Dagbókin okkar

Á þessum síðum skrifum við jafnóðum söguna okkar því hvernig við gerum markvissa tilraun á heilsu okkar samkvæmt leiðbeiningum Dr Campbell McBride - skref fyrir skref...

Tuesday, June 29, 2010

Dagur 22

Jæja. Ég er farin að verða dálítið stressuð vegna fyrirhugaðrar ferðar til útlanda. Við förum á föstudaginn. Ég verð basically ,,on the road" með börnin í 2 daga. Það getur orðið svolítið strembið, miðað við reynsluna frá því í ferðalaginu fyrir norðan. Dálítið mikið mál að vera sífellt að elda og elda og elda og elda og pakka í nestisbox og svo framvegis. Sérstaklega þar sem börnin mín borða mikið þessa dagana (ég líka). Ég hugsa að ég reyni að hafa meira af fljótlegu meðferðis fyrir þá minni, hún getur borðað banana og kex og alls konar þannig. Svo er bara að herða upp hugann og taka einn dag í einu.

Í gær pantaði ég eitt og annað GAPS-tengt af netinu:
  • Biokult - læknirinn mælir með því
  • Þorskalifrarolía - ég myndi segja lýsi, nema lýsi ku hafa verið hitað í framleiðsluferlinu sem dregur víst verulega úr gæðum þess (endilega leiðréttið mig ef þið vitið betur)
  • Charlies soap - lífrænt þvottaefni sem vonandi ertir enga húð (að því gefnu að þvottaefni hafi hugsanlega eitthvað með húðvandamál dóttur minnar að gera
Í dag reyndi ég heiðarlega að panta fyrir sjálfa mig snyrtivörur. Já, hljómar hégómlega og allt það og er það vel hugsanlega. En ég vil gjarnan geta verið fín án þess að vera að kafna og drepast úr mígreni og alls konar í leiðinni. Hins vegar tókst mér ekki að panta neitt af því sem ég var að reyna að panta. Bad karma?

Á laugardag, held ég, fór ég að finna fyrir sviða í vörunum. Fann hann fyrst þegar ég fékk mér lárperuna þarna í síðustu viku. Var að nota varasalva á bágtið. Þessi varasalvi er ein af fáum tilbúnum snyrtivörum sem ég hef verið að nota og þó hann eigi að heita ,,náttúrulegur" þá er hann bara einfaldlega ekki lífrænn. Um helgina fór mér að finnast hann eitthvað spúkí, hann gerir varirnar svo óeðlilega feitar svo lengi. Þannig að ég ákvað að hætta að nota hann. Það hefur verið bara talsvert flókið. Ég hef notað kókosolíu sem gerir ástandið síst betra og svo núna exem kremið frá Margréti Sigurðardóttur grasalækni (þetta sem við fengum í gær) sem slær smá á. Svona sviði er mjög týpísk ofnæmisviðbrögð fyrir mig. Mig svíður í varirnar, klæjar, stundum bólgna ég upp og stundum fæ ég útbrot yfir allt andlitið, niður á háls og út um allt bara. Návígi við myglusveppi hefur stundum komið þessu af stað, en ég held að þetta séu bara almenn ofnæmisviðbrögð líkamans míns. Ég finn talsvert fyrir þessu í dag, finn að ég er tæp. Fyndið, því ég hef ekki fengið þetta frá því að ég byrjaði á GAPS. Það er eitthvað í gangi - allt að gerast...

Mér var verulega illt í maganum í morgun. Tengi það við möndlusmjörið, sem þarf þó ekki að vera rétt. Stuttlan virtist ekki kenna sér meins. Og þó... hún fór í Bláa lónið í dag og klæjaði samt eftir á. Ekki neitt rosalega, en þó þannig að hún bað um burstann (sem hún klórar sér með, til að klóra ekki til blóðs). Kannski er það merki um að möndlusmjörið þolist ekki vel? Prófum aftur á morgun.

Ég prófaði líka ghee einu sinni enn í morgun og varð svo til strax illt. Það getur verið að maginn hafi bara verið almennt illa stemmdur. Þarf ekki að vera neitt alvarlegt.

