Dagbókin okkar

Á þessum síðum skrifum við jafnóðum söguna okkar því hvernig við gerum markvissa tilraun á heilsu okkar samkvæmt leiðbeiningum Dr Campbell McBride - skref fyrir skref...

Wednesday, June 23, 2010

Dagur 16

Það var svolítið þungt í mér hljóðið í gær. Það var það eiginlega að miklu leyti í dag líka. En ég ætla að byrja á smá extra jákvæðum punkti sem mér finnst mikilvægt að komi fram:
Dóttir mín er orðin alger hetja þegar kemur að innbyrðingu kjötsoðs. Í fyrra þegar við byrjuðum á þessu stússi bauð henni svo við því eftir nokkra daga að það lenti fljótlega mjög aftarlega í forgangsröðinni. Svo um áramótin var ég búin að lesa svo mikið um það hve mikið grundvallaratriði kjöt- eða beinasoð væri fyrir bata að ég ákvað að hún fengi bara agnarpínupons daglega. Innblásin af ströngum mæðrum á spjallinu hellti ég 6 matskeiðum af soðinu ægilega í bolla og píndi barnið til að drekka - á hverjum morgni. Ég tók líka strax þá ákvörðun að hjálpa henni ekki, eins og hún bað þó stíft um. Þetta eru 6 matskeiðar og hún á að geta innbyrt þær hjálparlaust. Þetta hefur kostað grát, einvistir, gnístran tanna, væl, nöldur, suð, kvart, kvein, endalausan eftirrekstur af minni hálfu og eeeeendalausar tafir á þessum dýrmæta morguntíma. Í stuttu máli: Barnið vill ekki soð. Ég hef ekki orðið vör við aukinn vilja eftir því sem tíminn hefur liðið (og hún ætti að vera farin að venjast).
En nú, á 16. degi inngangsins er hún farin að skvetta bolla eftir bolla í sig, án þess að ég þurfi svo mikið sem að segja eitt múkk. Ég rétti henni bara bollann og hún klárar í nokkrum teygum. Eins og draumur! Ég er alveg orðlaus. Það er rétt að taka fram að bollinn sem um ræðir rúmar ekki nema á að giska 10 matskeiðar. Hann var tekinn í notkun sérstaklega fyrir þetta inngangsferli. Við fórum í Keramik fyrir alla og máluðum hvor sinn kjötsoðsbollan sérstaklega til að byggja upp jákvætt andrúmsloft fyrir þetta inngangsferli. Það stoðaði þó lítið fyrstu 10 dagana eða svo, þar sem ég þurfti að rexa og pexa og ýta á eftir alveg jafn mikið og venjulega - og jafnvel brjóta odd af oflæti mínu og hjálpa smá.
En semsagt, litla hetjan bítur á jaxlinn, ég sé hana kúgast smá af og til... en hún lætur sig hafa þetta, ekkert nema harkan 6.
Og að mér: Vinkonur mínar komu í gærkvöldi og við tættum í okkur fataskápinn minn. Ansi margt á leið í endurvinnslu, sumt komið í endurvinnslu, auk þess sem ég hef af höfðingskap mínum tekið að mér að endurvinna nokkrar vel valdar flíkur úr þeirra fataskápum (takk, stelpur ;-) ).
Allavega, þetta var rosa kósí, þar sem ég stríði við helti á sviði smekkleika (allavega þegar kemur að sjálfri mér) finnst mér rosa gaman að fá svona pallborðsumræður um fatasamsetningar. Og ég byrjaði daginn í dag með bros á vör og valdi mér nýjan (fyrir mér), dömulegan kjól til að vera fín í í dag.
En svo var sljóleiki minn bara í sögulegu hámarki og ég gat ekkert gert og gerði vitlaust það litla sem ég reyndi að gera og svo framvegis og svo framvegis. Ekkert gekk einhvern veginn og tíminn bara leið frá mér. Undir hádegið var ég gersamlega niðurbrotin og fannst allt svart.
En jæja, ég tók mig á, hringdi í góða vinkonu, náði mér í smá æðruleysi og kjark og skellti mér með dætur mínar á Brúðubílinn í Breiðholti. Þær eru mjög hrifnar af umræddu farartæki og skemmtu sér hið besta.
Seinni partinn fór ég svo með þá eldri og keypti á hana langþráða hjólaskó. Fannst hetjan alveg eiga skilin verðlaun. Þess má geta að afinn borgaði brúsann. Barnið ljómar af hamingju, þrátt fyrir ströng fyrirmæli móður og verslunarstarfsfólks um notkun hjálms og annars öryggisbúnaðar, allavega framan af.
Svo fór ég með hana í Bláa Lónið. Það fannst henni enn meira æði. Hún er í skýjunum. Hún vildi ekki maka á sig leðju, bar við ótta við sviða. Talar hins vegar af miklum sannfæringarkrafti um hve mikinn mun hún finni á húðinni. Eini munurinn sem ég sé er að hún klórar sér ekki - og það er reyndar allnokkur árangur. Þorði ekki að setja hana í sturtu eftir lónið, vildi ekki skola burt snefil af kísil. Hárið á henni er eins og heysáta...
Fann enga klórlykt en gleymdi að spyrja: Er klór í lóninu???
Matseðillinn
Morgunmatur: Kjúklingalæri og grænmeti (allt ofnsoðið)
Miðdegismatur: Nautahakkskássa
Kvöldmatur: Kjúklingalæri og grænmeti (ofn- og pottsoðið).
Einhæfni...? Ha? Hvað meiniði?
Ég gaf barninu enga olíu í dag. Gaf sjálfri mér líka frí frá gheei, sauerkrautsafa og eggjum. Prófa að hafa einn þannig dag. Engin almennileg rök svosem, nenni allavega ekki að fara út í þau. Geri þetta svona núna. Sé til á morgun, reikna eiginlega með að taka þetta allt inn aftur þá.
Kjötsoð dagsins: Held lambabein...
Bað dagsins: Bláa Lónið (barnið fór líka í Epsombað í morgun)
Á morgun förum við í ferðalag. Þvílík áskorun!!!

No comments:

Post a Comment