Dagbókin okkar

Á þessum síðum skrifum við jafnóðum söguna okkar því hvernig við gerum markvissa tilraun á heilsu okkar samkvæmt leiðbeiningum Dr Campbell McBride - skref fyrir skref...

Tuesday, July 27, 2010

Komnar heim

Held að í dag sé dagur 49. Er ekki alveg viss.

Get því miður ekki skrifað nákvæmlega hvað við höfum snætt frá því á laugardaginn, en ég get sagt aðeins frá stöðunni og svona því sem verið hefur að gerast.

Sunnudagurinn var erfiður. Það er ekkert grín að gera af vanefnum nesti fyrir 3 manneskjur sem eru að fara að ferðast þúsundir kílómetra og þrífa í leiðinni 3ja hæða hús ein með tvö börn á rigningardegi. Þetta hefði satt að segja verið auðveldara ef veðrið hefði verið betra... en það var öskrandi hellidemba frá hádegi og ekki hundi út sigandi. Ergó; mikið vídeógláp, en meira að segja börn verða þreytt á vídeóglápi á meðan mamman æðir út um allt og reynir að gera allt í einu.

Svo er það maginn á mér, hann var ekki par hress á laugardaginn, fór versnandi á sunnudaginn og var satt að segja ómögulegur í gær. Virkilega slæmur, ég átti eiginlega bara svolítinn veikindadag hér, nýkomin heim og svona. Ekki mjög gaman.

Maginn var umtalsvert skárri í dag, hægðir komnar í lag, en dálítil ólga enn. Ég hef ekki glóru um hvað veldur. Það er svo margt sem kemur til greina. Dodgy kjúklingaleggir frá því á föstudaginn? Eða lummurnar frá því á föstudaginn? Nautakjötið á laugardaginn? Stressið á sunnudaginn? Álagið bara? Eða voru myglusveppirnir í húsinu sem við gistum í farnir að ná til mín (það væri ekki í fyrsta sinn sem ég verð veik af tiltekt og þrifum - ætli það sé hægt að fá vottorð...? ;-)).

Annars gæti líka verið um að ræða lauflétta umgangspest. Hver veit.

En ég var allavega með beinverki og alls konar í gær. Og þá var nú ljúft að hafa Epsom-salt og stórt og gott baðkar við höndina. Mmmmh...

Dætur mínar hafa verið mikið hjá föður sínum. Eru núna í útilegu.

Í gær og í dag erum við eldri dóttir mín aftur á Stigi 1. Það er hugsað sem eins konar endurstilling, ekki að við séum að byrja upp á nýtt, heldur meira bara eins konar núllpunktur. Mig langar nefnilega að prófa að gefa henni ghee og þá vil ég ekki að það séu neinir aðrir faktorar í mataræðinu sem geta haft áhrif.

Planið sem ég styðst við núna er að færa okkur yfir í sætuefnalausa útgáfu af GAPS... sem mér finnst samt hundleiðinlegt. Ég ELSKA kökur, sérstaklega hrákökugotteríið sem ég hef verið að gera undanfarna mánuði (þar til við byrjuðum á innganginum)... en ég veit að þetta er afstætt. Í fyrsta lagi þolum við þetta ekki mjög vel (við fáum iðulega sveppasýkingar) og í öðru lagi þá er þessi nautn / craving eflaust að einhverju leyti tilkomin vegna ójafnvægisins sem þessu bindindi er ætlað að laga. Það er sagt að þetta sé þess virði... en ég á eftir að kynna mér þetta nánar. Á von á sætuefni sem ég pantaði að utan (Steviu) sem ekki mun almennt espa candida, en sem ekki er almennt talið leyfilegt á GAPS. Skoða það mál.

En semsagt... kjötbollur (fyrir mig og dóttur mína) og lummur (bara fyrir hana) á heimleiðinni á sunnudaginn og svo bara mest kjúklingaleggir (íslenskir, aukaefnalausir, ferskir og fínir...) og grænmeti. Líka silungur. Og kálfafillé. Og nautafillé. Yndislegt.

Ekki snefill af nautahakki... ég sver ;-)

Og svo kemur í ljós að kjötsoð af ferskum kjúklingaleggjum er bara ljómandi bragðgott. Aldrei átti ég von á að ég myndi lýsa þeirri skoðun... en svo er nú samt.

Saturday, July 24, 2010

Tveir hressir dagar

Hef lítinn tíma til að skrifa núna, fer heim á morgun. Þetta hafa verið ágætir dagar.

