Dagbókin okkar

Á þessum síðum skrifum við jafnóðum söguna okkar því hvernig við gerum markvissa tilraun á heilsu okkar samkvæmt leiðbeiningum Dr Campbell McBride - skref fyrir skref...

Thursday, June 17, 2010

Dagur 10

Matseðill dagsins

Morgunmatur minn: 2 linsoðin egg og smá soðin paprika frá því í gær
Morgunmatur eldri dóttur minnar: 1 kjúklingaleggur

Hádegismatur: Lambahakkskássa með blómkáli, papriku, brúsk af steinselju, brúsk af kóríander og basilíkubrúsk + 2 hvítlauksrifjum (fyrir hádegismatinn borðaði stelpan reyndar 5 kjúllaleggi).

Síðdegisbiti barnsins: 2 kaldir kjúklingaleggir
Síðdegisbiti og kvöldmatur minn: Lambahakkskássan
Kvöldmatur barnsins: 4 volgir kjúklingaleggir

Kjötsoð dagsins: Nautabeinasoð + kjúklingasoð

Bað dagsins: Epsomsaltsbað

Klukkan er orðin allt of margt. Hef þetta bara mjög stutt núna. Helstu pælingar dagsins snerust um hugsanlega mengun eða eituráhrif í gegnum húð. Þetta kann að hljóma eins og argasta djók fyrir þá sem ekki eru svona viðkvæmir eins og við en tvennt fengum við á húðina í dag sem við erum ekki vanar og tvenns konar viðbrögð komu fram sem ég velti fyrir mér hvort tengist því sem á okkur var borið.

Barnið: Fékk andlitsmálun á þjóðhátíðarhöldunum. Ég ræddi við hana áður og bað stelpuna sem málaði að gera bara lítið, til öryggis, þar sem húðin er enn ekki orðin góð. Hún fékk því 2 lítil hjörtu á ennið og 2 litla, bláa tígla á kinnar (einn á hvora). Það var allt og sumt og hún var alveg sátt. Fljótlega fór hana hins vegar að klæja í það sem hafði verið málað. Ég hélt kannski að hún væri bara að ímynda sér, vegna þess hve mikil athygli beinist að húðinni og öðru sem tengist heilsunni þessa dagana. Hún hélt samt áfram og á endanum þreif faðir hennar hana með ólífuolíu (ég var ekki hjá henni þá).

Ég: Nota ekki mikinn farða eða snyrtivörur yfir höfuð. Leit þó í spegil áður en ég fór út í dag og sá ekki fagra sjón. Mjög föl og slappleg kona með dökka bauga. Greip í flýti þau fegrunarmeðöl sem hendi voru næst. Í stuttu máli var svokallað steinefnapúður í aðalhlutverki. Forsaga þess er að ég prófaði í vetur þannig hjá vinkonu og var mjög impóneruð. Leið mun betur í húðinni undan því en venjan er. Hins vegar er sú tiltekna tegund sem hún var með ekki til hér á landi og mér var bent á að sambærilegt púður fengist hér, í öðru merki. Keypti það. Það er hins vegar engan veginn eins. Ég skráði niður efnisinnihaldið en hef aldrei komist í að kanna það, enda þarf þess svosem ekki endilega. Nóg að vita að mikið er af ónáttúrulegum og algerlega ólífrænum efnum. Nema hvað, þetta notaði ég fjálglega þarna í dag, enda á ég ekki margt annað af þessum toga. Einnig smá augnblýant og lífrænan maskara (sem er reyndar drasl). Þegar líða tók á daginn fékk ég magaverki og varð óþægilega óglatt. Frekar ólíkt líðan undanfarinna daga og ekkert nýtt í mataræðinu, nema kannski kóríanderinn...?!

Allavega, ég velti því fyrir mér hvort þetta tengdist púðrinu. Kæmi mér ekki á óvart. Tilfinningin í húðinni er líka mjög óþægileg og þó er ég búin að þrífa eftir getu.

Vegna þessa sleppti ég gheeinu í dag. Það hefði verið erfitt að meta hvort það hefði áhrif.

Lagði hins vegar möndlur í bleyti, í þeirri von að geta gert möndlusmjör (prepp fyrir stig 3).

Já og skottið mitt hefur sofnað mjög seint í dag og í gær, eða um ellefuleytið. Samt vaknar hún eins og klukka á morgnanna og er orðin sæmilega orkumikil að deginum. Hana klæjaði mikið í kvöld, ekki bara í andlitsmálingarsvæðin.

No comments:

Post a Comment