Dagbókin okkar

Á þessum síðum skrifum við jafnóðum söguna okkar því hvernig við gerum markvissa tilraun á heilsu okkar samkvæmt leiðbeiningum Dr Campbell McBride - skref fyrir skref...

Friday, June 25, 2010

Dagur 18

Ég ætlaði að fara að lúra þarna í gær, eftir færsluna. Fór inn í svefnherbergi og dáðist að því hvað dætur mínar sváfu vært og voru undurblíðar og sætar svona hlið við hlið í hjónarúminu sem við deilum í ferðalaginu. Ákvað að smella af þeim mynd. Þegar ég var í þann mund að verða búin að stilla upp frá góðu sjónarhorni og ætlaði að fara að smella af bærði sú eldri á sér. Ég sá að hún var með eymdarsvip sem hefði alveg eyðilegt myndina, sem er náttúrlega svekkelsi út af fyrir sig, en áður en ég var búin að átta mig á því stundi hún orðin sem mæður vonast allajafna til að þurfa ekki að heyra: ,,Ég þarf að æla".
Ég fleygði frá mér myndavélinni (fann hana ekki aftur fyrr en í morgun, hún velktist undir okkur um rúmið í nótt), þreif barnið, kippti henni upp úr svefnpokanum og rauk með hana fram á baðherbergi. Náði ekki að klósettinu áður en fyrsta gusan kom og til að gera langt mál stutt þá hef ég aldrei - fyrr eða síðar, lent í meira sprengi-gubbi. Það var úti um allt - veggir, gólf, lausamunir, fötin okkar - allt útatað. Klukkan var orðin eitt þegar ég var búin að þrífa. Fórnaði baðhandklæðinu mínu. Barnið fór svo bara að sofa strax að gubbi loknu og hefur ekki kennt sér frekara meins síðan.
Skelli skuldinni á Inngangsferlið.
Vaknaði kl. 7.30 - litla stýrið vaknaði fyrst.
Í stuttu máli var þessi dagur góður og vondur.
Gott: Veðrið var glimrandi - allt gekk sæmilega eftir áætlun - átti góðar stundir með dætrum, systur og systurdóttur og einnig með 6 frænkum sem hér búa (við erum alls 4 systradætur með 2 dætur hver...)
Vont: Ég var svo þreytt og þokuð og gat með engu móti hugsað skýrt. Gekk illa að matbúa fyrir daginn, klikkaði aðeins á sjálfri mér og endaði því söng og pínu svekkt. Svimaði talsvert.
Matseðillinn
Bara kássa og kjúklingalæri til skiptis - sama og í gær. Nema í kvöld, þá fengum við okkur Ofnsoðið Ungnautainnanlæri með soðnu blómkáli (bara ég) og gulum paprikum (við báðar). Kærkomin tilbreyting.
Ég fékk mér líka 3 egg í morgunmat.
Melting okkar beggja er til sóma.
Kjötsoð dagsins: Nautabeina
Bað dagsins: Jarðböðin við Mývatn
Vil bæta því við að jarðböðin virtust ekki skila neinum árangri fyrir húð dóttur minnar. Ansi dýr að auki (það er Bláa Lónið líka, en við fengum ,,2 fyrir 1").
Ég vil líka bæta því við að þessi íbúð er frekar sveppuð - aðallega baðherbergið. Ég fann áhrifin mjög glögglega þegar ég vaknaði í morgun. Hef verið sem mest utandyra í dag. Sit t.d. úti núna. Vona að þetta sleppi til.

No comments:

Post a Comment