannski minni. Ég er enn að nota hnetur og möndlur sem ég kom með að heiman til að gera möndlumjólk og brauð fyrir yngra barnið mitt. En kannski er ég bara að gefast upp og leita að átyllum.

Ég viðurkenni að í þetta ár (bráðum) sem ég hef undirgengist GAPS-meðferð hef ég bara alls ekki verið ósátt við það. Man varla eftir skiptum þar sem ég hef horft öfundaraugum á fólk borða eitt eða annað sem ekki er leyfilegt fyrir mig, andað að mér angan að einhverju fersku eða nýbökuðu sem ég má ekki fá og látið mig dreyma, kvalist af löngun í eitthvað sem ég bara má ekki snerta...

... ég hef bara hreint út sagt verið öfgasátt á GAPS. Alltaf að borða einhverjar krásir og kræsingar, fullt af mat sem okkur finnst góður. Vinnan er reyndar ansi mikil, en vel þess virði. Dóttir mín hefur líka verið hæstánægð á GAPS enda finnur hún á sér mikinn mun og elskar þær kræsingar sem við höfum verið að reiða fram. Ég hef stundum sagt að hún sé heimsins besti kynningarfulltrúi fyrir þetta mataræði.

En núna er þetta einhvern veginn öðruvísi. Kannski af því að ég er aldrei almennilega södd. Fæðan sem snædd er á inngangi er svo auðmeltanleg að fólk borðar oft margfalt meira en það er vant þessar fyrstu vikur. Við mæðgur höfum þannig léttilega hesthúsað um 2 kg af kjöti (saman), til viðbótar við grænmeti og kjötsoð, hvern dag áður en við lögðum af stað í ferðalagið. Jafnvel meira. Merkilegt alveg. Núna er ég hins vegar alltaf að spara, ekki bara pening, heldur líka fyrirhöfn og einhvern veginn verð ég sjálf útundan og er aldrei alveg södd. Það tekur líka svo mikinn tíma að borða og ég er alltaf með stelpurnar (báðar), mikið ein og reyni að nota sem mest af tíma mínum í virka atvinnuleit af öllu mögulegu tagi. Þó að ég fylli stórt nestisbox fyrir sjálfa mig þegar ég fer að heiman, þá verð ég aldrei södd af innihaldi þess.

Þannig að kannski er það út af þessu sem ég er brjálæðislega óhamingjusöm þessa dagana þegar ég labba fram hjá kaffihúsum og veitingastöðum og finn lokkandi matarilm... ef ég hefði verið svona í heilt ár væri ég löngu orðin geðveik og/eða dottin oní pizzu, rjómatertu og lakkrís (tja, bara svona til að taka dæmi...).

Ég er svolítið að spá í BED nálgun á GAPSið... sem er kannski bara rugl. Þess má geta að ég er svöng núna, en ég ef læt það eftir mér að borða þá klára ég nestið sem ég ætlaði mér fyrir morgundaginn og ef ég geri það þá þarf ég að spandera hakki morgundagsins strax og þá þarf ég að kaupa enn meira hakk fyrir mánudaginn... þvílíkt endemis vesen (en dæmigert fyrir þetta daglega ástand).

Þannig að ég gerði það eina skynsamlega í stöðunni í dag. Ég gaf skít í háskólagráðurnar mínar þrjár og sótti um starf í heilsubúð. Ég meina, ef ég vinn í heilsubúð, þá fæ ég allavega afslátt af einhverju af þessu góssi... ekki satt?

Fékk mér sauerkrautsafa og agnarögn af kókosolíu með morgunmatnum. Mjög huguð, semsagt.

Maginn minn er enn mjög furðulegur frá því í fyrradag þegar ég borðaði lummuna og sykursvínið. Hann er bara einhvernveginn endalaust ,,rumbling" - ég finn ekkert viðeigandi íslenskt orð fyrir það. Fyrst var mér líka smá illt, en síðan bara þessi hryllilega fyrirferð sem ég veit ekki hvað skal kalla.

En já, ég gerði fleira skrítið í dag. Fór í búð með dætur mínar í morgun. Valdi sérstaklega dýra búð af því að skv. upplýsingum á heimasíðu fyrirtækisins sem framleiðir lífræna smjörið (það eina sem ég hef fundið hér) átti það (smjörið) að fást þar. En svo reyndist ekki vera. Snuð.

En ég fann samt lífrænt kjöt. Og svo fann ég nokkuð sem ekki var lífrænt en virtist frekar hreint. Hvað veit maður samt (sbr. sykursvínið)...

... í augnabliksveikleika henti ég þessari kjötvöru í kerruna ásamt fleiru. Var samt meðvituð um verðið, ekki nema um 8.000.- (ISK) kílóið, eða um fjórfalt verðið á nautahakkinu góða. Veit ekki hvað kom yfir mig og get ekki skýrt það með öðru en stundarbrjálæði, e.t.v. undir áhrifum frá öllu fjárhags-, heilsu- og tímaálaginu...

Og svo fór ég heim. Síðdegis byrjaði ég að elda. Þegar ég var búin að pakka utan af viðkomandi vöru fattaði ég að til þess að hún fái virkilega að njóta sín er alveg útilokað að ,,ofnsjóða" hana. Eins gæti ég bara keyrt yfir hana. Þannig að nú voru góð ráð dýr... átti ég að skemma rándýru vöruna (með illri eldunarmeðferð) eða stökkva upp um stig á innganginum (upp á stig 4)???

Ég var, nota bene, búin að opna umbúðirnar. Og ég vil meina að við mæðgur höfum bara einfaldlega átt skilið smá dekur. Þannig að við blönduðum stigum dálítið í dag. Sennilega ekki gott fyrir okkur. Mjög linar hægðir hjá dóttur minni í kvöld. En samt... mmmmh....

Matseðillinn

Morgumatur minn: 2 linsoðin egg og soðið grænmeti (1 tsk sauerkrautsafi, 1/2 tsk kókosolía)
Morgunmatur barnsins: Rest af kjúklingi og grænmeti frá því í gær

Hádegismatur minn: 1 linsoðið egg og grænmeti
Hádegismatur barnsins: Nautahakkskássa með lauk

Síðdegisverður: Ofnbakaðar andabringur með lárperumauki og soðnum gulrótum og paprikum

Kvöldmatur: Nautahakkskássa (maukuð fyrir börnin, ómaukuð fyrir mig).

Engin böð (nema sturta)

Kjötsoð: Nýsjálenskt sauðasoð (framhald frá því í gær)

Þess má svo að lokum geta að andabringurnar voru bara tvær, við hefðum farið létt með þrjár eða fjórar. En við vorum allar vel undirbúnar fyrir þessa stund, hlökkuðum mikið til, vorum alveg í rétta hátíðargírnum, komum okkur vel fyrir í sólinni út á verönd og nutum hvers einasta bita...

Thursday, July 8, 2010

Dagur 31

Barnið hagaði sér eins og engill í dag, enda til mikils að vinna - lumma í boði að launum.

Matseðillinn

Morgunmatur minn: Linsoðin egg, soðið grænmeti og ofnsoðinn kjúklingur með grænmeti
Morgunmatur barnsins: Ofnsoðinn kjúklingur með grænmeti

Hádegisverður minn: Ofnsoðinn kjúklingur með grænmeti
Hádegis- og síðdegisverður barnsins: Svínahakkskássa

Kvöldverður: Ofnsoðinn lax með fersku dilli, soðnar gulrætur og blómkál með (ég fékk mér líka lárperu).

Kvöldverðurinn var mjög, mjög góður. Ég hef samt enga tryggingu fyrir því að laxinn hafi verið alveg hreinn.

Eftirréttur: 2 langþráðar möndlusmjörslummur fyrir barnið. Ein fyrir mig. Hún var ekki góð. Henti restinni af henni. Held að ferðalagið hafi ekki farið vel með þetta deig. Geri nýtt við tækifæri.

Kjötsoð dagsins: Mjög frumstætt kjúklingasoð... lítið krassandi.

Engin böð.

Maginn á mér er búinn að vera með uppsteit í allt kvöld, það byrjaði út af lummunni.

