Dagbókin okkar

Á þessum síðum skrifum við jafnóðum söguna okkar því hvernig við gerum markvissa tilraun á heilsu okkar samkvæmt leiðbeiningum Dr Campbell McBride - skref fyrir skref...

Tuesday, June 22, 2010

Dagur 15

Ókey... þetta á að vera heiðarlegt blogg. Ekkert yfirdrifið hetjukjaftæði. Ég ákvað strax í upphafi að vera alveg hreinskilin. Af þeim sökum neyðist ég til að segja: Mig langar bara til að grenja núna.

Ég sit í yfirgefnu tölvuveri opinberrar byggingar og er búin að eyða um einni og hálfri klukkustund í stífa rannsóknarvinnu vegna útbrota dóttur minnar. Hef þegið ráð frá 5 GAPS-reynsluboltum og bíð svars frá hómópata í ofanálag. Ég hef svo sem eitt og annað í höndunum... en tilfinningin er samt svimandi og yfirþyrmandi - ég er svo ógeðslega ein, einangruð og á móti straumnum.

Þetta eru þær pælingar og ráðleggingar sem ég er að gefa hvað mestan gaum:
  • Getur þvottaduftið verið að hafa áhrif? Þvottahnetur fást ekki á landinu núna, en ég panta ef ég næ því áður en tölvutíminn minn rennur út. Fæ þær samt ekki fyrr en ég kem til baka frá Noregi, eftir rúman mánuð. Upp úr hverju eigum við að þvo fötin okkar þangað til?
  • Getur þvottaefnið í uppþvottavélinni verið að hafa áhrif? Það er ekki svo langt síðan ég skipti um - kannski er það of sterkt fyrir hana, þó það sé voða umhverfisvænt og fínt (Ecover).
  • Omega-olíur. Ég gaf henni 2 msk af 3-6-9 (Udo's) í dag. Kannski er ég að auka skammtinn of hratt?
  • Bentonite-leir... veit ekki alveg hvað ég á að halda. Hann fæst ekki hér... veit ekki hvort hann virkar á akkúrat þetta þó að á það hafi verið bent. Hér er hlekkur.
  • Askan úr Eyjafjallajökli. Gróflega passar tímasetning versnunar útbrotanna við aukið öskufok inn á höfuðborgarsvæðið... getur það haft eitthvað að segja???
  • Hvítlaukur / hvítlauksolía. Ku vera gott á útbrot... virkar samt svo brútal eitthvað, mig svíður við tilhugsunina. Prófa það samt, helst eigi síðar en í kvöld. Hvað sem kann að virka.
  • Bláa lónið. Er að spá í að skella mér með hana á morgun. Varla versnar það? Veit einhver hvort það er klór eða einhver viðlíka óþverri í lóninu???

Annars var þetta svona bara frekar litlaus dagur. Ég er tölvulaus. Það er svosem í lagi, en ég er frekar slöpp og verður lítið úr verki, þrátt fyrir að vera sífellt að.

Það var samt ekkert myndefnisgláp í dag og við mæðgur áttum nokkrar ljúfar stundir saman, þrátt fyrir að stuttur væri í mér þráðurinn.

Ég var svo klikkuð að fá mér avocado síðdegis. Fannst ég bara verða að fara yfir á stig 3. En nú logsvíður mig í varirnar, sem er bara svona týpískt viðbragð fyrir mig. Semsagt ekki fleiri lárperur strax.

Matseðill dagsins

Morgunmatur minn: 1 egg

Morgunmatur hennar: 2 kjúklingalæri

Hádegismatur okkar beggja: Ofnsoðin kjúklingalæri og ofnsoðið grænmeti (paprika, kínakál, kúrbítur). Ég fékk mér líka annað egg með.

Síðdegisverður: Nautahakkskássa (nautahakk, blómkál, engifer, hvítlaukur, rauð paprika og basilíka).

Fengum okkur líka engiferte.

Kjötsoð dagsins: Nautabeinasoð

Bað dagsins: Epsomsaltsbað

Í kvöld koma vinkonur mínar í heimsókn. Við ætlum eitthvað að skvísast og hafa gaman. Ég læt mig hlakka til og stefni að því að hætta að hugsa um útbrot rétt á meðan.

No comments:

Post a Comment