Jæja. Það er heilmargt sem þarf að gera þessa dagana, ég ætti ekki að hanga og blogga eins og ég hafi ekkert betra að gera. Tíminn líður svo hratt, bara 2 og hálfur dagur eftir í brottför. Mamma mia.

Eitt enn; hitti konu í kvöld sem er að byrja á GAPS, með son sinn. Sonur hennar er búinn að vera á glúten- og kaseinlausu fæði í hálft ár eða svo og er nýbyrjaður á GAPS. Fyndið hvernig fólk hefur samband við mig núna. Ég hefði gefið handlegg fyrir að geta sett mig í samband við einhvern með reynslu þegar ég var að byrja. Gallinn er bara að mér finnst ég enn ekki vita nóg til að geta beint leiðbeint neinum. Ég get bara talað um mína eigin reynslu. Jú og bloggað eins og enginn sé morgundagurinn.

Matseðillinn

Morgunmatur barnsins: Kaldir kjúklingaleggir frá því í gær
Morgunmatur minn: Laxa- og grænmetisrest.

Hádegismatur: Ofnsoðið hrossakjöt með soðnu grænmeti

Síðdegishressing (barnsins): Restin af ofnsoðna hrossakjötinu og soðin paprika

Kvöldmatur: Ofnsoðin svínalund og ofnsoðið grænmeti (gulrætur, gul paprika, brokkólí, blómkál)

Hún fékk svo kókosolíuteskeið í dag.

Öfugt við það sem gerðist í fyrsta sinn sem ég fór á Innganginn finnst mér ég stöðugt vera svöng núna. Í fyrra hafði ég enga lyst, núna bara borða ég og borða og borða. Held að hvor okkar um sig fari hátt í kíló af kjöti hvern dag. Það er náttúrlega doldið mikið... og doldið dýrt...

Kjötsoð dagsins: Kindabeinasoð (ég var úti á þekju um daginn þegar ég sagðist ekki viss hvort soðið væri nauta- eða kindabeina, fnykurinn af kindabeinasoðinu þekkist mílur vegar og það voru sko pottþétt ekki kindabein um daginn, í hvorugt skiptið sem ég var ekki viss).

Bað dagsins: Bláa lónið og Epsomsaltsbað fyrir barnið

VIÐBÓT:
Þegar ég var búin að skrifa færsluna hér að ofan var klukkan að verða hálftólf og ég þurfti að ganga frá örfáum hlutum og ætlaði svo að renna mér ofan í ylvolgt Epsomsaltsbaðið - hið fyrsta fyrir mig í 3 daga. Var búin að hlakka til þess daglangt. En þá bærði eldri dóttir mín á sér, kveinaði að sér væri svo illt í maganum og í stuttu máli er hún búin að kveina í alla nótt. Ég setti hana á endanum í baðið í gær, hún sagði það slá á magaverkinn í smástund, en svo hætti það að virka og hún gubbaði. Vildi þá koma upp úr, kom inn til mín, ,,svaf" í mínu rúmi og gubbaði aftur um klukkustund síðar. Er svo bara búin að kveina og dotta inn á milli - ég hef ekkert getað gert nema bara strjúka magann eða nudda, halda utan um hana og vona hið besta. Gaf henni smá eplaedik út í vatn í gærkvöldi, svo smá engiferseyði eftir gubb nr. 2. Klukkan er orðin hálfsjö, ég setti hana fram á klósett en það kom ekkert. Gaf henni einn skammt af kjötsoði núna rétt í þessu. Hún gubbaði af fyrsta sopanum (gubb nr. 3) en kláraði svo. Núna er hún sofnuð, í smástund allavega, inni í rúmi. Vaknar eflaust eftir nokkrar mínútur til að kveina. Hún virkaði pínu heit áðan, en hún er ekki með neinn hita.

Maginn á mér er líka verulega órólegur, en ég er ekki með svona vítisverki eins og hún. Velti því fyrir mér hvað getur valdið. Velti því einnig fyrir mér hvað í ósköpunum ég á að gera varðandi barnið.

Monday, June 28, 2010

Dagur 21

3 vikur???
Eruði ekki að grínast???
Vá... magnað...
Tíðindi dagsins eru helst þau að Bláa lónið virðist vera að sanna lækningamátt sinn. Skinnið litla fór í lónið í morgun og talar uppveðruð um þann mikla mun sem hún finnur. Ég sé mun, húðin er ljósari, jafnari og minna upphleypt. Hún klóraði sér ekkert fyrr en hún tók af sér úlnliðshlífarnar sem hún notar (ásamt með alls kyns öðrum hlífðarbúnaði) þegar hún spreytir sig á nýju hjólaskónum sínum. Þá klæjaði hana þar. Ég gaf henni nýtt krem á það frá grasalækni sem við höfum ekki prófað áður. Þess má geta að það var frænka hennar sem gaukaði að okkur kreminu, en sú frænka er á SCD sem segja má að segja fyrirrennari GAPS (sumir taka það fram yfir). Kremið virtist slá á kláðann.
Planið er að fara með hana daglega í lónið í nokkra daga. SCD-frænkan og önnur góð sem gift er inn í föðurfjölskylduna gáfu okkur frímiðana sína í lónið. Í vikulokin förum við út og þá verður náttúrlega ekki um það nein blá lón að ræða, mikilvægt að fá sem mest út úr því á meðan við getum.
Ég gaf henni teskeið af kókosolíu í dag, aftur. Það virtist ekki gera neitt slæmt síðast. Leyfi mér þá að reikna með að það eigi að vera í lagi. Í kvöld gaf ég henni líka teskeið af heitu möndlusmjöri. Það er e.k. test svo við getum byrjað að fikra okkur nær möndlusmjörs-lummunum sem eru sennilega það mest spennandi við stig 3, allavega fyrir krakkakríli. Já og mig... ég viðurkenni fúslega að ég er farin að þrá smá uppbrot. Það verður ekki leiðinlegt að geta bætt þessu við ef vel gengur. Ég hef reyndar ekki verið að þola neins konar bökunarvörur eða brauðmeti vel undanfarið. En það lagast kannski... ég prófaði allavega líka með henni, 1 litla teskeið. Himneskt. Þannig að þá erum við eiginlega hér með formlega byrjaðar á stigi 3. Sjáum svo til hvernig æxlast.
Magnað hvað maður lærir að meta mat á allt annan hátt...
Svo er það annað sem mér finnst mjög merkilegt og vil endilega tjá mig um.
Í síðustu viku kláraðist heimagerði og GAPS-væni armkrika ilmbætirinn minn. Ég datt niður á uppskriftina í haust skömmu eftir að ég byrjaði á GAPS og hef ekki notað annan síðan. Árin þar á undan var ég búin að vera með mjög stæka og þráláta svitalykt, svitna frekar mikið og semsagt mjög lyktsterkt. Svitalyktareyðar virkuðu sumir ágætlega í svona 2 - 4 vikur, en svo hættu þeir bara að virka. Undir það síðasta var ég að nota lífrænan frá Aubrey Organics. Það var semsagt hann sem ég fann þarna í síðustu viku þegar minn var búinn og ég þurfti nauðsynlega að fara út á meðal fólks. Þannig að ég smellti honum á mig og hélt að það myndi líða yfir mig vegna efnalyktarinnar. En ég komst af og... hef ekki þurft svitalyktareyði nema einu sinni síðan.
Athugið - þetta er mjög merkilegt. Kona sem þurfti áður oft að skipta um bol um miðjan dag vegna stækrar líkamslyktar getur nú verið dag eftir dag í sömu fötum (að því gefnu að þau óhreinkist ekki á annan hátt). Það gerðist einn daginn í ferðalaginu þegar ég sat lengi í hita í bílnum í kjól úr gerfiefni að það myndaðist svitalykt. Þess utan... alveg frí við allan þef. Ég lét meira að segja vesalings systur mína hnusa af mér og fötunum mínum þar sem ég átti bágt með að trúa eigin nefi...
Ég var ekki búin að átta mig á því hvílíkir fjötrar fylgdu svitavandamálinu, eða að það væri í raun vandamál yfir höfuð, en vá, hvað ég er að uppgötva nýjan heim núna. Hvað getur kona sagt?
Ég hef lesið fjölmargar reynslusögur fólks á GAPS-spjallinu sem hefur einn daginn vaknað upp við það sama - ilmuðu bara eins og blóm, án nokkurs eyðis. Þessar sögur snertu mig ekkert sérstaklega og ég get ekki sagt að þetta atriði hafi verið efst á óskalistanum mínum. En svo, þegar það gerist, þá er ég samt alveg orðlaus. Þetta er svo mikil sönnun á því að það sem er að gerast í kroppnum mínum er rétt. Alveg eins og góða andlega jafnvægið hjá dóttur minni, lauflétta öndunin og fullkomnu hægðirnar (okkar beggja). Þetta er ótrúlega kærkomin hvatning - við erum svo á réttri leið!
Matseðillinn
Morgunmatur: Ofnsoðnar svínalundir og pottsoðið grænmeti
Hádegismatur barnsins: Svínalundarest
Hádegismatur minn: 3 egg og rest af soðnu grænmeti (fór ekki mjög vel í maga)
Síðdegishressing barnsins: Kjúklingaleggir
Kvöldmatur: Ofnsoðinn lax og ofnsoðið grænmeti
Bað dagsins: Bláa Lónið (fyrir hana - ekkert fyrir mig)
Kjötsoð dagsins: Kjúklingabeinasoð

Sunday, June 27, 2010

Dagur 20

Við erum komnar heim en tölvan mín sem var í straujun nær ekki að tengjast netinu. Þannig að nú er ég í lánstölvu, bara til að geta bloggað smá um ferlið allt saman...

Stelpan var ívið skárri í húðinni í dag. Ljómandi góð líðan, öndun og hægðir. Engin kókosolía í dag.

Ég setti smá bláa lóns-leir á hana í kvöld, það virtist hjálpa smá... erfitt að segja samt.

Matseðillinn

Kássurest í morgun, kjúklingaleggir og soðið grænmeti á ferðinni og kjúklingalæri í kvöldmat heima.

Soð dagsins: Kjúllabein

Bað dagsins: Nada... ekkert bað í dag...

Saturday, June 26, 2010

Dagur 19

Það gleður mig að greina frá því að við borðuðum hvorki nautahakkskássu né kjúklingalæri í dag. Ónei, við borðuðum svínahakkskássu og kjúklingafillé... sem gerir sko gæfumuninn.
Fórum aftur í jarðböðin í dag. Aðalmálið með því að vera að þvælast þessa leið á ný var samt að ná í leir í ,,gamla" bláa lóninu þarna við Mývatn. Ég tiplaði út í með gallabuxurnar uppbrettar og skóf og skóf af botninum í 3 dalla. Planið er að prófa að smyrja þessu á barnið og sjá hvort einhver munur verður á.
En semsagt ágætur dagur. Framan af vorum við á Akureyri og ég eyddi ómældum tíma í að elda við þessar leiðinlega frumstæðu aðstæður. Að því sögðu vil ég taka fram að þessi íbúð er mjög kósí og aðstaðan að flestu leyti alveg rosalega góð, eiginlega bara mesti lúxus. Myglusveppirnir setja strik í reikninginn og svo er ég ekki með fjölbreytt tól til eldunar. Annars alveg frábært.
Stelpan hefur það svipað og í gær. Tók heiftugt kláðakast í nótt. Klæjar í dag. Flagnar smá en er samt bólgin. Ég gaf henni eina teskeið af kókosolíu í dag.
Tek það fram að maginn hennar virðist mjög góður, hægðir eru fínar, andleg líðan stöðug, öndun góð... allt í blóma nema húðin.
Matseðillinn
Morgunmatur: Ofnsoðin kjúklingafillé og soðnar paprikur (og 3 egg fyrir mig).
Hádegismatur: Svínahakkskássa
Kvöldmatur: Svínahakkskássa / kjúlli
Tek fram að litla barnið er að borða ýmislegt fleira.
Kjötsoðið gekk ekki vel í dag. Það var mjög misheppnað. Á endanum fengum við okkur bara lítið og ég ætla að henda rest...
Soð dagsins: Misheppnað nautabeinasoð
Bað dagsins: Jarðböðin við Mývatn
Ég sef allt of lítið. Þetta frí er sko langt frá því að vera hvíld.