Svo var ég að fara að gera nesti fyrir morgundaginn og það er eiginlega klúður dagsins. Sko, ég er að reyna að kaupa ferska matvöru, gjarnan ódýra. Líka að bjóða upp á smá fjölbreytni. Þetta er ekkert grín, sko. Þannig að ég álpaðist til að kaupa svínakótilettur, hafandi velt þeim á alla kanta og innihaldslýsingin nefndi ekkert nema svínakjöt.

Auðvitað veit ég betur - ég veit að það er oft eitt og annað í kjöti sem ekki er um getið. Sykursprautun er t.d. mjög vinsæl. En á hinn bóginn; hvað get ég gert?

Ansans... allavega, ég hefði ekki átt að kaupa þetta kjöt. Ég bara ákvað að vera æðrulaus. Smellti því í ofninn í kvöld, fór svo að gera annað. Tók það út og ætlaði að brytja niður fyrir mig í nesti og fyrir barnið í máltíðir morgundagsins. Byrjaði að brytja, smakkaði smá og þá rann á mig æði. Áður en ég vissi af var ég búin að tæta í mig megnið af heilli kótilettu. Tek fram að ég var / er orðin þreytt og var annars hugar. Fattaði svo allt í einu hvað ég var að gera. Það var lokkandi dísætt bragð af kjötinu, alls ekki það sem ég er vön sl. 11 mánuði. Úff. Vökvinn í eldfasta mótinu eins og síróp.

Ansans.

Þannig að... ég sópaði öllu í dall fyrir barnapíuna. Hún verður jafnframt að útbúa mat fyrir barnið á morgun. Ég fiskaði mauksoðna kjúklingabita upp í dall fyrir sjálfa mig - mun gæða mér á þeim í nesti á morgun, ásamt með ofnbökuðu grænmeti. Ógeðslega ógirnilegt... en hey. Betra en sykur.

Og útbrotin hörfa enn. Samt ekki enn alveg farin og túpan að verða búin. Ætli þau fari ekki alveg?

Wednesday, July 7, 2010

Dagur 30

Goddag, goddag.

Nú hefur sterakrem verið borið þrisvar á húð barnsins. Húðin er öll önnur. Strax í morgun (eftir eina áburðarumferð) var glögglega greinanlegur munur. Mér var mjög létt.

Sjálf segist hún ekki viss. Klæjar enn svolítið og kroppar mikið í flagnandi skinn.

En bíðum nú við. Ég var svosem ekki með hana mikið í dag, þar sem lunginn úr deginum fór í atvinnuleit. En barnapían tilkynnti nýjar hæðir í óþekkt og ,,ofvirkni" eins og hún orðaði það. Sjálf varð ég undir kvöldið vör við smá skapgerðarbresti sem ekki hefur mikið bólað á upp á síðkastið, til dæmis geðveikislegan kjánahlátur og fleira gamalkunnugt. Ég tek það fram að ég átti ekki von á neinu svona, allrasíst strax og það var ekki fyrr en ég ræddi við barnapíuna að á mig fóru að renna tvær grímur. Samt... það er of snemmt að álykta neitt. Við sjáum hvað setur. Hún hafði hægðir í morgun, þær voru ekki fullkomnar eins og í undanfarin skipti, en það þarf ekki að þýða neitt sérstakt heldur. Látum ganga fyrir núna að ná húðinni í samt lag.

Matseðillinn

Morgunmatur barnsins: Ofnsoðnar kjúklingabringur í grænmeti
Morgunmatur minn: Ofnsoðnar kjúklingabringur í grænmeti, nokkrir bitar af lífrænni lárperu og 2 linsoðin egg.

Hádegismatur minn (snæddur á sporvagnsstoppistöð við Trondheimsveien): Ofnsoðnar kjúllabringur í grænmeti
Hádegis- og síðdegisverður barnsins: Maukuð nautahakkskássa

Kvöldverður minn: Ný nautahakkskássa
Kvöldverður barnsins: Nýja nautahakkskássan maukuð

Soð dagsins: Síðustu droparnir af kjúklingabeinasoðinu - og nú erum við uppiskroppa

Ekkert bað en ég setti egg í hárið á henni í kvöld (þvoði semsagt hárið)

Monday, June 28, 2010

Dagur 21

3 vikur???
Eruði ekki að grínast???
Vá... magnað...
Tíðindi dagsins eru helst þau að Bláa lónið virðist vera að sanna lækningamátt sinn. Skinnið litla fór í lónið í morgun og talar uppveðruð um þann mikla mun sem hún finnur. Ég sé mun, húðin er ljósari, jafnari og minna upphleypt. Hún klóraði sér ekkert fyrr en hún tók af sér úlnliðshlífarnar sem hún notar (ásamt með alls kyns öðrum hlífðarbúnaði) þegar hún spreytir sig á nýju hjólaskónum sínum. Þá klæjaði hana þar. Ég gaf henni nýtt krem á það frá grasalækni sem við höfum ekki prófað áður. Þess má geta að það var frænka hennar sem gaukaði að okkur kreminu, en sú frænka er á SCD sem segja má að segja fyrirrennari GAPS (sumir taka það fram yfir). Kremið virtist slá á kláðann.
Planið er að fara með hana daglega í lónið í nokkra daga. SCD-frænkan og önnur góð sem gift er inn í föðurfjölskylduna gáfu okkur frímiðana sína í lónið. Í vikulokin förum við út og þá verður náttúrlega ekki um það nein blá lón að ræða, mikilvægt að fá sem mest út úr því á meðan við getum.
Ég gaf henni teskeið af kókosolíu í dag, aftur. Það virtist ekki gera neitt slæmt síðast. Leyfi mér þá að reikna með að það eigi að vera í lagi. Í kvöld gaf ég henni líka teskeið af heitu möndlusmjöri. Það er e.k. test svo við getum byrjað að fikra okkur nær möndlusmjörs-lummunum sem eru sennilega það mest spennandi við stig 3, allavega fyrir krakkakríli. Já og mig... ég viðurkenni fúslega að ég er farin að þrá smá uppbrot. Það verður ekki leiðinlegt að geta bætt þessu við ef vel gengur. Ég hef reyndar ekki verið að þola neins konar bökunarvörur eða brauðmeti vel undanfarið. En það lagast kannski... ég prófaði allavega líka með henni, 1 litla teskeið. Himneskt. Þannig að þá erum við eiginlega hér með formlega byrjaðar á stigi 3. Sjáum svo til hvernig æxlast.
Magnað hvað maður lærir að meta mat á allt annan hátt...
Svo er það annað sem mér finnst mjög merkilegt og vil endilega tjá mig um.
Í síðustu viku kláraðist heimagerði og GAPS-væni armkrika ilmbætirinn minn. Ég datt niður á uppskriftina í haust skömmu eftir að ég byrjaði á GAPS og hef ekki notað annan síðan. Árin þar á undan var ég búin að vera með mjög stæka og þráláta svitalykt, svitna frekar mikið og semsagt mjög lyktsterkt. Svitalyktareyðar virkuðu sumir ágætlega í svona 2 - 4 vikur, en svo hættu þeir bara að virka. Undir það síðasta var ég að nota lífrænan frá Aubrey Organics. Það var semsagt hann sem ég fann þarna í síðustu viku þegar minn var búinn og ég þurfti nauðsynlega að fara út á meðal fólks. Þannig að ég smellti honum á mig og hélt að það myndi líða yfir mig vegna efnalyktarinnar. En ég komst af og... hef ekki þurft svitalyktareyði nema einu sinni síðan.
Athugið - þetta er mjög merkilegt. Kona sem þurfti áður oft að skipta um bol um miðjan dag vegna stækrar líkamslyktar getur nú verið dag eftir dag í sömu fötum (að því gefnu að þau óhreinkist ekki á annan hátt). Það gerðist einn daginn í ferðalaginu þegar ég sat lengi í hita í bílnum í kjól úr gerfiefni að það myndaðist svitalykt. Þess utan... alveg frí við allan þef. Ég lét meira að segja vesalings systur mína hnusa af mér og fötunum mínum þar sem ég átti bágt með að trúa eigin nefi...
Ég var ekki búin að átta mig á því hvílíkir fjötrar fylgdu svitavandamálinu, eða að það væri í raun vandamál yfir höfuð, en vá, hvað ég er að uppgötva nýjan heim núna. Hvað getur kona sagt?
Ég hef lesið fjölmargar reynslusögur fólks á GAPS-spjallinu sem hefur einn daginn vaknað upp við það sama - ilmuðu bara eins og blóm, án nokkurs eyðis. Þessar sögur snertu mig ekkert sérstaklega og ég get ekki sagt að þetta atriði hafi verið efst á óskalistanum mínum. En svo, þegar það gerist, þá er ég samt alveg orðlaus. Þetta er svo mikil sönnun á því að það sem er að gerast í kroppnum mínum er rétt. Alveg eins og góða andlega jafnvægið hjá dóttur minni, lauflétta öndunin og fullkomnu hægðirnar (okkar beggja). Þetta er ótrúlega kærkomin hvatning - við erum svo á réttri leið!
Matseðillinn
Morgunmatur: Ofnsoðnar svínalundir og pottsoðið grænmeti
Hádegismatur barnsins: Svínalundarest
Hádegismatur minn: 3 egg og rest af soðnu grænmeti (fór ekki mjög vel í maga)
Síðdegishressing barnsins: Kjúklingaleggir
Kvöldmatur: Ofnsoðinn lax og ofnsoðið grænmeti
Bað dagsins: Bláa Lónið (fyrir hana - ekkert fyrir mig)
Kjötsoð dagsins: Kjúklingabeinasoð

