Dagbókin okkar

Á þessum síðum skrifum við jafnóðum söguna okkar því hvernig við gerum markvissa tilraun á heilsu okkar samkvæmt leiðbeiningum Dr Campbell McBride - skref fyrir skref...

Thursday, July 15, 2010

Dagur 37

Byrjum á kjúklingnum. Þegar ég keypti leggina í massavís í gær, þá keypti ég líka eitthvað sem ekki voru leggir, ég held að það hafi verið kjöt af leggjum sem búið var að flá af... eða eitthvað þannig. Er samt ekki alveg viss. Það var í svipuðum pakkningum, ívið dýrara en líka á tilboði enda á síðasta neysludegi. Þannig að ég keypti það og byrjaði að elda það í hádegismat. Þ.e.a.s. ég tók það úr kæli og byrjaði að skera grænmeti en barnapían tók svo við að elda. Hún er með kvef og alveg stíflað nef (ég held að það sé af því að hún sefur í myglaða kjallaranum, en það er önnur saga). Allavega. Þegar ég settist við matarborðið sló fyrir vit mér fiskilykt. Ekkert eitthvað hræðilegri og úldinni, bara fiskilykt. Svona eins og ýsan frá því í gær eða eitthvað. Ég hafði orð á því og hnusaði í kringum mig, en enginn annar sagði neitt. Barnfóstran var langt komin með sinn mat, eldri dóttir mín einnig og sú minnsta er hvort eð er mesti matvendnisgikkur þessa dagana og vildi ekki kjötið. Þannig að ég fékk mér skammt og fannst hann strax eitthvað óvenjulegur á bragðið. Ekkert svona sláandi stækur... bara ekki góður. Tók nokkra bita úr eldfasta mótinu og þefaði... sumir virtust alveg eðlilegir... aðrir svolítið eins og fiskur. Barnapían finnur ekkert bragð vegna kvefsins og var ekki alveg í rónni þegar ég fór að grufla í matnum. En það endaði með því að ég tók kjúllann úr umferð. Þetta var eitthvað ekki í lagi.

Engum varð þó meint af, allavega ekki merkjanlega. Allar borðuðum við eitthvað smá og engin okkar hefur fengið í magann.

Ég var og er í smá vafa um grænmetið sem var með kjúllanum. Það var í sama eldfasta móti og allt löðrandi í hlaupinu úr kjúklingnum. Tímdi varla að henda því, í ljósi þess hvað matur kostar hér. Geymdi það fram á kvöld, hef grandskoðað það, þefað, hnusað og rótað... ákvað að geyma það til morguns. Það er engin fiskilykt af því. Nota það kannski í kássu? Ábendingar / viðvaranir samt vel þegnar.

Annars sló maturinn í dag í gegn. Kjúklingaleggirnir í morgun voru algert hit. Og grænmetið með kvöldmatnum var svo gott að báðar dætur mínar, sem alla jafna setja upp skeifur og hundshausa og vælutón og leiðindi þegar kemur að soðna grænmetinu (barátta hvern dag) báðu báðar um meira auk þess sem hún eldri átti vart orð til að lýsa því hvað þetta var ljúffengt.

Svona var grænmetið:

  • 1 skrældur rifinn kúrbítur
  • 1 fínt skorinn laukur
  • 2 smátt rifin hvítlauksrif
  • (ofangreindu blandað saman)
  • 1 blómkálshaus, hnausarnir brotnir af og raðað ofan á blönduna
  • Smá skvetta af eplaediki yfir allt saman
  • Álpappír ofan á og inn í ofn við 200°c í um klst.

Þar sem þær hata eldað blómkál en það lá bara ofan á leyfði ég þeim að tína hnausana frá og þá vakti þetta semsagt þvílíka lukku.

Ég er annars sísvöng og alltaf með craving. Held að þetta sé ekki í lagi núorðið. Sumar upplýsingar benda reyndar til þess að það sé það, að meinvirku örverurnar séu í dauðateygjunum að sleppa endalausum eiturefnum út í kerfið mitt sem gera mig svona slappa, sljóa og svaaaaanga... En ég er hvorki viss um að þetta sé í lagi, né um að ég vilji hafa þetta svona. Ég meina, það er dagur 37 og 2 dagar í ársafmæli á GAPS. Ég á ekki við að þetta sé óeðlilegt, bara ekki ásættanlegt. Þarf að skoða þetta betur og finna út hvað ég ætla að gera í þessu.

Hægðir dóttur minnar voru frekar linar í morgun, en samt myndi ég segja eðlilegar. Útbrotin eru hins vegar óðum að ná sér á strik eftir sterabælinguna. Hún er farin að klóra sér talsvert, en þó ekkert enn á við það sem var.

Nýjungar dagsins:

Ég fékk mér eina teskeið af hörfræolíu.

Dóttir mín fékk eina hráa eggjarauðu út í kjötsoðið í morgun.

Matseðillinn góði

Morgunmatur: Ofnsoðnir kjúllaleggir (og soðið grænmeti fyrir mig, nennti ekki að pína það í börnin að þessu sinni)

Hádegismatur: Ofnsoðinn fiskikjúlli með grænmeti

Kvöldmatur: Ofnsoðinn lax með rifnum kúrbít, lauk, hvítlauk og blómkáli

Kjötsoð dagsins: Síðustu dropar sauðasoðs framan af og kjúllasoð seinnipartinn

Hef verið dálítið of lin við að koma soðinu í dóttur mína. Verð að taka mig á.

Barnapían fer í fyrramálið. I'll be on my own... :-o

No comments:

Post a Comment