Dagbókin okkar

Á þessum síðum skrifum við jafnóðum söguna okkar því hvernig við gerum markvissa tilraun á heilsu okkar samkvæmt leiðbeiningum Dr Campbell McBride - skref fyrir skref...

Monday, July 12, 2010

Dagur 35

5 vikur. Þar af hefur sú síðasta verið sú langsamlega erfiðasta, stormasamasta og ómarkvissasta af öllu þessu brasi.

En í dag horfði allt til betri vegar.

Númer eitt, tvö og þrjú: Heilsan var betri. Bæði barnsins og mín, andleg og líkamleg.

Fjöllum aðeins um barnið fyrst:

Hún var sæmilega stemmd í allan dag. Reyndar var ég bara með henni til kl. 14.00 og svo í örstutt augnablik síðdegis. Á þessum tíma myndi ég segja að hún hafi verið nokkuð róleg og jöfn, kannski ívið viðkvæmari en hún er vön, stutt í tárin. Samt allt önnur en í gær. Ég reyndi að pumpa barnapíuna um ástandið á henni þegar ég var ekki til staðar og hún sagði bara að hún hefði verið ágætlega stemmd. Hún hefur alveg séð hana í vondum ham, þannig að hún ætti að vera dómbær.

Dóttir mín kúkaði ekki fyrr en eftir að ég var farin og samkvæmt barnapíunni voru hægðirnar með betra móti, mér gekk reyndar ekki alveg nógu vel að fá hjá henni smáatriðin... fólk á víst misauðvelt með að lýsa hægðum...

Hvað mig varðar þá var maginn á mér líka til mikilla muna betri í dag. Þó er nokkur fyrirferð í honum núna, eftir að ég fékk mér síðbúin kvöldverð. Ekkert á við í gær, samt.

Það skal tekið fram að ég fór mjög varlega og var ekki með neitt sérstaklega krassandi á matseðlinum. Þó játa ég á mig þá fáheyrðu nýungagirni að hafa látið undan einhverri fjölbreytnifíkn í mér og búið til kjötbollur sem ég hef ekki gert áður á innganginum. Gætti þess þó að hafa þær mjög inngangsvænar. Myndi segja svona stig 3... Allavega; hér er uppskriftin (ef ég skrifa ekki uppskriftir niður strax þá gleymi ég þeim, þessi er eftir besta minni frá því í dag...) :

800 grömm nautahakk
1 meðalpenn brokkólíhaus
1 venjulegur laukur
2 hvítlauksrif
1 lítill viskur af graslauk
Sjávarsalt
Svartur pipar

Aðferð
  1. Sauð spergilkálið og laukinn í potti í smástund.
  2. Sturtaði öllu saman í skál, soðna grænmetinu, hvítlauknum, graslauknum, saltinu og piparnum.
  3. Maukaði allt með töfrasprotanum mínum. Mæli ekki með því, hefði notað matvinnsluvél ef ég hefði haft eina slíka við hendina. Töfrasprotinn bræddi nærri því úr sér...
  4. Mótaði litlar bollur með höndunum.
  5. Eldaði á tvo vegu:
a) setti fyrstu bollurnar í eldfast form, álpappír yfir og bakaði / sauð í eigin vökva við 200°c (ath. ekkert sem soðið er á þennan hátt á inngangi má vera of lengi í ofninum, þá fer það að brúnast, þrátt fyrir álpappírinn)
b) setti restina ofan í sjóðandi vatn og sauð ekkert svo lengi, kannski 10 mín. eða kortér.

Þetta varð bara ljómandi. Inngangshetjan mín spændi þetta í sig.

Númer 4: Fjárhagurinn.

Matarkostnaður var áfram hár í dag. Verslaði í morgun í verslun sem heitir Kiwi og á að heita ódýr. Alls um 8.000 kr. ísl. fyrir hakk, lax, grænmeti og vatn - og múslí og haframjöl fyrir barnapíuna.

Fann svo síðdegis loks Rema 1000 búð - en það er keðja sem ég verslaði grimmt í þegar ég bjó hér í gamla daga, enda voru þetta ódýrustu búðirnar þá. Í Rema reyndist hakkið til mikilla muna ódýrara... en reyndar líka ólystugara. Það var grátt á litinn. Ég hugsaði samt með mér að það væri vel hugsanlega náttúrulegri litur sem jafnframt benti til minni aukaefna en þessi fagurrauði og keypti það því ótrauð. Kílóverðið á því sem ég kaupi venjulega er svona 1.700.- til 2.000.- ISK, en gráa hakkið kostaði 1.200.- Það kemur í ljós á morgun hvort það er yfir höfuð ætt, þó að ég muni náttúrlega aldrei fá að vita hvað raunverulega er eða er ekki í því...

Matseðillinn

Morgunmatur minn: Fáeinar skeiðar af kássu og 2 egg
Morgunmatur barnsins: Öll kássan sem eftir var

Hádegismatur okkar beggja: Kjötbollur og soðin paprika og gulrætur (og lárperur fyrir mig)

Síðdegisverður okkar beggja: Restin af kjötbollunum og fjölbreyttari blanda af soðnu grænmeti (þ.m.t. laukur)

Aukasíðdegisverður barnsins: Kássa

Kvöldmatur: Ofnsoðinn lax með soðnum gulrótum og rauðum paprikum

Engin böð

Kjötsoð: Restin af nýsjálenska sauðasoðinu

No comments:

Post a Comment