Dagbókin okkar

Á þessum síðum skrifum við jafnóðum söguna okkar því hvernig við gerum markvissa tilraun á heilsu okkar samkvæmt leiðbeiningum Dr Campbell McBride - skref fyrir skref...

Sunday, June 20, 2010

Dagur 13

Ég vaknaði í morgun að drepast úr „sveppaveiki“. Fyrir ykkur sem ekki vitið það, þá gera myglusveppir í húsnæði fólk veikt. Þegar maður hefur einu sinni orðið alvarlega veik/-ur út af slíku er maður viðkvæmur fyrir. Þetta er eitthvað misjafnt eftir fólki náttúrlega, en í stuttu máli mynda myglusveppir gró og í gróunum eru eiturefni (míkótoxín) sem brjóta niður ónæmiskerfið. Meira um það allt hér.

Eftir að ég byrjaði á GAPS er ég miklu sterkari fyrir en áður og hef þolað návígi við myglusvepp í húsnæði miklu betur. Ég hef gist þar sem ég gisti í nótt nærri aðra hverja helgi frá því í janúar og ekki orðið alvarlega meint af. Ég hef reyndar fundið það á degi 2 að ég hef ekki mjög gott af mjög miklu svona, en einkennin hafa ekki verið alvarleg. Ég veit ekki hvað veldur núna. Ég var meira að segja líka með kattaofnæmiseinkenni (það eru yndislegar kisur þarna), sem ég fæ sama og aldrei... mörg ár síðan síðast. Kannski var þetta af því að ég var þarna í fyrsta sinn í 2 nætur í röð, eða kannski er ég viðkvæmari af því að ég er í þessu blessaða inngangsferli. Allavega, ég sá þann kost vænstan að koma mér út. Hitaði kjötsoð, fór út í göngutúr, fór svo inn og pakkaði öllu og rölti til systur minnar sem á heima rétt hjá.

Ég var eins og slytti þegar ég kom til hennar. Og þess má geta að það eru líka myglusveppir heima hjá henni. En við fórum saman í góðan göngutúr (vörðumst árásum kría með regnhlíf) og fátt bætir sveppaveiki jafn mikið og hressilegur göngutúr í fersku lofti. Þannig að mér leið til muna betur.

Svo fór ég aðeins að stússast - sem er ekki góð hugmynd á sunnudegi því allt er víst lokað. Ég verð alltaf jafn hissa... ;-)

En ég var hjá systur minni þar til nokkuð var liðið á seinni partinn og var svona semi-hress, miðað við allt og allt. Sofnaði aðeins á sófanum hennar, en samt... sveppaeinkennin í mikilli rénun.

Þannig að ég fór ekkert að daðra við stig 3 í dag. Það hefði verið út í hött. Kannski á morgun, þar sem ég er komin heim í mitt eigið tiltölulega myglufría umhverfi (slatti af ryki samt).

Eitt enn samt; ég gerði netta eiturefnaárás á sjálfa mig í nafni hégómans í kvöld. Ég litaði augnahár og -brúnir með svona „do it yourself“-lit. Heppnaðist ekkert stórkostlega, en dugar þar til ég splæsi í alvöru lit. Allavega, þessi augnaháralitunarefni eru brjálað eitur. Mig svíður alltaf í augun allan daginn ef ég geri þetta fyrri part dags. Vona að þetta setji ekki allt úr skorðum eins og myglan.

Um barnið: Hún hafði hægðir á ný í dag. Ég var ekki viðstödd, en mér er sagt að þær hafi ekki verið fagurlega formaðar, meira í ætt við niðurgang. Sem er mjög dæmigert fyrir hana, en hún er þó allavega með einhverja virkni. Hún krafðist þess að faðir hennar tæki myndir - til að sýna mér... en hann var semsagt ekki til í það...

Útbrotin hennar eru frekar slæm, finnst mér, miðað við allt og allt. Ég er að „prufa“ á henni nýtt krem, þ.e.a.s. krem sem ég hef ekki áður borið á hana. Sé engan mun enn, en bíð spennt. Nú hefur hún fengið kássu yfir helgina (= stig 2), en mér finnst hún ekki nógu góð í húðinni. Skil varla að þessi kássa sé það krassandi að hún sé eitthvað að hafa áhrif. Og ekki getur barnið lifað á kjúklingaleggjum í allt sumar. Setti inn mjög örvæntingarfullt neyðarkall á spjallið - einhver hjálpi mér með þetta útbrotamál!!!

Matseðill dagsins fyrir mig:

3 linsoðin egg í morgunmat
2 tsk sauerkrautsafi
1 tsk ghee
Kássa (lambahakk, paprika, hvítlaukur, blómkál, gulrætur, kóríander, pipar, Himalaya salt)
Kjúklingalæri í kvöldmat með soðnu grænmeti

Kjötsoð dagsins: Ómerktur beinapoki, held að það hafi verið lambabein

Bað dagsins: Matarsótabað

Lexía dagsins: Það má ekki hita steinselju (t.d. nota í kássu)! Hún mun við það leysa frá sér eiturefni. Eða þetta sagði systir mín mér, ég á eftir að gúggla þessa visku, bara ekki núna, verð að fara í heita matarsótabaðið mitt og svo að lúra. Góða nótt.

No comments:

Post a Comment