Matseðill

  • Mikil kássa, allan daginn
  • Líka steikt nautahakk og soðið grænmeti
  • Lummur fyrir börnin (t.d. í nesti í gær þegar við fórum í heimsókn)
  • Fékk fullt af heimaræktuðum ferskum kúrbít af öllum stærðum og gerðum í gær þegar ég fór í heimsókn... alger unaður... Mmmmmh... borðaði þannig steiktan upp úr andafeiti í morgun, en dætur mínar deila ekki þessari ástríðu með mér.
  • Linsoðin egg í morgunmat í dag (keyptum í gær, voru ekki til).
Heilsan

Maginn á mér er eitthvað úr skorðum. Skelli skuldinni á lummuát. Samt ómögulegt að vita. Eggin eru heldur ekki að fara vel í mig (borðaði bara eitt í dag, en það eru líka egg í lummunum). Engin krísa í maganum, bara frekar mikið ,,rumbling"

Húð dóttur minnar er með sóma. Engir sterar í 2 daga. Í gærmorgun fórum við báðar í sturtu. Þar sem mikið var eftir af Bláa Lóns leirnum að norðan þá tók ég hann bara allan og makaði á okkur. Voilá, húðin bara fín alveg síðan.

Auðvitað voru sterarnir eitthvað búnir að undirbúa jarðveginn, en þessi steraumferð er allt öðru vísi en sú síðasta. Síðast bar ég 14 sinnum á hana sterakrem um allan kroppinn. Núna... tjah... svona 5 sinnum kannski... leirinn var virkilega að gera eitthvað.

Skap dóttur minnar hefur verið upp og ofan. Stutt í tár, sem er ótýpískt fyrir hana.

Jæja, erfiður dagur fyrir höndum á morgun. Hústiltekt (3 hæðir) og hreingerning með tvo gemlinga á útopnu og nestun fyrir langa ferð heim. Fjúh...

Thursday, July 22, 2010

Fagur dagur

Það er nú meira hvað ég er komin með einbeittan brotavilja...

... alltaf eitthvað að stelast.

Í dag stalst ég í gulrótarsneið, ss. var að saxa niður gulrót og stakk upp í mig sneið. En sú firra...

Og svo stalst ég í möndlusmjör og gaf dóttur minni líka (synd að henda því sem eftir er þegar krukkan er ,,tóm" af þessari rándýru matvöru). Bæði smá dökkt, lífrænt hunang og líka smá draslhunang (sem var í lummum sem bakaðar voru fyrir gestina). Og já, brauðbita af brauði yngri dóttur minnar sem ég bakaði í kvöld. Það innihélt m.a. banana.

Lítið smakk af hverju... en samt. Ég er öll í smökkunum þessa dagana. Finn hvað ég þrái tilbreytingu. Og hunang og banani eru alls ekki góðar hugmyndir, vegna sætunnar.

Það komu semsagt gestir í dag. Ég gaf þeim lummur. Gerði möndlusmjörslummur fyrir stóra ljósið mitt (möndlusmjör + egg + lambafita) og hnetusmjörs- fyrir hina, með smá hunangi af því að inngangs-bragðið er einfaldlega ekki allra. Steingleymdi kúrbítnum. Endurtók samt leikinn í kvöld og sleppti þá hunanginu en mundi eftir kúrbítnum í báða lummuskammtana og setti líka banana í hnetusmjörslummurnar (fyrir þá yngri).

Alls held ég að ég hafi eytt 4 eða 5 klst. í eldhúsinu í dag, sem er svona í hærri kantinum, en ekkert einsdæmi þessa dagana.

Mér leiðist rosalega, þegar aðstæður eru svona, hvernig eldhúsið hérna er. Það er sér vistarvera, aflokuð frá rest af íbúð fyrir utan borðstofu (dyr fram í borðstofuna). Þegar maður eldar snýr maður baki í allt og alla og ómögulegt að eiga samskipti við börnin til dæmis.

Heima hjá mér er eldhúsið algerlega hjarta heimilisins og maður getur eldað eins og vindurinn en samt hjálpað við heimanám, spjallað, gefið góð ráð, stuðning, grínast, jafnvel horft á sjónvarpið og svo framvegis, allt á meðan maður eldar. Ég á eftir að sakna þessarar aðstöðu ef ég flyt í aðra verri.

Heilsan okkar var annars sæmó í dag. Ég var með dálítið mikil die off einkenni og sakna Epsom-baðs heil ósköp. Ætli það fáist í kílóavís hér á góðum prís eins og heima? Og ætli ég geti leigt íbúð með baðkari...? Hægðir með ágætum.

Tók 3 tsk af súrkálssafa í dag, sem er persónulegt met í þessari umferð og kann að eiga þátt í þessum miklu die off einkennum.

Dóttir mín virðist ágæt, hægðir með sóma og útbrot í rénum fyrir tilstilli sterakremsins. En það skortir dálítið upp á andlegt jafnvægi, sem er alvarlegt mál en ég veit ekki alveg hvað veldur. Sterar, nýjungar, aðstæður... hvað veit maður?

Matseðill

Morgunmatur: Köld kássa fyrir barnið, kalt nautaket og kúrbítsgrænmetisblanda fyrir mig

Hádegismatur: Lummur (möndlusmjörs- fyrir hana, hnetusmjörs- fyrir aðra (ég fékk mér bara eina))

Síðdegishressing: Kássa

Milli mála: Sítrónuklakar

Kvöldmatur: Nautakjöt... aftur. Aftur kúrbítsgrænmetisblanda og lárperumauk með. Kjötið er dálítið seigt...

Engin böð.

Soð: Kjúklingabeinasoð

Wednesday, July 21, 2010

Dagur 43

Það er í svo mörg horn að líta, svo margt að gera og ég svo þreytt og skýjuð í kollinum að það er virkilega erfitt að henda reiður á öllu sem ég tel ástæðu til að fjalla um hér.

Látum okkur sjá.

Við héldum áfram með nýjungar í dag, sem ég ítreka og undirstrika að er ekki alveg í samræmi við Inngangsferlið enda lít ég svo á sem við séum hættar því og farnar að impróvisera svolítið. Samt erum við í höfuðdráttum enn á inngangsfæði. Ég er mjög hugsi yfir því hvort ég á að halda áfram að númera dagana.

Nýjungar dagsins:
  • Sítrónuklakar (sítrónusafi + vatn, fryst)
  • Smá möndlumjólk (ristaðar möndlur + kókosmjöl)
Ég fékk mér líka pínu ferska steinselju af því að ég var að fara í atvinnuviðtal og nautahakkskássur með hvítlauk kvölds, morgna og miðjan dag gera konu andfúla í meira lagi.

Og svo fengum við okkur aftur gulrótarsafa í morgunsárið, jafn lítinn og síðast og aftur útþynntan í vatni. Mjög gott, samt.

Ég bar sterakrem á úlnliði barnsins í nótt og einu sinni á alla helstu útbrotablettina nú í kvöld. Ekki í morgun. Hún er ekki orðin alveg eins slæm og hún var, það eru aðallega hendur og úlnliðir sem eru slæm svæði.

Hvað varðar nýjungar og viðbrögð við þeim lít ég aðallega til
  • hægða
  • öndunar
  • hegðunar
hjá dóttur minni og

  • hægða
  • vöðva- og liðverkja
hjá sjálfri mér.

Hegðun barnsins var ekki nógu góð undir kvöldið. Það kom dálítið langur tími þar sem hún var óróleg, hagaði sér frekar illa og tók engum sönsum. Vil líka geta þess að ég fyrrakvöld var hún með fótleggjaverki sem eru alltaf eins, alltaf í sköflungnum vinstra megin og koma oftast á kvöldin. Setti á hana vöðvakrem þá og svo aftur um nóttina þegar hún kvartaði. Ólíkt exemkreminu þá svínvirkar heimatilbúna vöðvakremið mitt (kókosolía + kamfórudropar + eucalyptuskristallar).

Hægðir í góðu lagi, hins vegar.

Sjálf fann ég mikil ,,die off" einkenni í dag, sem e.t.v. má rekja til gulrótarsafans eða steinseljunnar. Hver veit. Litlu liðirnir eru heldur enn ekki orðnir góðir.

Matseðillinn

Morgunmatur: Nýpressaður og síaður, vatnsþynntur gulrótarsafi í forrétt og kássa í aðalrétt.

Hádegismatur: Linsoðin egg

Kvöldmatur: Ofnsoðið nautakjöt (ath. ekki hakk!!!) með rifnum kúrbít, lauk, brokkólí og eplaediki og lárperumauk með.

Engin böð sem skipta máli

Soð: Kjúklingabeinasoð

Tuesday, July 20, 2010

Dagur 42

Hydrocortisone aftur í dag.