Friday, June 25, 2010

Dagur 18

Ég ætlaði að fara að lúra þarna í gær, eftir færsluna. Fór inn í svefnherbergi og dáðist að því hvað dætur mínar sváfu vært og voru undurblíðar og sætar svona hlið við hlið í hjónarúminu sem við deilum í ferðalaginu. Ákvað að smella af þeim mynd. Þegar ég var í þann mund að verða búin að stilla upp frá góðu sjónarhorni og ætlaði að fara að smella af bærði sú eldri á sér. Ég sá að hún var með eymdarsvip sem hefði alveg eyðilegt myndina, sem er náttúrlega svekkelsi út af fyrir sig, en áður en ég var búin að átta mig á því stundi hún orðin sem mæður vonast allajafna til að þurfa ekki að heyra: ,,Ég þarf að æla".
Ég fleygði frá mér myndavélinni (fann hana ekki aftur fyrr en í morgun, hún velktist undir okkur um rúmið í nótt), þreif barnið, kippti henni upp úr svefnpokanum og rauk með hana fram á baðherbergi. Náði ekki að klósettinu áður en fyrsta gusan kom og til að gera langt mál stutt þá hef ég aldrei - fyrr eða síðar, lent í meira sprengi-gubbi. Það var úti um allt - veggir, gólf, lausamunir, fötin okkar - allt útatað. Klukkan var orðin eitt þegar ég var búin að þrífa. Fórnaði baðhandklæðinu mínu. Barnið fór svo bara að sofa strax að gubbi loknu og hefur ekki kennt sér frekara meins síðan.
Skelli skuldinni á Inngangsferlið.
Vaknaði kl. 7.30 - litla stýrið vaknaði fyrst.
Í stuttu máli var þessi dagur góður og vondur.
Gott: Veðrið var glimrandi - allt gekk sæmilega eftir áætlun - átti góðar stundir með dætrum, systur og systurdóttur og einnig með 6 frænkum sem hér búa (við erum alls 4 systradætur með 2 dætur hver...)
Vont: Ég var svo þreytt og þokuð og gat með engu móti hugsað skýrt. Gekk illa að matbúa fyrir daginn, klikkaði aðeins á sjálfri mér og endaði því söng og pínu svekkt. Svimaði talsvert.
Matseðillinn
Bara kássa og kjúklingalæri til skiptis - sama og í gær. Nema í kvöld, þá fengum við okkur Ofnsoðið Ungnautainnanlæri með soðnu blómkáli (bara ég) og gulum paprikum (við báðar). Kærkomin tilbreyting.
Ég fékk mér líka 3 egg í morgunmat.
Melting okkar beggja er til sóma.
Kjötsoð dagsins: Nautabeina
Bað dagsins: Jarðböðin við Mývatn
Vil bæta því við að jarðböðin virtust ekki skila neinum árangri fyrir húð dóttur minnar. Ansi dýr að auki (það er Bláa Lónið líka, en við fengum ,,2 fyrir 1").
Ég vil líka bæta því við að þessi íbúð er frekar sveppuð - aðallega baðherbergið. Ég fann áhrifin mjög glögglega þegar ég vaknaði í morgun. Hef verið sem mest utandyra í dag. Sit t.d. úti núna. Vona að þetta sleppi til.

Thursday, June 24, 2010

Dagur 17

BRJÁLÆÐISLEGA SYFJUÐ...

Þetta hlýtur að verða stutt færsla, ef ég á annað borð er fær um að gera stuttar færslur.

