Dagbókin okkar

Á þessum síðum skrifum við jafnóðum söguna okkar því hvernig við gerum markvissa tilraun á heilsu okkar samkvæmt leiðbeiningum Dr Campbell McBride - skref fyrir skref...

Tuesday, July 27, 2010

Komnar heim

Held að í dag sé dagur 49. Er ekki alveg viss.

Get því miður ekki skrifað nákvæmlega hvað við höfum snætt frá því á laugardaginn, en ég get sagt aðeins frá stöðunni og svona því sem verið hefur að gerast.

Sunnudagurinn var erfiður. Það er ekkert grín að gera af vanefnum nesti fyrir 3 manneskjur sem eru að fara að ferðast þúsundir kílómetra og þrífa í leiðinni 3ja hæða hús ein með tvö börn á rigningardegi. Þetta hefði satt að segja verið auðveldara ef veðrið hefði verið betra... en það var öskrandi hellidemba frá hádegi og ekki hundi út sigandi. Ergó; mikið vídeógláp, en meira að segja börn verða þreytt á vídeóglápi á meðan mamman æðir út um allt og reynir að gera allt í einu.

Svo er það maginn á mér, hann var ekki par hress á laugardaginn, fór versnandi á sunnudaginn og var satt að segja ómögulegur í gær. Virkilega slæmur, ég átti eiginlega bara svolítinn veikindadag hér, nýkomin heim og svona. Ekki mjög gaman.

Maginn var umtalsvert skárri í dag, hægðir komnar í lag, en dálítil ólga enn. Ég hef ekki glóru um hvað veldur. Það er svo margt sem kemur til greina. Dodgy kjúklingaleggir frá því á föstudaginn? Eða lummurnar frá því á föstudaginn? Nautakjötið á laugardaginn? Stressið á sunnudaginn? Álagið bara? Eða voru myglusveppirnir í húsinu sem við gistum í farnir að ná til mín (það væri ekki í fyrsta sinn sem ég verð veik af tiltekt og þrifum - ætli það sé hægt að fá vottorð...? ;-)).

Annars gæti líka verið um að ræða lauflétta umgangspest. Hver veit.

En ég var allavega með beinverki og alls konar í gær. Og þá var nú ljúft að hafa Epsom-salt og stórt og gott baðkar við höndina. Mmmmh...

Dætur mínar hafa verið mikið hjá föður sínum. Eru núna í útilegu.

Í gær og í dag erum við eldri dóttir mín aftur á Stigi 1. Það er hugsað sem eins konar endurstilling, ekki að við séum að byrja upp á nýtt, heldur meira bara eins konar núllpunktur. Mig langar nefnilega að prófa að gefa henni ghee og þá vil ég ekki að það séu neinir aðrir faktorar í mataræðinu sem geta haft áhrif.

Planið sem ég styðst við núna er að færa okkur yfir í sætuefnalausa útgáfu af GAPS... sem mér finnst samt hundleiðinlegt. Ég ELSKA kökur, sérstaklega hrákökugotteríið sem ég hef verið að gera undanfarna mánuði (þar til við byrjuðum á innganginum)... en ég veit að þetta er afstætt. Í fyrsta lagi þolum við þetta ekki mjög vel (við fáum iðulega sveppasýkingar) og í öðru lagi þá er þessi nautn / craving eflaust að einhverju leyti tilkomin vegna ójafnvægisins sem þessu bindindi er ætlað að laga. Það er sagt að þetta sé þess virði... en ég á eftir að kynna mér þetta nánar. Á von á sætuefni sem ég pantaði að utan (Steviu) sem ekki mun almennt espa candida, en sem ekki er almennt talið leyfilegt á GAPS. Skoða það mál.

En semsagt... kjötbollur (fyrir mig og dóttur mína) og lummur (bara fyrir hana) á heimleiðinni á sunnudaginn og svo bara mest kjúklingaleggir (íslenskir, aukaefnalausir, ferskir og fínir...) og grænmeti. Líka silungur. Og kálfafillé. Og nautafillé. Yndislegt.

Ekki snefill af nautahakki... ég sver ;-)

Og svo kemur í ljós að kjötsoð af ferskum kjúklingaleggjum er bara ljómandi bragðgott. Aldrei átti ég von á að ég myndi lýsa þeirri skoðun... en svo er nú samt.

No comments:

Post a Comment