Sítrónuvatn nýtt fyrir mig og þá eldri í dag.

Linsoðið egg aftur fyrir þá eldri í dag.

Linsoðið egg aftur (eftir nokkurra daga hlé) fyrir mig í dag.

Allt virðist þetta fara ágætlega í okkur.

Litlu liðirnir mínir voru enn harla stirðir í morgun. Ekki alveg jafn slæmir og í gærmorgun, en alls ekki í góðu standi.

Matseðillinn

Morgunmatur: Nautahakkskássa og kjúklingaleggir (rest frá því í gær)

Hádegismatur: Nautahakkskássa

Kvöldmatur: Pönnusteikt nautahakk, soðin paprika + gulrætur og lárperumauk. Sítrónuvatnsglas í ,,eftirrétt".

Soð: Kjúklingabeinasoð

Engin böð.

Fáránlegt hvað steikt nautahakk er mikill munaður eftir nokkrar vikur af soðnu...

Monday, July 19, 2010

Löööööng færsla og dagur 41

Vaknaði í morgun með vítisverki í litlu liðunum. Hendurnar verða alltaf sérstaklega slæmar. Í svefnrofunum reyndi ég að útiloka tilfinningu frá úlnliðum og fram úr, um leið og ég taldi í mig kjark til að láta undan þessum bröltandi börnum og staulast fram. Um leið fór hugurinn á fullt að leita að ástæðu. Af hverju svona slæmt núna? Hvað hefur breyst?

Svona var þetta nefnilega alltaf. Hvern morgun staulaðist ég fram á baðherbergi með hendurnar krepptar og lét renna í vaskinn jafn heitt vatn og ég gat þolað. Eftir nokkrar mínútur ofan í fóru hendurnar að linast og þá gat ég farið að nota þær, t.d. til að staulast í sturtu og lina restina af kroppnum. Svona var gaman að vera á þrítugsaldri.

Eins og endranær var hefðbundna heilbrigðiskerfið ekki að gera sérstaklega góða hluti fyrir mig. En á endanum rataði ég til yndislegs hómópata sem upplýsti mig um gagnsemi Omega olía. Smátt og smátt lærðist mér að með frekar heilnæmu fæði, mikið til lífrænu, litlum sykri / hveiti og miklum Omega olíum má halda verkjunum að nokkru leyti í skefjum. Olíurnar hafa alltaf verið crucial.

Eftir að ég byrjaði á GAPS hefur ástandið almennt verið skárra. Svolítið skrítið samt. Fyrstu mánuðina var ég oft með undarlegan seiðing í litlu liðunum og fram í fingurgóma, svona smá-hlýju, samt ekki... frekar skrítið. Ég hef áfram stólað mjög mikið á góðar Omega-olíur.

Þess vegna kveið ég svolítið fyrir innganginum. Ég hugsaði; hvað verður um mig án hækjanna minna (Omega 3-6-9)? Sá fyrir mér vítiskvalir hvern morgun. Eftir nokkra daga, svona þegar versta die offið var afstaðið man ég samt til að hafa sérstaklega beint sjónum að höndunum á mér á morgnanna þegar ég vaknaði og það kom mér skemmtilega á óvart að þær voru vel nothæfar. Pældi svo ekki meira í því og hef ekki pælt í því síðan. Það er auðvelt að hugsa ekki um það sem ekki er til staðar.

Nema hvað... þar til í morgun. Vá, hvað þetta er fáránlega vont. Þetta kom alveg af fullu blasti, engin linkind. Fór beint undir heita bunu með hendurnar og svo í langa og heita sturtu. Varð starfhæf á ný, en samt illt.

