Dagbókin okkar

Á þessum síðum skrifum við jafnóðum söguna okkar því hvernig við gerum markvissa tilraun á heilsu okkar samkvæmt leiðbeiningum Dr Campbell McBride - skref fyrir skref...

Monday, June 28, 2010

Dagur 21

3 vikur???
Eruði ekki að grínast???
Vá... magnað...
Tíðindi dagsins eru helst þau að Bláa lónið virðist vera að sanna lækningamátt sinn. Skinnið litla fór í lónið í morgun og talar uppveðruð um þann mikla mun sem hún finnur. Ég sé mun, húðin er ljósari, jafnari og minna upphleypt. Hún klóraði sér ekkert fyrr en hún tók af sér úlnliðshlífarnar sem hún notar (ásamt með alls kyns öðrum hlífðarbúnaði) þegar hún spreytir sig á nýju hjólaskónum sínum. Þá klæjaði hana þar. Ég gaf henni nýtt krem á það frá grasalækni sem við höfum ekki prófað áður. Þess má geta að það var frænka hennar sem gaukaði að okkur kreminu, en sú frænka er á SCD sem segja má að segja fyrirrennari GAPS (sumir taka það fram yfir). Kremið virtist slá á kláðann.
Planið er að fara með hana daglega í lónið í nokkra daga. SCD-frænkan og önnur góð sem gift er inn í föðurfjölskylduna gáfu okkur frímiðana sína í lónið. Í vikulokin förum við út og þá verður náttúrlega ekki um það nein blá lón að ræða, mikilvægt að fá sem mest út úr því á meðan við getum.
Ég gaf henni teskeið af kókosolíu í dag, aftur. Það virtist ekki gera neitt slæmt síðast. Leyfi mér þá að reikna með að það eigi að vera í lagi. Í kvöld gaf ég henni líka teskeið af heitu möndlusmjöri. Það er e.k. test svo við getum byrjað að fikra okkur nær möndlusmjörs-lummunum sem eru sennilega það mest spennandi við stig 3, allavega fyrir krakkakríli. Já og mig... ég viðurkenni fúslega að ég er farin að þrá smá uppbrot. Það verður ekki leiðinlegt að geta bætt þessu við ef vel gengur. Ég hef reyndar ekki verið að þola neins konar bökunarvörur eða brauðmeti vel undanfarið. En það lagast kannski... ég prófaði allavega líka með henni, 1 litla teskeið. Himneskt. Þannig að þá erum við eiginlega hér með formlega byrjaðar á stigi 3. Sjáum svo til hvernig æxlast.
Magnað hvað maður lærir að meta mat á allt annan hátt...
Svo er það annað sem mér finnst mjög merkilegt og vil endilega tjá mig um.
Í síðustu viku kláraðist heimagerði og GAPS-væni armkrika ilmbætirinn minn. Ég datt niður á uppskriftina í haust skömmu eftir að ég byrjaði á GAPS og hef ekki notað annan síðan. Árin þar á undan var ég búin að vera með mjög stæka og þráláta svitalykt, svitna frekar mikið og semsagt mjög lyktsterkt. Svitalyktareyðar virkuðu sumir ágætlega í svona 2 - 4 vikur, en svo hættu þeir bara að virka. Undir það síðasta var ég að nota lífrænan frá Aubrey Organics. Það var semsagt hann sem ég fann þarna í síðustu viku þegar minn var búinn og ég þurfti nauðsynlega að fara út á meðal fólks. Þannig að ég smellti honum á mig og hélt að það myndi líða yfir mig vegna efnalyktarinnar. En ég komst af og... hef ekki þurft svitalyktareyði nema einu sinni síðan.
Athugið - þetta er mjög merkilegt. Kona sem þurfti áður oft að skipta um bol um miðjan dag vegna stækrar líkamslyktar getur nú verið dag eftir dag í sömu fötum (að því gefnu að þau óhreinkist ekki á annan hátt). Það gerðist einn daginn í ferðalaginu þegar ég sat lengi í hita í bílnum í kjól úr gerfiefni að það myndaðist svitalykt. Þess utan... alveg frí við allan þef. Ég lét meira að segja vesalings systur mína hnusa af mér og fötunum mínum þar sem ég átti bágt með að trúa eigin nefi...
Ég var ekki búin að átta mig á því hvílíkir fjötrar fylgdu svitavandamálinu, eða að það væri í raun vandamál yfir höfuð, en vá, hvað ég er að uppgötva nýjan heim núna. Hvað getur kona sagt?
Ég hef lesið fjölmargar reynslusögur fólks á GAPS-spjallinu sem hefur einn daginn vaknað upp við það sama - ilmuðu bara eins og blóm, án nokkurs eyðis. Þessar sögur snertu mig ekkert sérstaklega og ég get ekki sagt að þetta atriði hafi verið efst á óskalistanum mínum. En svo, þegar það gerist, þá er ég samt alveg orðlaus. Þetta er svo mikil sönnun á því að það sem er að gerast í kroppnum mínum er rétt. Alveg eins og góða andlega jafnvægið hjá dóttur minni, lauflétta öndunin og fullkomnu hægðirnar (okkar beggja). Þetta er ótrúlega kærkomin hvatning - við erum svo á réttri leið!
Matseðillinn
Morgunmatur: Ofnsoðnar svínalundir og pottsoðið grænmeti
Hádegismatur barnsins: Svínalundarest
Hádegismatur minn: 3 egg og rest af soðnu grænmeti (fór ekki mjög vel í maga)
Síðdegishressing barnsins: Kjúklingaleggir
Kvöldmatur: Ofnsoðinn lax og ofnsoðið grænmeti
Bað dagsins: Bláa Lónið (fyrir hana - ekkert fyrir mig)
Kjötsoð dagsins: Kjúklingabeinasoð

No comments:

Post a Comment