Dagbókin okkar

Á þessum síðum skrifum við jafnóðum söguna okkar því hvernig við gerum markvissa tilraun á heilsu okkar samkvæmt leiðbeiningum Dr Campbell McBride - skref fyrir skref...

Sunday, July 11, 2010

Dagur 34

Vá, maginn á mér er í henglum. Veit ekkert hvað ég á að gera. Ef ég væri heima myndi ég

a) fá mér meira kjötsoð, alveg upp í 6 - 10 bolla á dag
b) trappa niður á stig 1, bara ofnsoðinn kjúlla (eða annað kjöt / fisk) og grænmeti fyrir mig takk...

Ef ekki myndi skána fljótt myndi ég e.t.v. bæta við stólpípu.

... en ég er hér. Í rándýra útlandinu. Fjarri aukaefnalausum Ali-kjúklingi, heildsölukjötinu og grænmeti á viðráðanlegu verði. Ég hélt ALDREI að þetta yrði svona erfitt!!!

Maginn minn er svo gersamlega á hvolfi. Í morgun sveið mig í magann - áður en ég fékk mér morgunmat. Afsakið upplýsingarnar en ég hef líka verið með ærlegan niðurgang. Endalaust RUMBLING. Og allhressan vindgang. Það er ekki eins og ég geti leitt þetta hjá mér neitt...

Dóttir mín átti einnig afar slæman dag í dag. Hún var strax með linar og losaralegar hægðir í gærkvöldi. Þær héldu áfram í dag. Framan af degi var hún sæmilega stemmd. Veðrið var þokkalegt í morgun og þær léku sér úti. Svo fór hún að verða sífellt argari við litlu systur sína uns hún var seinni partinn farin að öskra á hana af minnsta tilefni. Hún var eirðarlaus, með kjánastæla og kjánahláturinn skemmtilega, gat ekki setið kyrr, kom með dónaleg og fjandsamleg komment upp úr þurru og svo mætti lengi telja. Í raun bara stór afturför. Óþægilega svipuð hegðun og fyrir GAPS.

Svona hegðun hefur af og til skotið upp kollinum eftir að við byrjuðum á GAPS. En þó ekki neitt í líkingu við það sem áður var, þegar oft var hreinlega ekki hægt að ná sambandi við hana og hún var gersamlega snælduóð.

Þannig að ég bauð henni í prívatgöngutúr með mér, bara ég og hún, núna síðdegis. Fórum út í búð, sem auðvitað var lokuð því allt er lokað í Norge á heilögum hvíldardegi ;-)

Fórum í gegnum skóginn. Skoðuðum snigla og töluðum saman. Sáum meira að segja íkorna með ungann sinn í fanginu. Algert krútt.

En stýrið mitt var áfram stúrið. Hafði allt á hornum sér. Hafði óbærilegan hlaupasting. Var heitt, var kalt, var blaut á tánum... (24 gráðu hiti og mikill raki - rigning yfir miðjan daginn), var þreytt, nennti ekki að labba, fannst langt í búðina...

Svo þegar heim var komið var henni boðið að eiga myndsamtal við föður sinn á Skype. Það fór ekki vel, hún var á iði, fiktandi í tölvunni, blokkandi myndavélina, truflandi systur sína og þegar ég kallaði hana til mín til að ræða við hana snappaði hún. Ég fór með hana í ,,einvist" sem er refsing sem fátítt er að þurfi að grípa til núorðið. Allavega sú fyrsta í þessari ferð og eflaust sú fyrsta á Inngangsferlinu og þótt lengra aftur í tímann væri litið.

Það tók hana drjúga stund að róa sig í einvistinni. Hún öskraði úr sér lungun.

Hún var lystarlaus í kvöldmatnum en fékk svo ákafan magaverk, kveinaði og stundi og kvaðst þurfa að gubba. Hékk um stund á vaskbrúninni með eymdarsvip (systir hennar var að nota klósettið).

Þannig að:

a) Ofnbakaðar andabringur
b) Lárperumauk og
c) Hydrocortisone

liggja undir grun.

Í ofanálag erum við aftur orðin matarlaus. Það sem eftir er af 22.000 króna kaupunum eru fáein epli og appelsínur og bananar (fyrir yngra barnið og barnapíuna), 5 lárperur, ca 3 lítrar af vatni (við keyptum 8) og 12 egg. Smá kássa - ætti að duga í morgunmat. Jú svo keypti ég líka baneitraðar þvottavélartöflur í búðinni (ekkert annað í boði).

Matseðill dagsins

Morgunmatur minn: 2 linsoðin egg og grænmeti
Morgunmatur barnsins: Maukuð kássa

Síðbúinn morgunmatur barnsins (við vöknuðum svo snemma): Maukuð kássa
Síðbúinn morgunmatur minn: 1 linsoðið egg og grænmeti

Hádegismatur: Ofnsoðið lífrænt nautakjöt með gulrótum og papriku fyrir alla, blómkáli með gheei og lárperumauki fyrir mig og litlu systur

Síðdegisverður: Kássa (maukuð fyrir hana, ómaukuð fyrir mig)

Kvöldmatur minn: 2 linsoðin egg, smá kássa og smá eggjahræra með kássublandi og andafeiti
Kvöldmatur barnsins: Maukuð kássa (borðaði lítið)

Engin böð.

Soð: Sauðasoðið áfram.

Svona eftir þennan dag er ég ekki mjög upplitsdjörf. Heilsan mín... heilsan hennar... fjárhagurinn... það er eins og þetta sé allt að fara úr böndunum...

1 comment: