Dagbókin okkar

Á þessum síðum skrifum við jafnóðum söguna okkar því hvernig við gerum markvissa tilraun á heilsu okkar samkvæmt leiðbeiningum Dr Campbell McBride - skref fyrir skref...

Tuesday, June 29, 2010

Dagur 22

Jæja. Ég er farin að verða dálítið stressuð vegna fyrirhugaðrar ferðar til útlanda. Við förum á föstudaginn. Ég verð basically ,,on the road" með börnin í 2 daga. Það getur orðið svolítið strembið, miðað við reynsluna frá því í ferðalaginu fyrir norðan. Dálítið mikið mál að vera sífellt að elda og elda og elda og elda og pakka í nestisbox og svo framvegis. Sérstaklega þar sem börnin mín borða mikið þessa dagana (ég líka). Ég hugsa að ég reyni að hafa meira af fljótlegu meðferðis fyrir þá minni, hún getur borðað banana og kex og alls konar þannig. Svo er bara að herða upp hugann og taka einn dag í einu.

Í gær pantaði ég eitt og annað GAPS-tengt af netinu:
  • Biokult - læknirinn mælir með því
  • Þorskalifrarolía - ég myndi segja lýsi, nema lýsi ku hafa verið hitað í framleiðsluferlinu sem dregur víst verulega úr gæðum þess (endilega leiðréttið mig ef þið vitið betur)
  • Charlies soap - lífrænt þvottaefni sem vonandi ertir enga húð (að því gefnu að þvottaefni hafi hugsanlega eitthvað með húðvandamál dóttur minnar að gera
Í dag reyndi ég heiðarlega að panta fyrir sjálfa mig snyrtivörur. Já, hljómar hégómlega og allt það og er það vel hugsanlega. En ég vil gjarnan geta verið fín án þess að vera að kafna og drepast úr mígreni og alls konar í leiðinni. Hins vegar tókst mér ekki að panta neitt af því sem ég var að reyna að panta. Bad karma?

Á laugardag, held ég, fór ég að finna fyrir sviða í vörunum. Fann hann fyrst þegar ég fékk mér lárperuna þarna í síðustu viku. Var að nota varasalva á bágtið. Þessi varasalvi er ein af fáum tilbúnum snyrtivörum sem ég hef verið að nota og þó hann eigi að heita ,,náttúrulegur" þá er hann bara einfaldlega ekki lífrænn. Um helgina fór mér að finnast hann eitthvað spúkí, hann gerir varirnar svo óeðlilega feitar svo lengi. Þannig að ég ákvað að hætta að nota hann. Það hefur verið bara talsvert flókið. Ég hef notað kókosolíu sem gerir ástandið síst betra og svo núna exem kremið frá Margréti Sigurðardóttur grasalækni (þetta sem við fengum í gær) sem slær smá á. Svona sviði er mjög týpísk ofnæmisviðbrögð fyrir mig. Mig svíður í varirnar, klæjar, stundum bólgna ég upp og stundum fæ ég útbrot yfir allt andlitið, niður á háls og út um allt bara. Návígi við myglusveppi hefur stundum komið þessu af stað, en ég held að þetta séu bara almenn ofnæmisviðbrögð líkamans míns. Ég finn talsvert fyrir þessu í dag, finn að ég er tæp. Fyndið, því ég hef ekki fengið þetta frá því að ég byrjaði á GAPS. Það er eitthvað í gangi - allt að gerast...

Mér var verulega illt í maganum í morgun. Tengi það við möndlusmjörið, sem þarf þó ekki að vera rétt. Stuttlan virtist ekki kenna sér meins. Og þó... hún fór í Bláa lónið í dag og klæjaði samt eftir á. Ekki neitt rosalega, en þó þannig að hún bað um burstann (sem hún klórar sér með, til að klóra ekki til blóðs). Kannski er það merki um að möndlusmjörið þolist ekki vel? Prófum aftur á morgun.

Ég prófaði líka ghee einu sinni enn í morgun og varð svo til strax illt. Það getur verið að maginn hafi bara verið almennt illa stemmdur. Þarf ekki að vera neitt alvarlegt.

Jæja. Það er heilmargt sem þarf að gera þessa dagana, ég ætti ekki að hanga og blogga eins og ég hafi ekkert betra að gera. Tíminn líður svo hratt, bara 2 og hálfur dagur eftir í brottför. Mamma mia.

Eitt enn; hitti konu í kvöld sem er að byrja á GAPS, með son sinn. Sonur hennar er búinn að vera á glúten- og kaseinlausu fæði í hálft ár eða svo og er nýbyrjaður á GAPS. Fyndið hvernig fólk hefur samband við mig núna. Ég hefði gefið handlegg fyrir að geta sett mig í samband við einhvern með reynslu þegar ég var að byrja. Gallinn er bara að mér finnst ég enn ekki vita nóg til að geta beint leiðbeint neinum. Ég get bara talað um mína eigin reynslu. Jú og bloggað eins og enginn sé morgundagurinn.

Matseðillinn

Morgunmatur barnsins: Kaldir kjúklingaleggir frá því í gær
Morgunmatur minn: Laxa- og grænmetisrest.

Hádegismatur: Ofnsoðið hrossakjöt með soðnu grænmeti

Síðdegishressing (barnsins): Restin af ofnsoðna hrossakjötinu og soðin paprika

Kvöldmatur: Ofnsoðin svínalund og ofnsoðið grænmeti (gulrætur, gul paprika, brokkólí, blómkál)

Hún fékk svo kókosolíuteskeið í dag.

Öfugt við það sem gerðist í fyrsta sinn sem ég fór á Innganginn finnst mér ég stöðugt vera svöng núna. Í fyrra hafði ég enga lyst, núna bara borða ég og borða og borða. Held að hvor okkar um sig fari hátt í kíló af kjöti hvern dag. Það er náttúrlega doldið mikið... og doldið dýrt...

Kjötsoð dagsins: Kindabeinasoð (ég var úti á þekju um daginn þegar ég sagðist ekki viss hvort soðið væri nauta- eða kindabeina, fnykurinn af kindabeinasoðinu þekkist mílur vegar og það voru sko pottþétt ekki kindabein um daginn, í hvorugt skiptið sem ég var ekki viss).

Bað dagsins: Bláa lónið og Epsomsaltsbað fyrir barnið

VIÐBÓT:
Þegar ég var búin að skrifa færsluna hér að ofan var klukkan að verða hálftólf og ég þurfti að ganga frá örfáum hlutum og ætlaði svo að renna mér ofan í ylvolgt Epsomsaltsbaðið - hið fyrsta fyrir mig í 3 daga. Var búin að hlakka til þess daglangt. En þá bærði eldri dóttir mín á sér, kveinaði að sér væri svo illt í maganum og í stuttu máli er hún búin að kveina í alla nótt. Ég setti hana á endanum í baðið í gær, hún sagði það slá á magaverkinn í smástund, en svo hætti það að virka og hún gubbaði. Vildi þá koma upp úr, kom inn til mín, ,,svaf" í mínu rúmi og gubbaði aftur um klukkustund síðar. Er svo bara búin að kveina og dotta inn á milli - ég hef ekkert getað gert nema bara strjúka magann eða nudda, halda utan um hana og vona hið besta. Gaf henni smá eplaedik út í vatn í gærkvöldi, svo smá engiferseyði eftir gubb nr. 2. Klukkan er orðin hálfsjö, ég setti hana fram á klósett en það kom ekkert. Gaf henni einn skammt af kjötsoði núna rétt í þessu. Hún gubbaði af fyrsta sopanum (gubb nr. 3) en kláraði svo. Núna er hún sofnuð, í smástund allavega, inni í rúmi. Vaknar eflaust eftir nokkrar mínútur til að kveina. Hún virkaði pínu heit áðan, en hún er ekki með neinn hita.

Maginn á mér er líka verulega órólegur, en ég er ekki með svona vítisverki eins og hún. Velti því fyrir mér hvað getur valdið. Velti því einnig fyrir mér hvað í ósköpunum ég á að gera varðandi barnið.

No comments:

Post a Comment