Dagbókin okkar

Á þessum síðum skrifum við jafnóðum söguna okkar því hvernig við gerum markvissa tilraun á heilsu okkar samkvæmt leiðbeiningum Dr Campbell McBride - skref fyrir skref...

Wednesday, July 14, 2010

Dagur 37

Í kvöld gerði ég loksins nokkuð skynsamlegt.

Hingað til hef ég svo til hvern dag rogast heim með mat. Húsið sem við dveljum í er uppi í hæðunum, efst í Osló. Frá jarðlestarstöðinni og hingað upp er, skv. netinu (og hver vill rengja það) 12 mínútna gangur - allt upp í móti (smá jafnslétta um miðbik leiðarinnar reyndar). Það er ekkert annað en hundleiðinlegt að rogast þessa leið með poka dag hvern. Búðir hverfisins eru viðlíka langt í burtu og jarðlestarstöðin og þær leiðir jafn brattar.

Annar galli við þetta rogast-með-mat-daglega fyrirkomulag er að það er dýrt. Ódýrustu búðirnar eru ekki alltaf í leiðinni, það borgar sig ekki alltaf (tíma-, orku-, fyrirhafnar- og jafnvel fjárhagslega séð) að taka krókinn í næstu ,,ódýru" búð. Til dæmis eru búðirnar í hverfinu báðar mjög dýrar og ekki alltaf sem ég hef haft ráðrúm til að taka jarðlestina í næstu skaplegs-verðs-búð. Matarkostnaður hefur því verið ansi hár á hverjum degi eins og ég var að tala um um daginn.

Þannig að, eins og ég segi, ég gerði nokkuð skynsamlegt í kvöld. Ég fór í ódýran stórmarkað. Til þess að svo mætti vera þurfti ég að fá lánaðan bíl sem tilheyrir vinnu mannsins sem leigir íbúðina sem ég dvel í núna. Ég verslaði fyrir... (haldið ykkur fast):

44.815.- ISK

Deilt niður á þá 11 daga sem við eigum eftir að vera hér gerir það ríflega 4.000.- kall á dag. En það er ekki dýrara - og jafnvel heldur ódýrara, en ef ég hefði haldið áfram að fylla bakpokann minn og rogast með níðþunga poka dag hvern.

Allt sem tengist matarkostnaði hér eru svo háar tölur. Mig svimar og sundlar og ég fæ í magann... en ég kann engin ráð sem stendur. Önnur en að spýta í lófana og herða enn á atvinnuleitinni.

Og fyrst ég er að kvabba um þetta þá vil ég láta þess getið að við fengum rausnarlegan fjárstyrk frá velviljuðum aðila í fjölskyldunni í síðustu viku. Hann er uppurinn nú, en að sjálfsögðu munaði verulega um hann.

Svo vona ég bara að VISA-kortið mitt fái núna að hvíla sig, allavega fram á næsta tímabil (5 dagar). Það er víst engin leið að flytja ókeypis á milli landa, sérstaklega ekki þegar í brottfararlandinu ríkir kreppa.

Eitt enn um matarinnkaup / búðarferðina: Ég fann loks langþráða kjúklingaleggi. Langþráða því a) þeir eru svo einfaldir í framreiðslu, bara henda í form, álpappír yfir og inn í ofn
b) beinin úr þeim eru frábær uppistaða í kjötsoð
c) börnin elska þá
d) það er ekki bara mögulegt heldur hreint og beint tilvalið að pakka þeim sem nesti og fara hvert sem er...

Þeir voru á tilboði og kostuðu þannig svipað og þeir gera í Bónus, sem er virkilega í frásögur færandi því annað er flest miklu dýrara hér en heima. En sá galli var á gjöf Njarðar að síðasti neysludagur var Í DAG... þannig að megnið af þeim fór beint í frysti en lítill skammtur bíður þess að verða hitaður í fyrramálið.

Annar galli var að ég er ekki viss um að þeir séu lausir við sykursprautun eða eitthvað álíka. Það stóð ekkert þannig á pakkningunum og fólk sem ég hef rætt við virðist standa í þeirri trú að það tíðkist ekki í Noregi, en ég get náttúrlega trauðla vitað það fyrir víst...

Hvað um það, ég reyni bara að einblína á björtu hliðarnar og hlakka virkilega til að segja dætrum mínum frá þessum happafundi, þær hafa suðað svo um blessaða leggina ;-)

Yfir í annað:

Ég borðaði enga lárperu í dag en fékk mér hins vegar kjötsoð. Maginn er skárri (ekki = góður enn). Andinn þjakaðari en nokkru sinni fyrr.

Í gær var fyrsti sterakremslausi dagurinn í viku fyrir dóttur mína og í dag var exemið farið að vera svolítið áberandi á ný - húðin á handleggjunum var byrjuð að bólgna upp og litlar bólur farnar að skjóta upp kollinum mjög þétt. Þá er bara að sjá hvort við getum haldið þessu í einhverjum skefjum þar til hún kemst heim.

Matseðillinn

Morgunmatur: Kássa

Hádegismatur: Kjötbollur (svipaðar og síðast)

Kvöldmatur: Kjötbollur og ég svældi líka í mig smá af ýsurest (fæ alltaf heifarlegan sviða í varirnar af ýsu, gafst á endanum upp, áður en ég var búin með allt).

Soð dagsins: Nýtt nýsjálenskt sauðasoð (fann beinin 3 sem ég setti í frysti af síðasta skammti)

Engin böð önnur en sturta

No comments:

Post a Comment