Fyrri hluti dagsins fór í undirbúning af miklum móði. Það vildi mér til happs að afa barnanna hugkvæmdist að líta við og hefja skemmtidagskrá sem náði víst hámarki í Toys R Us. Báðar dætur mínar komu heim með ný sumarleikföng.

Við lögðum í hann um tvöleytið. Auk okkar þriggja eru í ferðinni systir mín og tæplega 10 ára dóttir hennar. Þær eiga jeppa.

Fyrra langa stoppið okkar var við Hreðavatn, hvar við áttum ljúfa stund í um einn og hálfan tíma. Nesti og ærsl.

Síðara langa stoppið var undir kvöld í sundlaug sem ég uppgötvaði af tilviljun í fyrrasumar. Í henni er semsagt sjaldan klór. Í dag var okkur sagt að síðast hefði farið í hana klór fyrir 4 dögum. Við létum því vaða og fórum í sund. Fann engin merki um klór á neinn hátt, en var samt á nálum. Hvað ef einhverjar leyfar eru samt eftir og nóg til að hafa slæm áhrif...

Stóra stýrið mitt flagnaði og flagnaði eftir sundið. Hún var farin að klóra sér á ný áður en við fórum í laugina, þannig að sundferðinni er ekki um að kenna þó að áhrif Bláa Lónsins séu farin að dvína. Sem aftur minnir mig á; ég sá greinilegan mun á húðinni hennar í morgun. Hún var betri. Jarðböð við Mývatn á morgun.

Ég gaf henni ekkert nýtt að snæða í dag.

Sjálf fékk ég mér 1 tsk af sauerkrauti.

Matseðill dagsins

Morgunmatur: Ofnsoðin kjúklingalæri og soðið grænmeti

Hádegismatur: Nautahakkskássa (engar kryddjurtir að þessu sinni) - maukuð fyrir börnin og ómaukuð fyrir mig

Síðdegishressing (við Hreðavatn): Köld kjúklingalæri

Kvöldverður (við þjóðveginn): Kássa

Kvöldhressing (á Akureyri): Kjúklingalæri

Svona er þetta semsagt.

Kjötsoð dagsins: Nautabeinasoð

Bað dagsins: Eiginlega ekkert... nema bara þarna sundið náttúrlega... nokkuð laust við allt, held ég (nema íslenskt hveravatn og tilheyrandi steinefni)

