Dagbókin okkar

Á þessum síðum skrifum við jafnóðum söguna okkar því hvernig við gerum markvissa tilraun á heilsu okkar samkvæmt leiðbeiningum Dr Campbell McBride - skref fyrir skref...

Thursday, July 1, 2010

Dagur 23

Ókey... ég svaf afar lítið, illa og slitrótt þarna í nótt. Hef ekkert getað lagt mig í dag. Brjálað að gera við að undirbúa brottför af landinu (því miður ekki varanlega í þetta skiptið). Nú er klukkan að verða eitt og ég enn ekki farin að sofa og fer að jaðra við óráð... þannig að nú skal gera stutta færslu.

Yngri inngangshetjan á heimilinu var ansi lasin í dag. Svaf að megninu til til kl. 13.00 eða svo. Horfði svo á myndefni í miklum mæli. Fékk kvöldmat kl. 18.00. Langaði meira að sofa. Sagðist þurfa að kúka en gat það svo ekki, sagðist ekki megna að ,,rembast". Fékk stólpípu. Hresstist allnokkuð við. Reyndi að leggja sig, en gat ekki hvílst. Gubbaði um áttaleytið. Fékk smá kjötsoð í viðbót og gubbaði aftur (fékk alls 3 x kjötsoð í dag, smá kássu í kvöldmat og svo vatn. Ekkert annað).

Hún var með 37,9°c sem telst nú ekki mikill hiti. Ég hef samt af henni miklar áhyggjur, alltaf slæmt að vita ekki hvað veldur og hryllilegt að horfa upp á barninu sínu líða illa, sérstaklega þegar maður getur ekkert gert.

Veðja á flensu eða umgangsmagapest frekar en inngangslasleika af því að við systurnar erum líka frekar slappar í maganum síðan við komum að norðan. Þó ekkert eins og þetta. Tek fram að systir mín er ekki einu sinni á GAPS, hvað þá á inngangi.

Ég verð að viðurkenna að svona sárlasið barn er extra óheppilegt þegar innan við tveir dagar eru í áætlaða brottför í sumarfrí sem mikið hefur verið lagt í að undirbúa. Mikið í húfi.

Matseðill minn (því hún borðaði ekkert nema smá kássu)

Svínalundar- og grænmetisrestar (í morgun) og kássa það sem eftir lifði dags. Í kássunni var svínahakk, engifer, hvítlaukur, paprika, gulrætur, brokkólí, blómkál. Smá sjávarsalt og nýmalaður pipar. Ég fékk mér 1 tsk af ghee út á kássu kvöldsins. En þetta er nú allt og sumt.

Bað dagsins: Epsomsaltsbað (bara fyrir mig)

Soð dagsins: Kindabeinasoð með smá grænmetissoði út í

No comments:

Post a Comment