Dagbókin okkar

Á þessum síðum skrifum við jafnóðum söguna okkar því hvernig við gerum markvissa tilraun á heilsu okkar samkvæmt leiðbeiningum Dr Campbell McBride - skref fyrir skref...

Saturday, July 10, 2010

Dagur 33

Vitið þið hvað?

Ég er alvarlega að íhuga að taka U-beygju út af innganginum. Ja hérna hér. Á dauða mínum átti ég von... en varla að ég myndi játa mig sigraða svo snarlega...

... en þó ekki endilega snarlega.

Fyrirhöfnin er brjálæðisleg og vegna aðstæðna og þess hráefnis sem ég er að finna hér er hún enn meiri en heima. Var ég ekki örugglega líka búin að nefna það hvað ég er enn, á köflum, orkulaus, dofin í hausnum, úthaldslaus og slöpp? Að ekki sé minnst á kostnaðinn sem er alveg að sliga mig. Að þurfa að kaupa ferskt og aukaefnalaust kjöt og grænmeti í stórum stíl (við erum alltaf svangar) er alveg að fara með fjárhaginn, sem ekki var nú svosem neitt góðæris- fyrir. Að meðaltali hefur maturinn okkar hér úti, undanfarna viku, kostað á milli 6000 og 7000 ISK á dag. Á DAG!!!

Það gerir um 210.000.- á mánuði. Glætan að ég hafi efni á þessu rugli! Það er ekki eins og ég sé að kaupa neina handplokkaða franska snigla eða sérveiddar mörgæsir frá suðurskautslandinu - aðallega bara hakkið sem virðist hvað hreinast hverju sinni og smá kjúlla. Brokkólí, papriku, kúrbít, blómkál og gulrætur. Jú og svo smá lauk. Egg og avókadó. Og drykkjarvatn, þar sem hreint vatn er mikilvægt á GAPS. Ég kemst bara ekki hjá því að hugsa með mér að það væri e.t.v. ódýrara ef ég gæti bætt fleiru við, t.d. möndlum, fræjum og slíkum afurðum, e.t.v. ávöxtum og svona. Allt er þetta reyndar fáránlega dýrt hérna en fyrirhöfnin væri kannski minni. Ég er enn að nota hnetur og möndlur sem ég kom með að heiman til að gera möndlumjólk og brauð fyrir yngra barnið mitt. En kannski er ég bara að gefast upp og leita að átyllum.

Ég viðurkenni að í þetta ár (bráðum) sem ég hef undirgengist GAPS-meðferð hef ég bara alls ekki verið ósátt við það. Man varla eftir skiptum þar sem ég hef horft öfundaraugum á fólk borða eitt eða annað sem ekki er leyfilegt fyrir mig, andað að mér angan að einhverju fersku eða nýbökuðu sem ég má ekki fá og látið mig dreyma, kvalist af löngun í eitthvað sem ég bara má ekki snerta...

... ég hef bara hreint út sagt verið öfgasátt á GAPS. Alltaf að borða einhverjar krásir og kræsingar, fullt af mat sem okkur finnst góður. Vinnan er reyndar ansi mikil, en vel þess virði. Dóttir mín hefur líka verið hæstánægð á GAPS enda finnur hún á sér mikinn mun og elskar þær kræsingar sem við höfum verið að reiða fram. Ég hef stundum sagt að hún sé heimsins besti kynningarfulltrúi fyrir þetta mataræði.

En núna er þetta einhvern veginn öðruvísi. Kannski af því að ég er aldrei almennilega södd. Fæðan sem snædd er á inngangi er svo auðmeltanleg að fólk borðar oft margfalt meira en það er vant þessar fyrstu vikur. Við mæðgur höfum þannig léttilega hesthúsað um 2 kg af kjöti (saman), til viðbótar við grænmeti og kjötsoð, hvern dag áður en við lögðum af stað í ferðalagið. Jafnvel meira. Merkilegt alveg. Núna er ég hins vegar alltaf að spara, ekki bara pening, heldur líka fyrirhöfn og einhvern veginn verð ég sjálf útundan og er aldrei alveg södd. Það tekur líka svo mikinn tíma að borða og ég er alltaf með stelpurnar (báðar), mikið ein og reyni að nota sem mest af tíma mínum í virka atvinnuleit af öllu mögulegu tagi. Þó að ég fylli stórt nestisbox fyrir sjálfa mig þegar ég fer að heiman, þá verð ég aldrei södd af innihaldi þess.

Þannig að kannski er það út af þessu sem ég er brjálæðislega óhamingjusöm þessa dagana þegar ég labba fram hjá kaffihúsum og veitingastöðum og finn lokkandi matarilm... ef ég hefði verið svona í heilt ár væri ég löngu orðin geðveik og/eða dottin oní pizzu, rjómatertu og lakkrís (tja, bara svona til að taka dæmi...).

Ég er svolítið að spá í BED nálgun á GAPSið... sem er kannski bara rugl. Þess má geta að ég er svöng núna, en ég ef læt það eftir mér að borða þá klára ég nestið sem ég ætlaði mér fyrir morgundaginn og ef ég geri það þá þarf ég að spandera hakki morgundagsins strax og þá þarf ég að kaupa enn meira hakk fyrir mánudaginn... þvílíkt endemis vesen (en dæmigert fyrir þetta daglega ástand).

Þannig að ég gerði það eina skynsamlega í stöðunni í dag. Ég gaf skít í háskólagráðurnar mínar þrjár og sótti um starf í heilsubúð. Ég meina, ef ég vinn í heilsubúð, þá fæ ég allavega afslátt af einhverju af þessu góssi... ekki satt?

Fékk mér sauerkrautsafa og agnarögn af kókosolíu með morgunmatnum. Mjög huguð, semsagt.

Maginn minn er enn mjög furðulegur frá því í fyrradag þegar ég borðaði lummuna og sykursvínið. Hann er bara einhvernveginn endalaust ,,rumbling" - ég finn ekkert viðeigandi íslenskt orð fyrir það. Fyrst var mér líka smá illt, en síðan bara þessi hryllilega fyrirferð sem ég veit ekki hvað skal kalla.

En já, ég gerði fleira skrítið í dag. Fór í búð með dætur mínar í morgun. Valdi sérstaklega dýra búð af því að skv. upplýsingum á heimasíðu fyrirtækisins sem framleiðir lífræna smjörið (það eina sem ég hef fundið hér) átti það (smjörið) að fást þar. En svo reyndist ekki vera. Snuð.

En ég fann samt lífrænt kjöt. Og svo fann ég nokkuð sem ekki var lífrænt en virtist frekar hreint. Hvað veit maður samt (sbr. sykursvínið)...

... í augnabliksveikleika henti ég þessari kjötvöru í kerruna ásamt fleiru. Var samt meðvituð um verðið, ekki nema um 8.000.- (ISK) kílóið, eða um fjórfalt verðið á nautahakkinu góða. Veit ekki hvað kom yfir mig og get ekki skýrt það með öðru en stundarbrjálæði, e.t.v. undir áhrifum frá öllu fjárhags-, heilsu- og tímaálaginu...

Og svo fór ég heim. Síðdegis byrjaði ég að elda. Þegar ég var búin að pakka utan af viðkomandi vöru fattaði ég að til þess að hún fái virkilega að njóta sín er alveg útilokað að ,,ofnsjóða" hana. Eins gæti ég bara keyrt yfir hana. Þannig að nú voru góð ráð dýr... átti ég að skemma rándýru vöruna (með illri eldunarmeðferð) eða stökkva upp um stig á innganginum (upp á stig 4)???

Ég var, nota bene, búin að opna umbúðirnar. Og ég vil meina að við mæðgur höfum bara einfaldlega átt skilið smá dekur. Þannig að við blönduðum stigum dálítið í dag. Sennilega ekki gott fyrir okkur. Mjög linar hægðir hjá dóttur minni í kvöld. En samt... mmmmh....

Matseðillinn

Morgumatur minn: 2 linsoðin egg og soðið grænmeti (1 tsk sauerkrautsafi, 1/2 tsk kókosolía)
Morgunmatur barnsins: Rest af kjúklingi og grænmeti frá því í gær

Hádegismatur minn: 1 linsoðið egg og grænmeti
Hádegismatur barnsins: Nautahakkskássa með lauk

Síðdegisverður: Ofnbakaðar andabringur með lárperumauki og soðnum gulrótum og paprikum

Kvöldmatur: Nautahakkskássa (maukuð fyrir börnin, ómaukuð fyrir mig).

Engin böð (nema sturta)

Kjötsoð: Nýsjálenskt sauðasoð (framhald frá því í gær)

Þess má svo að lokum geta að andabringurnar voru bara tvær, við hefðum farið létt með þrjár eða fjórar. En við vorum allar vel undirbúnar fyrir þessa stund, hlökkuðum mikið til, vorum alveg í rétta hátíðargírnum, komum okkur vel fyrir í sólinni út á verönd og nutum hvers einasta bita...

No comments:

Post a Comment