Dagbókin okkar

Á þessum síðum skrifum við jafnóðum söguna okkar því hvernig við gerum markvissa tilraun á heilsu okkar samkvæmt leiðbeiningum Dr Campbell McBride - skref fyrir skref...

Tuesday, July 6, 2010

Dagar 27 - 29

Fyrst vil ég biðjast velvirðingar á þessu hléi sem varð vegna ferðalaga, álags og annarra illviðráðanlegra orsaka. Sérstaklega vil ég biðja Hildi forláts, enda veit ég ekki dyggari áskrifanda að öllu sem ég læt frá mér - og sem þar að auki á það til að taka því illa þegar ég tek mér hlé ;-)

En hvar skal byrja nú?

4ra vikna markinu var náð í gær. Engin hátíðahöld.

Á bátnum á sunnudaginn var voða gaman hjá krílunum, fullt af leiktækjum og dóti, alger paradís fyrir unga. Sú minni missti út úr sér nokkur gersamlega óborganleg gullkorn sem ég mun fúslega deila með þeim sem áhuga hafa - en á öðrum vettvangi.

En gamanið kárnaði þegar farið var að sofa. Eldri dóttir mín var viðþolslaus af kláða. Hún var á iði alla nóttina og gekk illa að festa blund. Um fjögurleytið lét ég hana fá koddann sinn (hún hafði krafist þess að fá að sofa með bátskodda), lét hana pissa, drekka, smurði hana eina ferðina enn með einu af þessum gagnslausu kremum sem við höfum verið að burðast við að nota og las fyrir hana um stund. Þá loks sofnaði hún.

Til þess að rekja þróun þessara útbrota þá hélt hún bara áfram að vera slæm, slæmari og slæmust í gær þar til ég var komin á barm taugaáfalls hér í gær af áhyggjum, kvíða og vanmætti vegna útbrotanna. Makaði á hana leir úr lóninu fyrir norðan sem ég hef burðast með mér alla leið hingað til Oslóborgar. Ekki mikil áhrif að sjá.

Leitaði í öngum mínum til þeirra sem mesta reynsluna hafa í útlöndum. Fékk heilan hafsjó af ráðleggingum. Í stuttu máli varð það ofan á að kaupa handa henni hydrocortisone - sem, já - eru sterar - milt sterakrem reyndar, en sterar engu að síður.

Og nú, lesendur góðir, skal ég útskýra smá fyrir ykkur:

Ástæða þess að dóttir mín er með útbrot er að líkaminn losar eiturefni í gegnum húðina. Holl og heilandi fæða, svo sem bara kjötsoð - og enn frekar kókosolía, gerjuð matvæli (súrkálssafi og þannig), grænmeti, ávextir og fleira ýta undir slíka hreinsun. Þegar hún borðar ekki (t.d. í upphafi inngangsins, eða á meðan á gubbupestinni stóð) er lítil úthreinsunarvirkni og því skána útbrotin rétt á meðan. Harðkjarna hómópatar gefa engar remedíur við útbrotum þar sem litið er á útbrot sem nauðsynlega úthreinsun.

Það er mjög algengt að útbrot versni fyrstu mánuðina / árin á GAPS, í hvert sinn sem líkaminn er að takast á við nýjar hreinsanir.

Með því að meðhöndla húðina með sterum er ég að loka þessri útgönguleið eiturefna út úr líkamanum og reka þau lengra inn. Það hægir á og jafnvel spillir fyrir bata. Langbesta leiðin til að meðhöndla svona ástand væru mörg og tíð böð í náttúrulegum vötnum og sjó, eplaediki, Epsom salti og svo framvegis. Ég á hins vegar ekki kost á slíku þar sem ég er nú. Og ég er í öngum mínum vegna ástandsins á barninu, sem nota bene spillir líka talsvert ferðinni fyrir okkur öllum.

Þannig að... stórhættulegir sterar eru málið í dag. Ég vonast til að ná útbrotunum niður. Hætti að gefa henni kókosolíu rétt á meðan. Gaf henni 1 tsk af sauerkrautsafa í dag, eftir langt hlé, en svo verður ekki meira þannig fyrr en við komum heim.

Ég er búin að panta rándýrt þangduft til að setja í bað fyrir hana þegar ég kem heim, að undirlagi minna sérlegu ráðgjafa. Bæti því við Epsomið og allt hitt. Verst að hún hatar böð... en jæja, ég reyni að gera henni þau bærileg með lestri og fleiru.

Ég nenni ekki að fara í mörg smáatriði hér í þessari færslu. Ég er mun upplitsdjarfari í dag en í gær, eftir að hafa tekið - og sæst við - þessa ákvörðun. En ég er samt úrvinda og örþreytt eftir endalaust eldhússtúss sem tekur brjálæðislega mikið af mínum dýrmæta tíma.

Ég bætti avókadói inn í fæðuna mína í dag. Held að það gangi betur nú en síðast, en það er nota bene lífrænt núna.

Ég leitaði til konunnar sem þýddi gulu GAPS-bókina eftir uppl. um hvar ég get keypt GAPS-ket og fisk hér í Noregi, en hún hefur ekki svarað. Á meðan hef ég fundið lífrænt nautahakk og ,,100% hreinar" kjúklingabringur sem kosta svívirðilega mikið (eins og allt hér) og notast við þetta í bili.

Húsið sem við erum í er dálítið gamalt, kjallarinn er ekki mjög heilsusamlegur, mikil myglustækja á baðherberginu þar, en rest virðist ásættanleg (gæti þó alveg lifað án silfurskottnanna á hinu baðherberginu). Hverfið er barnvænt og í útjaðri borgarinnar = gott loft.

Ég var samt með bólgnar varir þegar ég vaknaði í morgun.

Er aaaaalveg að verða uppiskroppa með soð. Veit ekki hvernig ég leysi það.

Er undir miklu áreiti frá moskítóflugum akkúrat núna, þannig að yfir og út í bili!

4 comments:

  1. Þegar Histamín framleiðsla/svörun er svona aggressiv eins og hjá litlu frænku þá þarf stundum að grípa til stórvirkari aðgerða en reynt hefur verið. Ný mantra: "sterakrem er gott" gæti verið mjög áhrifarík á þessum tíma. Nú er málið að ná henni VEL niður með sterakremum og rúmlega þáð og SVO prófa aftur því þá er líkaminn mögulega sennilega komin yfir versta hjallann og hún ætti EKKI að vera aftur jafn slæm ef framangreindum fyrirmælum er fylgt. Þyrftir samt kannski aðfara útí öflug sterakrem úr kórtikosteroidahópi IV í því markmiði að ná henni niður og já nota möntruna... amen.
    Góðar stundir til ykkar - knús XG

    ReplyDelete
  2. Takk, takk - við gefum þessu séns fyrst...

    ReplyDelete
  3. þetta hljómar hræðilega, aumingja barnið. ég dáist af þér að fara af stað út akkúrat á þessum gapstímapunkti, en annað var jú ekki í boði. vont og versnar, en svo batnar það! jafnvel með því að taka ákvarðanar sem voru/eru þér á móti skapi. whatever works, þangað til að sem best er er aftur í boði. þannig, segja mér sumir, er lífið:)

    gullkorn frá þeirri minni, plís!

    ps: linkurinn minn er bara með því einn daginn mun ég virkja hann. bráðum. þegar ég jafna mig.

    ReplyDelete
  4. Gott að heyra frá ykkur aftur, vildi að það væru betri fréttir!:(
    Vonandi virkar þetta vel og gefur henni smá hvíld í bili.
    mússmúss
    H

    ReplyDelete