Sunday, June 27, 2010

Dagur 20

Við erum komnar heim en tölvan mín sem var í straujun nær ekki að tengjast netinu. Þannig að nú er ég í lánstölvu, bara til að geta bloggað smá um ferlið allt saman...

Stelpan var ívið skárri í húðinni í dag. Ljómandi góð líðan, öndun og hægðir. Engin kókosolía í dag.

Ég setti smá bláa lóns-leir á hana í kvöld, það virtist hjálpa smá... erfitt að segja samt.

Matseðillinn

Kássurest í morgun, kjúklingaleggir og soðið grænmeti á ferðinni og kjúklingalæri í kvöldmat heima.

Soð dagsins: Kjúllabein

Bað dagsins: Nada... ekkert bað í dag...

Saturday, June 26, 2010

Dagur 19

Það gleður mig að greina frá því að við borðuðum hvorki nautahakkskássu né kjúklingalæri í dag. Ónei, við borðuðum svínahakkskássu og kjúklingafillé... sem gerir sko gæfumuninn.
Fórum aftur í jarðböðin í dag. Aðalmálið með því að vera að þvælast þessa leið á ný var samt að ná í leir í ,,gamla" bláa lóninu þarna við Mývatn. Ég tiplaði út í með gallabuxurnar uppbrettar og skóf og skóf af botninum í 3 dalla. Planið er að prófa að smyrja þessu á barnið og sjá hvort einhver munur verður á.
En semsagt ágætur dagur. Framan af vorum við á Akureyri og ég eyddi ómældum tíma í að elda við þessar leiðinlega frumstæðu aðstæður. Að því sögðu vil ég taka fram að þessi íbúð er mjög kósí og aðstaðan að flestu leyti alveg rosalega góð, eiginlega bara mesti lúxus. Myglusveppirnir setja strik í reikninginn og svo er ég ekki með fjölbreytt tól til eldunar. Annars alveg frábært.
Stelpan hefur það svipað og í gær. Tók heiftugt kláðakast í nótt. Klæjar í dag. Flagnar smá en er samt bólgin. Ég gaf henni eina teskeið af kókosolíu í dag.
Tek það fram að maginn hennar virðist mjög góður, hægðir eru fínar, andleg líðan stöðug, öndun góð... allt í blóma nema húðin.
Matseðillinn
Morgunmatur: Ofnsoðin kjúklingafillé og soðnar paprikur (og 3 egg fyrir mig).
Hádegismatur: Svínahakkskássa
Kvöldmatur: Svínahakkskássa / kjúlli
Tek fram að litla barnið er að borða ýmislegt fleira.
Kjötsoðið gekk ekki vel í dag. Það var mjög misheppnað. Á endanum fengum við okkur bara lítið og ég ætla að henda rest...
Soð dagsins: Misheppnað nautabeinasoð
Bað dagsins: Jarðböðin við Mývatn
Ég sef allt of lítið. Þetta frí er sko langt frá því að vera hvíld.