Dagbókin okkar

Á þessum síðum skrifum við jafnóðum söguna okkar því hvernig við gerum markvissa tilraun á heilsu okkar samkvæmt leiðbeiningum Dr Campbell McBride - skref fyrir skref...

Thursday, July 8, 2010

Dagur 31

Barnið hagaði sér eins og engill í dag, enda til mikils að vinna - lumma í boði að launum.

Matseðillinn

Morgunmatur minn: Linsoðin egg, soðið grænmeti og ofnsoðinn kjúklingur með grænmeti
Morgunmatur barnsins: Ofnsoðinn kjúklingur með grænmeti

Hádegisverður minn: Ofnsoðinn kjúklingur með grænmeti
Hádegis- og síðdegisverður barnsins: Svínahakkskássa

Kvöldverður: Ofnsoðinn lax með fersku dilli, soðnar gulrætur og blómkál með (ég fékk mér líka lárperu).

Kvöldverðurinn var mjög, mjög góður. Ég hef samt enga tryggingu fyrir því að laxinn hafi verið alveg hreinn.

Eftirréttur: 2 langþráðar möndlusmjörslummur fyrir barnið. Ein fyrir mig. Hún var ekki góð. Henti restinni af henni. Held að ferðalagið hafi ekki farið vel með þetta deig. Geri nýtt við tækifæri.

Kjötsoð dagsins: Mjög frumstætt kjúklingasoð... lítið krassandi.

Engin böð.

Maginn á mér er búinn að vera með uppsteit í allt kvöld, það byrjaði út af lummunni.

Svo var ég að fara að gera nesti fyrir morgundaginn og það er eiginlega klúður dagsins. Sko, ég er að reyna að kaupa ferska matvöru, gjarnan ódýra. Líka að bjóða upp á smá fjölbreytni. Þetta er ekkert grín, sko. Þannig að ég álpaðist til að kaupa svínakótilettur, hafandi velt þeim á alla kanta og innihaldslýsingin nefndi ekkert nema svínakjöt.

Auðvitað veit ég betur - ég veit að það er oft eitt og annað í kjöti sem ekki er um getið. Sykursprautun er t.d. mjög vinsæl. En á hinn bóginn; hvað get ég gert?

Ansans... allavega, ég hefði ekki átt að kaupa þetta kjöt. Ég bara ákvað að vera æðrulaus. Smellti því í ofninn í kvöld, fór svo að gera annað. Tók það út og ætlaði að brytja niður fyrir mig í nesti og fyrir barnið í máltíðir morgundagsins. Byrjaði að brytja, smakkaði smá og þá rann á mig æði. Áður en ég vissi af var ég búin að tæta í mig megnið af heilli kótilettu. Tek fram að ég var / er orðin þreytt og var annars hugar. Fattaði svo allt í einu hvað ég var að gera. Það var lokkandi dísætt bragð af kjötinu, alls ekki það sem ég er vön sl. 11 mánuði. Úff. Vökvinn í eldfasta mótinu eins og síróp.

Ansans.

Þannig að... ég sópaði öllu í dall fyrir barnapíuna. Hún verður jafnframt að útbúa mat fyrir barnið á morgun. Ég fiskaði mauksoðna kjúklingabita upp í dall fyrir sjálfa mig - mun gæða mér á þeim í nesti á morgun, ásamt með ofnbökuðu grænmeti. Ógeðslega ógirnilegt... en hey. Betra en sykur.

Og útbrotin hörfa enn. Samt ekki enn alveg farin og túpan að verða búin. Ætli þau fari ekki alveg?

No comments:

Post a Comment