Dagbókin okkar

Á þessum síðum skrifum við jafnóðum söguna okkar því hvernig við gerum markvissa tilraun á heilsu okkar samkvæmt leiðbeiningum Dr Campbell McBride - skref fyrir skref...

Tuesday, July 13, 2010

Dagur 36

Ókey, er ekki kominn tími til að vera svolítið skipuleg, líta um öxl, draga saman og svona? Ég er reyndar hrikalega syfjuð núna, þannig að e.t.v. verður einhver express bragur á þessu.

Allt var í svipuðu horfi í dag og í gær. Gráa hakkið bragðaðist sæmilega, hvorki undurvel né -illa. Keypti annað kíló af því í dag, munar um minna.

Nú langar mig að taka aðeins saman. Þetta er það sem er í boði fyrir mig að borða / drekka:
  • Kjötsoð (stig 1)
  • Kjöt-, fisk- eða grænmetissúpur (okkur leiðast súpur, þess vegna eru þær aldrei á matseðlinum...) (stig 1)
  • Soðið kjöt / fiskur (stig 1)
  • Soðið grænmeti (stig 1)
  • Engiferte (stig 1)
  • Kjöt- og grænmetiskássa (með smá ferskum kryddjurtum) (stig 2)
  • Lárpera (stig 3)
  • Súrkálssafi (stig 3)
  • Eldaður laukur (stig 3)
Eftir sykurssvínsóhappið er ég orðin nokkuð klár á því að bæði egg og ghee fara illa í órólega magann minn. Gruna lárperur líka... sleppi þeim á morgun.

Var ég líka búin að nefna hvað ég koksa alltaf eftir máltíðar þessa dagana? Betaine HCl myndi hjálpa hvað þetta varðar, en ég skildi það eftir heima og þori ekki einu sinni að gá hvað það kostar hér...

Þetta er það sem er í boði fyrir barnið:

  • Kjötsoð (stig 1)
  • Kjöt-, fisk- eða grænmetissúpur (okkur leiðast súpur, þess vegna eru þær aldrei á matseðlinum...) (stig 1)
  • Soðið kjöt / fiskur (stig 1)
  • Soðið grænmeti (stig 1)
  • Engiferte (stig 1)
  • Kjöt- og grænmetiskássa (með smá ferskum kryddjurtum) (stig 2)
  • Eldaður laukur (stig 3)
Hún fékk að prófa lárperu aftur í dag, nú bíð ég spennt eftir niðurstöðunum.

Ég verð að viðurkenna að ég er svolítið strand. Framfarir hafa ekki verið sem skildi og ég held að þetta flandur á okkur hafi sett aðeins of mikið strik í reikninginn. Viðkvæmu litlu kerfin okkar eru að kljást við alls kyns andlegt og líkamlegt áreiti sem er þeim framandi, þannig að það er ekki nema eðlilegt að það setji strik í inngangsreikninginn og geri af verkum að það hægi á árangrinum.

Ég er aðeins að velta því fyrir mér hvaða afstöðu ég á að taka hér og nú. Halda áfram á inngangi eins og ekkert hafi í skorist? Best væri að bakka alveg á stig 1 en ég treysti mér ekki til þess í þessu nautahakksríki. Flýta stigum, ss. bæta fleiru inn (fyrr) og bakka svo e.t.v. þegar heim er komið? Eða svissa strax út af inngangi og inn í sætuefna- og hnetulaust GAPS? Með sætuefnum er m.a. átt við hungang og fleira. Ég á erfitt með að átta mig.

Ég er virkilega þjökuð af sætindaþörf - var það aldrei heima. Ég veit að þetta er ,,die off"- ég veit bara ekki af hverju það er svona svæsið núna. Veit ekki hvort ég nenni að díla við það, ofan á allt annað.

Eiginlega hef ég ekki nógan tíma heldur til að lesa mér til um þetta. Litlu krílin mín þurfa - og eiga að fá - mikla athygli. Þetta er jú fríið þeirra líka. Ég hef ekki verið nógu dugleg að gefa þeim af tíma mínum, enda atvinnuleit efst á forgangslistanum núna. En barnapían fer í lok vikunnar og þá reikna ég með að helga þeim megnið af mínum tíma (það er að segja, þeim og eldamennskunni endalausu).

Matseðillinn

Morgunmatur: Kássa (maukuð fyrir hana, ómaukuð fyrir mig)

Hádegismatur: Kássa (maukuð fyrir hana, ómaukuð fyrir mig - ég snæddi mína með puttunum (!) á jarðlestarstöðinni við Þjóðleikhúsið af því að ég hafði gleymt að taka með gaffal og ég var mjög svöng!)

Síðdegisverður (bara hún): Maukuð kássa

Kvöldmatur: Ofnsoðin íslensk ýsa (sem við fengum gefins) með sjávarsalti, pipar og ferskri basiliku. Meðlæti: Soðin gul paprika, laukur og kúrbítur ásamt með lárperumauki.

Ekkert soð í dag. Fyrsti dagurinn á inngangi án soðs - þetta á ekki að gerast!

Ekkert bað heldur.




1 comment: