Dagbókin okkar

Á þessum síðum skrifum við jafnóðum söguna okkar því hvernig við gerum markvissa tilraun á heilsu okkar samkvæmt leiðbeiningum Dr Campbell McBride - skref fyrir skref...

Monday, June 14, 2010

Dagur 7

Ég myndi þurfa að gera margar færslur á dag ef ég ætti að muna bara það helsta sem flýgur í gegnum hausinn á svona degi.

Litla skottið mitt (það yngra) smellti kossi á kinn mér og hljóp af stað að leika sér svo til um leið og ég kom með hana á leikskólann. Það er ekki dæmigerð morgunhegðun. Ég dró þá ályktun að helgin hefði ekki verið sérstaklega skemmtileg hjá henni...

En í dag var merkisdagur hjá okkur Inngangsmæðgum. Í dag fórum við yfir á stig 2. Fyrir þá sem ekki eiga biblíuna The GAPS Guide þá er þetta það sem má láta ofan í sig á stigi 1:
  • Soðið kjöt
  • Soðinn fiskur
  • Soðið grænmeti
  • Engiferte
  • Kjötsoð
  • Súpur (úr einhverju af ofantöldu)
  • Já og svo smá probiotics (t.d. súrkál eða duft)
Hafandi lifað á þessu í 6 daga kættumst við að vonum við að mega bæta við:
  • Hráum eggjarauðum
  • Linsoðnum eggjum
  • Kássum
  • Gerjaðri síld, sardínum eða öðrum fiski
  • Meira súrkáli (ss. stærri skammtur en á stigi 1)
  • Ghee-i (fallbeygist það, annars?)
En ekki er allt sem sýnist, það má ekki bæta þessu öllu við í einu. Ef við gerum það og fáum einkenni vitum við ekki hvað af því það er sem veldur einkennunum. Þannig að við völdum tvennt til að byrja með: Hráar eggjarauður og kássu auk þess sem ég gaf stelpunni aðeins meira súrkál líka, af því að hún elskar það.

Við vöknuðum frekar seint og eftir leikskólaskutl og morgunmat settist ég við vinnu. Dagskrá barnsins var (í þessari röð):

  • Leiðin til Gayu (vídeó)
  • 1 og ½ Latabæjarþáttur (DVD)
  • Kjúklingaleggjamáltíð
  • Út að leika
  • Svínalundamáltíð
  • Bíltúr með mér að ná í litlu systur og útrétta hist og her
  • Heim að upplifa vonbrigði yfir að HM hefði étið barnatímann
  • Kássumáltíð
  • Stólpípa
  • Bað
  • Beint upp í rúm
Hún var í rjómaskapi í allan dag, alveg þar til litla systir var komin í bílinn. Litla barninu til varnar skal tekið fram að það hegðaði sér einkar vel í alla staði, en um leið og sú stóra leit það augum var góða skapið fokið út í veður og vind.

Sjálf hef ég verið með allstuttan þráð í dag og í gær. Ég þoli líka hljóðáreiti illa. Þokan í heilabúinu, liðverkir, orkuleysi og syfja eiga eflaust sinn þátt í því. Plús það að þetta síðasta verkefni sem ég er að ljúka í vinnunni minni ætlar ALDREI að verða búið. Alltaf þegar ég held að ég sjái fyrir endann... þá bætast við flækjur. Ég er komin tveimur vikum á eftir áætlun og þar með tveimur vikum á eftir með ansi margt í mínu lífi!!!

Svo fékk ég einhverjar hjartsláttartruflanir í kvöld. Það hljómar rosa dramatískt, veit svo sem ekki hvaða nafni ég á að kalla það. Líður líka eins og ég sé sólbrunnin í framan, sem er frekar spes því ég hef ekki séð sól í marga daga.

Mér fannst kvöldverðarkássan fáránlega góð. Það sýnir e.t.v. hve lítið þarf til að gleðja þegar einhæfnin er farin að verða þrúgandi...

Eitt enn: Kláði og útbrot virtust aukast hjá stelpunni eftir því sem leið á daginn. Í lokin, þegar hún var að fara upp í rúm, var hún farin að klóra sér allt að því jafn mikið og fyrir viku. Veit ekki hvað veldur en eggjarauðan frá því í morgun liggur helst undir grun og ég set því egg í straff í bili.

Matseðill dagsins

Morgunmatur: Rest af kálfafillé + kjúklingaleggir og grænmeti frá því í gær
Hádegismatur: Ofnsoðnir kjúklingaleggir + ofnsoðið grænmeti
Síðdegisverður: Ofnsoðið svínafillé + ofnsoðinn kúrbítur
Kvöldmatur: Kássa! Innihald: Svínahakk, brokkólí, gul paprika, steinselja, hvítlaukur, salt + pipar – allt maukað og soðið í potti

Kjötsoð dagsins: Nautabeinasoð
Bað dagsins: Matarsótabað

No comments:

Post a Comment