Dagbókin okkar

Á þessum síðum skrifum við jafnóðum söguna okkar því hvernig við gerum markvissa tilraun á heilsu okkar samkvæmt leiðbeiningum Dr Campbell McBride - skref fyrir skref...

Monday, June 21, 2010

Dagur 14

Ég er tölvulaus!

Ég sem ætlaði að hafa þetta daglegt blogg.

Ég er semsagt í lánstölvu núna. Veit ekki hvernig ég leysi þetta á morgun... og hinn... eða svo lengi sem þetta ástand kann að vara. En allavega; ég skaust yfir til foreldra minna og fæ að komast í tölvu hér svo ekki falli dagur úr vefdagbókinni.

Í morgun var ég búin að fá 5 svör við fyrirspurn minni um útbrot dóttur minnar. Þar sem ég hef ekki getað legið yfir tölvunni (sem er í viðgerð), þá hef ég ekki náð að stúdera þessi svör nóg, en þau voru samt ágæt. Tvennt sem stendur upp úr, svona við fyrstu umhugsun:
a) Athuga með þvottaefnið (þvottahneturnar mínar kláruðust nýlega og hafa ekki fengist á landinu undanfarið og því hef ég notað „venjulegt“ - lífrænt).
b) Gefa henni eins mikið af olíum og í hana verður látið.

Þannig að ég þvoði þvott í dag með síðustu löngu uppþornuðu og skrælnuðu þvottahnetunum - og smá tea tree olíu.

Barnið fékk skeið af Omega 3-6-9 og sér henni enginn bregða.

Aðeins um mig: Ég er með smá flensueinkenni. Ég er ekki frá því að þau orsakist bara af flensu, þar eð ýmsir hafa verið að leggjast í flensu í kringum mig. Það væri samt fúlt. Nóg er nú samt.

Og þar sem ég er svona sljó og slöpp og virkilega þokuð í kollinum hef ég líka verið dálítið skapstygg, sérstaklega í samskiptum við dóttur mína. Hún á það alls ekkert skilið. Ég reyni að stilla mig - og biðja hana afsökunar jafnóðum þegar mér verður á.

Svo hef ég fengið smá bólur. Ekki nein útbrot, en kannski svona 4 eða 5, venjulegar bólur bara. En þaðer mikið fyrir mig, ég fæ yfirleitt ekki bólur. Þannig að kannski er einhver úthreinsun í gangi, eða eitthvað.

Velti því einnig fyrir mér hvað sé í gangi með neglurnar á mér. Ég naga yfirleitt ekki, en þó alltaf þegar ég geng í gegnum stresstímabil. En núna er ekkert mikið stress í gangi beint og ég er með 9 neglur upp í kviku. Skrítið. Kannski hefur líkaminn einhverja bilaða þörf fyrir naglakalk... eða eitthvað.

Eitt enn um ástandið á mér: Ég var með mjög illt í maganum framan af degi og svo eftir kássuna í kvöld fékk ég aftur hressilega í magann. Framan af deginum lá ghee-ið undir grun, en nú er ég farin að hallast að því að ég þoli ekki þessar kássur nógu vel. Tók líka eftir þessu í gær, hélt að það væri bara eitthvað tilfallandi. En kannski ef ég mauka þær ekki...?

Matseðill dagsins

Morgunmatur heimasætunnar: 2 kjúklingalæri
Morgunmatur minn: Skál af kássu gærdagsins

Miðdegisverður okkar beggja: Ljómandi ofnsoðnar kálfainnanlærissneiðar (eða eitthvað beljukyns allavega) og hressileg ofnsoðin grænmetisblanda með.

Kvöldmatur: Maukuð nautahakkskássa með brokkóli, papriku, hvítlauk og basilíku.

Kjötsoð dagsins: Nautabeinasoð

Bað dagsins: Epsomsaltssbað

Og ég segi með stolti frá því að þar sem dóttir mín er sprellhress þá var sko ekkert dvd-gláp á mínu heimili í dag - ekki ein mínúta. Bara eldhresst prógramm, daginn langt. Hún teiknaði og litaði fallega mynd og hún fór út að leika sér og svo kom vinkona í heimsókn og þær léku sér af krafti og svo fórum við í smá bíltúr + stúss og svo þegar heim var komið fór hún aftur út að leika, þar til ég kallaði á hana inn í kvöldmat. Hún minntist ekki einu orði á myndefnisáhorf af neinu tagi og ekki datt mér í hug að nefna það. Svona á þetta náttúrlega að vera.

No comments:

Post a Comment