Það sem helst liggur undir grun sem orsök nú eru lummurnar. Ég veit ekki nóg til að geta dregið vísindalega ályktun hér, en ég skal deila því sem ég er að hugsa. Ég hef lesið um það, á GAPS, að sumir, sem eru „langt leiddir“ geti aldrei borðað „bakaðar vörur“, svo lengi sem þeir lifa. Ég man hve mér rann kalt vatn á milli skinns og hörunds þegar ég las þetta fyrst. Þetta fór beint í afneitunarhólfið í heilanum. En svo er ég búin að lesa þetta of oft síðan til að geta látið sem ég hafi aldrei heyrt af þessum möguleika. Sumir hafa þó skrifað að þetta ástand vari bara lengi, en ekki endilega ævilangt. Þau segja að maður / kona eigi að halda sig frá bökuðum vörum í bataferlinu ef maður / kona verður var / vör við einkenni. Í vetur, þegar við vorum á fullu GAPS-fæði, var ég alveg búin að ná því að bakaðar vörur, brauðið og kökurnar, voru ekki að gera góða hluti fyrir mig. Það var því almennt ekki hluti af minni daglegu fæðu og ég saknaði þess ekkert óbærilega. Nú er ég búin að prófa lummur þrisvar, á þessu inngangsfæði. Í öll skiptin hef ég, eftir u.þ.b. 30 mínútur frá neyslu, fengið óbærilega sára magakrampa. Frekar óæskilegt form á hægðum í kjölfarið. Í gær borðaði ég heilar 3, sem er ekki alveg samkvæmt bókinni (það á að byrja hægt) og því er kannski ekki svo skrítið að álykta að lummurnar beri ábyrgð á liðverkjunum í morgun. Punkta þetta allavega hjá mér, held mig frá bökunarvörum á næstunni, skvetti í mig hörfræolíu og sé hvernig fram horfir.

Get heldur ekki litið fram hjá gulrótarsafanum sem einnig kom nýr inn í fæðið í gær. Hann hefur jú þá þekktu virkni að vera afeitrandi. Þetta gætu verið die off verkir í liðunum. Hver veit.

Og þá að pælingum um dóttur mína. Ég er að velta fyrir mér skapinu. Í gær var í henni þessi leiðinlegi óróleiki sem slær mann alltaf út af laginu. Líka mikil neikvæðni og hreinlega bara fýla. Samt segist hún fíla Noreg og vill ólm flytja hingað. Þolir ekki systur sína og er með hundshaus yfir öllu. Mjög þreytandi og reynir á mitt skap líka.

Óróleikinn var sem betur fer ekki til staðar í dag, en fýlan var viðvarandi framan af degi. Sem betur fer náði hún að hrista hana af sér um það leyti sem við fórum á útstáelsi. Nema hvað; ég vildi bara segja að ég velti því fyrir mér hvort egg, gulrótarsafi, Omega-olían eða annað nýlegt í fæðunni geti valdið þessu.

Ég þarf að fara að drífa mig í annað, þannig að ég fer að reyna að ljúka þessari löngu færslu. Nýjung dagsins í dag fyrir dóttur mína var linsoðið egg. Hún er búin að fá eggjarauðu út í kjötsoð og egg í lummu, en nú linsoðið. Bara eitt samt.

Engar hægðir í dag, en vonandi koma þær sjálfkrafa á morgun. Exemið er orðið mjög slæmt, svona nokkurn veginn að ná því sem það var verst þarna um daginn. Hún fúlsar við venjulegu kremi, finnst það bara gagnslaust - plat. Held að við prófum stera aftur á morgun, þar til við komumst heim.

Matseðillinn

Morgunmatur: Nautahakkskássurest + linsoðið egg fyrir barnið

Hádegismatur: Kjúklingaleggir og soðið grænmeti

Síðdegisnesti: Kjötbollur (frá því í fyrradag) og lummur (frá því í gær)

Kvöldmatur: „Steikt“ kjöthakk (á pönnu) með soðnum gulrótum, papriku og kúrbít. Lárperumauk með.

Kjötsoð: Kjúklingabeinasoð

Ekkert bað, bara sturta í morgun.

Sunday, July 18, 2010

Enn einn dagur...

Vá, ég ætlaði sko að blogga svo mikið í kvöld.

Fullt af hlutum sem ég ætlaði að fara í sem ég hef ekki gefið nógan gaum undanfarið, eða fjallað um á óskýran hátt. En svo er klukkan bara orðin svo MARGT. Og ég svo þreytt.

VERÐ að fara að lúra.

Mjög stutt: Hægðir fremur góðar, skap dóttur minnar með verra móti, útbrotin sækja þétt á.

Matseðill

Morgunhressing: Um 1/3 glas af nýpressuðum og vel síuðum gulrótarsafa, þynnt með smá vatni

Morgunverður: Nautahakkskássa

Hádegisverður: Nautahakkskássa og möndlusmjörslummur (= möndlusmjör, egg, kúrbítur, dýrafita)

Kvöldverður: Nautahakkskássa

Soð: Kjúllabeinasoð

Engin böð

Og lummur eru ekki góðar fréttir fyrir mig... held mig frá slíku á næstunni.