Dagbókin okkar

Á þessum síðum skrifum við jafnóðum söguna okkar því hvernig við gerum markvissa tilraun á heilsu okkar samkvæmt leiðbeiningum Dr Campbell McBride - skref fyrir skref...

Saturday, June 26, 2010

Dagur 19

Það gleður mig að greina frá því að við borðuðum hvorki nautahakkskássu né kjúklingalæri í dag. Ónei, við borðuðum svínahakkskássu og kjúklingafillé... sem gerir sko gæfumuninn.
Fórum aftur í jarðböðin í dag. Aðalmálið með því að vera að þvælast þessa leið á ný var samt að ná í leir í ,,gamla" bláa lóninu þarna við Mývatn. Ég tiplaði út í með gallabuxurnar uppbrettar og skóf og skóf af botninum í 3 dalla. Planið er að prófa að smyrja þessu á barnið og sjá hvort einhver munur verður á.
En semsagt ágætur dagur. Framan af vorum við á Akureyri og ég eyddi ómældum tíma í að elda við þessar leiðinlega frumstæðu aðstæður. Að því sögðu vil ég taka fram að þessi íbúð er mjög kósí og aðstaðan að flestu leyti alveg rosalega góð, eiginlega bara mesti lúxus. Myglusveppirnir setja strik í reikninginn og svo er ég ekki með fjölbreytt tól til eldunar. Annars alveg frábært.
Stelpan hefur það svipað og í gær. Tók heiftugt kláðakast í nótt. Klæjar í dag. Flagnar smá en er samt bólgin. Ég gaf henni eina teskeið af kókosolíu í dag.
Tek það fram að maginn hennar virðist mjög góður, hægðir eru fínar, andleg líðan stöðug, öndun góð... allt í blóma nema húðin.
Matseðillinn
Morgunmatur: Ofnsoðin kjúklingafillé og soðnar paprikur (og 3 egg fyrir mig).
Hádegismatur: Svínahakkskássa
Kvöldmatur: Svínahakkskássa / kjúlli
Tek fram að litla barnið er að borða ýmislegt fleira.
Kjötsoðið gekk ekki vel í dag. Það var mjög misheppnað. Á endanum fengum við okkur bara lítið og ég ætla að henda rest...
Soð dagsins: Misheppnað nautabeinasoð
Bað dagsins: Jarðböðin við Mývatn
Ég sef allt of lítið. Þetta frí er sko langt frá því að vera hvíld.

No comments:

Post a Comment