Wednesday, June 23, 2010

Dagur 16

Það var svolítið þungt í mér hljóðið í gær. Það var það eiginlega að miklu leyti í dag líka. En ég ætla að byrja á smá extra jákvæðum punkti sem mér finnst mikilvægt að komi fram:
Dóttir mín er orðin alger hetja þegar kemur að innbyrðingu kjötsoðs. Í fyrra þegar við byrjuðum á þessu stússi bauð henni svo við því eftir nokkra daga að það lenti fljótlega mjög aftarlega í forgangsröðinni. Svo um áramótin var ég búin að lesa svo mikið um það hve mikið grundvallaratriði kjöt- eða beinasoð væri fyrir bata að ég ákvað að hún fengi bara agnarpínupons daglega. Innblásin af ströngum mæðrum á spjallinu hellti ég 6 matskeiðum af soðinu ægilega í bolla og píndi barnið til að drekka - á hverjum morgni. Ég tók líka strax þá ákvörðun að hjálpa henni ekki, eins og hún bað þó stíft um. Þetta eru 6 matskeiðar og hún á að geta innbyrt þær hjálparlaust. Þetta hefur kostað grát, einvistir, gnístran tanna, væl, nöldur, suð, kvart, kvein, endalausan eftirrekstur af minni hálfu og eeeeendalausar tafir á þessum dýrmæta morguntíma. Í stuttu máli: Barnið vill ekki soð. Ég hef ekki orðið vör við aukinn vilja eftir því sem tíminn hefur liðið (og hún ætti að vera farin að venjast).
En nú, á 16. degi inngangsins er hún farin að skvetta bolla eftir bolla í sig, án þess að ég þurfi svo mikið sem að segja eitt múkk. Ég rétti henni bara bollann og hún klárar í nokkrum teygum. Eins og draumur! Ég er alveg orðlaus. Það er rétt að taka fram að bollinn sem um ræðir rúmar ekki nema á að giska 10 matskeiðar. Hann var tekinn í notkun sérstaklega fyrir þetta inngangsferli. Við fórum í Keramik fyrir alla og máluðum hvor sinn kjötsoðsbollan sérstaklega til að byggja upp jákvætt andrúmsloft fyrir þetta inngangsferli. Það stoðaði þó lítið fyrstu 10 dagana eða svo, þar sem ég þurfti að rexa og pexa og ýta á eftir alveg jafn mikið og venjulega - og jafnvel brjóta odd af oflæti mínu og hjálpa smá.
En semsagt, litla hetjan bítur á jaxlinn, ég sé hana kúgast smá af og til... en hún lætur sig hafa þetta, ekkert nema harkan 6.
Og að mér: Vinkonur mínar komu í gærkvöldi og við tættum í okkur fataskápinn minn. Ansi margt á leið í endurvinnslu, sumt komið í endurvinnslu, auk þess sem ég hef af höfðingskap mínum tekið að mér að endurvinna nokkrar vel valdar flíkur úr þeirra fataskápum (takk, stelpur ;-) ).
Allavega, þetta var rosa kósí, þar sem ég stríði við helti á sviði smekkleika (allavega þegar kemur að sjálfri mér) finnst mér rosa gaman að fá svona pallborðsumræður um fatasamsetningar. Og ég byrjaði daginn í dag með bros á vör og valdi mér nýjan (fyrir mér), dömulegan kjól til að vera fín í í dag.
En svo var sljóleiki minn bara í sögulegu hámarki og ég gat ekkert gert og gerði vitlaust það litla sem ég reyndi að gera og svo framvegis og svo framvegis. Ekkert gekk einhvern veginn og tíminn bara leið frá mér. Undir hádegið var ég gersamlega niðurbrotin og fannst allt svart.
En jæja, ég tók mig á, hringdi í góða vinkonu, náði mér í smá æðruleysi og kjark og skellti mér með dætur mínar á Brúðubílinn í Breiðholti. Þær eru mjög hrifnar af umræddu farartæki og skemmtu sér hið besta.
Seinni partinn fór ég svo með þá eldri og keypti á hana langþráða hjólaskó. Fannst hetjan alveg eiga skilin verðlaun. Þess má geta að afinn borgaði brúsann. Barnið ljómar af hamingju, þrátt fyrir ströng fyrirmæli móður og verslunarstarfsfólks um notkun hjálms og annars öryggisbúnaðar, allavega framan af.
Svo fór ég með hana í Bláa Lónið. Það fannst henni enn meira æði. Hún er í skýjunum. Hún vildi ekki maka á sig leðju, bar við ótta við sviða. Talar hins vegar af miklum sannfæringarkrafti um hve mikinn mun hún finni á húðinni. Eini munurinn sem ég sé er að hún klórar sér ekki - og það er reyndar allnokkur árangur. Þorði ekki að setja hana í sturtu eftir lónið, vildi ekki skola burt snefil af kísil. Hárið á henni er eins og heysáta...
Fann enga klórlykt en gleymdi að spyrja: Er klór í lóninu???
Matseðillinn
Morgunmatur: Kjúklingalæri og grænmeti (allt ofnsoðið)
Miðdegismatur: Nautahakkskássa
Kvöldmatur: Kjúklingalæri og grænmeti (ofn- og pottsoðið).
Einhæfni...? Ha? Hvað meiniði?
Ég gaf barninu enga olíu í dag. Gaf sjálfri mér líka frí frá gheei, sauerkrautsafa og eggjum. Prófa að hafa einn þannig dag. Engin almennileg rök svosem, nenni allavega ekki að fara út í þau. Geri þetta svona núna. Sé til á morgun, reikna eiginlega með að taka þetta allt inn aftur þá.
Kjötsoð dagsins: Held lambabein...
Bað dagsins: Bláa Lónið (barnið fór líka í Epsombað í morgun)
Á morgun förum við í ferðalag. Þvílík áskorun!!!