Dagbókin okkar

Á þessum síðum skrifum við jafnóðum söguna okkar því hvernig við gerum markvissa tilraun á heilsu okkar samkvæmt leiðbeiningum Dr Campbell McBride - skref fyrir skref...

Friday, July 16, 2010

Dagur 38

Barnapían farin. Dóttir mín dálítið stúrin í dag, e.t.v. vegna skilnaðarins við barnfóstruna heitt elskuðu. Annars áttum við ágætan dag, lungann úr deginum skein sólin glatt og við létum fara vel um okkur á svölunum. Hömstruðum D-vítamín - þær stuttu tættu sig úr hverri spjör. Eldri dóttir mín prófaði, af eigin frumkvæði, að liggja í sólstól eins og ég. Eftir nokkrar mínútur fór henni að þykja það óbærilega leiðinlegt og spurði hvort það væri skilyrði að liggja kyrr. Ég sagði svo ekki vera. Þá ákvað hún að dansa í sínu sólbaði... sem hún og gerði, listilega eins og henni einni er lagið.

Ég fann 10 l fötu í kjallaranum, fyllti hana af volgu vatni og hellti matarsóta út í. Matarsóta fann ég loks í stóru búðinni sem ég fór í á miðvikudagskvöldið - eftir að hafa leitað að matarsóta út um allt síðan ég kom. Þessi matarsóti var samt bara eitt lítið bréf, frá Santa María. En allavega, dætur mínar fengu matarsótafótabað og höfðu gaman af (ég stakk líka 1 1/2 fæti ofan í).

Annars fór bara dagurinn í trampólínhopp og eitt og annað skemmtilegt, m.a. smá sjónvarpsgláp inni við þegar sólin var ekki sjáanleg og jóga og fleira. Nú er ég opinberlega komin í sumarfrí og atvinnuleitin verður í 2. sæti.

Leiðinlegu fréttirnar eru að hægðir dóttur minnar fóru versnandi er leið á daginn, sem kann að stafa af egginu. Kann líka að stafa af svíninu sem við fengum í hádeginu. Það fór ekki vel í mig. Ég fann ekkert sykurbragð, en geitungarnir voru óðir í það. Þeir hunsuðu allt annað, þar með talið hunangið sem ég fór með út í skál, gagngert til að laða þá að (svo að ég gæti svo lymskulega fært skálina fjær og þá þar með...). Þannig að ég veit ekki hvað skal halda. Er lenska hér að sprauta svínaket með sykri?

Matseðillinn

Morgunmatur: Kássa (hakk + grunsamlega grænmetið frá því í gær = mjög gott saman!)

Miðdegisverður: Ofnsoðnar, úrbeinaðar svínakótilettur með rifnum kúrbít, gulrót, lauk, hvítlauk, blómkáli og eplaediki + lárperumauk.

Kvöldverður: Nautahakkskássa með ferskri salvíu (mjög gott!) - maukuð fyrir barnið en ómaukuð fyrir mig.

Kjötsoð: Kjúklingasoð

Bað dagsins: Matarsótafótabað

1 comment:

  1. Ég var einu sinni í veislu í DK þar sem var ýmislegt á boðstólum, allskonar sætmeti, snakk, kökur, bjór... og svínakjöt. Það eina sem hinir gráðugu geitungar höfðu áhuga á var... svínakjöt. Þeir flugu af stað með druslur á stærð við þá sjálfa (mjög skrykkjótt fluglag) og komu svo aftur til að ná í meira. Lauflétt tilraun sýndi að þeir hreinsuðu af disk hverja örðu en skildu sultuna sætu kartöflurnar og hitt eftir. Ergo: þeir vilja frekar svínaket en sætt (samt getur velverið að ketið sé sætusprautað) en afhverju velja þeir þá það frekar en annað sættt sbr hunangstilraunna þína? luv xg

    ReplyDelete